20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (2600)

156. mál, samvinnunefnd

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er vissulega um mjög merkilega tilraun að ræða, ef það gæti tekizt með þeirri till., sem hér liggur fyrir frá fjvn. sem brtt. við till. á þskj. 392, að koma á samstarfsnefnd á milli verkalýðssamtakanna annars vegar og Vinnuveitendafélags Íslands hins vegar. Og að flestu leyti er það góðra gjalda vert, að ríkið hlutist til um slíkt og óski eftir að fá að gera slíkt á sinn kostnað, enda er náttúrlega engin spurning um það, að ef með því að styðja myndun svona n. og kosta hana væri stutt að því að koma í veg fyrir langar og dýrar vinnudeilur, þá væri stórkostlega mikið unnið. En það er hins vegar gefið um leið, að Alþ. þarf að sínu leyti að búa vel í hendur þeirra n., sem eru skipaðar til þess að vinna svona verk.

Hér er talað um, að slík n. eigi að rannsaka afkomu atvinnuveganna og hag almennings. Nú er það svo, að þegar hagur almennings er rannsakaður, þá liggur það venjulega fyrir sem opin bók, og það er hlutur, sem raunverulega atvinnurekendur og þeirra fulltrúar alltaf hafa haft aðgang að og það opinbera í gegnum hagstofuna hefur látið rannsaka ár frá ári, hvernig hagur almennings sé, hvernig hans afkoma sé, hvernig dýrtíðin verki á hans lífsafkomu og annað slíkt. Hins vegar er afkoma atvinnuveganna í heild. Þótt undarlegt megi virðast, hefur að mjög miklu leyti verið reynt að halda henni sem lokaðri bók fyrir þjóðinni. Í hverju einasta landi í kringum okkur getum við farið í hagstofu viðkomandi þjóðfélags, við getum flett þar upp í stórum skýrslum, við getum séð þar, hvað hvert einasta stórfyrirtæki í landinu greiðir í vinnulaun, hvað það hefur í ágóða, hvað það borgar sínum forstjórum, og annað slíkt. Við getum í eins hákapítalistísku landi og Bandaríkjum Norður-Ameríku séð, hvað General Motors — eða hvert af þessum stórfyrirtækjum sem er — greiðir í vinnulaun, hvað það hefur í gróða og hvernig afkoma þess er. Við getum í landi eins og Svíþjóð rannsakað þetta. Í hagstofunni liggur fyrir vitneskja um hverja einustu atvinnugrein landsins. Í engu af þessum löndum þykir eðlilegt að vera að reyna að dylja afkomu atvinnuveganna.

Ég vil leyfa mér að vonast til þess, þegar Alþ. nú hefur frumkvæði um, að svona n. sé skipuð til þess m. a. árlega að afla þeirra upplýsinga, sem n. telur sig þurfa um afkomu atvinnuvega landsins, að þá verði virkilega opnuð fyrir slíkri n. öll skjöl og skilríki viðvíkjandi afkomu atvinnuveganna. Og þegar talað er um atvinnuvegina, þá er ekki aðeins átt við sjávarútveginn, iðnaðinn og landbúnaðinn og annað slíkt, sem margt liggur nú yfirleitt fyrir um. Það er átt líka við verzlunina, bankastarfsemina, yfirleitt atvinnulíf þjóðfélagsins. Og þar sem venjulega í sambandi við þær deilur, sem eiga sér stað milli verkamanna og atvinnurekenda, er verið að deila um, hvort atvinnulífið beri ákveðnar kröfur, sem verkamenn gera til launa, — við skulum segja, þegar krafa er gerð um hækkun hjá bátaútveginum, togaraútveginum, skipafélögunum eða slíkum, — þá er raunverulega ekki aðeins verið að ræða um þessar einstöku atvinnugreinar, það er verið að ræða um atvinnulífið í heild.

