16.03.1955
Sameinað þing: 46. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (2595)

156. mál, samvinnunefnd

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til þess að lýsa því yfir, að það er misskilningur hjá hv. 3. landsk., ef hann álítur, að okkur greini á í þessum efnum, eftir því sem ræður okkar hafa fallið hér. Hann var ekki að tala um afstöðu mína, þegar hann var að lýsa því yfir, að það væri fjarstæða að hugsa sér, að upphafinn yrði réttur til verkfalla, og ég hafði síður en svo gefið ástæðu til þess, að hann mætti halda, að ég vildi ekki viðurkenna „hinn helga rétt“ verkamannsins til þess að neita að vinna, ef hann telur sig rangindum beittan. Ég hafði þvert á móti í sambandi við þessa tillögu, sem felur sjálf í sér viðurkenningu á hinum „helga rétti“, ef hún er rétt lesin, lagt áherzlu á það, að að því væri alls ekki stefnt með tillögunni að koma í veg fyrir það með banni, að verkföll og verkbönn gætu átt sér stað. En hins vegar er að því stefnt með till. að tryggja það, að sá undirbúningur fari fram, sem allir viðurkenna að þurfi að eiga sér stað og allir hafa látið í ljós, sem um þá deilu hafa talað, sem nú stendur yfir, að ekki hafi verið gætt í undirbúningi þeirra samninga, sem nú er verið að gera. Ég tel, að það hafi komið skýrt fram hér áður frá hv. 3. landsk. þm., að hann lítur svo á, að þær rannsóknir, sem nú er búið að gera, hefði þurft að gera fyrr og þær hefði þurft að gera með samkomulagi aðila, svo að hver um síg viðurkenndi, að rétt væri lagt til grundvallar, þegar reiknað er út. Hv. 2. landsk. (BrB) komst þannig að orði: „Hlutdrægnislaus rannsókn hefði þurft að fara fram fyrir löngu“. Og það er einmitt þessi hlutdrægnislausa rannsókn, sem við flm. till. viljum gera ráðstafanir til að gerð verði. Það er ekki hægt að gera hana í tæka tíð fyrir þá deilu, sem nú stendur yfir, en það er hægt að hafa þann viðbúnað, að slík deila rísi ekki aftur, án þess að slík rannsókn liggi fyrir, sem geti verið grundvöllur til samkomulags og þannig komið eðlilega í veg fyrir það, að verkfall skelli á, sem allir viðurkenna að sé til tjóns fyrir alla og aðeins má eiga sér stað að mínu viti sem nauðvörn, þegar sanngjarnir samningar takast ekki.

Hið eina, sem okkur hv. 3.landsk. greindi á um, eftir því sem orð féllu áðan, er það, að ég taldi, að arðrán gæti átt sér stað bæði að því er snerti vinnuveitandann og kaupþegann. Hann sagði, að kaupþeginn gæti aldrei arðrænt vinnuveitandann, en ég hygg, að svo langt sé hægt að ganga í kröfum að ofreyna vinnuveitandann, og þó að megi segja, að hann hafi það úrræði jafnan, þar sem frelsi ríkir eins og hér á að ríkja hjá okkur, að láta ekki vinna, ef honum þykir of mikils krafizt fyrir vinnuna, þá eru það orð ein. Það er staðreynd, að þegar samtök kaupþega eru orðin eins sterk og þau eru nú, þá er það sama að láta ekki þann vinna, sem gerir kröfuna, og að gefast upp við að reka atvinnuna, vegna þess að svo yfirtæk eru samtökin orðin, að það er ekki í annað hús að venda fyrir vinnuveitandann, og iðulega á hann þá líka í hættu vöru sína, t. d. eins og sá, sem rekur hraðfrystihús, þannig að það er svo mikið í húfi, að hann þolir ekki verkfallið og getur þá þurft að ganga svo langt í samningum, að atvinna hans standi ekki undir, og það fari þannig með atvinnurekstur hans, að hann falli fyrir arðráni. Verkalýður, sem ofþjakar atvinnuvegina með kaupkröfum, er eins og sláttumaðurinn, sem eyðileggur sprettu næsta árs með því að slá of nærri, og eyðileggur þá auðvitað aðstöðu sína, um leið og túnið er skemmt.

Ég vona, að hv. þingmenn hafi skilið mig þannig og tillöguna einnig, að það vakir ekkert annað fyrir okkur, sem hana flytjum, en að skapa grundvöll fyrir því, að hlutlaus rannsókn geti jafnan legið fyrir, þegar greinir á um kaup og kjör, og sanngjarnir samningar tekizt, sem leiði af sér réttláta og sanngjarna skiptingu þjóðarteknanna til hagsældar fyrir alla.