13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (2613)

55. mál, atvinnumál í Flateyjarhreppi

Frsm. (Pétur Ottesen):

Þessari till. til þál. um aðstoð vegna atvinnumála í Flateyjarhreppi var vísað til fjvn. á sínum tíma. Aðalefni till. er í tveimur atriðum: Í fyrsta lagi að koma hraðfrystihúsinu í Flatey nú þegar í rekstrarhæft ásigkomulag og afhenda það síðan hreppnum kvaðalaust með öllum áhöldum og öðru því, er húsinu tilheyrir. Í öðru lagi að greiða nú þegar til fólksins í Flateyjarhreppi öll ógreidd vinnulaun þess vegna fyrrverandi rekstrar frystihússins og útgerðar Sigurfara, enda verði þessar upphæðir látnar fyrst og fremst ganga til þess að mæta áföllnum og ógreiddum hreppsgjöldum þessara aðila. Þetta er efni till., eins og hún var, þegar henni var vísað til fjvn.

Það er alkunnugt, að í Flatey ríkir mjög ömurlegt atvinnuástand. Það hafa orðið þar eins og á nokkrum öðrum stöðum hér á landi á undanförnum árum miklar breytingar í atvinnuháttum til hins lakara. Áður fyrr var Flatey miðstöð allrar verzlunar og viðskipta við norðanverðan Breiðafjörð, þannig að byggðirnar við norðanverðan fjörðinn ráku alla verzlun sína í Flatey. Auk þessa var í nálægum eyjum á Breiðafirði á þeim tíma rekinn mikill búskapur. Þar voru margvísleg hlunnindi og auk þess rekin þar nokkur sjávarútgerð, og svo var það einnig í Flatey sjálfri. En þetta hefur á síðari árum gerbreytzt. Breytingar, sem orðið hafa á samgöngum í byggðum við norðanverðan Breiðafjörð, hafa valdið því, að verzluninni hefur verið beint í aðrar áttir, og hagnýting á margvíslegum hlunnindum í eyjum á Breiðafirði hefur mjög gengið úr sér hin síðari ár og er nú ekki nema svipur hjá sjón hjá því, sem áður var. Þetta allt saman hefur orðið þess valdandi, að atvinnulífi og afkomu manna í Flatey á Breiðafirði hefur hrakað mjög hin síðari ár og ávallt sigið á ógæfuhlið í þeim efnum. Fólkinu hefur fækkað og erfitt efnahagsástand verið ríkjandi í eyjunni.

Það ráð, sem til hefur verið gripið til að koma breytingu á í þessu efni til batnaðar, hefur verið að koma fiskveiðum aftur á fót og fiskverkun, hvort tveggja með nútímasniði útgerðarinnar, eins og hún er rekin í verstöðvum þessa lands. Það voru keyptir tveir vélbátar, og það var byggt hraðfrystihús í eyjunni: Afköst hússins áttu að vera það mikil, að það átti að geta verkað afla fimm stórra vélbáta. Hvort tveggja þetta var gert með nokkrum atbeina ríkisvaldsins í sambandi við ábyrgðir, sem ríkið tók á sig í sambandi við þessar framkvæmdir. En því miður fór svo um þær framtíðarúrbætur fyrir Flatey á Breiðafirði eða fyrir fólkið, sem þar býr, til breyttra og bættra atvinnuhátta, að þetta varð hvort tveggja mjög skammvinnt, og það er komið svo nú, að báðir þessir stóru vélbátar hafa verið seldir í burtu til annarra verstöðva. Afleiðing þess varð að sjálfsögðu sú, að öll starfræksla frystihússins lagðist niður. M. ö. o.: Þetta er komið í sama horfið og það var, og þó ef til vill nokkru lakara en það var áður en efnt var til þessarar nýju útgerðar í Flatey. Ríkið, sem var í ábyrgðum fyrir skuldum, sem til hafði verið stofnað til þess að reisa frystihúsið, hefur orðið að taka frystihúsið á sínar herðar og standa skil á greiðslum þessara skulda, eftir því sem samningar um þær standa til.

