04.11.1954
Sameinað þing: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (2694)

58. mál, vantraust á menntamálaráðherra

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Aðrir góðir Íslendingar. Eftir að íslenzka þjóðin tók að rétta við að loknu margra alda skeiði áþjánar og niðurlægingar, hefur hún sýnt ótvíræðan vilja til að lifa menningarlífi í því landi, sem forsjónin gaf henni. Framfarir hafa orðið örar á mörgum sviðum og tækniþróunin næsta stórstíg. Margt hefur að því stuðlað að leysa úr læðingi þá krafta, sem búa með þjóðinni. Kunna að vera um það skiptar skoðanir, hvaða aflgjafa einkum beri þar að nefna. Sá maður mun þó torfundinn, sem heldur því fram í alvöru, að framfarirnar séu að þakka góðu og farsælu stjórnarfari hin síðari ár. Á alla hugsandi menn mundi slík staðhæfing orka sem hlægilegt öfugmæli. Hitt er sönnu nær, að þjóðinni hefur auðnazt að risa á legg þrátt fyrir óstjórn þá, sem í vaxandi mæli hefur einkennt framferði íslenzkra valdhafa nú um helzt til langa hríð. Það er ekkert launungarmál, að hér á landi þróast meiri stjórnmálaspilling og skefjalausari misbeiting valds og trúnaðar en þekkist í nokkru öðru ríki, þar sem pólitískur þroski er spölkorn á veg kominn. Hliðstæðu er einungis að finna í löndum, sem standa á lægsta þrepi stjórnarfarslegrar menningar.

Meðferð opinbers fjár hefur einkennzt af fullkomnu gáleysi, sukki, jafnvel óráðvendni. Ráðherrar hafa orðið berir að því að veita meðráðh. sínum án allra lagaheimilda fríðindi á kostnað ríkissjóðs. Upp í opinberan skatt, sem æðstu valdamenn þjóðarinnar beittu sér fyrir að lagður var á þegnana, hafa sjálfir þeir leyft sér að afhenda ónýtt skran, sem ekki hefur einungis orðið ríkissjóði verðlaust, heldur jafnvel byrði og kostnaðarauki. Embætti og stöður hafa verið stofnaðar að þarflausu og í algeru heimildarleysi, ef hygla þurfti pólitískum gæðingum. Þess eru ófá dæmi, að troðið hefur verið upp á forstjóra ríkisfyrirtækja skósveinum ráðh., þótt starfslið væri kappnóg fyrir. Þrásinnis hafa vikapiltar stjórnarflokka og venzlamenn ráðh. verið settir í opinber störf og stöður, en gengið fram hjá fólki, sem meiri hafði verðleika. Fyrir aðgerðir stjórnarvalda hafa spákaupmenn rakað til sín milljónagróða á kostnað atvinnuvega þjóðarinnar og allrar alþýðu. Útflutningsverzlunin hefur verið einokuð til hagsbóta fyrir áhrifamikla gæðinga. Yfir því hefur verið dyggilega vakað, að einungis menn með réttan pólitískan lít kæmust að kjötkötlunum. Almenningur í landinu hefur orðið að borga reikning allrar þessarar ráðsmennsku.

Þessi misnotkun valda og trúnaðar hefur síður en svo legið í láginni eða verið höfð í hvíslingum einungis undanfarin missiri. Brigzlyrðin hafa gengið milli flokka og þó einkum milli stjórnarflokkanna sjálfra. Í óteljandi blaðagreinum og ræðum hafa stjórnarliðar lýst ávirðingum hver annars og borið samstarfsflokkinn þungum sökum, sem því miður hafa of margar verið sannar. Hverri ásökun hefur tafarlaust verið svarað með gagnásökun. Tónninn hefur allajafna verið þessi: Ekki eruð þið betri, ykkur væri sæmst að þegja. — Síðan hefur komið rækileg upptalning á syndaregistri hins stjórnarflokksins. Að lokum er svo jafnan klykkt út með ályktun, sem í stuttu máli er hægt að orða eitthvað á þessa leið: Við erum ekki siðlausari en þið. Þið hafið svo margvíslegt misferli á samvizkunni, stjórnarbræður sælir, að okkur ætti að vera leyfilegt að jafna dálítið metin. — Ekki kæmi mér á óvart, góðir hlustendur, þó að þið fengjuð að heyra óminn af þessari röksemdafærslu í ræðum manna síðar hér í kvöld. Mér er jafnvel ekki grunlaust um, að hver um sig hinna gömlu flokka fagni því í leyni, þegar andstæðingurinn fremur afglöp, því að þá finnst þeim, að þeir eigi inni og geti hafið þá innstæðu síðar, þegar tækifæri gefst og bitlingsverður flokksmaður þarf á að halda.

