22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (2687)

46. mál, strandferða og flóabátar

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef hér ásamt hv. þm. Snæf. (SÁ) borið fram á þskj. 50 till. til þál. um rekstur strandferða og flóabáta, þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að leita nú þegar samninga við Eimskipafélag Íslands og S. Í. S. um, að þau taki að sér frá næstu áramótum eða svo fljótt sem verða má allar strandferðir og flóabátaferðir umhverfis landið. Þessa till. fluttum við á síðasta Alþ., og till. fékk þá mjög svo óþinglega meðferð, eins og kunnugt er, þar sem ekki var samþ. að vísa henni til síðari umr. og n., og er því sjálfsagt að bera hana hér fram aftur til þess að fá endanlega úr því skorið, hvort ekki sé hægt að fá þinglega meðferð á svo stóru máli og sjá, hvernig meiri hl. Alþingis tekur því.

Ég get að langmestu leyti vísað til þeirrar grg., sem fylgdi þá þáltill,, og til þeirra umræðna, sem fóru þá fram hér í hv. sameinuðu þingi, og umræðna, sem fóru fram í blöðum landsins um þetta mál á þeim tíma, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka eða rifja upp mikið af þeim meginatriðum, sem þar komu fram, hv. þingmönnum er það svo vel ljóst.

Mál þetta vakti þá geysiathygli um allt land og það svo, að öðru stjórnarblaðinu, Tímanum, þótti full ástæða til þess að láta forstjóra stofnunarinnar rita langar og margar greinar um málið til þess að hefja sterkan áróður gegn því, ekki einungis innan þings, heldur utan. En þrátt fyrir allan slíkan áróður snerist fólkið með till. og gegn áróðrinum, og þegar svo var komið málum, sá Framsfl. ekki fram á annað en hann yrði að grípa til þess að semja við stjórnarandstöðuna um að fella till, frá n. og frá síðari umr., nota hér óþinglega aðferð í jafnstóru máli og handjárna svo alla sína flokksmenn til þess að greiða atkv. á þann hátt, sem hann vildi. Ég efa, að Framsfl. telji sér það hagsmunamál að beita slíkum aðferðum hvað eftir annað, og vil því freista þess að sjá, hvort hann hefur ekki vitkazt í þessu máli, eftir að hann hefur getað kynnt sér betur hugi landsmanna um till., því að það er vitanlegt, að mikill hluti landsmanna er á þeirri skoðun, að þessi till. ætti fram að ganga.

Ég hefði getað skilið, að þeir menn, sem vildu ekki láta till. ná fram að ganga, hefðu fært fyrir því einhver rök, að erfitt væri að koma á slíku samkomulagi eins og hér er farið fram á. En það hreyfði enginn slíkum mótmælum, hvorki hér í Alþingi né í þeim blöðum, sem hófu upp áróður gegn till., enda hafði Tíminn sagt þjóðinni frá því rétt áður, að nú ætti að gefa Eimskipafélagi Íslands marga tugi milljóna fyrir ekki neitt. Og þegar hann var búinn að fræða þjóðina um slíkt, þá var náttúrlega erfitt fyrir hann að halda því fram, að engan veginn væri hægt að koma á samningum við þessa aðila, sem þá sameiginlega áttu að þiggja allar þessar milljónir. Það benti því allt til þess, að það væri engan veginn útilokað að koma þessum samningum á, sem þáltill. ræðir um. Og það var einmitt þess vegna, sem sjálfsagt var að leyfa að láta till. fá þinglega afgreiðslu og leita svo eftir þessum samningum til þess að fá endanlega úr því skorið, hvort það væri unnt að þoka málinu inn á þessa braut. En afstaða Framsfl. í málinu á síðasta þingi varð á engan hátt skilin öðruvísi en þannig, að hann vildi á engan hátt láta skyggnast ofan í rekstur þessa fyrirtækis, sem Framsfl. hefur stjórnað svo prýðilega frá byrjun. Það eru að vísu til menn í þessu landi, sem líta svo á, að þar hefði á ýmsum tímum mátt koma við margvíslegum umbótum til hagsbóta fyrir ríkissjóð og þegnana, en það hafa bara verið vondir menn að áliti Framsfl., sem hafa ekki skilið þjóðhollustu flokksins almennt. Það átti þó ekki að geta orðið til þess, að ekki væri leyft að skyggnast hér undir faldinn, því að sjálfsagt hefði það verið til þess að styrkja álit Framsfl. í landinu, þegar opinberlega hefði orðið víst, að betur mátti ekki gera en gert hefur verið hér á undanförnum árum í sambandi við þetta fyrirtæki.

Þegar hæstv. fjmrh. hélt sína fjárlagaræðu við 1. umr. fjárlaganna, benti hann á, að menn mættu ekki vera svo bjartsýnir að halda, að það væri hægt að draga úr þeim kostnaði, sem strandferðirnar hefðu í för með sér; hann mundi aukast ár frá ári. Og það hefur einmitt komið fram allt, sem ég sagði um þetta mál í fyrra. Tapið hefur aukizt, fer sívaxandi, sbr. ræðu hæstv. ráðherra. Flutningarnir fara minnkandi, skipastóll annarra aðila fer vaxandi og flutningar þeirra aukast beint á hafnirnar, sem ríkisskipin sigla á og hafa siglt á. Ferðum ríkisskipanna til syðri landa fer fjölgandi með vaxandi gjaldeyriseyðslu fyrir þjóðina og vaxandi frátöfum frá vinnunni við framleiðslustörfin heima fyrir. Flugferðir og bifreiða innanlands vaxa árlega, svo að það er sýnilegt, eins og ég tók fram í fyrra, að Skipaútgerðin er dæmd til þess að tapa þessum leik, enda hefur hæstv. ráðh. viðurkennt það í sinni fjárlagaræðu.

