16.03.1955
Sameinað þing: 46. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (2594)

156. mál, samvinnunefnd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. fyrri flm. þessarar till. hefur nú gert grein fyrir efni hennar og rætt þar um aðferðir til þess að komast hjá háskalegum átökum í þjóðfélaginu í sambandi við kaupgjalds- og kjaramál. Ég skal ekki verða mjög fjölorður um þessa till. Ég mundi ekki hafa neitt á móti því, að hún yrði samþykkt. Hins vegar er langt frá því, að ég sé eins sannfærður og hann um ágæti þeirrar lausnar, sem hún á að leiða til, því að það er alveg áreiðanlegt, að það er ekki fundin nein örugg leið til þess að komast hjá vinnustöðvunum og verkföllum fyrir það, þó að hún yrði samþykkt. Það má vel vera, að tveir menn, vel valdir, frá samtökum atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, sem ynnu stanzlaust frá ári til árs að því að kanna greiðslugetu atvinnuveganna og kynna sér burðarþol þeirra um öll útgjöld, gætu aflað ýmissa gagnlegra upplýsinga, sem dregið gætu eitthvað úr hættunni á, að til verkfallsátaka kæmi, en áreiðanlegt er, að engin trygging væri fyrir því. Það má því vel vera, að það sé tilraunar vert að setja slíka nefnd, taka slíka starfsmenn á laun hjá ríkinu, en fyrir fram veit enginn um, hvaða árangur kynni að verða af starfi þeirra.

Það er sem betur fer ekki þannig, að farið sé alveg athugunarlaust og án allrar þekkingar út í vinnustöðvanir og verkföll. Þeir menn, sem skóinn bera á fætinum, vita nokkuð um það, hvar hann kreppir að, og það er út frá reynslu hins starfandi fólks, sem ákvarðanir eru teknar um það, hvort sagt skuli upp vinnusamningum eða ekki. Og verkafólkið þykist í fyrsta lagi vita um, hvað líði högum sínum og afkomu, hvaða leiðréttingar það leggi mesta áherzlu á að fá fram, og síðan er setzt að samningaborði við atvinnurekendurna um að fá slíkar leiðréttingar. En það, sem að síðustu getur svo leitt til þess, að til verkfalls komi, er þetta, að verkamaðurinn lítur svo á, að hann eigi siðferðislegan rétt til þess að ákveða sjálfur, við hvaða verði hann selji sína dýrmætustu söluvöru, sitt eigið vinnuafl. Og það þykist hann ekki vera skyldugur til að setja undir úrskurð neins dómstóls. Það er sjálfsákvörðunarréttur helgur, sem hann lætur aldrei úr sinni hendi. Og þess vegna er enginn, sem getur tekið þann rétt af viðkomandi manni.

Ég minnist þess í þessu sambandi, ef það er nokkur hliðstæða, að það gerðist fyrir nokkrum árum, að landbúnaðarráðherra Íslands, ágætur maður, réttsýnn og vitur, Pétur heitinn Magnússon, kom á því skipulagi um verðákvörðun landbúnaðarafurða, að það skyldi settur eins konar dómstóll um það mál. Það voru opinberir menn, valdir af ríkisvaldinu, en ekki af bændastéttinni, til þess að ákveða um verðlag landbúnaðarafurða. Ég hygg, að þetta verðlag hafi hvorki verið ákveðið af vanþekkingu né ósanngirni í garð bænda, en bændur sögðu bara: Hvað sem verðinu líður á þessu, þá unum við því ekki. Það er okkar sjálfsákvörðunarréttur, sem þarna á að gilda um verðlag á okkar framleiðsluvörum, þ. e. a. s. á vinnuafli þeirra, og það eitt unum við við, en ekki að opinberir stjórnarherrar segi okkur, hvaða verði við eigum að selja okkar vinnuafl. — Það er þetta, sem mér finnst að hv. flm. hafi ekki litið á sem skyldi.

