15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki neinu þýðingarmiklu við það að bæta, sem hér hefur verið sagt af hendi hv. meiri hl. sjútvn., og get einnig að mestu leyti gert ummæli hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Reykv., að mínum ummælum.

Kjarni þessa máls er sá, að í lok siðasta Alþ. er skipuð hér af Alþ. n. til að rannsaka hag útvegsins og gera tili. um úrræði til úrbóta fyrir útveginn, ef nefndin telur, að rannsókn leiði í ljós, að þess sé þörf. Í þessa nefnd veljast menn, sem flestir hafa mjög staðgóða þekkingu á högum útgerðarinnar og alla aðstöðu til að rannsaka það, sem rannsaka þarf í þeim efnum, m.a. þrár hv. alþm., sem allir eru meira og minna við útgerð riðnir og gerkunnugir högum útgerðarinnar, og á ég þar við hv. 3. þm. Reykv., Björn Ólafsson, hv. 5. landsk., Emil Jónsson, og hv. 11. landsk., Lúðvík Jósefsson. Þessi nefnd hefur, svo sem öllum hv. þm. er kunnugt, rannsakað málið, að því er þeir töldu til hlítar, eftir því sem atvik leyfðu, og gert ákveðnar till., sem nú eru orðnar heyrinkunnar, um úrræði til viðréttingar á hag útgerðarinnar. Þegar svo stjórnin vindur snögglega við og gerir þessar ráðstafanir, er vart búið að hleypa þeim af stokkunum, áður en upp rísa nýjar raddir og nýjar kröfur um ný úrræði og aukin framlög úr ríkissjóði til handa þessum atvinnurekstri.

Nú endurtek ég það, sem ég hef áður sagt hér í deild, að það vænir mig að sjálfsögðu enginn um það, að ég hafi ekki löngun til að halda á lofti réttindum togaraútgerðarinnar. Hitt er svo annað mál, að þegar jafnfróðir menn eins og ég hér nefndi — og hef þá sleppt nöfnum annarra manna, sem einnig hafa mikla þekkingu og eru valinkunnir heiðursmenn — bera fram till., þá getur enginn gert ráð fyrir því, þó að nokkrum mánuðum seinna komi aðrar skýrslur frá útgerðarmönnum sjálfum og meðan þær skýrslur hafa ekki verið krufðar til mergjar, annaðhvort af ríkisstj., þessari nefnd eða öðrum þar til færum mönnum, að stjórnin leggi þær til grundvallar fyrir sínum till. um ný og betri úrræði til framdráttar hagsmunum útgerðarinnar heldur en þessir hv. útgerðarmenn í n. sjálfir hafa gert.

Ef hv. 11. landsk., sem hér er að bera fram sérstakar till. um hækkaðan styrk, hefur ekki talið þörf á þessum styrk í ágústmánuði, þá getur hann ekki með rökum komið hér og staðið á þeirri kröfu, enda þótt honum takist að sýna fram á, að nokkrir mánuðir, sem liðnir eru frá því að hann gerði sínar till., hafi verið enn þá lélegri en mánuðirnir, sem hann miðaði við, m.a. vegna þess, að öll hans reynsla á útgerð og öll okkar reynsla á útgerð, sem höfum lengi við hana fengizt, er sú, að ef við ættum að bíða eftir þriðja tímabilinu núna, þá gæti vel verið, að það tímabil sannaði, að við ættum að fella niður allan styrk, sem hér er verið að fjalla um. Ég tek undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, með allri minni samúð með útgerðinni og velvilja í hennar garð, að það er ekki hægt að hringla með þetta eftir því, hvernig vindurinn blæs. Það er ekki hægt, vegna þess að ótíð hefur verið í haust og kannske einhver lélegri aflabrögð en vant er, eins og alltaf er annað veifið, — það er ekki hægt af þeim ástæðum að segja: Það er ekkert að marka það, sem þessir reyndu og valinkunnu útgerðarmenn sögðu í ágústmánuði. — Ég segi þess vegna, að mig skortir grundvöll undir það að bera fram eða styðja aðrar till. en útgerðarmennirnir Lúðvík Jósefsson, Björn Ólafsson og Emil Jónsson ráðiögðu mér að bera fram í ágústmánuði, enda þótt útgerðarmenn hafi nú sýnt aukið tap með því að miða sína reikninga við eitt ár, sem er ekki almanaksár, heldur ár frá 1. júlí 1953 til 1. júlí 1954. Ég veit vel, að það ár kemur verr út en árið 1.953, og það getur vel verið, að þetta kæmi þó enn verst út, ef haustið í haust væri tekið sérstaklega. En ég get ekki af þessum ástæðum, þó að útgerðarmenn geti lagt fram slíka reikninga, sem ég ekki einu sinni hef haft neitt tækifæri til að endurskoða, látið sem Lúðvík Jósefsson og Björn Ólafsson og Emil Jónsson hafi ekkert vit á útgerð og till., sem þeir hafa verið að gera til mín, séu eintóm endaleysa. Það er ekki hægt að hringla með svona frá degi til dags. Þessir menn sýndu sinn góðvilja í garð útgerðarinnar, — góðvilja, sem ríkisstj. lagðist á sveif um að gera að veruleika með því m.a. að gefa það út í bráðabirgðalögum, að styrkur ríkisins útgerðinni til framdráttar væri miðaður við fyrningu. Ég er ekki alveg viss um það, þrátt fyrir þekkta kröfuhörku mína, sem sumir vilja halda á lofti, að ég hefði haft kjark í mér til að fara fram á í fyrsta skipti, sem togaraútgerðin nýtur styrks, að hún fengi fyrningu greidda úr ríkissjóði.