Svo framarlega t. d. sem þjóðfélagið skiptir þannig á milli atvinnugreinanna, að einn atvinnuvegur — við skulum segja t. d. útgerð — er látinn tapa, en verzlun og bankastarfsemi látin græða, þá er það náttúrlega hlutur, sem viðkemur þeim, sem eru að rannsaka afkomu atvinnuveganna, og þá verða þeir jafnt að hafa aðgang að því, hvernig verzlunin, útflutnings- og innflutningsverzlun og innanlandsverzlunin, beri sig, þegar þeir ætla að athuga, hvernig sjávarútvegurinn standi. Og ég skil þessa till. þannig, að það sé vilji Alþ. með samþykkt hennar að veita fulltrúum þessara samtaka aðgang að því að rannsaka afkomu þessara atvinnuvega þar með í heild, jafnt bankar og stofnanir, sem hafa með — við skulum segja — fiskútflutninginn að gera, og aðrar slíkar séu skyldugar til að veita þessari n. allar þær upplýsingar, sem hún telur sig þurfa. Og án slíks skilnings á þessu er hætta á, að ekki yrði það gagn af þessari mikilvægu n., sem þarf að vera.

Þess vegna er það nauðsynlegt, að það sé gert alveg ljóst frá upphafi, ef við ætlum að reyna með samþykkt þessarar till. að fara inn á þá heppilegu leið að geta rannsakað þessa hluti vel fyrir fram, að þá þarf að hætta að vera svo, að afkomu atvinnulífsins sé haldið eins og lokaðri bók fyrir almenningi og fulltrúum hans.

Ég vil aðeins minna á það, vegna þess að hér er nú verkalýðssamtökum annars vegar og vinnuveitendasamtökum hins vegar stillt sem tveim jafnréttháum aðilum, af því að það eru þessir aðilar, sem þarna fyrst og fremst eigast við, að þá megum við ekki gleyma hinu, að tilgangur alls atvinnulífsins er að bæta kjör mannanna, sem vinna við það, og tryggja vellíðan fólksins, sem skapar framleiðsluna. Við þennan tilgang verður rekstur atvinnulífsins að miðast, og það verða menn að hafa í huga, að það er sjálf velliðan þegnanna í þjóðfélaginu, sem er tilgangurinn með atvinnurekstrinum; ekki neitt annað. Og atvinnurekendur verða að hafa það í huga, þegar þeir taka þátt í því af hálfu þjóðfélagsins að rannsaka hluti eins og þetta, að þeir hafa raunverulega aðeins með að gera þjónustustörf, sem þjóðfélagið hefur falið þeim, og þeim ber að rækja slík störf þannig. Við verðum að muna, að það er hægt að reka okkar þjóðfélag og öll okkar tæki án atvinnurekenda, en það er ekki hægt að reka það án verkalýðs. Það er verkalýðurinn, sem er sá aðili, sem skapar þennan auð, og án hans er ekki hægt að skapa hann. Atvinnurekendurnir og einkaeign þeirra á atvinnutækjunum er raunverulega form, sem þjóðfélagið í svipinn hefur kosið að hafa, með tilliti til þess, að atvinnurekendur standi í stöðu sinni, að þeir sjái um, að þessi atvinnurekstur sé rekinn þannig, að þjóðfélaginu megi vegna vel. Þjóðfélagið hefur stutt atvinnurekendur til slíks með stórkostlegum fríðindum, sem þeim eru veitt, t. d. um togaraflotann, stórvirkustu framleiðslutækin, þegar atvinnurekendur, að svo miklu leyti sem þeim beint eru fengin þau í hendur, fá frá þjóðfélaginu 75% af andvirði togaranna að láni með 2% vöxtum til 20 ára.

Og atvinnurekendur verða að muna það, að ef þeir standa ekki í þessari stöðu sinni og veita þessa þjónustu, þá getur þjóðfélagið, á hvaða tíma sem er, svipt þá þeim yfirráðum, sem þeir hafa yfir atvinnutækjunum, og tekið upp annað form, sem þjóðfélaginu kynni að finnast hentugra til rekstrar á atvinnuvegunum.

Þegar n. af hálfu þess opinbera athugar afkomu atvinnulífsins, þá þarf hún þess vegna að hafa það í huga, að atvinnulífið er til vegna þess, að vinnandi stéttirnar vinna við það, og til þess að þeim megi vegna betur.

