10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (2675)

204. mál, atvinnuaukning

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós, að mér finnst ekki hafi verið þörf á því að ákveða tvær umr. um þessa till., því að eins og hún er orðuð, þá er a. m. k. ekki beinlínis farið fram á neinar greiðslur úr ríkissjóði hennar vegna. Og í annan stað er það, að eins og grg. till. ber með sér, þá er hún eins konar afgreiðsla á nokkrum till., sem lengi hafa legið fyrir allshn. þingsins, og mætti því að nokkru leyti skoðast sem nál. um þær till.

Þessar till., sem ég á við, eru aðallega um landhelgismál og mál, sem þeim eru mjög skyld. Fyrsta till. af þessum, sem flutt var og vísað til n., var till. til þál. um ráðstafanir vegna vaxandi rányrkju á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum. Flm. var Sigurður Bjarnason o. fl.

Næsta till. var einnig frá þm. Vestfirðinga. Hún var um stækkun friðunarsvæða fyrir Vestfjörðum. Flm.: Hannibal Valdimarsson og Eiríkur Þorsteinsson.

Þriðja till. var um stækkun friðunarsvæða eftir núgildandi meginreglum. Flm. var Karl Guðjónsson.

Sú síðasta, sem ég nefni, var till. um vernd á lífi og eignum Íslendinga gegn ágangi Breta. Sumir flm. þessara till. eru kannske óánægðir yfir því, að n. hefur ekki sérstaklega afgreitt hverja þeirra, en ég get upplýst, að það er ekki sökum þess, að n. hafi ekki athugað þessi mál. Hefur hún oft tekið þessar till. til umr. og athugað þær gaumgæfilega, m. a. hafði n. á einum fundi sínum hæstv. forsrh. til viðræðu um þessi mál.

N. komst að þeirri niðurstöðu, að eins og sakir stæðu væri það ekki hagsmunum Íslands til framdráttar að samþ. þessar till. eða afgreiða þær.

Það er öllum hv. þm. kunnugt, að hæstv. ríkisstj. hefur þessi mál til athugunar og þá sérstaklega í sambandi við þær aðgerðir, sem íslenzka ríkið hefur þegar gert, og n. er kunnugt um það, að ríkisstj. hefur sér til aðstoðar hina beztu sérfræðinga í þessum málum, útlenda og innlenda, og hún mun gera það, sem yfirleitt er hægt að gera, eins og sakir standa.

N. hefur því fallizt á það og þar með flm. sumra þessara till., sem sæti eiga í n., að það væri málinu bezt eins og sakir standa að fást ekki frekar við þessar till. á þinginu eða gera háværar till. og yfirlýsingar hér á Alþ., heldur hitt, þegar þar að kæmi, að þing og þjóð stæðu sem bezt að baki hæstv. ríkisstj., þegar til aðgerða kemur.

Tvær af þessum till. má segja að fjalli um fleira en landhelgismál, þ. e. fyrsta till., sem ég nefndi, á þskj. 22, og að nokkru leyti líka till. á þskj. 47. Báðar eru út af því ástandi, sem skapazt hefur á Vestfjörðum, meðfram vegna og kannske svo til eingöngu vegna aukinnar ágengni togara á fiskimið Vestfirðinga, sem mun vera að nokkru leyti afleiðing af aukinni friðun eða stækkun landhelginnar, sem gerð var, því að togararnir hafa hörfað t. d. úr Faxaflóa og af Breiðafirði og þangað vestur einmitt vegna þess. N. áleit þó ekki rétt að mæla með þessum till., hvorugri þeirra.

Till. á þskj. 47 snertir mjög mikið landhelgismál. Ég hef áður gert grein fyrir því, að n. telur réttast, að þau mál hvíli sig í Alþ., en séu til meðferðar á öðrum vettvangi, og till. á þskj. 22 er einhliða um ráðstafanir vegna Vestfjarða, og að sumu leyti er till. orðin úrelt, síðasta málsgrein hennar a. m. k. Þess vegna er það, að í staðinn fyrir að afgr. þessar till. ber n. fram sérstaka till. til þál. á þskj. 787 um ráðstafanir til atvinnuaukningar, sem fjallar um það, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á því fyrir næsta þing, hverjar ráðstafanir séu tiltækilegar til þess að bæta úr atvinnuerfiðleikum þeirra landshluta, sem harðast hafa orðið úti vegna vaxandi rányrkju fiskimiða.

Ég vonast eftir því, að það geti orðið samkomulag um það að samþ. þessa till. hér í hinu háa Alþ. og að flm. þeirra till., sem ég hef nefnt, geti eftir atvikum sætt sig við þá afgreiðslu.