Ég viðurkenni alveg, að það er ekki heilbrigður atvinnurekstur, ef arður af atvinnurekstrinum megnar ekki að fyrna skipin, því að annars lendir í feninu. En ég segi hitt, að meðan reynslutími fellur á um þetta, meðan ekki er útséð um, hvort nýir tímar færi útgerðinni betri afkomu, þá er ég í vafa um, að ég hefði haft kjark til þess að bera fram þessa kröfu. En ég undirstrika það, að ríkisstj. tók undir góðvilja Lúðvíks Jósefssonar, Björns Ólafssonar og Emils Jónssonar í garð útgerðarinnar með því að taka þessa till. um fyrningargjald úr ríkissjóði til greina, þegar hún ákvað styrkinn úr ríkissjóði. Hitt er svo annað mál, að í þessum till. nefndarinnar var miðað við, að útgerðin væri sjálf bær um að afla sér vissra fríðinda frá öðrum aðilum, og þau fríðindi áttu að nema milli 200 og 300 þús. kr. á ári, ef ég man rétt. Aðalliðurinn í þeim fríðindum var hækkun á karfaverði, og það er nú meira fyrir atbeina ríkisstj. heldur en fyrir framtak og dugnað útgerðarmannanna, að þeirri ósk hefur fengizt framgengt. Það er meira fyrir harðfylgi leynt og ljóst frá ríkisstj., að það tókst að hækka karfaverðið, heldur en útgerðin hafi gengið skelegglega fram í því. Og ég hygg, að sumir togararnir hafi þar fengið bætur, sem nema jafnvel allt að 100–150 þús. kr., þó að ég dragi í efa, að það sé meðaltalsupphæðin, sem má reikna með. Ég hygg, að hún væri nú kannske nær 70–80 þús., án þess að ég þori að staðhæfa um það.

Styrkur til togara úr ríkissjóði verður árlega 620–630 þús. kr. með 2000 kr. framlagi á útgerðardag. Við skulum segja, að karfinn geri 100 þús. Það eru 730 þús. af þeim 950, sem talið var þurfa, og þar af voru 250 þús. kr. fyrningargjaldið. Útgerðinni var svo sjálfri ætlað að reyna að semja um að fá lækkun á farmgjöldum á hraðfrystum fiski, sem kæmi útgerðinni til framdráttar, — reyna að fá lækkun á vátryggingum, sem þessir reyndu útgerðarmenn, Björn Ólafsson, Emil Jónsson og Lúðvík Jósefsson, töldu að útgerðin gæti fengið. Ég var nú orðinn svo gamall í hettunni, svo gamaldags og svo fjarri raunveruleikanum, að ég trúði aldrei á, að hægt væri að lækka vátryggingargjaldið með þessum úrræðum, sem á var bent. En þeir vissu betur, sem nú eru í þessu. Reyndin af því hefur að vísu ekki enn þá sannað þeirra dóm, heldur minn kvíða, en látum það liggja á milli hluta. Staðreyndin er, að ríkisstj. ætlaði með sínum aðgerðum að leggja á ríkissjóð að taka þátt í fyrningargjaldi upp á 250 þús. kr. á ári af þessum skipum. Það er fyrsta staðreyndin. Önnur staðreynd er, að eins og nú standa sakir verður að viðurkenna, að útgerðarmenn sjálfir hafa ekki verið bærir um að útvega þá lækkun, sem þeim var ætlað að útvega.

