14.12.1954
Sameinað þing: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2463)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Sumir þm., sem tekið hafa þátt í umr. um þetta mál, hafa lagt aðaláherzlu á að ræða á þessu stigi efnishlið málsins, en aðrir þm. hafa lagt höfuðáherzluna á hitt, að ræða um það, hvort rök væru fyrir því, að Ísland flýtti sér svo mjög að fullgilda þann samning, sem hér er til umr. Ég mun aðallega ræða málið út frá þessu sjónarmiði, hvort Íslandi liggi lífið á að hraða sér með að fullgilda Parísarsamninginn.

Ég hélt raunar, þegar hæstv. fjmrh. flutti sína ræðu hér seinast þegar málið var til umr., að ræðu hans mætti túlka á þann veg, að hæstv. ríkisstj. væri búin að fallast á að fresta endanlegri afgreiðslu málsins fram yfir jólafrí. En nú sjáum við, að það hefur ekki átt að skilja ræðu hæstv. ráðh. svo. Ég hélt, að hans ræða væri í raun og veru undirstrikun á þeim ummælum hv. frsm. utanrmn., Hermanns Jónassonar, þegar hann sagði í sinni framsöguræðu, að það væri ekki óeðlilegt að láta þetta mál biða eitthvað. En nú heldur umr. um málið áfram að vilja hæstv. forseta og ríkisstjórnar, og er sýnilega ætlunin að reyna að hespa málið af og afgr. það hér á Alþingi fyrir jól.

Það er ekki dregið í vafa, að það var veraldarsögulegur atburður, þegar viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn var undirritaður á fundi Norður-Atlantshafsráðsins í Parísarborg þann 23. okt. í haust, en þar með var málið langt í frá til lykta leitt; það var aðeins fyrsta skrefið að því, að Þýzkaland yrði viðurkennt sem sjálfstætt ríki meðal Evrópuþjóða á ný og að það yrði tekið sem fullgildur aðili í samtök Norður-Atlantshafsbandalagsins.

Það er ekki sleginn botninn í þennan heimssögulega atburð fyrr en allar 16 meðlimaþjóðir Norður-Atlantshafsbandalagsins hafa fullgilt á þjóðþingum sínum þann samning, sem hér er um að ræða, og nú sem stendur hafa aðeins 2 þjóðir gengið frá fullgildingu samningsins af 16, þ. e. Stóra-Bretland og Noregur. Í Bretlandi voru skiptar skoðanir um það eins og annars staðar, hvort fullgilda bæri þennan samning og taka Þýzkaland í Atlantshafsbandalagið, og var það sérstaklega nokkur hluti af verkamannaflokknum brezka, sem taldi þá afstöðu að staðfesta samninginn vafasama. Þetta leiddi til þess, að verkamannaflokkurinn brezki sem heild sat hjá við atkvæðagreiðsluna. — Í Noregi var ekki heldur einróma ánægja með að fullgilda samninginn, því að þar gerðist það í norska þinginu á þann hátt, að sjö stórþingsmenn greiddu atkvæði á móti og 17 voru fjarverandi. Áður en Stórþingið tók málið til afgreiðslu, höfðu því borizt mótmæli gegn fullgildingunni frá 23 verkalýðsfélögum, 18 öðrum félagasamtökum og 12 undirskriftaskjöl, eða samtals mótmæli frá 53 aðilum, víðtækum félagasamtökum og mönnum, sem höfðu sameinazt um að mótmæla samningnum og sent Stórþinginu mótmælaorðsendingar.

Málið var þó til lykta leitt í norska þinginu gegn 7 mótatkvæðum, og voru þeir þingmenn, sem greiddu samningnum mótatkvæði, úr þremur flokkum.

Það hefur verið tekið fram hér í umræðunum, að næsta óeðlilegt sé, að Ísland sé að kosta kapps um að vera á undan öðrum þjóðum um að stíga þetta áhrifamikla skref að fullgilda samninginn á undan þeim stórveldum, sem mest eigi undir gildistöku hans, en það eru óefað Frakkland og Þýzkaland.