Öll þjóðin þekkir af sárri og helzt til langri reynslu, hvernig þessi svikamylla hefur gengið undanfarin ár. Margir hafa horft á það með ugg, en án verulegrar andspyrnu, hvernig ráðamenn þjóðarinnar hafa verið að brjóta niður meginsúlur pólitísks siðgæðis í landinu. Ég ætla, að nú sé komið fram á elleftu stund og ekki seinna vænna fyrir íslenzku þjóðina að rísa upp og knýja fram breytta stefnu og bætta siði um stjórnarfar, ef þingræði og lýðræði á að verða líft í þessu landi. Þann leik, sem nú stendur sem hæst, verður að stöðva. Þeim mönnum á ekki að verða vært í valdastólum, sem misnota þann trúnað, sem þeim hefur verið sýndur.

Þjóðvfl. Íslands hefur allt frá stofnun gagnrýnt harðlega þá misbeitingu valda, sem átt hefur sér stað í íslenzku þjóðfélagi.

Hann hefur sýnt fram á það með órækum dæmum, að allir eru hinir gömlu flokkar sekir í þessum efnum, þó að syndabyrði núverandi stjórnarflokka sé óneitanlega miklu mest. Allir hafa gömlu flokkarnir gengið undir próf í stjórnarfarslegu réttlæti og siðgæði og allir fjórir, hver og einn einasti, hafa fallið á því prófi.

Við þjóðvarnarmenn höfum bent á þá hættu, sem fólgin er í misbeitingu veitingavalds í höndum hlutdrægra, pólitískra ráðh., og gert það, sem í okkar valdi stóð, til að stemma stigu við henni. Á síðasta Alþ., þegar frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var til meðferðar, fluttum við till., sem að því stefndi að setja skynsamlegar reglur um stöðuveitingar, er reist hefðu nokkrar skorður við misbeitingu veitingavalds. Þessi till. okkar var felld. Stjórnarflokkarnir kærðu sig ekki um nein slík ákvæði í lögum. Nú höfum við borið fram frv. um þetta efni, og verða afdrif þess nokkur prófsteinn á það, hvort hv. alþm. hafa eitthvað lært af reynslunni.

Í beinu og rökréttu framhaldi af þeirri gagnrýni, sem Þjóðvfl. hefur haldið uppi á spillingarkerfi gömlu flokkanna, höfum við þm. flokksins nú flutt till. til þál. um það, að Alþ. lýsi vantrausti á núverandi menntmrh., Bjarna Benediktsson. Það skal þegar tekið fram, að þó að sá háttur hafi verið á hafður að flytja vantraust á einn ráðh. aðeins af sex, sem allir eiga margfalt vantraust skilið, felst ekki í því af okkar hálfu vilji til nokkurrar linkindar gagnvart ríkisstj. í heild, heldur allt aðrar ástæður, sem ég mun síðar gera grein fyrir. Einnig vil ég leggja áherzlu á það, að till. þessi er ekki einungis vantraust á Bjarna Benediktsson, heldur er hún jafnframt og ekki síður vantraust á það spillingarkerfi, sem hér hefur verið innleitt og hæstv. menntmrh. er aðeins einn af fleiri fulltrúum fyrir, en óneitanlega atkvæðamikill og athafnasamur fulltrúi. Hæstv. menntmrh. er engan veginn sá eini, sem gert hefur sig sekan um misbeitingu valda, en ýmsir nýlegir atburðir eru þess eðlis, að á stefnu hans í menntamálum hefur verið varpað næsta skæru ljósi.

Þess er skemmst að minnast, að á þessu hausti hafa nokkrar embættaveitingar þessa hæstv. ráðh. sætt mjög harðri og almennri gagnrýni, enda eru sumar þeirra með þeim hætti, að óverjandi hljóta að teljast. Nefni ég þar fyrst veitingu skólastjórastöðu við barnaskólann á Akranesi, enda er það sú ráðstöfunin, sem mér lízt fráleitust. Umsækjendur um þá stöðu voru sex, og hlaut sá maður stöðuna, sem langminnsta kennarareynslu hafði allra þeirra, er sóttu. Meðal umsækjenda var landskunnur og farsæll skólamaður, Eiríkur Sigurðsson yfirkennari á Akureyri, — maður, er lengi hefur gegnt kennara- og yfirkennarastörfum við ágætan orðstír. Hlaut hann meðmæli meiri hluta fræðsluráðs og fræðslumálastjóra. Meðal annarra umsækjenda voru reyndir kennarar við barnaskólann á Akranesi. Þrátt fyrir þetta leyfir hæstv. menntmrh. sér að setja í embættið mann, sem að vísu hefur lokið kennaraprófi fyrir allmörgum árum, en lengst af stundað algerlega óskyld störf. Getur engum blandazt hugur um, að veiting þessi er stórlega ámælisverð og beinlínis hnefahögg í andlit íslenzkrar kennarastéttar.