Það var m. a. eitt ágreiningsefnið í fyrra milli mín og einkum og sér í lagi forstjóra Skipaútgerðarinnar, sem eins og ég sagði var falið að halda uppi löngum og hörðum áróðri dögum og vikum saman í framsóknarblaðinu, að ég færi þar rangt með tölur, þegar ég héldi því fram, að þessi liður á fjárlögunum kostaði nærri 10 millj. kr. Nú leggur hæstv. fjmrh. fram í þingi hér gögn, sem eru rothögg framan í þennan ágæta forstjóra. Það var áætlað eftir þeim upplýsingum, sem þá lágu fyrir frá hæstv. ráðherra og frá Skipaútgerð ríkisins, að í þennan lið þyrfti ekki nema 6006079 kr. árið 1953, en það er orðið 9527473,39 kr. eftir upplýsingum frá sjálfum fjmrh. Það var áætlað einnig af Alþ. í fyrra, að þessi liður skyldi vera hækkaður upp í 8167 500 kr., og hækkunin var miðuð við það, að þá ætti að fara fram alveg sérstök viðgerð á einu af strandferðaskipunum og þess vegna þyrfti sérstaklega þessa hækkun á þessu ári. Það liggur ekki fyrir nein skýrsla um það, hvað kostnaðurinn hefur orðið eða tapið hefur orðið á þessu ári. En ég læt mig ekki dreyma um, að hann hafi orðið einni krónu minni en er á fjárlögunum. Annars fær sjálfsagt hv. fjvn. upplýsingar um það, áður en þingi lýkur. — Það er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því, að til þessara mála verði varið á þessu ári 8 687 500 kr., sem bendir til þess, að þegar fjárlagafrv. var samið, hafi hæstv. ráðh. haft um það glöggar upplýsingar frá Skipaútgerðinni, að þessi 8,1 millj., sem áætluð er á fjárlögunum í ár, dygði ekki, þrátt fyrir það að búið væri að ljúka þessum sérstöku viðgerðum, svo að allt bendir til þess, að þetta sé sívaxandi, eins og ég hef tekið fram, og er þá allt saman vitni gegn þeim rökum, sem færð voru fram á s.l. ári í þessu máli. Ég tel, að þetta séu allathyglisverðar upplýsingar fyrir hv. alþingismenn, þegar þeir eiga að dæma um það, hvort þeir eigi að leyfa þessu máli a. m. k. að fá þinglega meðferð.

Hæstv. ráðh. gat þess einnig í sinni fjárlagaræðu, að menn mættu ekki búast við því, að það væri hægt að skera niður verulega rekstur ríkisins, nema því aðeins að draga á sama tíma úr einhverri af þeirri þjónustu, sem ríkið nú innir af hendi. Ég er honum alveg sammála um þetta. Hann spurði þá jafnframt og hefur nú flutt þá spurningu hér mörg undanfarin ár, síðan hann tók við þessu starfi, hvort menn vildu krefjast niðurskurðar á útgjöldum, láta draga úr framlagi til menntamála, heilbrigðismála, félagsmála, verklegra framkvæmda og annarra þeirra mála, sem ríkið nú styrkir eða starfrækir. En án þess að þetta liggi fyrir, sagði hæstv. ráðh., er ekki unnt að tala um sparnað á ríkisrekstrinum. En nú stendur einmitt svo á, að hér er hægt að gera verulegan sparnað, sem nemur milljónum, án þess að minnka þá þjónustu, sem fólkið hefur af þessari starfsemi í landinu. Það hafa verið færð að því sterk rök, að þjónustan verður betri og öruggari með því að fara þær leiðir, sem ég hef lagt til, og það er a. m. k. sjálfsagt fyrir hv. Alþ. að fá úr því skorið, hvort þetta sé á rökum reist eða hvort það sé ekki unnt að gera það. Það er þess vegna alveg sérstakt tækifæri fyrir hæstv. ráðh. nú að gera hvort tveggja í senn: skera stórkostlega niður, svo að skipti hvorki meira né minna en 8–10 millj. kr. á fjárlögunum, og á sama tíma gefa þjóðinni betri þjónustu í samgöngumálunum en nú er, sbr. þá breytingu, sem gerð var á sérleyfisferðunum, þegar það var tekið af ríkissjóði og létt þar milljónaútgjöldum og á sama tíma bættar miklu meira samgöngurnar á þeim svæðum en nokkurn tíma hafði verið og nokkru sinni hefði orðið, ef ríkissjóður hefði haldið því áfram.

Ég mun láta þetta nægja. Ég vísa að öðru leyti til þess, sem ég hef sagt áður um þetta mál, og þeirra gagna, sem fyrir liggja, og óska, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjvn., sem ég þá veit að mun gefa álit út um málið og leggja fyrir, að það verði afgreitt í þinginu.