09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (2560)

112. mál, niðursuðuverksmiðja í Ólafsfirði

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, því að þær benda í þá átt, að vænta megi góðra undirtekta undir þetta mál, sem við þm. Eyf. höfum hér hreyft. Við höfum takmarkað þetta við þessa sérstöku niðursuðuverksmiðju, en það er vitanlega síður en svo, að við höfum á móti því, að till. sé færð inn á eitthvað breiðari grundvöll og látin fara fram á því athugun jafnframt, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til þess að koma niðursuðuiðnaði hér á heilbrigðan grundvöll, því að vitanlega er það alveg rétt, sem bent hefur verið á, að það er raunar óviðunandi fyrir okkur, sem eigum allra þjóða bezt hráefni til fiskiðnaðar, að við skulum þurfa að selja það hráefni óunnið úr landi, en ekki geta nýtt það hér heima, sem bæði ætti að auka verðmæti framleiðslunnar og einnig þá um leið að skapa stóraukna atvinnu. Og það er alveg rétt, sem hv. 3. landsk. benti hér á, að það er sennilega fátt til þess hentugra að koma í veg fyrir atvinnuleysi á ýmsum stöðum úti um landið heldur en einmitt ef hægt er að koma slíkum iðnfyrirtækjum þar á fót.

Það hefur verið á það bent hér, sem ég einnig tók fram í minni frumræðu, að till. þessi væri nokkuð óljóst orðuð, og töldu menn, að það væri æskilegra, að fram kæmi í henni nákvæmar, við hvað átt væri, þar sem alls ekki væri sagt í till. sjálfri, hvernig ríkisstj. ætti að ráðstafa verksmiðjunni. En ástæðan til þess er auðvitað ekki sú, að Ólafsfirðingar vilji ekki, að verksmiðjan sé rekin áfram sem niðursuðuverksmiðja, því að það vildu þeir vitanlega helzt af öllu. Og bæjarstjórnin hefur gert um það ályktun, sem ríkisstj. var send strax eftir að hún eignaðist þessa verksmiðju, þar sem lögð var á það rík áherzla, að ríkisstj. ræki verksmiðjuna áfram sem niðursuðuverksmiðju. En við höfum þó ekki orðað till. þannig, einmitt vegna þess að þeir annmarkar, sem komið hafa í ljós varðandi rekstur niðursuðuverksmiðjunnar og yfirleitt niðursuðuiðnaðarins í landinu, hafa verið það miklir, að við teljum alls ekki fullkomlega ljóst, hvort auðið er að starfrækja verksmiðjuna áfram í því formi. Það er a. m. k. alveg ljóst, að menn heima í Ólafsfirði eða bæjarfélagið þar muni alls ekki treysta sér til þess að starfrækja verksmiðjuna áfram sem niðursuðuverksmiðju, nema aðstæður breytist eitthvað varðandi þá atvinnugrein. Þeir hafa þegar, menn þar heima og bæjarfélagið, orðið að leggja fram mikið fé til þess að gera ítrekaðar tilraunir með starfrækslu verksmiðjunnar og það farið út um þúfur, þannig að grundvöllur er ekki fyrir slíku, og okkur er þá ekki heldur ljóst, hvort grundvöllur er beinlínis fyrir því, að ríkisstj. eða ríkissjóður starfræki verksmiðjuna áfram sem niðursuðuverksmiðju, vegna þess að sú niðursuðuverksmiðja, sem rekin hefur verið á vegum ríkisins, fiskiðjuverið, mun vera mjög á fallanda fæti, að óhætt er að segja, og ég held starfað lítið sem ekki neitt. Og Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda hefur fyrir nokkru gefizt upp við að reka sína niðursuðuverksmiðju, þannig að ekki virðist blása byrlega með þennan atvinnurekstur.

Hitt er vitanlega alveg rétt, og væri mjög nauðsynlegt, að ríkisstj. tæki upp til miklu nánari athugunar en gert hefur verið, hvað gera þarf til þess að koma fótum undir þennan iðnað í landinu, hvaða annmarkar það eru, sem fyrst og fremst eru því til hindrunar, að þessi iðnaður geti þróazt eins og hann vissulega ætti að gera, miðað við þá aðstöðu, sem hér er með hráefni, og þá að gera ráðstafanir til þess að bæta úr þeim annmörkum, eftir því sem kostur er á.

Vitanlega er það rétt, sem hér var áðan bent á af hv. 3, þm. Reykv. (BÓ), að það hafi verið miklir annmarkar og gallar á niðursuðuframleiðslu landsmanna og alls ekki nægilega færir menn við hana fengizt, að því er virðist vera. Þessir annmarkar komu einnig fram varðandi verksmiðjuna í Ólafsfirði, en þó held ég, að framleiðsla hennar hafi verið komin á mjög sæmilegan grundvöll og verið góð vara. En það, sem fyrst og fremst gerði það að verkum, að verksmiðjan varð að hætta, er, að það reyndist ekki auðið að selja framleiðsluna. Og þetta stafar ekki hvað sízt af því, að það er enginn aðili í landinu, sem sérstaklega hefur með höndum að annast sölu á þessum niðursuðuvörum, og fyrir verksmiðju úti á landi, sem hefur ekki neina bækistöð hér til að annast slíka sölu, er vitanlega mjög miklum erfiðleikum bundið að selja sína framleiðsluvöru, þannig að þess væri mjög mikil þörf að íhuga það, sem hv. þm. Barð. (GíslJ) benti á í sambandi við niðursuðuiðnaðinn yfirleitt, hvort ekki væri hægt að koma upp einhverri sölumiðstöð, sem annaðist sölu þessarar vöru, einmitt vegna þess að hér er um að ræða algera nýjung, sem þarf að vinna markaði og vinna braut í öðrum löndum, og því miklum mun erfiðara fyrir hvern einstakan að selja sína vöru. Um þetta hlýtur að verða að hafa einhver samtök og jafnvel opinberir aðilar að koma þar til, til þess að tryggja sölu afurðanna, og vitanlega er í því sambandi mikil nauðsyn, að það sé haft eftirlit með framleiðslunni, þannig að ekki sé framleidd gölluð vara, sem því miður hefur komið fyrir og hefur spillt því, að hægt væri að vinna þessum niðursuðuvörum markað.

Ég sem sagt teldi, að það væri mjög mikill fengur að því, ef hægt væri hér á Alþingi að leggja einhvern grundvöll að þessum atvinnuvegi betur en verið hefur, þannig að hann geti orðið sú lyftistöng, sem vonir stóðu til og hann vissulega ætti að vera. Og við flm. þessarar till. mundum mjög fagna því, ef athugun málsins hér gæti leitt til þess, að tiltækilegt yrði talið að starfrækja þessa niðursuðuverksmiðju í Ólafsfirði áfram sem niðursuðuverksmiðju, því að það er vitanlega það æskilegasta og auðvitað hörmulegt til þess að hugsa, ef verksmiðja, sem er hin fullkomnasta í sinni grein hér, verður að hætta störfum og þarf að selja hennar vélar út um hvippinn og hvappinn, vegna þess að ekki sé neinn grundvöllur til þess að starfrækja þetta fyrirtæki. Og ég held því, að þó að þetta mál að vísu sé hér fram borið sem aðeins varðandi eina verksmiðju í landinu og þannig ekki á breiðum grundvelli, þá sé hér þó um svo mikilvægt atvinnumál að ræða fyrir þjóðina í heild eða geti orðið það, að það sé full ástæða til, að því sé rækilegur gaumur gefinn.