15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér skildist á hv. 11. landsk., að hann vildi láta nokkuð liggja á milli hluta, hvor hefði á réttu að standa, hann eða ég, um það, sem á milli ber, og ég get að sjálfsögðu ekkert við því sagt. Ég hef áður sagt, að ég tel mig nokkuð kunnugan þessum málum, og mér fannst á hans ræðu, þ.e.a.s. miðræðu hans, að mín þekking sé ekki síður haldgóð en hans.

Hv. þm. vildi nú fullyrða, að það væri óumdeilanlega sannað, að kauphækkanir til handa sjómönnum hefðu verið nær 500 þús. Ég vil ekki gera mig að dómara í því, en ég efast ekki um, að hann trúir því, að ég segi það rétt, að sumir af stærstu útgerðarmönnunum hafa sagt mér, að þetta væri rangt. Það væri enn ósannað, hvort það væri nokkuð verulega fram yfir 300 þús.

Hv. þm. segir, að þeim hafi verið ljóst í milliþn., að raunveruleg afkoma skipanna var 100 þús. verri á skip en reikningarnir báru með sér. Ef svo er, þá tel ég, að þeir hefðu átt að leggja til aðra tölu heldur en þessi 950 þús., sem við var miðað, og er varla við mig um það að sakast.

Út af tekjuliðunum eða út af þeim kjarabótum, sem ætlað var að fengjust við niðurfærslu á tilkostnaði og uppbótum á verðlagi á fiski, vil ég aðeins segja það, að ef ég man rétt, þá var heildarupphæð niðurfærslnanna á tilkostnaði ekki meiri en 155 eða 165 þús. Karfaverðið hefur fengizt hækkað, og eins og ég gat um, þá er olíuverðið nú þegar lækkað í samræmi við þessar till., og þá eru aðeins eftir svo sem 100–120 þús. af þeim till., sem nefndin var að fjalla um, en ekki hefur fengizt framgengt enn þá og fæst kannske ekki, en það eru þá ekki nema 40–45% af sjálfri fyrningarupphæðinni, sem á að vera innifalin í 950 þúsundunum.

Ég get hugsað, að þessi ágreiningur okkar um, hverra tekna sé að vænta af bilaskattinum, stafi kannske nokkuð af því, að innflutningsskrifstofan hafði verið eitthvað bjartsýnni um þetta í öndverðu heldur en hún er nú, þegar nokkur reynsla er fallin á um þetta. En ég endurtek, að samkvæmt skriflegri yfirlýsingu frá skrifstofunni má ekki reikna með, að hennar viti, meira en 30 millj. kr. tekjum af bílaskattinum á árunum 1954 og 1955. Ég leiði aðeins athygli að því, að það er viss tegund bíla, sem hefur t.d. orðið að fella undan bílaskattínum, svokallaðir Rússabílar. Þeir reyndust ekki seljanlegir, og enginn vildi kaupa þá við því verði, sem á þeim var, og eru víst ekki heldur seldir enn þá, þó að skatturinn hafi verið felldur niður af þeim. Það lækkar að vísu tekjur þessa sjóðs um 1.2 millj., ef ég man rétt, miðað við það, sem orðið hefði, ef bílarnir hefðu selzt. En það vildi, eins og ég sagði, enginn kaupa neinn af þeim bílum, og er enn þá vandséð, hvort þeir seljast, þó að þeir séu nú orðnir skattfrjálsir.

Ég vil aðeins upplýsa það, að ég hef út af bæði tekjuhlið sjóðsins og líkum fyrir útgjöldum nú í kaffihléinu borið mig saman við þá menn, sem eiga um þetta að fjalla, og allt það, sem ég nú segi, er af þeim staðfest. Varðandi útgjaldahliðina skal ég enn árétta, að það þykir lítill vafi á því, að hún verði 12 millj. á þessu ári. Á árinu 1955 er miðað við, að hún verði 27 millj. Hv. 11. landsk. telur það nokkuð hátt áætlað. Það má vera, að það muni 1 millj. eða 2. Það er, eins og hann segir, miðað við 43 togara í 315 daga, sem eru rúmar 27 millj. Það skeikar aldrei miklu. En meginatriðið er, að hans tekjuáætlun stenzt ekki, því að hann reiknar með 18 millj. á árinu 1954, dregur af því þá ályktun, að úr því að 18 millj. komu inn af þessum skatti 1954, muni aðrar 18 millj. koma inn 1955. Þannig fær hann 36 millj., í stað þess að innflutningsskrifstofan áætlar 30 millj. En ég get tekið undir með honum um það, að það sé kannske ekki vert að staðhæfa endilega upp á milljón, hvað getur komið inn af þessum skatti. Úr því sker reynslan. En ég verð að sjálfsögðu að halda mér að því, sem innflutningsskrifstofan segir um þetta. Þetta munar 6 millj.

