08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2500)

161. mál, okur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef litlu að svara hjá hv. þm., og það er ástæðulaust að vera að karpa, en ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á því, að hv. þm., sem byrjaði umr. um þetta mál með því að fullyrða, að ríkisstj. hefði beint haft aðgerðir í frammi til að hindra, að upp kæmist um okur, er nú farinn inn í þá víglínu, að einstakir ráðherrar muni hafa haft einhverja vitneskju, sem hefði getað gert þeim mögulegt að bera saman einhver skjöl o. s. frv., o. s. frv.

Ég get ekki sagt um það, hvaða vitneskju einstakir ráðherrar hafa haft í þessu máli né öðrum; ég er ekki sá hjartnanna og nýrnanna rannsakari, að ég viti um það. Hitt fullyrði ég og endurtek enn, að ríkisstj. sem heild hefur alls ekki um þetta mál fjallað, og fyrir dómsmrn. hefur það ekki komið. Að öðru leyti verður hver ráðherra að segja til um það, hvaða vitneskju hann hefur um það. Málið hefur ekki verið rætt í ríkisstj., og þar af leiðandi er mér ekki kunnugt um afstöðu einstakra ráðherra að öðru leyti til þess. En sú fullyrðing stendur óhögguð og óhagganleg, sem ég segi, að ríkisstj. sem slík hefur ekki skipt sér af málinu og dómsmrn. hefur ekki fengið neina kæru.

Um það mál, sem hv. þm. að öðru leyti bersýnilega á við, er það annars að segja, að í gjaldþrotalögunum er berum orðum kveðið á um, hvenær dómsrannsókn skuli hefja. Ef maður er orðinn gjaldþrota, þá á að leiða hann fyrir sakadómara og hefja rannsókn, þannig að ef það fyrirtæki, sem hér á hlut að máli, hefði orðið gjaldþrota, þá hefði af sjálfu sér leitt dómsrannsókn á því máli, sem hér er um getið, og eitt af því, sem þar hefði hlotið að koma til, var rannsókn á því, hvað orðið hefði af fjármunum fyrirtækisins og þá vafalaust, hvort þeir hefðu eyðzt með þeim uggvænlega hætti, sem hv. þm. segir hér.

Ég skal ekkert segja um það, hvort þeir hafa eyðzt eða farið forgörðum á þann veg eða ekki. Réttarrannsókn hefur ekki getað átt sér stað, vegna þess að enginn hefur kært og fyrirtækið varð ekki gjaldþrota, svo að þess vegna kom ekki til, að réttarrannsóknin byrjaði, eins og ella hefði þá að sjálfsögðu orðið. Hitt verð ég að segja og endurtaka það, sem ég sagði áðan, að auðvitað er það ósennilegt, að fjöldi kröfuhafa, þ. á m. sumar peningastofnanir landsins, hafi samþykkt að koma í veg fyrir gjaldþrot, ef þeim hefur verið kunnugt um, að slíkar aðfarir hafi verið. Ég segi ekkert annað en að það er ósennilegt. Það getur vel verið, að það sé. Ég hef ekki haft færi á því að rannsaka það. En það er ósennilegt. En ef það hefur verið, þá er það án atbeina ríkisstjórnarinnar, og ég vil endurtaka það, að engin kæra hefur borizt til dómsmrn. og það hefur ekki. eftir þeim reglum, sem bæði hefur verið fylgt í tíð minni og allra þeirra fyrirrennara minna, sem mér er kunnugt um, færi eða ástæður til að blanda sér í málið.

Auðvitað er deilt um það, hvernig ég ræki mitt starf sem dómsmrh., eins og deilt er um alla hluti, en ég hef samt ekki trú á því, að margir láti undir höfuð fallast kærur, vegna þess að þeir haldi, að ég skjóti þeim undir stól, og það þarf meira en að gefa það í skyn, til þess að því verði trúað almennt. Ég veit ekki sjálfur til þess, — og hv. þm. er þá kunnugri þeim málum en ég, — að ég hafi lagzt á eina einustu kæru, sem til míns rn. hafi komið, sem studd er nokkrum sæmilegum rökum um það, að lögbrot hafi verið framin, og ekki látið rannsaka það mál. Mér er ekki kunnugt um það. Hitt, að ég ráði yfir rannsóknardómurum, er auðvitað eins og hver önnur fjarstæða. Dómararnir eru sjálfstæðir í sínu starfi. Það er einungis í því þjóðfélagi, sem hv. 2. þm. Reykv. er hugstæðara en mér, þar sem dómararnir eru þjónar yfirvaldanna. Það er ekki hér á landi. Það stoðar ekki að vitna í Tímann því til stuðnings, af því að — jæja, það er sjálfsagt ekki á Tímann hallað, þó að sagt sé að hann segi ekki alltaf satt, — og látum svo útrætt um það. En hins vegar, ef það á — segjum t. d. eins og í þessu tilfelli — að óttast, að menn þori ekki að kæra, vegna þess að ég muni skjóta kærunum undir stól, þá eru einhver ráð að koma kærunni til vitneskju Tímans eða hv. 2. þm. Reykv., og mundi þá ekki lengi verða um það þagað.

En ég get nú ekki varizt því: Nokkuð finnst mér kátleg þau örlög hv. 2. þm. Reykv., sem hefur manna mest talað um McCarthyisma á Íslandi og ofsóknir á hendur mönnum, byggðar einungis á grunsemdum, þ. e. að rannsaka á, hvort eitthvað kunni að eiga sér stað, án þess að hafa nokkur rök til, að þessi þm. leggur nú til, að þn. verði skipuð til þess að taka við hlutverki McCarthys. Að vísu getur verið alveg ágætt að skipa þn. fyrir það, þó að þær utan Bandaríkjanna séu sérstaklega kenndar og þekktar undir þessu leiða nafni, og ég skal sem sagt sízt hafa á móti því, ef það er skoðun þingheims, að það sé réttasta ráðið til þess að reyna að kanna þetta þjóðfélagsmein, og ég tek undir það með hv. þm., að hér er um verulegt þjóðfélagsmein að ræða. Og ef það er skoðun hv. þm., að þetta sé réttasta ráðið, eins og horfir, til að kanna það, þá skal ekki standa á mér um það, enda á ég ekki atkvæði um það hér í hv. Nd.; það er deildarinnar mál, en ekki mitt.