10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (2665)

200. mál, leit að fiskimiðum fyrir Norðurlandi og Austfjörðum

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins mæla hið bezta með þessari þáltill. Hér er gripið á mjög merkilegu máli, þar sem um er að ræða, að rannsókn fari fram á því að leita nýrra fiskimiða. Það er vitað, að víðs vegar meðfram ströndum landsins munu vera fiskigrunn, sem enn hafa ekki verið fundin og þess vegna liggja ónotuð, a. m. k. fyrir Íslendinga.

Ég vildi aðeins í sambandi við þessa till. benda á, að Alþ. gerði fyrir 2 árum ályktun, sem beint var að því að greiða fyrir, að slík leit að fiskimiðum yrði hafin. Á þinginu 1952 komu fram tvær till., sem lutu að þessu efni. Önnur þessi till. var um hafrannsóknarskip og var flutt af mér og hljóðaði svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta athuga, hvernig íslenzka ríkið geti með sem hagkvæmustum hætti eignazt hæfilega stórt og traust skip, er útbúið sé hinum fullkomnustu tækjum til haf- og fiskirannsókna og fiskileitar.“ Sömuleiðis flutti hv. 11. landsk. (LJós) á þessu sama þingi þáltill. um fiskileitarskip á djúpmiðum, sem hljóðaði svo. með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta efna til skipulagðrar fiskileitar með vel útbúnu skipi til veiða á djúpmiðum við Ísland. Fiskileitin fari fram í nánu samráði við starfandi togaraskipstjóra. Árangur af leitinni skal birtur íslenzkum fiskiskipstjórum jafnóðum.“

Þessum till. báðum var vísað þá til fjvn. og sömuleiðis þriðju till., sem fól í sér rannsókn á síldveiðum við Norðurland.

Fjvn. sameinaði þessar till. í eina till., sem hún flutti og afgr. var sem ályktun frá þinginu 29. jan. 1953 og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvernig íslenzka ríkið geti með sem hagkvæmustum hætti eignazt hæfilega stórt og traust skip, er útbúið sé hinum fullkomnustu tækjum til haf- og fiskirannsókna. Jafnframt fari fram á því rækileg athugun, á hvern hátt verði bezt hagað fiskileit á djúpmiðum og við strendur landsins. Að því er tekur til síldarleitar skal sérstök áherzla á það lögð að komast að niðurstöðu um það, á hverjum tíma árs hún sé vænlegust til góðs árangurs. Um þau atriði, sem í ályktun þessari greinir, skal ríkisstj. kveðja sér til aðstoðar sérfróða menn í þessum málum.“

Á grundvelli þessarar samþykktar hefur nú verið unnið að því að gera Ægi þannig úr garði. að hann geti með öðrum fiskirannsóknum einnig tekið þátt í fiskileit eða leit að miðum á hafi úti.

Hvað snertir almennar fiskirannsóknir, eru þær nú komnar í fullan gang í Ægi. Hann hefur fengið ratsjá, eins og kunnugt er, og hefur nú svipaða aðstöðu til þess að vinna að fiskirannsóknum og t. d. Norðmenn hafa, og er starfsemi þeirra á því sviði alkunn orðin.

Aftur á móti er ekki enn búið að búa Ægi þeim tækjum, sem þarf til þess að leita að miðum á hafi úti, en það er verið að vinna að þessu. Trollspil í skipið mun koma seinni hluta þessa sumars, þannig að Ægir á að vera tiltækur til þess seinni hluta þessa árs að geta einnig innt af hendi þetta verk, að leita að nýjum fiskimiðum.

En hér er um svo stórt og þýðingarmikið mál að ræða, að meðan Ægir er ekki tiltækur til þessara hluta, liggur opið við, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að ráðinn yrði togari í þessa miðaleit. Ég viðurkenni alveg fullkomlega, að fyrir Austurland og Norðurland, þar sem nú eykst togaraútgerð, er að sjálfsögðu mjög óhagkvæmt að þurfa að sækja alla veiði, sem lögð er á land á Austfjörðum og á Norðurlandi, hingað suður fyrir land eða út á Halamið, en það eru nú aðalveiðistöðvar togaraflotans. Þess vegna vil ég mæla hið bezta með þessari till., og þess mætti þá vænta, að meðan Ægir getur ekki sinnt þessu mikilsverða hlutverki, verði ráðinn togari til þess að leita að nýjum fiskimiðum.

Þetta vildi ég láta koma fram í sambandi við þessa tillögu.