Ég endurtek, að af þeim 700 þús., sem með þarf, ef fyrningargjaldið er dregið frá, hefur ríkisstj. lagt til, að ríkið leggi fram 630 þús., og átt mikinn þátt í, að 100 þús. kr. hafa fengizt fyrir hækkað karfaverð. Þetta eru staðreyndirnar, og ég dreg ekki í efa, að um mig sé trúað, að ég hafi mikla löngun til þess að draga fram hag þessarar útgerðar, eftir því sem rök standa til og geta leyfir. En ég tel ekki, að í dag hafi ég nægjanlegar sannanir til þess að segja, að það, sem Lúðvík Jósefsson, Emil Jónsson og Björn Ólafsson sögðu mér fyrir þremur mánuðum, standist ekki vegna breyttra kringumstæðna. Og enn siður hef ég rök til þess að segja við þjóðina, að hún eigi að borga í nýjum sköttum þessa smávægilegu viðbót, sem þarna þarf, en er þó 1000 kr. á dag handa hverjum togara, þ.e.a.s. 315 þús. sinnum 43, eða yfir 13 millj. kr., sem þar þyrfti í viðbót. Mig skortir rök til að biðja þjóðina að leggja þetta fram í dag. Það getur vel verið, að þegar búið er að rannsaka þetta að nýju, þá verði ég neyddur til að biðja menn að vera með mér í nýjum kaffitolli eða sykurtolli, eða hvar þið viljið nú helzt leggja þetta á. Hitt eru náttúrlega engin úrræði, að gefa út lög og segja: Olían skal lækka — eða gefa út lög og segja: Fragtirnar skulu lækka. — Mig skortir líka rök fyrir því, að það sé hægt. Útgerðarmennirnir hafa sjálfir sagt mér, ýmsir þeirra, — að þeir hafi verið að rannsaka olíuverðið og ekki séð sér fært að rannsökuðu máli að standa á slíkri kröfu, Ég hef sjálfur fengið gögn í hendurnar frá sumum þeim félögum, sem flytja fiskinn, og þau færa sterklega fram þeirra sjónarmið, án þess að útgerðarmenn hafi hrakið þau rök.

Ég vil svo aðeins benda á það, að till. hv. 11. landsk. um, að dýrtíðarsjóðsgjaldið falli í þann sjóð, sem á að standa undir þessum greiðslum til togaranna, skipta að því leyti ekki meginmáli, að dýrtíðarsjóðsgjaldið af bílainnflutningnum gefur, ef allir atvinnubílstjórar eru undanþegnir gjaldinu, ekki nema um 2 millj. eða rúmar 2 millj. á ári. Og það verður ekki það, sem sker úr. Ég vil einnig segja þessum hv. þm., hv. 11. landsk., að þær tölur, sem útgerðarmenn hafa flutt mér frá honum, eru á misskilningi byggðar. Ég get sýnt honum þær skýrslur, sem fyrir liggja frá innflutningsskrifstofunni, um, hvað tekjurnar af þessum nýja skatti verði, og því miður er ekki auðið að líta jafnbjörtum augum á þá tekjuliði sem hann gerir. Ég verð þess vegna að lokum að segja það sem sjútvmrh. og maður gerkunnugur og velviljaður togaraútveginum, að mér þykir ríkisstj. hafa sýnt fullan skilning og mikinn velvilja í garð útgerðarinnar, og sem sjútvmrh. vil ég að menn viti, að það eru ekki frekar mínar till. heldur en annarra manna í ríkisstj., sem þarna hafa náð fram að ganga útveginum til framdráttar. Stjórnin hefur öll sýnt velvilja og mikinn skilning í þessum efnum.

Ég vil í öðru lagi segja, að þar til frekari gögn eru lögð á borðið en enn hefur verið gert, enda þótt ég sjálfur viti, að útgerðin gengur illa, tel ég mér hvorki fært að bera fram né samþykkja aðrar till. en þær, sem nú eru fluttar af hv. meiri hl. sjútvn. í samráði við ríkisstj. og til viðbótar við hennar frv. Og ég minni enn og að lokum á það, að menn mega ekki láta það villa sér sýn, þó að stund og stund, mánuð og mánuð eða ársfjórðung gangi verr en ella. Og ég endurtek það, sem ég áðan sagði, að alveg eins og útgerðarmenn telja, að seinustu mánuðir kalli á hálfrar annarrar milljónar styrk á ári, miðað við, að árið þar á undan kallaði ekki nema á 900 þús., þá gæti svo farið, að aukinn fiskafli, betra tíðarfar og hækkað verðlag gæti sýnt eftir næstu þrjá mánuði, að við þyrftum engan styrk. — Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vona, að þetta frv. megi ná fram að ganga nú áður en þingfresturinn verður, og skal því ekki tefja málið með frekari skýringum.