23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2545)

77. mál, tollgæsla og löggæsla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flytjanda till. fyrir að hafa hreyft þessu máli, sem ég tel mjög orð í tíma talað.

Ég hygg, að fyrir nokkrum árum hafi ég hreyft því við fjmrn., að rétt væri að koma á meiri sameiningu milli tollgæzlu og löggæzlu og tollvarða og lögregluþjóna en verið hefur. Af einhverjum ástæðum fékk þetta þó þá ekki neinar undirtektir, en ég er sannfærður um, að með þessu má spara verulegt fé, auk þess sem enginn efi er á, að styrkja má bæði tollgæzlu og löggæzlu með nánari samvinnu þarna á milli. Ég verð meira að segja að játa, að ég efast mjög um, hvort sú skipting á tollgæzlu og löggæzlu, sem nú á sér stað yfirleitt, sé í alla staði hentug. Og ég vildi biðja hv. n., sem fær þetta til athugunar, að rannsaka, hvort fráleitt væri að koma á mun meiri sameiningu en jafnvel hv. flm. hefur gert ráð fyrir. Mér er það ljóst, að það mundi krefjast töluverðrar athugunar, og geri mér líka grein fyrir því, að fyrst í stað muni ýmsir þeir embættismenn, sem hér eiga hlut að, telja töluverð vandkvæði á. En mér er það ljóst, að á núverandi skipun eru töluverð vandkvæði, sem ef til vill mundi verða hægara að leysa með nánari samvinnu og sameiningu þessara tveggja greina, og tel ég því ríka þörf á að taka þetta mál allt til endurskoðunar og vil því endurtaka þakkir mínar til hv. flm. fyrir að hafa nú hreyft þessu máli hér.