Ákvörðun um verðmæti vinnunnar er það, sem verkafólk lætur ekki af sér taka og leggur ekki undir neinn dómstól, hversu vel sem um það væri búið, að hann dæmdi rétt um þetta. Þegar hafa verið þrautreyndir samningar milli vinnukaupanda og vinnuseljanda um verðmæti vinnuaflsins og aðilar verða ekki á eitt sáttir, þá er það, sem verkalýðnum hefur verið í þessu þjóðfélagi og nálega öllum öðrum menningarþjóðfélögum viðurkenndur réttur til að leggja niður vinnu og segja: Ef ég fæ ekki hærra kaup en atvinnurekendurnir vilja bjóða, þá sel ég ekki vinnuaflið mitt. — Það byggist á sjálfsákvörðunarréttinum: Ég sel það ekki, ég legg ekki fram mitt vinnuafl, fyrr en hefur samizt um verðið á því. — Þetta er siðferðislegi grundvöllurinn undir verkfallsréttinum, og ekkert menningarþjóðfélag hefur treyst sér til að neita verkafólkinu um þennan rétt. Það er nákvæmlega það sama og kaupmaðurinn í búðinni með sína vöru. Kaupandi kemur inn og fær að vita, hvað verðið sé, og kaupmaðurinn segir frá hinu ákvarðaða verði. Kaupandinn segir: Ég vil ekki kaupa vöruna fyrir þetta verð. — Hann getur á engan hátt þvingað kaupmanninn til að breyta verðinu á vörunni, hann lætur vera að kaupa hana, og það er það, sem atvinnurekandinn gerir líka. Hann lætur vera að kaupa vinnuaflið, svo lengi sem hann getur án þess verið, og það er það, sem er af hans hendi rétturinn til verkbanns, rétturinn til þess að kaupa ekki vinnuaflið, ákveða um það líka. Það verður líka að virða sjálfsákvörðunarrétt atvinnurekandans, vinnukaupandans. Það er nákvæmlega það sama sem hér er um að ræða og um verzlun yfir búðarborðið um ákveðna vörutegund. Ef verðið er svo hátt, að kaupandinn vilji ekki kaupa, þá verður ekki af kaupum. Verzlun á sér ekki stað. Það má vel vera, að báðir skaðist á því að framkvæma ekki þessi viðskipti, en þau frestast þangað til þeir hafa komið sér saman um verð, að þörf hins gerir það að verkum, að hann kaupir vöruna því verði.

Ég tók eftir því, að hv. flm. talaði um, að hann væri á móti arðráni, og það mundu nú flestir tjá sig vera það, en hann gerir ráð fyrir því, að verkamenn geti arðrænt atvinnurekendur. Ég skil ekki, með hvaða hætti það getur orðið. Hitt er alveg auðsætt mál, að atvinnurekandi getur verið í þeirri aðstöðu, að hann geti stungið í sinn vasa einhverju, meiri eða minni hluta af því verðmæti, sem vinnan skapar. En ég get ekki séð, hvernig verkamaðurinn getur arðrænt atvinnurekanda, sem hefur frjálst val um það, hvort hann kaupir vinnuna eða ekki, og hefur aðeins keypt hana, þegar hann hefur gert það upp við sig, að hann hafi hag af því að kaupa hana.

Það er rétt, sem hv. flm. sagði, að það er oft setzt of seint að samningaborði, en undir venjulegum kringumstæðum er það sök aðilanna, og það er eins og fleira, sem kemur þeim í koll, ef þeir haga sér óskynsamlega. Venjulega er gert ráð fyrir, að uppsagnarfrestur gagnkvæmur sé þrír mánuðir. Ef þeir þrír mánuðir eru vel notaðir til þess að athuga þessi mál og komast að niðurstöðum, þá er það alveg nægilegur tími. Það er nægilegur tími fyrir atvinnurekanda, sem þekkir í gegn sín mál, og verkamenn, sem þekkja öll atriði þeirra krafna, sem þeir bera fram, að komast að niðurstöðu, ef vilji er fyrir hendi, á þremur mánuðum. Það er ekki tími, sem skortir. Í sambandi við þá deilu, sem nú er, hefur verið um óeðlilega stuttan tíma að ræða, eins mánaðar uppsagnarfrest, af því að það lá í loftinu og hafði af opinberum aðilum verið látið mjög í veðri vaka, að komið gæti til breytinga á skráningu gengisins, og þá vildu verkamenn ekki eiga þrjá mánuði fram undan sér í óvissu, ef til slíkra ráðstafana yrði gripið af ríkisvaldinu. Þá var uppsagnarfresturinn styttur, og þegar hálfur mánuður fer með eðlilegum hætti í að undirbúa kröfurnar og ganga frá þeim, þá er aftur ekki nema hálfur mánuður til samninga, og það er stuttur tími fyrir báða aðila. En undir venjulegum kringumstæðum er tíminn alveg nógur, sem gert er yfirleitt ráð fyrir, þar sem það er almennast þrír mánuðir.

Hins vegar verð ég að segja, að það hefur oftast nær verið þannig, að atvinnurekendurnir hafa farið sér hægt um að nota fyrri hluta uppsagnarfrestsins, og það álit ég að hafi verið óhyggilegt og sé óhyggilegt af þeirra hendi. Og venjulega hafa þeir ekki komið neitt á móti verkalýðnum í samningum fyrr en rétt síðustu sólarhringana, þegar verkfall hefur verið boðað og það er í raun og veru að skella á. Þá er ekki eins góð aðstaða til samninga — það skal ég játa — og undir venjulegum kringumstæðum. Þá er hiti kominn í skapsmunina og miklu verri aðstaða að öllu leyti til að ná skynsamlegu samkomulagi. Að því leyti er ég samþykkur hv. frummælanda.