Það var fyrst á föstudaginn var, að þetta sama mál kom til 1. umr. í fyrri deild þingsins í Bonn, og strax við þá 1. umr. greiddu 9 þm. því mótatkv., að samningurinn færi lengra. Þá á hann eftir 2. umr. í fyrri þingdeild og auk þess eftir að fara gegnum þrjár umr. í sambandsþinginu, sem er efri deild þýzka þjóðþingsins. Hann á sem sé eftir, þó að hann sé búinn að komast í gegnum 1. umr., að fara gegnum fjórar umr., áður en hann fær fullgildingu í sjálfu þýzka þinginu.

Það var strax vitað mál, að Saar-samningurinn, sem fylgdi í upphafi, þegar málið var lagt fyrir, með þessum samningi, mundi ef til vill ekki fást samþ. í þýzka þinginu, og það er í algerri óvissu enn, en er ákaflega mikið atriði í þessu máli, því að talið er, að verði Saar-samningurinn felldur í þýzka þinginu, þá séu allar líkur til þess, að samningurinn, sem við erum hér að ræða, og fullgilding hans og allir þeir samningar, sem honum fylgja, verði felldir í franska þinginu. En hvað gerir þá þingið í Bonn við 1. umr. málsins að því er snertir Saar-samninginn? Frestaði afgreiðslu hans fyrst um sinn um óákveðinn tíma, til þess að málið væri úr nokkurri óvissu eða a. m. k. að það kæmi ekki til úrskurðar um það atriði, sem mjög skiptir örlögum í þessu máli, hvernig afgreiðslan á Saar-samningnum verður.

Það er því ekki hægt að segja annað en að fullgilding þessa samnings í sjálfu þýzka þinginu sé mjög í óvissu eins og stendur, og Þjóðverjar hafa ekki hraðað málinu meira en svo, að það var fyrst á föstudaginn var, sem þeir hófu umr. um málið.

Hvaða fregnir höfum við þá af afgreiðslu málsins úr franska þinginu? Það var fyrsta fregnin, sem hingað barst, að málið hefði verið til umr. í utanrmn. franska þingsins núna fyrir nokkrum dögum, og þar fóru atkv. þannig, að málið marðist í gegnum n. með 16:15 atkv., en 11 greiddu ekki atkv. En sá óvænti atburður gerðist í sambandi við þessa atkvgr., að einn íhaldsmaður, sem gat ekki mætt á fundi nefndarinnar, fól öðrum þm. að greiða fyrir sig atkv. og gaf honum fyrirskipun um að sitja hjá eða greiða atkv. á móti samningnum, en fyrir mistök greiddi þessi þm., sem umboðið hafði, atkv. með samningnum og olli því, að samningurinn marðist í gegn með eins atkv. mun. Að öðrum kosti hefði hann fallið með jöfnum atkv. í utanrmn.

Þar að auki er svo víst, að ef svo fer, að ein af þessum 16 þjóðum neiti samningnum um fullgildingu, þá verður ekkert af fullgildingu hans, og þegar svona er óvissan í franska og þýzka þinginu um fullgildingu, þá getur hæglega svo farið, að það verði önnur hvor þessara þjóða, sem einmitt standi í vegi fyrir því, að þessi samningur nái nokkurn tíma fullgildingu. Auk þess vitum við enn þá ekkert, hvernig fer með endanlega afgreiðslu hans hjá hinum 14 þjóðunum, sem eiga um hann að fjalla.

En í sinni þægðarþjónustu er íslenzka ríkisstj. að rembast við að fá þetta mál afgr. fyrir jól, og er þó alveg víst, að það mundi ekkert saka, þó að við drægjum afgreiðslu málsins fram yfir jólafrí. Og það er það, sem þessar umr. snúast fyrst og fremst um hér. Það hafa engin rök komið fram fyrir því, að Íslandi eða íslenzkum hagsmunum sé það til gagns að flaustra málinu af fyrir jól. Það hefur enginn lagt það á sig af liði hæstv. stjórnar að færa fram fyrir því rök, að Ísland þurfi að afgreiða málið á undan öðrum þjóðum, sem í Norður-Atlantshafsbandalaginu eru, en á slíkum rökum ætti hæstv. ríkisstj. ekki að liggja, ef hún hefur þau tiltæk.

