13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (2614)

55. mál, atvinnumál í Flateyjarhreppi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að færa hv. fjvn. þakkir fyrir afgreiðslu á þessu máli og þær till., sem hún ber fram í sambandi við till. mína á þskj. 70, en þær till. eru hér á þskj. 544. Og ég vil alveg sérstaklega leyfa mér að þakka hv. formanni n. fyrir þá miklu vinnu, sem hann hefur lagt í að kynna sér þetta vandamál, svo sem glögglega kom fram af hans skýru ræðu hér áðan.

Eins og hv. frsm. tók fram, var till. mín á þskj. 70 í tveimur liðum. Önnur till. var að afhenda frystihúsið til Flateyjarhrepps, en hin að greiða nú þegar til fólksins í Flateyjarhreppi öll þau ógreiddu vinnulaun, sem það vegna fyrrverandi rekstrar frystihússins og útgerðar Sigurfara hafði ekki fengið greidd og eru raunverulega nokkurn veginn sama upphæð og þetta sama fólk á enn ógreitt til hreppsins í útsvörum.

Ég skil vel afstöðu hv. fjvn. til þessa máls, að sé vandasöm og varhugaverð leið að fara inn á að leggja til, að ríkissjóður greiði slíkar upphæðir, enda þótt hreppsnefnd

Flateyjarhrepps hafi lagt á það mjög mikla áherzlu, að þetta yrði gert, og sjálfur hef ég þann skilning á málinu, að það geti verið Flateyjarhreppi og fólkinu þar meiri hjálp að fara þá leið, sem hér er lagt til af hv. fjvn., ef hæstv. ríkisstj. fellst á að taka við þeirri ályktun, sem hér væntanlega verður samþykkt, og framkvæma hana eins og gert er ráð fyrir. Tel ég persónulega, að það verði meiri hjálp fyrir hreppinn en þó að mætt hefði verið þeirri ósk, sem sett var fram í 2. tölul. í þáltill. á þskj. 70. Um þetta er því enginn efniságreiningur á milli mín og hv. fjvn,, og ég vildi, að það kæmi hér fram við þessa umr.

Hv. frsm. gat þess í sinni ræðu, að ég hefði upplýst sem flm. till., að Flateyjarhreppi væru ætlaðar allt að 300 þús. kr. af því fé, sem veitt er til atvinnuaukningar í landinu, ef þessi till. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir á þskj. 544. Strax og mér var kunnugt um till. hv. fjvn., innti ég skrifstofustjórana í atvmrn. og félmrn. eftir þessu atriði, vegna þess að þeir höfðu ávallt tjáð mér, að þeir hefðu jafnan gert ráð fyrir því, að allt að þessari upphæð yrði varið til atvinnubóta í Flatey, þegar vitað yrði, hver yrði hinn raunverulegi eigandi að þessu mannvirki, en eins og kunnugt er, hefur þeim verið falið að gera tillögur um úthlutun á atvinnubótafénu. Tjáðu þeir mér þá, að við það stæði enn, að þeir mundu leggja til, að þessu fé yrði varið til þessara framkvæmda, og geri ég þess vegna ráð fyrir enn, að þetta fé sé fyrir hendi, ef till. verður samþykkt.

Ég get að sjálfsögðu fellt mig við þau skilyrði, sem hv. fjvn. setur fram með sinni tillögu fyrir því, að eignin verði afhent til hreppsins, svo sem þar segir. Ég tel hana mjög sanngjarna og eðlilega í alla staði. Með þessu er hreppsnefnd Flateyjarhrepps gefið tækifæri til þess að koma þessum málum í viðunandi horf fyrir hinn tilsetta tíma, þ. e. fyrir næstu vertíð, ef ekki verður nein tregða á með það fé, sem ætlazt er til að fari til þess að endurbæta húsið og koma því í rekstrarhæft ásigkomulag, svo að hægt sé þegar að byrja á því verki, eftir að till. hefur fengizt samþykkt hér í hv. Alþingi. En þá tel ég, að viðkomandi aðilar, þ. e. hreppsnefndin, muni, eftir því sem ég hef rætt við þá, sjá sér fært að uppfylla þær kröfur, sem hér eru settar fram, enda hef ég haft fullt samkomulag við hreppsnefndina um þessi mál og tilkynnt henni, hvaða vonir stæðu til um aðstoð í þessu skyni. Takist ekki að uppfylla þessi skilyrði, þá þykir mér ekki nema eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hafi fullan rétt til þess að ráðstafa eigninni á annan hátt, svo að ég get einnig fallizt á þetta skilyrði, sem hér er fram sett, og vil svo ljúka máli mínu með því að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki vinsamlega við þeirri ályktun, sem hér er gerð, ef hún verður samþ. hér á þinginu, svo að þegar megi hefjast handa um að bæta úr því atvinnuástandi, sem ríkir í Flatey nú í þessum málum. Ég vil svo að endingu endurtaka þakklæti mitt til hv. fjárveitinganefndar fyrir afgreiðslu málsins.