20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (2601)

156. mál, samvinnunefnd

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil láta hér koma fram þakklæti til hv. fjvn. fyrir afgreiðslu hennar á till. þessari, sem við erum flm. að, ég og hv. þm. A-Sk. (PÞ). Ég vil einnig þakka hv. frsm. n. fyrir meðmæli hans með till. og þá réttu grg., sem hann flutti um tilgang þann, sem kæmi fram í flutningi till. af hálfu flm. og grg. þeirra. Og einnig vil ég þakka öðrum þeim ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls og lýst stuðningi sínum við till.

Hv. þm. N-Ísf. minnti á till. fyrir 3 árum, sem hann var flm. að og saknaði að ekki hefði verið framkvæmd, taldi, að gengið hefði mjög í sömu átt og þessi till., sem hér liggur fyrir. Og vitanlega er það rétt, að sú till. gekk í sömu átt, en þó ekki jafngreinilega og þessi till. Hún var till. um rannsókn á greiðslugetu atvinnuveganna í eitt skipti fyrir öll, og fyrirmæli hennar voru til ríkisstj. um að láta þessa rannsókn um greiðslugetu atvinnuveganna fara fram innan 10 mánaða frá samþykkt till.Till. okkar snýst beint að því erfiða viðfangsefni, sem þjóðin hefur átt við að búa og sérstaklega stynur undir í dag, að vinnufriður megi vera tryggður. Og hún gerir ráð fyrir því, að sú nefnd, sem kosin verður, starfi árlega, því að árlegt er það viðfangsefni að halda við vinnufriðinum.

Ég tel þess vegna, að þó að þessi till., sem samþykkt var hér fyrir 3 árum, væri ekki framkvæmd, þá geti verið miklar vonir til þess, að þessi till. verði framkvæmd, af því að það liggur ljósara fyrir um hennar verkefni og þau beinast alveg að ákveðnu markmiði.

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) mælti mjög vel með till., en tók fram það, sem líka er alveg rétt, að ef þessi n. á að njóta sín í starfi, þá á hún að geta fengið þær upplýsingar, sem henni eru nauðsynlegar til þess að taka sína afstöðu. Þær upplýsingar mega ekki vera í lokuðum bókum, og það verður, eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, að gera ráð fyrir því, að þær verði það ekki. Og ef þær ætla að verða það, þá hygg ég, að n. hljóti að fá aðstöðu til þess að geta opnað bækurnar, hljóti að geta leitað sér heimilda til þess.

Verði till. samþ., þá leyfi ég mér að vænta þess og treysta því, að hæstv. ríkisstj. taki málið til árangursríkrar framkvæmdar. Og ég vil undirstrika það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að til þess að starf n. geti orðið árangursríkt, þarf það að vera þjónusta við þjóðina, þjónusta, til þess að vinnufriður geti ríkt, með það markmið fyrir augum, að tekjum þjóðarinnar verði réttlátlega skipt milli þeirra, sem að öflun þeirra vinna.