Það er bezt, að ég víki þá næst að því, hvernig málið stendur hjá frændþjóð okkar, Dönum. Danska þingið er ekki farið að fjalla um málið enn, en það er vitað, að róttæki vinstri flokkurinn í Danmörku hefur beitt sér fyrir því, að fram verði látin fara þjóðaratkvgr. í Danmörku um fullgildingu Parísarsamningsins. Danska stjórnarskráin nýja gerir það nefnilega tiltölulega auðvelt að koma fram kröfum um þjóðaratkvgr. Það þarf ekki nú nema 1/3 þm. til þess að krefjast þjóðaratkvgr. um lagafrv. í danska þinginu, og þá er skylt að verða við því. Róttæki vinstri flokkurinn hélt því fram, að þó að hér væri ekki um lagafrv. að ræða, þá ættu þessi ákvæði um þjóðaratkvgr. að gilda einnig um staðfestingu milliríkjasamninga, en þeim skilningi hefur verið mótmælt og þeirri skoðun haldið fram, að undir slíkum kringumstæðum beri ekki að verða við kröfu um þjóðaratkvgr., nema því aðeins að meiri hluti þingsins hafi samþ. frv. um þjóðaratkvgr. Það eru því að visu nokkrar líkur til þess, að kröfunni frá róttæka vinstri flokknum í Danmörku um þjóðaratkvgr. um þetta mál verði ekki sinnt, en þetta sýnir, að það er víðar en hér tilhneiging til þess og hjá fleirum en kommúnistum að hraða sér ekki með að segja já við fullgildingu þessa samnings. Það eru margar aðvarandi raddir, sem heimta það, að hin smærri ríki í Atlantshafsbandalaginu fari gætilega og láti tímann vinna það og séu ekkert í kapphlaupi við sjálf stórveldin um fullgildingu samningsins.

Það er víst, að það verður byrjað á umr. í danska þinginu um Parísarsáttmálann núna fyrir jólin, en hinu er slegið föstu, að hann verði ekki afgreiddur í Danmörku fyrr en eftir jólafrí, og sýnist svo sem Íslendingar hefðu getað „dependerað“ af þeim dönsku að því er þetta snertir, eins og þeir hafa oft gert áður í öðrum málum.

Danir sem sé láta sér ekki liggja meira á um afgreiðslu þessa máls en svo, að þeir ætla ekki að fullgilda þennan samning eða taka það mál til endanlegrar afgreiðslu fyrr en að afloknu jólafríi í janúarmánuði. Hvenær þeir koma til með að ljúka málinu, veit enginn í dag.

Það er rétt að taka það fram, að franska þingið kemur ekki saman til að ræða þetta mál fyrr en 20. des. og ræðir málið fram til jóla. Það er talið, að í allra bezta lagi geti atkvgr. eða fullgilding á samningnum farið fram á jóladagskvöld, og engar tafir óvæntar mega koma fyrir málið, ef það á að takast að afgr. það fyrir jól. Það getur því alveg eins farið svo, að franska þingið verði ekki búið að afgreiða samninginn fyrir jól.

Einn af þeim norsku stórþingsmönnum, sem snerust fast gegn málinu og greiddu atkv. á móti fullgildingu samningsins, var framsóknarmaður, þ. e. a. s. vinstri maður, framsóknarmaðurinn Lars Ramndal frá Rogalandi. Hann lét í ljós ótta sinn við hinn gamla, þýzka „militarisma“, og það voru ýmsir úr röðum Alþfl.mannanna norsku, sem minntust stríðsáranna og hersetu Þjóðverja í Noregi og viðurkenndu það í umr., að því miður væri svo skammt liðið frá síðasta stríði, að það væri ekki hægt að reikna með því, að hinn gamli andi Hitlers væri út af dauður, að það væri hægt að búast við því, að fyrrverandi meðlimir í SS-sveitum Hitlers væru búnir að skipta um lífsskoðun. Og við erum vafalaust engir slíkir bjartsýnismenn, að við gerum því á fæturna, að SS-mennirnir gömlu og gömlu þýzku „generalarnir“ séu búnir að skipta um lífsskoðun. En þeir eru margir uppi á foldu enn þá, og sumir eru meðal þeirra mestu áhrifamanna, sem Þjóðverjar hafa enn á að skipa í hermálum, því miður. Þetta rifjuðu norsku þm. upp, hver á fætur öðrum, og þeir viðurkenndu það, að það væri mjög mikill hluti af norsku þjóðinni, sem væri skelfingu lostinn við þá tilhugsun, að það ætti að fá 500 þús. Þjóðverjum vopn í hendur á ný, á meðan ekki hefðu enn þá orðið kynslóðaskipti í því landi.

