15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. því á þskj. 13, sem hér er tekið til meðferðar, var vísað til sjútvn. í byrjun þings. Er það lagt fram á Alþ. til staðfestingar brbl., er ríkisstj. gaf út 6. ágúst s.l., um aðstoð við togaraútgerðina á árinu 1954.

Það eru gildar ástæður fyrir því, að brtt. og nál. sjútvn. er ekki lagt fram fyrr en nú, eins og ég veit að mörgum hv. alþm. er kunnugt.

Samkvæmt þál. 13. apríl 1954 ákvað Alþingi að kjósa með hlutfallskosningu 7 manna nefnd til þess að athuga hag togaraútgerðarinnar. Eftir ósk sjútvn. hefur mþn. í togaramálinu látið n. í té till. þær, ásamt skýringum, sem allir meðlimir mþn. voru sammála um. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa hér upp úr áliti mþn. Þar segir:

„Nefndin hefur rætt um það, hvaða ráðstafanir væri hægt að gera til þess að bæta rekstrarafkomu togaraflotans. Nefndinni er ljóst, að slíkar ráðstafanir verði að gera eins og komið er, sökum þess að þjóðarbúið þolir ekki til lengdar algera stöðvun stórvirkustu atvinnutækjanna.

Hitt er svo annað mál, að miklir erfiðleikar eru á því að útvega flotanum þann tekjuauka, sem hann þarfnast, án þess að slík fjárútvegun verki truflandi á verðlagsmálin almennt. Verður ekki á allt kosið í því efni, og verða því ýmsir að taka á sig þá byrði, sem leiðir af lausn málsins, en nefndin hefur miðað tillögur sínar við það, að þær hafi ekki mikil áhrif á framfærslukostnaðinn í landinu.“

Það eru hér átta tillögur, sem nefndin leggur fram í þessu sambandi, og vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þær:

„1) Að stofnlán skipanna verði lengd um tvö ár. Þeir, sem ekki hafa greitt áfallna afborgun 1953, fái henni og afborgun 1954 frestað, aðrir fái afborgun 1954 og 1955 frestað. Tilsvarandi frestur verði veittur á afborgunum þeim, sem togaraeigendur eiga að greiða ríkissjóði vegna nýkeyptra togara.

2) Að ríkisstjórnin hlutist til um að útvega bráðabirgðalán handa þeim útgerðarfélögum, sem þess þurfa með til þess að halda áfram eðlilegum rekstri, og verði þeim lánum varið til greiðslu á aðkallandi skuldakröfum.

3) Að togaraútgerðinni verði tryggð stofnlán til þess að koma á fót fiskvinnslustöðvum eða eignast þær, sem þegar eru fyrir hendi, svo að togaraútgerðarfélögin hafi sjálf aðstöðu til að vinna úr öllum afla sínum.

4) Að gerðar verði ráðstafanir til þess að lækka stofnlán nýjustu togaranna, þannig að telja megi líklegt, að þeir geti risið undir stofnlánum sínum.

5) Að vátryggingariðgjöld lækki um allt að 10% með útboðum eða hóptryggingum. N. áætlar, að sparnaðurinn á þessum lið muni geta numið kr. 20000.00 á ári á togara.

6) Að olíuverð til togaranna lækki a.m.k. um 30 kr. á tonn frá núverandi verði. N. áætlar, að sparnaður með þessu mundi nema kr. 55000.00 á ári á togara.

7) Að vextir af rekstrarlánum togaranna verði hinir sömu og nú eru á hliðstæðum lánum til bátaflotans, 5% fyrstu 6 mánuðina og síðan 51/2%. N. áætlar, að sparnaður á þessum lið mundi nema kr. 20000.00 á ári á togara.

8) Að farmgjöld af frystum fiski til útlanda lækki um 10%, enda komi sú lækkun öll fram í hækkun fiskverðs til togaranna. N. áætlar, að tekjur af þessum lið mundu nema um kr. 60000.00 á ári á togara.“

Því miður hefur enn lítill árangur náðst í sambandi við umleitanir togaraeigenda við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli og óskað er eftir að komi til móts við togaraeigendur og þar með létti að nokkru undir með taprekstri útgerðarinnar. Er þess þó vænzt, að enn verði hart gengið eftir í þessum efnum, því að það má öllum vera ljóst, að leiðir verða að finnast til að tryggja hallalausan rekstur þessara stórvirku atvinnutækja.

