08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (2503)

161. mál, okur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í ummælum hv. síðasta ræðumanns kemur það fram sem áður, að hann talar of óákveðið til þess, að hægt sé að svara þeirri fsp., sem hann bar fram, og eins of óákveðið til þess, að dómsmálastjórnin hafi færi á því að láta lög ganga yfir það athæfi, sem hann lýsti, ef það þá að athuguðu máli, sem ég get ekki dæmt um eftir hans frásögn, verður talið brjóta í bága við lög. Það þarf auðvitað að skoða betur, hvernig það lítur út. Ég vil lofa hv. þm. því, að ef hann lætur mig fá kæru frá þeim kjötkaupmanni, sem hér átti hlut að máli, eða kemur henni til mín, þá skal tafarlaust verða hafin rannsókn á þessu og engin miskunn sýnd, meðan ég er dómsmrh. Ég get auðvitað ekki sagt, hvernig fer, ef hv. 2. þm. Reykv. og Framsfl. fá því sameiginlega áhugamáli fram komið að taka mig úr embættinu, hvað þá verður gert, en meðan ég er í embættinu, skal þessu fólki engin miskunn verða sýnd. En það verða að koma fram ákveðnar kærur. Það verða að vera ákveðin málsatvik, sem hægt sé að byggja á.

Hv. 8. landsk. þm., sem talaði hér næstsíðast, sagði, að ég hefði dregið í efa, að nokkurt okur hefði átt sér stað í sambandi við þetta fyrirtæki, sem hann minntist á. Ég hygg, að ég hafi ekki sagt það, heldur að mér þætti mjög ósennilegt, að svo margar milljónir hefðu getað farið í okurvexti sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, án þess að einhver af þeim aðilum, sem þar var á móti brotíð, hefði séð ástæðu til að kæra. Og það er töluvert annað en það, sem hv. þm. hafði eftir mér.

Ég ítreka það, að ég efast ekki um það og það hefur auðvitað verið svo lengi sem nokkur okkar hefur lifað og miklu lengur, að okur í einhverri mynd hefur tíðkazt bæði á Íslandi og annars staðar, eins og önnur lögbrot. Erfiðleikinn er að hafa hendur í hári lögbrotamannanna, og það verður ekki gert, nema því aðeins að þeir einstaklingar, sem brotið er á móti, þeir einstaklingar, sem komast yfir sönnunargögn um brot, eða opinberar stofnanir, sem fjalla um mál og sjá, að auðsjáanlega sé um brot að ræða, kæri brotin. Ef það ætti að taka upp þann hátt, að dómsmálastjórnin hæfi réttarrannsókn, án þess að bent sé á tiltekin atvik eða án þess að nokkur snúi sér til hennar og segi: Ég hef orðið fyrir þessum lögbrotum — eða nokkur opinber aðili fáist til þess að kæra, þá mundi af slíku atferli leiða ófyrirsjáanlega hluti. Það yrði rannsóknarréttur, „inquisition“, sem auðvelt er að byrja á, en erfiðara að enda á, og ég er hræddur um, að þó að sjálfsagt megi margt að dómsmálastjórn nú finna, eins og ætíð hefur verið og verður, þá séu slíkir réttarhættir ekki að skapi Íslendinga. Og lái mér hver sem vill, að ég mun ekki taka þá upp. Hitt segi ég aftur, að ég skora á þann þm., sem hefur vitneskju um, að ég hafi skotið undir stól kæru, sem mér hafi borizt, eða að ég muni liggja á því, ef þessi eða önnur mál komi undir minn úrskurð með þeim hætti, að ég með réttmætu móti geti látið lög og rétt ganga yfir þá, sem af sér hafa brotið.