Ég játa það, að ég er ekki neinn norskumaður, en ég stenzt þó ekki þá freistingu, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér stuttan kafla úr ræðu framsóknarmannsins Lars Ramndals frá Rogalandi. Hann hafði fengið m. a. í hendur allmargar áskoranir frá kjósendum sínum og umbjóðendum um það að krefjast þjóðaratkvgr. um málið í Noregi. Svo mikils þótti við þurfa þar líka. Hann komst þó að þeirri niðurstöðu, að slík þjóðaratkvgr. væri ekki heimiluð af norskum lögum um slíkt mál, og sagðist því ekki telja fært að halda þeim áskorunum til streitu, en hann lagði þær fram í þinginu, og að svo mæltu sagði hann:

„Det er stor bredde í folks motstand mot tysk medlemsskab í NATO, sa han, og det er en ikke liten del av det norske folket, som stár uforstáende overfor det, som nu skjer.

Han ville stemme mot, selv om saken í realiteten var avgjort etter debatten 18. okt. í ár. Han kunne ellers understreke det meste av Hönsvalds premisser. Jeg kommer imidlertid til en helt motsatt konklusjon, sa han. Jeg skal indrömme, at det ikke er lett å snakke om disse store og alvorlige sakene uten fölelse. Men jeg er mot også ut fra historisk synspunkt. Helt fra Bismarcks tid har Tyskland fulgt en hard linje, ikke bare for Tyskland selv, men for hele Europa. Kunne jeg í dag si, at der var skjedd en endring í den tyske mentaliteten og í den politiske og historiske utviklingen, da hadde jeg ikke tatt det standpunktet, jeg har í dag.

Jeg er redd for, at det vi foretar oss í dag vil före Norge inn í en krig og ut í en eventyrpolitikk — enten dette vil skje í Öst-Tyskland eller í Vest-Tyskland. Jeg mener framleis, at det var riktig av Norge á gå med í Atlantspakten. Men jeg er redd det kan utvikle seg slík, at det må offres ungt norsk blod som fölge af en eventyrpolitikk.

Alternativet til den situasjon som foreligger er Sverige og den stillingen det landet har. Å ta Tyskland med er etter min mening ett minus for vort lands forsvar.“

Þetta sagði framsóknarmaðurinn Lars Ramndal frá Rogalandi í norska Stórþinginu, þegar málið var til umræðu þar. Hann greiddi atkvæði á móti fullgildingu samningsins.

Utanríkisráðherrann Halvard Lange sagði, að það væri fyllilega ástæða til að virða þær tilfinningar, sem lægju að baki afstöðu þessa þingmanns, Ramndals, og nokkurra annarra stórþingsmanna, sem sömu afstöðu tóku og enginn gat vænt um að hefðu tekið þessa afstöðu af því, að þeir vildu veikja varnir Vestur-Evrópu eða þjóna rússneskri utanríkispólitík.

Af hverju eru menn hikandi í þessu máli í mörgum löndum? Það er af ótta við, að það sé verið að endurvekja hinn gamla, þýzka „militarisma“. Það er líka vegna þess, að menn telja það vafasama aðferð að knýja þetta mál í gegn án þess að leita fyrst til þrautar eftir möguleikum á að leysa þau tvö stærstu deilumál, sem nú sundra Evrópu, en það er tvískipting Þýzkalands, og það er, að Austurríki er hersetið land. Það er sterk hreyfing fyrir því í Frakklandi að fresta endanlegri afgreiðslu þessa máls, þangað til búið væri að leita eftir því enn á ný við Sovét-Rússland, hvort það sé með engu móti fáanlegt til að ganga frá og ljúka friðarsamningum við Austurríki. Mendes-France hefur nú sent menn til Moskva til þess að fara þessa leið, að friðarsamningarnir við Austurríki verði teknir upp á ný, og hefur lagt fram ákveðna till. um lausn þess máls. Vill hann fá þeirri spurningu svarað, hvort ekki væri hugsanlegt að ákveða, að hernámsveldin, sem nú eiga lið í Austurríki, tækju lið sitt þaðan í burt 18–24 mánuðum áður en friðarsamningar væru undirritaðir. Það er ný hugmynd í málinu, og þetta mál er í deiglunni enn, og enginn veit, hvernig því lyktar.

