09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2561)

112. mál, niðursuðuverksmiðja í Ólafsfirði

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), að okkur skortir enn mjög kunnáttumenn í niðursuðu. En það er mjög erfitt fyrir Íslendinga að komast að til að læra þetta. Það er enginn skóli hérlendis, sem hefur kennt þetta, og enn engin stofnun, sem annast slíka kennslu hér. Ég veit dæmi til þess, að Ísfirðingar hafa viljað komast á slíka skóla erlendis, en ekki tekizt það. Ungur Ísfirðingur vildi t. d. komast á skóla í Noregi, sem nýstofnaður er þar fyrir niðursuðumenn. Hann hafði fengið ádrátt um það hjá skólastjórninni að komast á skólann, en þegar formaður skólanefndarinnar frétti af því, að Íslendingur sækti eftir skólavist, lagði hann blátt bann við því. Eina ástæðan, sem hann gaf fyrir neituninni, var, að ekki væri rétt af Norðmönnum að hleypa Íslendingum þarna að, því að Íslendingar væru aðalkeppinautar um sölu fiskafurða, sem væru verulega hættulegir Norðmönnum. (PO: Hvar er þá norræn samvinna?) Já, okkur varð nú á að spyrja um það, hvað norræn samvinna væri, en það kom fyrir ekki, og þessum manni var meinað um skólavist, a. m. k. að þessu sinni.

Hitt er ekki alveg rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að allar íslenzkar niðursuðuvörur hafi illt orð á sér. Mér er kunnugt um það, að ísfirzkar rækjur eru enn eftirsóttar, og þær seljast erlendis jafnóðum og hægt er að framleiða þær.

Ísfirðingar hafa mjög mikinn áhuga á því, að komið sé á eftirliti og mati á niðursuðuvörum, til þess að hægt sé að koma í veg fyrir, að skemmdar og gallaðar vörur séu seldar úr landi, því að þótt ein íslenzk verksmiðja eða fleiri framleiði og selji ógallaðar vörur, þá er alveg gefið mál, að það spillir fyrir og skaðar allan niðursuðuiðnaðinn íslenzka, ef hitt kemur fyrir, að aðrar verksmiðjur selji gallaðar vörur úr landi.