Í viðbót við þetta segir svo hv. þm., að ef því fáist framgengt, að dýrtíðarsjóðsgjaldið af bílunum verði látið renna í þennan sjóð, þá falli þar sjóðnum nýjar 12 millj., 6 millj. af gjaldinu 1954 og 6 millj. af gjaldinu 1955. En þetta er, eins og ég sagði honum áðan, mikill misskilningur, sem stafar, eins og ég sagði, af því, að þetta dýrtíðarsjóðsgjald hefur ekki verið tekið af atvinnubílstjórum, og því hefur verið lýst yfir hér í þinginu, að heimild, sem um þetta er, yrði notuð, að gefa öllum atvinnubilstjórum eftir þetta gjald. Hann nefndi einn stóran aðila, sem átti að hafa fengið 250 þús. sem eftirgjöf í þessum efnum. Mér er ekki kunnugt um, við hvern hann á. En ef það er einhver bilastöð, sem það hefur fengið, eða bílastöðvareigandi, þá er það af því, að hann feilur undir þetta ákvæði um atvinnubílstjóra. Ríkisstjórnin getur náttúrlega ekki sagt við einn aðila: Þú skalt fá afsláttinn sem atvinnubílstjóri — en við annan: Þú færð hann ekki. — Varðandi aftur dýrtíðarsjóðsgjaldið á sendiferðabílunum, þá hefur það aldrei verið lagt á og aldrei tekið frá öndverðu. Ég held þess vegna, að þó að þetta gjald fyrir árin 1954 og 1955 félli sjóðnum, þá mundi það ekki nema að óbreyttri framkvæmd nema um 4–41/2 millj. kr.

Ég vona, að mér hafi tekizt að gera grein fyrir, hvað okkur ber á milli í þessum efnum, og árétta það enn, að ég hef í þessu stuðzt við þær skýrslur, sem innflutningsskrifstofan hefur látið stjórninni í té um þetta. Menn verða þess vegna að horfast í augu við það, að ef þeir vilja bæta togurunum annað og meira heldur en gert er ráð fyrir í frv. stjórnarinnar, þá verða þeir að vera reiðubúnir til þess að leggja nýja skatta á þjóðina.

Innflutningsskrifstofan ætlar, að tekjurnar verði 30 millj. og útgjöldin 39 millj., þ.e.a.s.: það er 9 millj. kr. halli þarna. Að einhverju leyti vona ég að sá halli vinnist upp við það, að bilainnflutningurinn verði meiri en gert er ráð fyrir, og að einhverju leyti gæti skapazt jöfnuður við það, að útgerðardagarnir yrðu færri, þótt það sé nú ekki æskilegt út af fyrir sig. Ég vil ekki staðhæfa, að útgerðardagarnir séu endilega 315 frekar en 290 eða 300 eða 306, eins og nefndin ætlaði í sínum útreikningum. En ef á að bæta þarna við 1000 kr. á dag til hvers togara, þá mun það nema, eins og ég áðan sagði, um 13 millj. í viðbót. Og menn verða að athuga það vel, hvort þeir telja fært að leggja á þjóðina nýja skatta sem þessu nemur, og þá jafnframt, hvort þeir telja það óumflýjanlega nauðsyn. Ég er meðal þeirra aðila, sem eins og hv. þm. njóta góðs af því, ef togararnir fá meiri styrk. En ég er líka meðal þeirra aðila, sem eins og hv. þm. eiga að bera ábyrgð á því að leggja nýja skatta á þjóðina. Ég hef valið þann kostinn á þessu stigi málsins að veigra mér við að leggja á nýja skatta, út frá þeirri bjartsýni minni, að hægt verði að komast af með þann styrk, sem togararnir nú fá. Ég játa með honum, að ef við þyrftum að horfast í augu við það, að togararnir lægju bundnir í stað þess að sækja á miðin, þá er það náttúrlega dýrasta lausnin í málinu. En ég efast ekkert um það, að hann og aðrir togaraeigendur muni gera það, sem í þeirra valdi stendur til þess að freista til hins ýtrasta að forða þjóðinni frá því böli, sem stöðvun togaranna er og ævinlega hlýtur að vera, og muni meta það við ríkisstj., að hún hefur fylgt hans till., svo langt sem þær náðu, í aðalefnum og auk þess ákveðið að leggja af mörkum verulega aukið fé til þess að leita að nýjum fiskimiðum í því skyni að reyna með þeim hætti að bæta hag útgerðarinnar. Ég dreg það ekki í efa, að það, sem hv. þm. sagði um afkomu Siglufjarðartogaranna, sé rétt. Ég veit líka, að hann getur vel bent á skip, sem á sama tíma hafa haft arð, en ekki tap. Ég hygg, að Siglufjarðartogararnir hafi, að því er varðar stjórn þeirra í landi, verið reknir á heilbrigðum grundvelli, en lánið hefur ekki fylgt þeim, eins og við vitum, frekar en ýmsum öðrum. En það dæmi eitt getur ekki sannað neitt um afkomu heildarinnar, að minnsta kosti ekki svo, að það verði ákvarðandi um, hverjar ráðstafanir verða gerðar.