Allir viðurkenna, að það er eitt mesta áhyggjuefni Evrópuþjóða nú, að Þýzkaland skuli vera skipt í tvennt. Vestur-Þýzkaland er undir áhrifum Bandaríkjanna og vesturveldanna, Austur-Þýzkaland undir áhrifum Rússa. Því er haldið fram, að í Austur-Þýzkalandi sé nú fjölmennt lögreglulið, sem sé óvenjulega vel vopnum búið, en menn efast um, að rétta svarið við því, ef stefna á í friðarátt, sé að hervæða Vestur-Þýzkaland. Menn halda jafnvel, að það geti orðið til þess að djúpið á milli Austur-Þjóðverja og Vestur-Þjóðverja víkki og stækki við þessar aðferðir og verði e. t. v. óbrúanlegt. Menn telja, að þetta vandamál Evrópu verði torleystara og taki lengri tíma að leysa það, ef nú sé stigið það spor að fá Vestur-Þjóðverjum — 500 þús. Vestur-Þjóðverja — vopn í hönd til þess að skapa eins konar jafnvægi á móti þeim lögreglustyrk, sem nú sé til í Austur-Þýzkalandi. Menn líta á það svo, að friðnum í Evrópu sé e. t. v. stefnt í meiri tvísýnu með því að stiga þetta skref heldur en að reyna, áður en Vestur-Þjóðverjar séu vopnaðir, á allan hátt að sameina Þýzkaland allt, sameina Austur-Þýzkaland og Vestur-Þýzkaland. Og það er sú stefna, sem Ollenhauer, foringi jafnaðarmanna í Vestur-Þýzkalandi, hefur fyrst og fremst beitt sér fyrir og sýnist hafa sívaxandi fylgi þýzku þjóðarinnar fyrir, að reyna með öllu móti að sameina Þýzkaland allt, áður en stórpólitísk skref í aðra átt séu stigin. Og það virðist vera nokkuð skiljanlegt, að ófriðarefnin í Evrópu eru fyrst og fremst sundrað Þýzkaland og hersetið Austurríki, og það má búast við því, að það sé því erfiðara að semja, því meir sem Evrópu er skipt í stríðandi parta, — því auðveldara að semja, sem búið er að komast lengra á þeirri leið að sameina þessi Evrópuríki, Þýzkaland og Austurríki.

Og það eru einmitt þessi mál, sem menn vilja fá að hugleiða, áður en þeir taki afstöðu til fullgildingar Parísarsamningsins. Þeir vilja fá tíma til að sjá, hvort engin leið sé til að þoka þessum viðkvæmu deilumálum til einhverrar lausnar, áður en þetta spor sé stigið. Og það eru átökin um þetta, sem geta gert það að verkum, að menn vilji jafnvel hvorki í Frakklandi né Þýzkalandi fallast á fullgildingu samningsins að svo komnu máli, heldur skjóta því á frest. Aftur á móti er því haldið fram af öðrum, að það sé um að gera að fullgilda Parísarsamninginn nú þegar, þá sé skapaður slíkur styrkleiki í varnir Vestur-Evrópu, að Rússar verði samningsliprari á eftir. Þetta er sjónarmiðið á móti.

Það er aðallega tjaldað hér þeirri röksemd, að það, sem öllu máli skipti fyrir Ísland og fyrir allar meðlimaþjóðir Norður-Atlantshafsbandalagsins, sé það, að það sé stórkostlegur fengur fyrir varnir Vesturlanda að fá Þýzkaland með í þessi varnarsamtök, þá verði þau fyrst sterk, og það er náttúrlega ekki hægt að neita því, að vestrænar varnir verða miklu sterkari með Vestur-Þýzkalandi gráu fyrir járnum sem þátttakanda í samtökunum. En það er ekki heldur hægt að neita því, að það væri styrkur fyrir vestrænar varnir, ef einræðisríkið Spánn væri tekið í þessi samtök og einnig vopnað sem allra bezt, grátt fyrir járnum. En enn þá hafa menn þó svarað spurningunni um það: Er rétt að taka Spán í Atlantshafsbandalagið? hikandi og margir brezkir, franskir og þýzkir stjórnmálamenn svarað því algerlega neitandi, að það geti komið til mála. Það er því ekki alveg einhlítt að lita á þetta eina sjónarmið, að samtökin verði sterkari með því að taka þetta eða hitt stórveldið í samtökin.