Svona stendur þá þetta mál nú, og það er vegna þessara miklu erfiðleika, sem ríkjandi eru í Flatey, að hv. þm. Barð. hefur flutt þá þáltill., sem ég nú hef lýst.

Fjvn. var vel ljóst, að það væri mikil þörf á því, að takast mætti að bæta úr þessu erfiða atvinnuástandi, sem ríkir á þessum stað, en það er vitanlega skilyrði þess, að fólk geti unað hag sínum í Flatey, að úrbætur fáist, því að fólkinu fækkar jafnt og þétt. Yngra fólkið leitar til annarra staða, þar sem atvinnu er að fá, en eftir sitja þá þeir einir, sem eiga þess ekki kost, og allir sjá, hverjar afleiðingar hljóta að verða af því, þar sem svo er málum komið.

Fjvn. vildi gjarnan geta unnið þessu máli eitthvert gagn og kynnti sér allar aðstæður eftir beztu föngum. Fjvn. ritaði félmrn. um þetta, en það hafði að sjálfsögðu haft afskipti af málinu, eins og komið var, og enda orðið á ýmsan hátt að grípa inn í til þess að firra beinum vandræðum, sem leitt hefur af stöðvun atvinnulífsins þarna. Í því svari, sem n. barst við þessu, fólust ekki neinar beinar till. um það, hvað til bragðs skyldi taka, hins vegar aðeins skýrt frá því, að þetta væri til athugunar í ráðuneytinu. Það lá fyrir og liggur fyrir í gögnum þessa máls, að eiginlega hafði aldrei verið til fullnustu gengið frá byggingu hraðfrystihússins, þó að það væri starfrækt um nokkurt skeið. Það skorti mjög á um frágang þess, og það leiddi til þess, að ýmislegt gekk þar úr sér og fyrningar urðu meiri en annars hefði orðið, ef betur hefði verið frá þessu gengið. Þetta vildi fjvn., áður en hún gerði nokkuð í málinu, kynna sér til hlítar, hversu ástatt væri um húsið, og í samráði við sjútvmrh. fékk nefndin tvo menn, kunnáttumenn á þessu sviði, til þess að fara vestur til Flateyjar og kynna sér ástand hússins, og að þeirri sendiferð lokinni fékk nefndin skýrslu þessara manna, og er þess getið hér í nál., að þeir líta svo á, að það mundi kosta um 270 þús. kr. að koma húsinu í nothæft ástand, svo að hægt væri að verka þar meðalafla tveggja stórra vélbáta. Ætti hins vegar að fullnota húsið, verka þar afla fimm stórra báta, þá mundi viðgerð og endurbætur kosta 791 þús. kr. Kemur skýrt fram í þessari skýrslu, að þetta stafar af því, að það hafði aldrei til fulls verið frá húsinu gengið og auk þess hafði margt gengið þar úr sér, einkum síðan hætt var að nota húsið. Nú var fjvn. –eða form. n. — tjáð það af flm. þessarar till., að væntanlega mundu fást allt að 300 þús. kr. af atvinnuaukningarfé til endurbóta á húsinu, en það er einmitt sú upphæð, samkv. skýrslu þessara tveggja manna, sem mundi nægja til þess að koma húsinu í nothæft ástand, þannig að hægt væri að verka þar afla tveggja stórra vélbáta, en það er vitanlega frumskilyrði þess, eins og nú er háttað útgerð hér, að það verði hægt að endurreisa útgerð í Flatey, að húsinu verði komið aftur í starfhæft ástand.

