13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2627)

98. mál, Geysir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Sem flytjandi þessarar tillögu hér inn í þingið vil ég fyrir hönd okkar flm. þakka fyrir þessa afgreiðslu. Ég vona, að till. verði samþ., og ég vona þá líka, að hún verði til þess, að ríkisstj. leggi fram það fé, sem þarf til þess að gera þessa rannsókn. En mér hefur skilizt bæði á Trausta Einarssyni, sem er einn í n., — ég man ekki heldur, hverjir eru í henni, — og Þorbirni Sigurgeirssyni, sem mun sömuleiðis vera í henni, að það hafi aðallega staðið á því, að n. hafi aldrei haft einn eyri til að gera neitt af því, sem þyrfti að gera eða athuga við Geysi; hún hafi bara verið til á pappírnum. En þegar Alþ. er búið að láta þann vilja sinn í ljós, að það vilji, að þetta sé gert, þá vænti ég þess, þrátt fyrir það, að fjvn. hafi sleppt aftan af till., að kostnaðurinn, sem af henni leiðir, skuli greiðast af ríkissjóði, að ríkisstj. samt sem áður greiði hann, svo að það verði eitthvað hafizt handa til að rannsaka það, sem hugsað er að þurfi að rannsaka og lagt er til með þessari tillögu að gert sé.