23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (2624)

98. mál, Geysir

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þessi litla þáltill., sem við flytjum hér tveir á þskj. 165, gengur út á það að fela ríkisstj. að rannsaka og gera athuganir viðvíkjandi Geysi.

Það veit hvert mannsbarn, að Geysir er eitt af okkar stóru náttúruverðmætum og náttúruundrum hér á landi, sem gerir land okkar merkilegt m. a. og gerir það að verkum, að þeir menn, sem hingað koma, vilja gjarnan gista hann. Við vitum líka, að það var svo um skeið, að Geysir var kominn úr íslenzkri eign og var keyptur aftur og gefinn landinu, en um það leyti og reyndar fyrr fór að bera á því, að hann var orðinn þreyttur og farinn að verða tregur til að gjósa, og seinast var hann eiginlega lagztur til hvíldar. Þá var það prófessor Trausti Einarsson, sem gerði á honum ýmsar athuganir og fékk hann með því annars vegar að lækka vatnsyfirborð hans og hins vegar að setja sápu í hann til þess að gjósa a. m. k. stundum. Á síðari árum virðist þetta aftur verða tregara, enda gat Trausti prófessor aldrei fullendað sínar rannsóknir. Hann gat aldrei gert athuganir á því, hvort það þurfti álíka mikið sápumagn í misjöfnu veðurfari.

Það er almennt talið svo, að þegar stendur á norðan og er með kulda og hvassviðri, þá þurfi a.m.k. meira til að fá Geysi til að gjósa en þegar logn er og stilla. Og þetta er í sjálfu sér ósköp skiljanlegt, því að vatnsinnrennslið í Geysi er takmarkað, það er eitthvað á þriðja lítra, líklega í kringum 2½ 1 á sek. neðan frá, og ef kuldinn er það mikill, að þetta heita vatn, sem kemur á hverri sekúndu inn í hann, nær ekki að gera hann nógu heitan, af því að yfirborðið kælist svo fljótt, þá þarf sjálfsagt meira til að fá hann til að gjósa en ella. Síðan hefur Þorbjörn Sigurgeirsson forstjóri rannsóknaráðs ríkisins gert á honum nokkrar athuganir. Það hafa fengizt ný tæki, sem hafa ekki verið til hér á landi fyrr en nú seinustu árin, sem hægt er m. a. að finna með, hve stórir vatnsgeymarnir eru niðri í jörðinni, sem vatnið kemur frá inn í skálina neðst, og fleira. Þessar athuganir hans hafa líka verið ákaflega takmarkaðar, bæði hefur hann ekki haft tíma til þess og ekki aðstöðu til þess, svo að út úr þessu öllu er ekki komið neitt enn þá, sem gefi manni til kynna, hvað helzt þarf að gera til þess að reyna að fá Geysi til að gjósa, ekki heldur hvort það, sem gert er nú, gæti verið þess valdandi að skemma hann til frambúðar. Það hefur ekki heldur verið rannsakað. Mér er sagt, að þar sem hefur verið sett sápa í goshveri áður, t. d. í Ameríku, til að fá þá til að gjósa, sé því nú hætt.

Þessi till. fer fram á það, að ríkisstj. hlutist til um, að einhver rannsaki þetta, — ég vil láta það í vald ríkisstj., það gæti bæði hugsazt, að það ætti að vera í höndum rannsóknaráðs ríkisins, og eins að það væri í höndum Geysisnefndarinnar. Á báðum stöðunum er til staðar fagþekking, sem getur komið að góðum notum til að leysa úr og skipuleggja þær athuganir og tilraunir, sem gera þarf. En ég vil láta gera þetta. Ég hef lent í því, seinast í sumar, að þurfa að vera við Geysi með nokkra tugi af erlendum mönnum í vonzkuveðri. Þá langaði í gos, og það var verið að setja í hann sápu, sápu á sápu ofan, og telja okkur trú um, að nú gysi hann bráðum og bráðum, og þarna hímdi fólkið kalt og illa til reika í um 6 tíma til þess að bíða eftir, að hann gysi, og alltaf sett ný og ný sápa á svo sem klukkutíma fresti og sagt, að nú mundi koma gos og nú mundi koma gos, en sýnilega vantaði alla vitneskju um, hvort það yfirleitt þýddi að reyna að setja í hann sápu og því síður hvað mikla sápu undir þeim skilyrðum, sem þá voru. Aðrir halda því fram, að það hafi oftast nær verið hægt að fá Geysi til að gjósa, ef búið er til skjól, þannig að yfirborð hans kælist ekki eins snöggt og eins mikið, þegar vindur er. Þetta er líklegt, en hefur ekki verið rannsakað. Það mun hafa verið reynt einu sinni eða tvisvar svona að gamni sínu með þeim árangri, að þá fékkst gos, en því hefur verið hætt, af því að annað þeirra kom fyrr en menn bjuggust við, svo að það kom heitt vatn á menn og þeir brenndust, af því að þeir stóðu of nærri, einmitt vegna skjólsins. En þetta þarf allt að rannsaka, og það er það, sem við förum fram á, að þetta láti ríkisstj. rannsaka, og við gerum ekki tillögu um það, hver eigi að sjá um rannsóknina í framkvæmd.

Í Geysisnefndinni er Trausti Einarsson prófessor, og ef Geysisnefndinni yrði falið þetta og leyft að verja fé til þess, þá er enginn efi á því, að hann mundi sjá um, að það yrði gert og gert vel. Í rannsóknaráði ríkisins er Þorbjörn Sigurgeirsson framkvæmdastjóri þess, sem líka hefur fengizt við Geysisrannsóknirnar. Líklega eru þessir tveir menn hér á landi þeir, sem bezt þekkja til þess arna og bezt vita, hvað þarf að gera, hvað þarf að rannsaka og hvers árangurs má af því vænta.

Ég vænti þess, að sú nefnd, sem fær þetta til meðferðar, sjái sér fært að leggja til, að tillagan verði samþ., og ég legg til, að till. verði vísað til fjvn. að þessari umræðu lokinni. Ég skal geta þess, að ég hefði gjarnan af ýmsum ástæðum viljað hafa þessa till, fyllri. Ef Geysir næst upp aftur sem reglulega góður goshver og ef hann á að vera eitt af þeim aðalatriðum, sem við getum sýni erlendum ferðamönnum, þá þarf að skapa aðra aðstöðu við Geysi en nú er. Þá þarf að vera meira húsnæði en nú er og á heppilegri og betri stað en nú er, en ég tel, að það komi í aðra línu, ef það reynist ekki hægt að vekja Geysi til meira lífs en núna er. Ef ekki finnast leiðir til að láta hann gjósa, án þess að hann í framtíðinni biði skaða af því, þá er spurning, hvort þarf nokkuð að hugsa um hitt, og þess vegna hafði ég eingöngu snúið mér að því fyrst, að Geysir væri rannsakaður og að það fengjust skil á því, hvað helzt væri hægt að gera fyrir hann, bæði honum til viðhalds og eins honum til örvunar í gosum sínum.