Ég held, að flestar lýðræðisþjóðir Vestur-Evrópu mundu snúast gegn því, að Spánn yrði tekinn í Atlantshafsbandalagið, en ég veit ekkert, hvar ég hef hina hæstv. íslenzku ríkisstj. í því máli. Ég veit ekkert nema hún tjaldaði fram röksemdinni: Varnir Vesturlanda yrðu sterkari, ef fasistaríkið Spánn yrði tekið með í samtökin, og þess vegna ber út frá því sjónarmiði einu að gera það. — Og við vitum ekkert, hvenær þá spurningu ber að, að það liggi fyrir að svara henni, eins og við eigum að svara því nú með Þýzkaland í dag, hvort það sé rétt að taka Spán inn í varnarsamtök vestrænna þjóða.

Það er engan veginn hægt að afgreiða það mál, að það séu eingöngu kommúnistar, sem berjist á móti því, að Parísarsamningurinn verði staðfestur nú í skyndi, því að í hvaða landi sem við leitum eftir dæmi er hægt að afsanna það þegar í stað. Hverjir eru það t. d. í Frakklandi, sem nú þegar á byrjunarstigi málsins hafa beitt sér fyrir því, að Frakkland fresti fullgildingu Parísarsamninganna. Það er maður eins og t. d. René Mayer, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann bar fyrir nokkrum dögum fram till., sem kemur þá fram, áður en franska þingið kemur saman, það kemur ekki saman fyrr en 20. des. til að ræða þetta mál. Hann lagði fram frestunartill. um það, að Þýzkaland og Frakkland skyldu ekki skiptast á undirskrifuðum samningum fyrr en íbúar Saar hefðu með þjóðaratkvæðagreiðslu staðfest samkomulag þeirra Mendes-France og Adenauers um Saar, sem þeir gerðu 23. okt. í haust. Þetta mun vera einhver sniðugasta frestunartill., sem fram hefur komið til þess einmitt að draga staðfestingu Parísarsamningsins á langinn, og það er René Mayer, sem ber hana fram. Mendes-France mun þó hafa fengið hann til þess að taka þessa till. til baka í bili, meðan umræðurnar færu fram um sjálfan samninginn.

Önnur frestunartill. er líka fram komin í Frakklandi um það að láta Parísarsamninginn, þó að hann verði staðfestur, fullgiltur og undirritaður, ekki taka gildi fyrr en 3 mánuðum eftir fullgildingu sína og nota þá þrjá mánuði til þess að leita samkomulags um einingu Þýzkalands og friðarsamninga við Austurríki og önnur þau vandamál, sem mest stofna friði í hættu í Evrópu.

Ég gæti lagt fram miklu fleiri röksemdir fyrir því, að það er full ástæða til fyrir kotríkið Ísland að fara sér hægt um fullgildingu þessa samnings, og sýnt fram á það, að Ísland er ekki að gera sig að neinu viðundri í augum annarra þjóða, þó að það tæki upp þá varúðarstefnu að fresta fullgildingu samningsins fram yfir jólafrí, því að það er af nógu að taka. Það eru alls staðar uppi skoðanir um, að það beri að fara hægt í fullgildingu samningsins, af því að menn vita, að afleiðingin getur orðið, að það blossi upp kapphervæðing í Austur-Þýzkalandi og Vestur-Þýzkalandi og að herjum Austur-Þjóðverja og Vestur-Þjóðverja gæti síðar lostið saman í borgarastyrjöld, og það væri ekkert gaman. Þá væri svipað ástand og ef Rússar réðu Norðurlandi og Ameríkanar Suðurnesjum og Norðlendingar og Sunnlendingar væru síðan hervæddir af kappi og Norðlendingum og Sunnlendingum lenti síðan saman til þess að drepa hverjir aðra, úthella hvorir annarra blóði. Þó að þetta dæmi þyki kannske fjarstæða, þá hlýtur maður þó að skilja Austur-Þjóðverja og Vestur-Þjóðverja út frá þeirri ógn, sem af því leiðir, ef þeir eru kapphervæddir af gagnstæðum stórveldum, sem síðan gætu hvenær sem væri í raun og veru skapað deiluefni til að siga þessum þjóðbræðrum saman.

