16.03.1955
Sameinað þing: 46. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (2648)

168. mál, öryggi í heilbrigðismálum

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Sú breyting, sem orðið hefur á síðari árum í atvinnumálum Íslendinga, hefur að vonum skapað mörg vandamál, er þjóðin verður að horfast í augu við og hún verður að vera viðbúin að mæta og bæta úr eftir föngum á hverjum tíma. Eitt af þessum vandamálum og ekki hið smæsta er flótti fólksins frá þeim landshlutum, þar sem lífskjörin eru svo erfið, að arður er seintekinn og kostar mikla vinnu og miklar fórnir að hafa þar ofan í sig og á. Þar ganga menn frá jörð og búi og hlýða kalli hins nýja tíma, sem lofar auðveldum og skjótum arði í hringiðu margs konar athafnalífs við glaum og gleði, í margmenni og þægindum, og umfram allt vaxandi öryggi í heilbrigðismálum, þar sem sérfræðingarnir eru ávallt við höndina tilbúnir til þess að bæta mein mannanna og lengja lífið. Þeir, sem eftir sitja og hlýða ekki kalli hins hvella lúðurs, en kjósa enn um stund samlíf og fangbrögð við móður náttúru, taka á sig tvöfalda byrði. Oftast eru það hjónin ein eða jafnvel aðeins annað þeirra með ófleygan barnahóp og leita árangurslaust aðstoðar, sem enginn hefur tíma eða áhuga fyrir að láta í té, af því að hann vill ekki tapa kapphlaupinu í happdrætti hringekjunnar, sem sífellt hrópar hærra rómi um auð og allsnægtir og minna erfiði.

Af öllum þeim þunga, sem þannig leggst á herðar þessa fólks, sem enn byggir hin afskekktari héruð og ekki vil] láta bugast, er öryggisleysið í heilbrigðismálunum allra tilfinnanlegast. Slasist eða veikist þar maður, þó að ekki sé nema annað hjónanna, er heimilið oftast í mikilli neyð. Það er því hvergi jafnmikil þörf á mikilli og öruggri heilsugæzlu og einmitt í þessum héruðum. Reynslan sýnir hins vegar, að hún er hvergi lakari en einmitt þar, því þótt Alþingi og ríkisstj. hafi sýnt talsverðan og lofsverðan áhuga á því að bæta hér mikið úr, m. a. með fjölgun lækna, bættum samgöngum á sjó og landi og í lofti og bættu símakerfi, sem allt hefur verið til mikils öryggis, þá vantar þó enn mikið á, að þetta fólk búi við sama öryggi í heilbrigðismálum og hinir, sem í þéttbýlinu búa, en að því ber að vinna eftir megni, að svo megi verða. Frumkrafa þess fólks, sem skipar sér í raðir hinnar erfiðustu lífsbaráttu, hvort heldur er á sjó eða landi, hlýtur að verða sú, að því sé af hinum opinberu aðilum séð fyrir svo miklu öryggi í heilbrigðismálunum sem frekast má verða; allt annað er ósæmandi og fávíslegt og kostar þjóðina fórnir, sem ekki verða metnar til fjár.

Þegar litið er á gildandi löggjöf um ljósmæður, verður ekki komizt hjá því að viðurkenna, að hér hefur ekki verið bætt úr sem skyldi, enda er vitað, að allmörg hin erfiðustu og afskekktustu umdæmi í hinum fámennustu sveitum eiga í margvíslegum erfiðleikum með að tryggja nauðsynlega aðstoð á þessu sviði.

Með lögum þessum er svo ákveðið, að sýslunefndir skuli ákveða umdæmi ljósmæðra og ráða þær, enda greiði héruðin hluta af launum þeirra. Mun það vera aðalreglan, að hver hreppur sé eitt umdæmi. Þó er nokkuð vikið frá þessari reglu og m. a. leyft, að sama ljósmóðir annist störf í fleiri en einu umdæmi, ef svo ber undir, enda taki hún þá öll hin ákveðnu laun umdæmanna. Mun þetta m. a. hafa þótt nauðsynlegt til þess að tryggja betur þjónustu í fámennustu umdæmunum. Þá er það einnig ljóst af gildandi lögum, að kröfur þær, sem gerðar eru til ljósmæðra, sem þjóna eiga utan kaupstaða, eru miklu minni en þær kröfur, sem gerðar eru til ljósmæðra, sem þjóna eiga í bæjunum, þótt einmitt þar séu margfalt betri skilyrði til þess að njóta aðstoðar alls konar sérfræðinga, ef eitthvað ber út af, ekki einasta á meðan á fæðingu stendur, heldur og allan meðgöngutímann, sem langoftast er engu minna virði fyrir móðurina. Sýnast hér hafa verið á allmikil mistök af hendi löggjafans, sem nauðsynlegt er að bæta úr.

