04.03.1955
Sameinað þing: 42. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (2642)

101. mál, samvinna í atvinnumálum

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 171, sem við hv. þm. A-Sk. (PÞ) flytjum, er um málefni, sem vanrækt hefur verið um of hérlendis og ekki má draga lengur að gefa gaum.

Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna til samvinnu við atvinnurekendur og kaupþegasamtök um skipulagningu vinnubragða og vinnukjara til þess að auka og bæta framleiðslu og afköst og veita almenningi — einnig á þann hátt — skilyrði til batnandi lífskjara.“

Þjóðfélagið styður bóndann til þess að stækka túnið, sjómanninn til þess að kaupa skip, iðnaðarmanninn til þess að fá raforku, verkamanninn til þess að geta selt vinnu sína o. s. frv. Ár frá ári hafa verið gerðar meiri og meiri kröfur til þjóðfélagsins eða stjórnar þess um íhlutun til aðstoðar, svo að velmegun allra sé tryggð, og þjóðarstjórnin, Alþingi og ríkisstj., veitir stuðning sinn meiri og meiri ár frá ári, svo sem vera ber. Ráðstafanir eru gerðar til þess að skipta þjóðartekjunum milli manna og mikið um þá hlið málanna rætt. Því meiri sem þjóðartekjurnar eru, því meira kemur auðvitað til skiptanna. En aðalundirstaða þjóðarteknanna er framleiðslan til lands og sjávar. Stækkun túnanna og fjölgun skipanna á vitanlega að auka framleiðsluna og gerir það líka. Aflgjafi fyrir iðnaðinn styður einnig að því, að tæki til framleiðslunnar skorti ekki. Rétt skipti þjóðarteknanna eru líka mikils verð.

Það, sem þjóðfélagið eða stjórn þjóðfélagsmálanna hefur sérstaklega vanrækt og till. miðast við, er að gera ráðstafanir til þess, að vinnan sjálf, sem lögð er fram við framleiðsluna eða við hagnýtingu framleiðslunnar eða við hvaða nauðsynleg störf sem unnin eru í landinu, verði sem árangursríkust, komi að sem mestum notum til hagsældar og farsældar, í fáum orðum sagt: að hvert handtak verði að fullu gagni eftir því sem unnt er, að hver maður leggi fulla alúð við verk sitt. Gera má ráð fyrir því, að þeir, sem vinna hjá sjálfum sér, hafi áhuga fyrir afköstum sínum, og þó þarfnast ýmsir þeirra örvunar af umhverfi og aldaranda, ef vel á að takast. En hinir, sem selja vinnu sína og fá sömu laun, hvort sem dagsverkið er mikið eða lítið. eru á annan veg settir. Vinnukappinu vill hraka, þar sem kaupið er fastbundið, enginn fær laun samkvæmt afrekum og einstaklingurinn hverfur með sín verk inn í verk heildarinnar. Sú mun reynslan alls staðar í heiminum. Þessu fylgja svo minni þjóðartekjur en verða mættu annars, minni velmegun og minni starfsgleði og þá um leið minni farsæld í þess orðs miklu merkingu.

Dr. Guðmundur Finnbogason er sá Íslendingur, sem mest hefur rætt og ritað um gildi vinnunnar. Hann sagði í bók sinni, „Vinnan“, með leyfi hæstv. forseta:

„Vinnan er dagleg viðskipti vor við tilveruna og um leið hin allra mestu og alvarlegustu. Hún er þær athafnir vorar, sem miða að því að fá vald yfir hlutunum. haga þeim eftir þörfum vorum og umskapa heiminn í þjónustu lífsins. Í vinnunni kemur eðli verkamannsins fram, og hann verður eins og hann vinnur. Þar verkar hvað á annað. Sá, sem ekki nýtur sín í störfum sínum, hefur ekki komizt í heilbrigt samband við heiminn. Þess vegna ætti það að vera alvarlegasta áhugaefni hvers manns að verða sem hæfastur starfsmaður, og ekkert ættu þeir, sem þjóðinni stjórna, fremur að stunda en að koma því skipulagi á vinnuna, að hver maður fái notið sín, sjálfum sér og þjóðinni til gagns.“

Þetta segir dr. Guðmundur Finnbogason, og till. okkar hv. þm. A-Sk. er einmitt um það, að þeim, sem þjóðinni stjórna, sé falið að beita sér fyrir, að komið verði slíku skipulagi á vinnuna.