Ég held, að það sé alveg sérstaklega nauðsynlegt að rifja þetta upp og minna á það með hliðsjón af þeirri vinnudeilu, sem nú stendur yfir, því að ég man ekki eftir, að í neinni vinnudeilu, og hef ég í 30 ár haft nokkuð með þær að gera, hafi atvinnurekendur eða hópur þeirra ríkustu og voldugustu af þeim sýnt annað eins offors, bókstaflega virzt ætla að beita sínu bolmagni og láta kenna síns valds, eins og í þessari dellu. Ég hef aldrei eins orðið var við það, að stóratvinnurekendurnir vilji láta finna til þess, að þeir séu svo að segja valdið í þjóðfélaginu, og slíkt getur þjóðfélagið ekki látið þeim haldast uppi, því að án þeirra getur þjóðfélagið vel staðizt, og sumir álíta máske betur án þeirra, en án verkalýðsins ekki.

Það er þess vegna alveg nauðsynlegt, að sá hugsunarháttur, sem menn bera í brjósti, þegar þeir ganga til samvinnu eins og hér er hugsað um, sé sá, að menn eigi að veita þjóðfélaginu þjónustu.

1. apríl, á hundrað ára afmæli frjálsrar verzlunar á Íslandi, var af hálfu fulltrúa einmitt verzlunarstéttarinnar og þ. á m. ýmissa stóratvinnurekenda undirstrikað, að þeirra störf væru þjónusta við almenning. Og það er sá hugsunarháttur, sem ekki á aðeins að vera á aldarafmælum og sérstökum tyllidögum; það er sá hugsunarháttur, sem þarf að vera í þeirri almennu framkomu atvinnurekendanna í þjóðfélaginu gagnvart verkalýðnum og gagnvart þjóðfélaginu í heild.

Íslenzk þjóð mun aldrei sætta sig við það, að hér rísi upp auðmannavald, sem ætlar að setja þjóðinni stólinn fyrir dyrnar. Íslenzk þjóð hefur áður fengið að kenna á slíku stórhöfðingjavaldi þannig, að hún mun ekki þola það. Alþýða landsins mun þá, ef stóratvinnurekendurnir ekki kunna sér hóf, heldur velja þá leið að breyta um rekstrarfyrirkomulag á atvinnulífi þjóðarinnar.

Verkalýðssamtökin hafa fyllilega sýnt það, þegar þau hafa haft afskipti af ríkisstj. landsins og af því að efla atvinnutækin, að þau hafa viljað gefa atvinnurekendum kost á að starfa fyrir þjóðfélagið og veita því eðlilega þjónustu, og verkalýðssamtökin hafa meira að segja haft forustu um það að veita stærstu atvinnurekendum landsins, eins og togaraeigendunum og eigendum hraðfrystihúsanna, alveg sérstaklega góð kjör af almannafé, 75% lán með 2% vöxtum til 15-20 ára, í trausti þess, að þessir menn skilji, að það er fyrir þjóðfélagsheildina, sem þeir eiga að starfa, að það er trúnaðarstarf, sem þeir hafa með höndum.

Þetta vildi ég aðeins segja, um leið og ég fyrir mitt leyti vil samþ. þessa till. Ég álít nauðsynlegt, að þetta sé rifjað upp, ekki sízt með tilliti til þess ástands, sem við nú búum við, því að ef okkur á að takast að firra þjóðfélagið þeirri ógæfu, að til slíkra átaka, svo langra og dýrra, þurfi að koma eins og nú hefur orðið, þá þarf stóratvinnurekendastéttin í landinu að breyta um hugsunarhátt. Og þegar tekið er upp samstarf eins og hérna er ætlazt til, að forgöngu ríkisins, þá þarf, til þess að það beri þann góða árangur, sem áreiðanlega er tilgangur allra þeirra, sem þetta samþykkja, þarna að verða breyting á. Og við skulum vona, að með samþykkt þessarar till. um að stofna til þessarar samvinnunefndar á vegum ríkisins megi það takast.