10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (2678)

204. mál, atvinnuaukning

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka það fram í tilefni af þessari till., að ég lít ekki á hana sem neina afgreiðslu á þeirri þáltill., sem ég bar hér fram í upphafi þings um stækkun friðunarsvæðis fyrir Vestfjörðum. Það er alveg laust við það mál, þó að hæstv. ríkisstj. kunni að vera falið að gera einhverjar athuganir á því, hvaða ráðstafanir séu tiltækilegar til að bæta úr atvinnuerfiðleikum í einum eða öðrum landshluta, að það er orðin brýn þörf á því, að færð sé út landhelgislínan fyrir Vestfjörðum, og er mál alveg út af fyrir sig og verður ekki fært í neinar þær voðir, sem breiði yfir það, hvorki gagnvart Íslendingum né öðrum þjóðum. Og annaðhvort er að taka afstöðu með slíkri till. eða á móti. Ef það á að vera einhver fín „taktik“ gagnvart Englendingum, þá er það alveg áreiðanlegt, að það er aldrei hægt að afgreiða það mál án þess, að þeir viti af því, og ég sé ekki, hvað við eigum á hættu gagnvart Bretum í því máli. Þeir eru búnir að setja bann á afgreiðslu á ísuðum fiski í enskum höfnum frá Íslandi, og þeir gera það ekki aftur. Að öðru leyti kemur þeim ekkert við, hvað Íslendingar gera í sínum landhelgismálum. Aðrar þjóðir eru búnar að ákveða hjá sér landhelgi, ýmist 8 mílur, 12 mílur, 16 mílur, 50 sjómílur eða upp í 200 sjómílur, og Bretar hafa ekkert getað gert við því.

Þessar þjóðir fara sínu fram um þau mál. Hér er sýnt og sannað, að vegna rýmkunarinnar á landhelgislínunni fyrir öðrum landshlutum hefur rányrkjan aukizt fyrir Vestfjörðum, og ég veit ekki, hvort það er ætlun manna að bíða eftir því, að þessi landshluti leggist í auðn. Það er þörf á að gera þessa breytingu, svo mikil þörf, að það má heita lífsnauðsyn. Á síðustu vetrarvertíð og í fyrra var hver báturinn á fætur öðrum keyrður í kaf af brezkum togurum á Vestfjarðamiðum, af því að vélbátasvæðin eru ekki friðuð. Alþingi daufheyrist þing eftir þing, og ríkisstj. felur sínum þm. að vefja þetta innan í einhvern silkipappír frá ári til árs, og kann ég þeim enga þökk fyrir það.