Maðurinn, sem nú selur vinnu sína hérlendis, á varla annars úrkosta til þess að bæta kjör sín en krefjast þess, að tímavinna hans eða árslaun séu hækkuð, og til þess að fá því komið í kring, þarf hann að fá stéttarfélag sitt til þess að setja hnefann í borðið. Honum gagnar ekki sú aðferð að skila meira og betra verki. Sjaldan fær hann fram fyllstu kröfur sínar, og hví skyldi hann þá vera að kappkosta að leggja sig allan fram við verkið? Greiðslugrundvöllurinn er þannig, að undan fæti hallar til öfugþróunar, af því að maðurinn verður eins og hann vinnur, eins og Guðmundur Finnbogason sagði, og tekjur þjóðarinnar verða minni en ella vegna þessa skipulags.

Í Bretlandi starfar síðan 1952 félagsskapur, sem nefnist „The British Productivity Counsil“. Tilgangur þessa félagsskapar er að auka afköst í öllum framleiðslugreinum, örva framleiðsluna og bæta vinnubrögð. Þetta eru samtök áhugamanna úr hópi framleiðenda og verkalýðs í sameiningu. Af ársskýrslu félagsins fyrir s. l. ár má sjá, að um hundrað nefndir, skipaðar mönnum úr vinnuveitendahópi og af verkalýðsfélögum, störfuðu árið sem leið víðs vegar í landinu. í þessum nefndum voru einnig kennarar í verklegum efnum, þar sem því varð við komið. Nefndirnar stofnuðu til viðræðna mllli framleiðenda og starfsfólks þeirra um, hvernig auka mætti afköst og afrakstur. Félagsskapurinn gaf út rit, útvegaði fyrirlesara, sýndi kvikmyndir, allt í þeim tilgangi að vekja áhuga fyrir því að framleiða sem mest og bezt og láta hvert handtak koma að sem mikilsverðustum notum.

Ég hygg, að einhverjar fyrirmyndir mætti sækja til þessarar brezku áhugamannahreyfingar. Ég sé, að í frv., sem fyrir þessu þingi liggur, till. um Iðnaðarmálastofnun Íslands, er stefnt í þá átt, sem hér um ræðir. Í 1. gr. frv., sem ræðir um tilgang Iðnaðarmálastofnunarinnar, segir í 3. lið, að tilgangurinn sé m. a. að efla samvinnu milli framleiðenda, stofnana og félagssamtaka innanlands um viðleitni til framfara í íslenzkum iðnaði og hafa náið samstarf við þá aðila um þessi mál. Þetta er ágætt, það sem það nær, en miðast einvörðungu við iðnaðinn. Starfssviðið verður að vera víðtækara. Umbótastarfsemin og samtökin vegna hennar verða að ná til allrar framleiðslu og í raun og veru til allra verksviða. Það er vitanlega ákaflega mikilsvert, að iðnaðurinn sé vel rekinn að öllu leyti og skili miklu í þjóðarbúið, en framleiðsla hráefnanna handa honum er þó undirstaða hans, og undirstöðuna þarf ætíð fyrst og fremst að hafa trausta.

Iðnaðarmálastofnunin getur orðið gildur þáttur í þeim samtökum, er fyrir okkur flutningsmönnum vakir að koma þurfi á, en ekki haldreipið sjálft.

Eins og segir í grg. till., hugsum við flm. till. okkur, að ríkisstj. byrji á því að stofna til viðræðna við fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa frá kaupþegum um, á hvern hátt sé hægt að koma við í þessum efnum umbótum, sem leiði til betri og meiri afkasta og um leið bættra lífskjara. Síðan beiti ríkisstj. sér fyrir því, að samtök hefjist milli atvinnurekenda og vinnandi fólks um framkvæmdir á því fyrirkomulagi, er samkomulag hefur orðið um að bezt eigi við. Vel má vera, að atvinnurekendur og samtök kaupþega fáist til þess að taka málið í sínar hendur sameiginlega eins og í Bretlandi, og væri það að sjálfsögðu ágætt, en frumkvæði þarf að hafa, hreyfingu þarf að vekja, er nái til allra starfandi þegna þjóðfélagsins. Virðist eðlilegt að fela ríkisstj. að stofna til samtakanna og koma skrið á athafnir í þá átt að auka þjóðartekjurnar á þennan hátt og bæta með því hvers manns hag. Ef samtök hefjast, sem allur almenningur tekur þátt í, um meiri og betri vinnubrögð, meiri afrek í verkum og vandaðri framleiðslu til áþreifanlegra og beinna kjarabóta fyrir alla, þá mun einnig jafnhliða og af sjálfu sér koma allsherjar leit að auðlindum til lands og sjávar og fjölgun atvinnugreina.

Ákveðin hefur verið ein umr. um þessa till. Ef rétt þykir að fresta umr., þá legg ég til, að till. verði vísað til hv. allshn.