Allt það, sem ég hef sagt í sambandi við þetta mál, er túlkun mín á því, að ég tel rétt, að Alþingi Íslendinga fresti þessu máli, fresti því fram yfir jól, fresti því fram á þann tíma, sem aðrar þjóðir fara að taka málið til afgreiðslu. Danir taka það ekki til endanlegrar afgreiðslu fyrr en í janúarmánuði. Það er vafasamt, að Mendes-France klári málið fyrir jól. Það getur í fyrsta lagi orðið, eins og ég áðan sagði, á jóladagskvöld. Það er mjög tvísýnt um úrslit málsins í sjálfu þýzka þinginu, og um afgreiðslu annarra þjóða en þeirra tveggja, sem þegar hafa afgreitt það, vitum við ekkert. Í till. sjálfri, sem liggur hér fyrir okkur, segir í upphafsgreininni, að sambandslýðveldið Þýzkaland hafi með yfirlýsingu frá 3. okt. 1954 gengizt undir skuldbindingu 2. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna og muni með aðild sinni að Norður-Atlantshafssamningnum skuldbinda sig til að forðast sérhvert athæfi, sem ósamrýmanlegt sé varnaranda samningsins. Mér finnst, að það hefði verið skylt, að hæstv. ríkisstj. hefði lagt fram fullnægjandi upplýsingar um það, hvaða tryggingar það eru, sem Þjóðverjar hafa lagt fram fyrir því, að þeir noti ekki tækifærið, þegar búið er að vopna 500 þús. þeirra, til þess að skapa þjóðlegan þýzkan her, sem væri byggður upp í anda Hitlers.

Hæstv. utanrrh. vék ekkert að því í sinni framsöguræðu hér, hvaða tryggingar það eru, sem þýzka sambandslýðveldið hefur lagt fram og hér er vitnað til. Við vitum ekkert, hvort þær eru svo öruggar, að hægt sé að taka þær góðar og gildar. En það eitt, að einhver loforð hafi verið sett á pappír, er ekki alveg fullnægjandi sönnun, en það má vel vera, að þarna sé hægt að gera grein fyrir því, að Þýzkaland ætli að haga sínum vígbúnaði eftir fullgildingu þessara samninga á þann veg, að það verði byggður upp allt annar þýzkur her, með allt öðru skipulagi en sá gamli þýzki her, og að það sé hægt að rökstyðja þetta, en íslenzku ríkisstj. er skylt að gera það hér fyrir þinginu, því að það gæti, þegar efnishlið málsins er tekin til athugunar, haft veruleg áhrif á afstöðu ýmissa hv. þm. til málsins; það er ég sannfærður um.

En nú er hæstv. utanrrh., sem lagði þetta stórkostlega þýðingarmikla mál hér fyrir með 10 mínútna ræðu eða svo, farinn úr landi. Hann hefur ekki haft tóm til þess að fylgja hér málinu eftir: Og það eru fleiri skörð fyrir skildi hér í hv. Alþ. Formaður hv. utanrmn. er líka horfinn, ekki bara úr stólnum sínum á hv. Alþ., heldur úr landi líka. Hæstv. utanrrh. og form. utanrmn. eru báðir farnir úr landi, og sýnist mér þegar af þeirri ástæðu, að það væri ekki nema sanngjarnt, að málinu væri frestað, meðan þeir eru erlendis, og ekki tekið til endanlegrar afgreiðslu, fyrr en þeir væru komnir hér í sæti sín á Alþingi á ný og gætu tekið þátt í viðræðum við þm., sem þyrftu margs að spyrja þá í sambandi við málið, en eiga þess nú engan kost.

