13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (2570)

115. mál, Kötlusvæði

Frsm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Fjvn. leitaði umsagnar tveggja aðila í þessu máli, Jöklarannsóknafélags Íslands og rannsóknaráðs ríkisins. Voru þeir báðir því meðmæltir, að sú rannsókn færi fram, sem till. fjallar um. Umsögn þeirra er prentuð með nál. á þskj. 546.

N. hefur lagt til, að till. verði tengd við nafn Jöklarannsóknafélagsins, þannig að ríkisstj. leiti samninga við þetta félag um að framkvæma þær rannsóknir, sem till. fer fram á. Að n. fer þessa leið, stafar af því, að Jöklarannsóknafélagið hefur staðið í sambandi við erlendan sérfræðing, sem hefur tæki, sem framkvæma má með þykktarmælingar á jöklum. Tæki þetta er mjög dýrt, og er ekki til hér á landi, en hinn erlendi sérfræðingur hefur boðizt til þess að koma hingað með þetta tæki, og var ætlun Jöklarannsóknafélagsins að láta hann rannsaka Grímsvötn í Vatnajökli. Með þessu tæki er hægt að sjá, hvernig landslagi er háttað undir jöklum, og það væri þess vegna mjög æskilegt, að þetta tækifæri væri notað til þess einmitt að fá þennan sérfræðing til að ganga á Mýrdalsjökul og mæla þykkt jökulsins og kanna, hvernig er umhorfs undir, þar sem Katla liggur. Hinn erlendi sérfræðingur tekur enga sérstaka þóknun fyrir ferðina hingað, aðeins þarf að kosta ferðir hans og dvöl hér á landi.

Fjvn. lítur svo á, að það þurfi ekki að kosta ríkissjóð ýkja mikið fé að láta framkvæma þá rannsókn, sem farið er fram á í þessari till. Að sjálfsögðu yrði að taka þátt í ferðakostnaði hins erlenda sérfræðings og greiða fyrir ferð hans upp á Mýrdalsjökul, ef til kæmi, að hann fengist til að fara þangað, enda þótt það yrði mikið sjálfboðavinna, því að Jöklarannsóknafélagið hefur á að skipa ágætum mönnum, jöklaförum, sem vinna þetta verk í sjálfboðavinnu.

Aðra nauðsynlega starfsemi í sambandi við þessa rannsókn má framkvæma af opinberum aðilum, sem til eru í landinu. Má þar til nefna myndatöku af Mýrdalsjökli úr lofti, sem er nauðsynleg til kortagerðar af Kötlusvæðinu, og svo e. t. v. einhverjar mælingar af Mýrdalssandi og þar í grennd. Báðir þeir aðilar, sem fjvn. leitaði til, lögðu mikla áherzlu á, að fenginn yrði jarðskjálftamælir — hreyfanlegur jarðskjálftamælir — og hann staðsettur í nánd við Kötlusvæðið. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að Veðurstofan hefur einmitt sótt um leyfi til að mega kaupa slíkan mæli, en hún hefur ekki enn fengið til þess fjárveitingu. Og n. lítur svo á, að það sé að sjálfsögðu fjárveitingavaldsins að ákveða um þetta.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þessa till. N. hefur gert á henni lítils háttar breytingu, sem ég gat um, og leggur einróma til, að hún verði samþykkt eins og hún er orðuð á þskj. 546. Ég vænti þess, að hv. alþm. taki þessari till. vel og samþ. hana eins og hún liggur fyrir.