Fjvn. telur líklegustu leiðirnar til þess, að hægt væri að endurreisa útgerðina í Flatey, þetta, sem felst í yfirlýsingu hv. flm. þessarar till., að fjármagn muni vera fyrir hendi til þess að gera umbætur á húsinu, sem miðað hefur verið við, að gerðir væru þar út tveir vélbátar. Það er vitanlega frumskilyrði þess, að þar verði nokkuð að gert. Í öðru lagi verði ríkisstj. gefin heimild til þess að afhenda Flateyjarhreppi á Breiðafirði hraðfrystihúsið þar, eftir að þessi aðgerð hefði farið fram á því, en þó telur n. rétt að binda þessa afhendingu því skilyrði, að hreppsnefnd Flateyjarhrepps geti fært rök að því, að hún hefði tryggt sér fyrir næstu vetrarvertíð með útgerð á staðnum eða á annan háti það fiskmagn til vinnslu í húsinu, er tryggt gæti rekstur þess. Fjvn. leit svo á, að rétt væri að binda afhendingu hússins þessu skilyrði, því að það er vitanlega aðalatriði þessa máls, að útgerð geti hafizt þarna aftur. En takist ekki að endurvekja útgerð á staðnum með þessum hætti eða með því að fela hreppsnefndinni forustuna í því máli, þá leggur n. til, að ríkisstj. verði veitt heimild til að bjóða húsið til sölu eða leigu þeim, er hefja vildu útgerð í Flatey, og jafnframt,að ríkisstj. fái heimild til þess að leggja fram nokkurt fé — ef nauðsyn krefur — eða ríkisstj. fengi heimild til þess að veita væntanlegum kaupendum eða leigjendum nokkurn fjárhagsstuðning með ábyrgð, ef það væri óhjákvæmilegt, á láni, sem þeir tækju til endurbóta á húsinu. Enn fremur er í till. gert ráð fyrir því, að ríkisstj. afli sér nauðsynlegra heimilda til ráðstafana samkv. ályktun þessari. Þetta er tilkomið af því, að það er talið, að eigi sé fært með þáltill. að veita ríkisstj. heimild til þess að afhenda eignir ríkissjóðs, heldur verði að gera það með lögum. Nú er mér að vísu sagt, að sú venja hafi tíðkazt, a. m. k. upp á síðkastíð, að þegar um er að ræða eignir, sem ríkið hefur orðið að yfirtaka vegna ábyrgða á skuldum þess, þá sé litið svo á, að ekki þurfi slíkrar heimildar. Fer þá að sjálfsögðu um þetta atriði málsins eftir þeim venjum, sem máske hafa myndazt um þetta, og sé þess vegna ekki nauðsynlegt í þessu tilfelli að afla frekari heimildar fyrir afhendingu hússins en þeirrar, sem í þáltill. felst.

Þetta eru þá þær till. til lausnar á þessu máli, sem fjvn. telur eftir atvikum líklegastar til þess að geta aftur komið á grundvelli undir varanlegt atvinnulíf eða atvinnuástand í Flateyjarhreppi.

Það er vitað, að á þeirri vertíð, sem nú stendur yfir, var geysilega mikil fiskgengd á Breiðafirði, og útgerðin á þeim stöðum, þar sem hún er rekin, í Stykkishólmi, Ólafsvík og lítils háttar á Sandi, hefur þess vegna gengið mjög vel. Og það má fullkomlega álykta, að sömu eða svipuð skilyrði hefðu verið fyrir hendi að þessu sinni í Flatey, ef þar hefðu verið tiltækir vélbátar og hraðfrystihúsið í því ástandi, að það hefði getað verkað afla þeirra. Eftir því sem mér er tjáð, mun aðstaða til fiskisóknar í Flatey vera nokkuð svipuð og úr Stykkishólmi, og það er vitað, að útgerð þaðan gengur vel um aflabrögð, og þess vegna hefði fullkomlega mátt vænta þess, að slíkt hið sama hefði verið upp á teningnum í Flatey, ef þar hefðu verið bátar til fiskveiða og hægt hefði verið í frystihúsi að sjá um verkun á afla þeirra.

Það var þetta, sem ég vildi taka fram í sambandi við þessa till. fyrir hönd fjvn.