Frá því á miðju ári 1952, að brezkir útgerðarmenn ákváðu að setja löndunarbann á ísvarinn fisk íslenzku togaranna, hefur mestur hluti af afla togaranna verið settur á land á ýmsum höfnum hér á landi, bæði sem saltfiskur eða til frystingar eða herzlu, og þar með valdið stórkostlegri atvinnuaukningu. Jafnframt má fullyrða, að verðmæti togaraaflans hefur aukizt að miklum mun við það, að hann á þennan hátt er fluttur fullunninn á erlendan markað. Að sjálfsögðu er það áríðandi fyrir Íslendinga að hafa ríkt í huga, að bezt mun það reynast að flytja afurðir okkar sem mest fullunnar á erlendan markað og þar með skapa meiri og öruggari atvinnu fyrir vinnandi fólk og stórauknar gjaldeyristekjur. Hræddur er ég um, að það mundi valda mikilli atvinnutruflun hjá verkafólki, ef tekinn væri upp aftur sá háttur að flytja mestan hluta af afla togaranna ísvarinn á erlendan markað. Ég tel rétt að hafa þetta í huga, þegar rætt er um nauðsyn þess, að löndunarbanninu verði af létt í Bretlandi.

Hæstv. ríkisstj. sá nauðsyn þess, að létt yrði undir með togaraútgerðinni, og gaf í því sambandi út brbl. 6. ágúst s.l. Í 1. gr. l. er kveðið á um tekjuöflun, sem er leyfisgjald af innfluttum bifreiðum, allt að 100% af fob-verði þeirra. — Í 2. gr. segir: „Gjald það, sem innheimt er samkvæmt 1. gr., skal renna í sérstakan sjóð, sem er eign ríkisins. Úr sjóði þessum skal greiða togaraútgerðinni rekstrarstyrk á árinu 1954. Eigi má greiða hverjum einstökum togara meira fé úr sjóðnum en nemur kr. 2000.00 fyrir hvern dag, sem skipinu sannanlega er haldið úti til veiða á tímabilinu 1. ágúst til 31. des. 1954.

Sjútvn. hefur rætt frv. á mörgum fundum og átt viðræður við fulltrúa frá Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda um vandamál togaraútgerðarinnar og um hugsanlegar leiðir til að bæta hag hennar. Hefur n. lagt fram nál. á þskj. 275, sem hún stendur öll að. Hv. 11. landsk. (LJós) hefur þó áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv. Sé ég, að hann hefur nú lagt fram brtt. á þskj. 280.

Þá hefur n. lagt fram brtt. á þskj. 276, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, vil leyfa mér að lesa hér upp:

„1. Við 1. gr. Greinin orðist svo: Ríkisstjórninni er heimilt til ársloka 1955 að innheimta sérstakt gjald af innfluttum bifreiðum. Má gjald þetta nema allt að 100% af fobverði bifreiðarinnar, og innheimtir innflutningsskrifstofan það, sbr. þó 5. gr.

Ef fob-verð er ekki tiltekið, miðast gjaldið við tollmat bifreiðanna, að frádregnu flutningsgjaldi og vátryggingargjaldi.“

Á 1. gr. er sú breyting, að í stað þess að í brbl. var gert ráð fyrir, að þau giltu aðeins til 31. des. n.k., þá er nú gert ráð fyrir, að þau gildi til ársloka 1955.

„2. Við 2. gr.

a. Fyrir orðin „á árinu 1954“ í 1. málsl. síðari málsgr. kemur: á árunum 1954 og 1955.

b. Fyrir orðin „1. ágúst til 31. desember 1954“ í lok síðari málsgr. kemur: frá 1. ágúst 1954 til 31. des. 1955.“

Það er sem sé gert ráð fyrir, að þetta framlag til togaraeigenda, 2000 kr. á dag á hvern útgerðardag skipanna, gildi einnig árið 1955, en í brbl. var aðeins gert ráð fyrir, að það gilti frá 1. ágúst til 31. des. 1954.

„3. Á eftir 5. gr. kemur ný grein, svo hljóðandi:

Veita skal tveggja ára greiðslufrest á afborgunum lána, er stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands hefur veitt til kaupa á togurum, og lánstíminn lengjast samkvæmt því. Fresturinn telst frá gjalddaga hverrar afborgunar, einnig þó að um áfallnar, en ógreiddar afborganir lána þessara sé að ræða.

Sama gildir um afborganir af lánum, er ríkissjóður hefur veitt til kaupa á nýjum togurum.“ Hér er tekin upp ein af þeim till., sem hv. mþn. í togaramálum lagði til og sjútvn. telur að sé á færi Alþ. að kveða á um með löggjöf. Hitt eru meira þau mál, sem snerta útgerðina og er eðlilegast að eigendur hennar beri fram með tilstyrk ríkissjóðs eða hæstv. ríkisstj., án þess að kveðið sé á um þær kjarabætur útgerðinni til handa með löggjöf.

Það er mjög aðkallandi, að þetta frv. verði afgr. héðan úr d., helzt í dag, bæði við 2. og 3. umr., sökum þess að það verður að telja nauðsynlegt, að það verði afgr. sem l. frá Alþ., áður en Alþ. frestar fundum sínum. Vil ég biðja hæstv. forseta að hafa það í huga.

Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um frv. eða nál. og brtt. að þessu sinni, nema tilefni gefist til undir umræðunum.