Ég vil að lokum undirstrika, að hversu vel sem fulltrúar frá atvinnurekendum og verkamönnum ynnu árið um kring að því að afla sér upplýsinga um þessi mál, þá yrði það alltaf að síðustu að leggjast undir úrskurðarvald verkamanna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar, hvort þeir vildu sættast á þær forsendur, sem þessar upplýsingar veittu, því að ákvörðunarréttinn hafa báðir aðilar, og hann verður aldrei af þeim tekinn. Sá sem reyndi það, hvaða ríkisvald sem reyndi það, mundi þreifa á því innan stundar, að hvorugur aðilinn, verkamenn eða atvinnurekendur, vildi láta sjálfsákvörðunarréttinn úr sinni hendi, um verðlagningu vinnuafls síns eða hitt af hendi atvinnurekendanna, hvort þeir skyldu kaupa vinnuafl ákveðnu verði, sem einhver dómstóll hefði úrskurðað þeim í hendur. En þegar þessar upplýsingar lægju fyrir frá nefnd, hefðu báðir aðilar ákvörðunarrétt um það, hvort þeir semdu eða legðu út í verkfall samkv. ákvæðum íslenzku vinnulöggjafarinnar.

Menn tala um, að vinnulöggjöfin íslenzka sé frumsmíð og ekki fullkomin og hafi ekki megnað að koma í veg fyrir vinnudeilur og þar með mikið tjór.. En ég er alveg sannfærður um það, að þó að beztu menn á Alþingi leggi höfuðin í bleyti og endurskoði lögin, bæði einu sinni og tvisvar og þrisvar, þá göngum við aldrei frá slíkri vinnulöggjöf sem sé þess megnug að tryggja, að aldrei geti komið til verkfalla. Brezka þjóðin er búin margsinnis að endurskoða sína vinnulöggjöf, og hún er engin nýsmið, og það eru ekki nema nokkrar vikur síðan varð alvarlegt verkfall í hafnarborgum Bretlands og vitanlega um þetta sama, verðlagningu vinnunnar. En þó að mönnum finnist þetta vera einfalt mál, þá er það mjög margbrotið og samsett, og það er alls ekki nema draumórar að tala um, að hægt sé að komast hjá verkföllum, því að þau eru í raun og veru alveg óumflýjanleg, svo framarlega sem á að virða sjálfsákvörðunarrétt hins vinnandi manns um verðlagningu sinnar eigin vinnu. Hins vegar er það orðið alviðurkennt af báðum aðilum og þjóðfélagsheildinni, að verkföllin geta verið dýr. Þau geta sett þjóðfélögin jafnvel úr skorðum og fjárhagskerfi þeirra, og til þeirra er ekki gripið fyrr en allar aðrar leiðir um friðsamlegt samkomulag eru fullreyndar og þrotnar. Þess vegna tel ég, að bæði nú og jafnan sé mjög eðlilega á hlutunum haldið og sé ekki við neinn um að sakast, þó að til verkfalls komi, ef aðilar hafa þreytt með sér samkomulag og samninga undir frjálsri aðstöðu, þangað til þeir komast ekki lengra, og mér finnst það vinsamleg afskipti af ríkisvaldi að setja þá valdamenn til sátta milli aðilanna, og það er það, sem hér hefur verið gert í þessu tilfelli. Þar er engu ofríki eða valdi beitt. Báðir aðilar geta sætt sig við slíka aðstoð frá hendi ríkisvaldsins, og í því felst eingöngu vinsemd, sem báðir aðilar hljóta að virða vel. En þegar ekkert af þessu dugir og löglegir frestir eru útrunnir, þá er ekki neitt við því að segja, þó að verkfall skelli á, þangað til lausn hefur fundizt við það, að annar hvor aðili hefur þá breytt um afstöðu eða þá að aðstaða hefur breytzt á einhvern þann veg, að samningar geti tekizt, þó að ekki hafi verið auðið að leysa þá án stöðvunar á vinnunni. En það að stöðva vinnuna er ekkert annað en það, að verkamaðurinn notar sinn helga rétt til að segja: Ég vil ekki selja vinnuafl mitt við því verði, sem atvinnurekendurnir hafa boðizt til þess að kaupa það. — Það er ekkert ósanngjarnt í því, og það mun enginn geta haldið því fram, að það væri siðmenningarlegt atriði að svipta hinn vinnandi mann réttinum til þessarar sjálfsákvörðunar um verðlag vinnunnar. En sanngjarnari leið á byrjunarstigi er ekki hægt að hugsa sér en það, að vinnuseljandinn, hinn vinnandi maður, gangi að samningaborði við þann, sem á að kaupa vinnuaflið, um það, hvernig þeir skuli verðleggja það. Slík sanngirni milli tveggja aðila er ekki algeng í kaupum og sölum viðskiptalífsins.