Það er ómögulegt annað en láta í ljós undrun sína og furðu á því, að þegar rætt er slíkt stórmál sem þetta hér á Alþ., þá er það einasta þátttaka hæstv. ríkisstj. í umræðum um málið og til þess að upplýsa það, að hæstv. utanrrh., rétt á förum til útlanda, varpar málinu inn í þingið með 10 mínútna ávarpsorðum. Og síðan hefur ekki heyrzt neitt frá stjórnarliðinu um málið annað en það, að fulltrúi ríkisstj. í utanrmn. segir frá því með fjórum eða fimm setningum, að meiri hl. n. — en n. hefði þríklofnað — legði til, að málið yrði afgreitt og afgreitt nú þegar fyrir jól. Þetta verður ekki tekið nema á tvo vegu, annaðhvort að hæstv. ríkisstj. vilji óvirða Alþingi Íslendinga í sambandi við afgreiðslu þessa máls eða þá hitt, að hæstv. ríkisstj. mælir með þessu ekki með góðri samvizku og er tregt tungu að hræra í sambandi við málið og gerir það einhvern veginn tilknúin, en ekki af sannfæringu. Ég er alveg viss um það, að ef hæstv. ríkisstj. hefur einhver rök fyrir því, að hún verði að afgreiða málið fyrir jól, þá verði hv. þm. Str. (HermJ), sem er frsm. meiri hl. utanrmn., ekki skotaskuld úr því að færa þau rök fram, og hann gerir það vafalaust undir þessum umr., áður en þeim lýkur, en til þessa hafa þau rök ekki komið fram.

Ég er alveg sannfærður um það, að hv. þm. Str. liggur ekki á þeim rökum, sem hæstv. ríkisstj. kann að hafa í pokahorninu fyrir því, að við verðum að afgreiða málið fyrir jól, en ef þessi rök koma ekki fram og ef þau eru ekki til, þá á Alþingi Íslendinga að bíða með afgreiðslu þessa máls fram yfir jólafrí, og það er enginn skaði, sem skeður við það, þó að Alþ. komi ekki saman fyrr en 1. febr. og taki málið þá fyrir. Það eru engar upplýsingar, sem liggja fyrir um það, að þær 15–16 aðildarþjóðir að Norður-Atlantshafsbandalaginu, sem verða að fullgilda þennan samning, áður en hann tekur gildi, verði búnar að því fyrir þann tíma, og það væri heldur enginn skaði skeður, þó að Ísland væri þá seinasta þjóðin, sem legði samþykki sitt á þennan samning. Það mundi ekkert hafa gerzt annað en að jólafríið hefur gengið fyrir sig hjá öllum þjóðþingunum, sem um það eiga að fjalla, og það hefur verið sem sé tekið til afgreiðslu af þeim flestum, eftir að þau koma aftur til starfa að loknu jólafríi.

Hins vegar ef einhverjir heimssögulegir atburðir þrýstu á afgreiðslu málsins, þá veit ég ekki til, að neitt geti staðið í veginum fyrir því, að Alþ. yrði þá kallað saman fyrir 1. febr. Ég held, að það sé ekkert nema sjálfsagður hlutur, að Alþ. yrði þá kallað saman einhvern tíma í janúar, um það leyti sem allar aðrar þjóðir hefðu fullgilt samninginn. Og það væru miklu sómasamlegri vinnubrögð eftir margítrekuð tilmæli og rökstudd tilmæli um það að hespa málið ekki af nú, heldur láta endanlega afgreiðslu þess bíða fram yfir jólafrí. Það væri að afgreiða þetta mál eins og sæmir að afgreiða slíkt örlagaríkt stórmál að verða við rökstuddum tilmælum um að flaustra málinu ekki af, heldur afgreiða það um líkt leyti og flestar þær þjóðir, sem að málinu standa, munu afgreiða það, en það er í fyrsta lagi seinni hlutann í janúarmánuði n. k.

Ég hef staðið við það, sem ég sagði í upphafi þessa máls, að ég mundi fyrst og fremst ræða um þá hlið málsins, hvort rétt væri að flýta sér með að ljúka afgreiðslu málsins fyrir jól eða ekki. Og ég þykist hafa fært að því mörg og sterk rök, að aðrar þjóðir ætla að gefa sér tóm til þess að athuga málið og hafa ekki í hyggju margar hverjar að afgreiða það fyrr en einhvern tíma í janúarmánuði eða hver veit hvenær raunar. Ég legg áherzlu á þetta, beini þeim tilmælum mínum til hæstv. ríkisstj., að hún íhugi það enn og taki það til yfirvegunar, beri ráð sín saman um það á ný, hvort hún vill leggja kapp á að flaustra málinu af fyrir jól. Ef það verður gert, þá tek ég undir þá yfirlýsingu, sem hér hefur verið gefin f. h. Alþfl., að ég sit hjá við atkvgr. málsins á þessu stigi.