Samkvæmt skýrslu frá landlækni er talið, að á árunum 1941–50 hafi 69 konur dáið af barnsförum og 13 af barnsfararsótt. Hefur þjóð vor raunverulega ráð á slíkum fórnum, sem að flestra dómi er hægt að komast hjá, ef alls öryggis er gætt í tíma? Þó er hér aðeins um að ræða brot af því tjóni, sem þetta öryggisleysi veldur. Hinn hlutinn, sem kemur fram í lömuðu þreki fósturs og móður, þótt bæði lifi af, er hvergi skráður, og hann kann þó að verða miklu ægilegri.

Það mun lengstum hafa verið venja í sveitum landsins að láta sér nægja að sækja ljósmóður, þegar konan hefur fengið fyrstu fæðingarhríðirnar. Þegar konan hefur aftur getað staulazt á fætur, oft með veikum burðum, er aðstoðinni oftast lokið. Nú vita menn, að þetta er allsendis ónóg. Eftirlit með ásigkomulagi og kjörum konunnar allan meðgöngutímann er engu minna virði og engu minna nauðsynlegt en aðstoðin við sjálfa fæðinguna, og einkum og sér í lagi er þetta nauðsynlegt í hinum afskekktu héruðum, þar sem kvíðinn einn getur haft slík áhrif á móðurina og á barn, að hvorugt beri sitt barr. Og konan, sem tekur að sér að viðhalda kynslóðinni, á óskoraða kröfu á því, að henni sé látin í té slík aðstoð og það öryggi, sem því er samfara. Það koma að sjálfsögðu til greina margar leiðir að því marki að skapa slíkt öryggi, og skal ég ekki fara langt út í það mál, en aðeins benda á, að vel gæti komið til greina að sameina meira en verið hefur ljósmæðrastörf og almenn hjúkrunarstörf utan kaupstaða svo og almenna heilsugæzlu og gera konum betur mögulegt að fæða á sjúkrastofum en verið hefur. Og þó að þetta kunni að hafa nokkuð aukinn kostnað í för með sér, þá koma þau útgjöld aftur margfalt í betra heilsufari, hraustari kynslóð, minna tjóni á mannslífum og minni sorgum. Það sýnist einnig full ástæða til þess að athuga, hvort ekki sé tímabært að láta ríkissjóð greiða öll laun ljósmæðra og losa héruðin við þá byrði.

Á seinni árum mun hafa verið tekin upp sú stefna, að ríkissjóður launaði lærðar hjúkrunarkonur á einstökum stöðum, þar sem erfitt er að ná til læknis. Hefur þetta mælzt vel fyrir og gefizt mjög vel. Aukinn hraði í allri framleiðslu og aukin vélanotkun hefur stórlega aukna slysahættu í för með sér. Það er því full ástæða til þess að endurskoða öll lagafyrirmæli hér að lútandi og bæta við þau nýjum fyrirmælum til samræmingar nýjum háttum í atvinnumálum þjóðarinnar, og því er sú till., sem hér um ræðir, fram borin.

Við flm. teljum, að þeir aðilar, sem mál þessi heyra undir, svo sem landlæknir, heilbrmrn. og aðrar stofnanir, sem með þessi mál fara, eigi að geta haft forustu um undirbúning á breytingum til batnaðar. Því er ekki lagt til, að skipuð sé sérstök nefnd til þess að gera þetta verk. Hins vegar er vænzt, að Alþingi samþykki þáltill. og að ríkisstj. láti síðan undirbúa málið fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Ég sé, að hæstv. forseti hefur ákveðið tvær umr. um þetta mál. Þáltill. sjálf á ekki að geta haft nein veruleg útgjöld í för með sér, þótt samþykkt verði. Ég sé því ekki ástæðu til þess, að henni verði vísað til hv. fjvn., og legg því til, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn., og vænti þess jafnframt, að n. afgreiði till. svo fljótt, að tími gefist til þess að ljúka síðari umr. áður en þessu þingi lýkur. Komi síðar fram sem afleiðing af samþykkt þessarar till. tillögur frá ríkisstj. til úrbóta á þessum málum, fær Alþingi tækifæri til þess að ræða þær till. og þann kostnað, sem þær kynnu að hafa í för með sér, ef fallizt yrði á þær, breyttar eða óbreyttar.

Ég vil því vænta þess, að hv. alþm. sjái sér fært að samþ. þessa tillögu.