Nokkru síðar veitti ráðh. skólastjórastöðuna við barnaskólann í Hafnarfirði. Þar voru umsækjendur tveir. Annar þeirra var yfirkennarinn við skólann, Stefán Júlíusson, kunnur skólamaður, er hlotið hafði góða framhaldsmenntun og gegnt með sóma skólastjórastörfum við þennan skóla s. l. ár. Meiri hluti fræðsluráðs og fræðslumálastjóri mæltu fastlega með Stefáni. Ástæðan til þess, hve fáir sóttu um embætti þetta, var sú ein, að flestir töldu sjálfsagt, að Stefán fengi stöðuna. Hinn umsækjandinn um þessa stöðu hafði og lengi verið kennari og gegnt skólastjórastöðu í litlum skóla að sögn við góðan orðstír, en auk þess hafði hann þann kost að vera flokksbróðir ráðh., en það er Stefán Júlíusson hins vegar ekki. Það réð úrslitum. Flokksbróðir ráðherrans fékk stöðuna.

Viðskipti hæstv. menntmrh. og Háskóla Íslands eru ljóst dæmi þess, hvernig þeir menn, sem ánetjazt hafa spillingarkerfi íslenzkra valdaflokka, fleygja fyrir borð fyrri skoðunum, þegar þeim býður svo við að horfa. Hæstv. ráðh. hefur nú staðið í svipuðum sporum og menntmrh. Íslands fyrir 18 árum, er þá var Haraldur Guðmundsson, núverandi formaður Alþfl. Haraldur sætti þá mikilli gagnrýni fyrir veitingu prófessorsembættis í lögfræði. Var honum borið á brýn að hafa lítilsvirt háskólann og gengið freklega á rétt hans. Sá maðurinn, sem þá gekk fram fyrir skjöldu í ádeilum á Harald Guðmundsson, var þáverandi lagaprófessor, núverandi hæstv. menntmrh., Bjarni Benediktsson. Hélt hann þá mjög fast fram þeirri kenningu, að háskólanum bæri algert sjálfdæmi um embættaveitingar innan stofnunarinnar. Taldi hann það ósvífni, er Haraldur Guðmundsson skipaði þann umsækjandann í embættið, sem aðeins fékk meðmæli eins af þremur prófessorum lagadeildar. Nú hefur Bjarni Benediktsson oftar en einu sinni átt þess kost að virða sjálfsákvörðunarrétt háskólans. Hann hefur gert það með þeim hætti að skeyta sýnu minna um vilja háskólans en sá ráðh., er hann gagnrýndi áður harðast. Nú skal ég alveg láta það liggja milli hluta, hvort fylgja beri afdráttarlaust þeirri kenningu, að ríkisháskóli hafi algert sjálfdæmi um embættaveitingar innan vébanda sinna. En hitt er svo ljóst sem verða má, að hæstv. núverandi menntmrh. hefur litið þannig á. Er vert að minnast þess, um leið og litið er á afskipti hans af málum háskólans, en þau hafa m. a. verið þessi:

S. l. vetur hafði háskólinn ráðið til prófdómarastarfa í sögu Skúla Þórðarson magister. Starfaði hann við miðsvetrarpróf, en er menntmrh. frétti það, brá hann við hart og krafðist þess, að háskólinn tilnefndi þrjá menn, er valið skyldi á milli í prófdómarastarfið. Háskólinn tilnefndi þá Skúla Þórðarson, en til vara tvo menn aðra. Var annar þeirra landskunnur sagnfræðingur og fyrrverandi prófessor í sögu, Barði Guðmundsson þjóðskjalavörður. Hinn maðurinn, Stefán Pétursson, hafði að vísu lagt stund á sögu, en ekki lokið prófi. Hins vegar hafði hann þann höfuðkost frá sjónarmiði Bjarna Benediktssonar, að hann er ákafur vopnabróðir hans og samherji í utanríkismálum. Þessi maður fann náð fyrir augum ráðh. og hlaut starfið.

Við próf í stærðfræði gerðist áþekk saga. Háskólinn lagði til, að prófdómari yrði í þeirri grein kunnur lærdómsmaður og stærðfræðingur. Ráðh. mun hafa alið þann grun í brjósti, að maður þessi kynni að vera öndverður sér í pólitík, og hefur maðurinn þó lítil eða engin opinber afskipti haft af stjórnmálum. En fyrrgetinn grunur nægði þó til þess, að ráðh. taldi ástæðu til að virða að vettugi óskir háskólans. Skipaði hann flokksbróður sinn til starfans, gegnan mann að vísu, en þó ekki þann manninn, sem háskólinn hafði beðið um.

Við veitingu dósentsembættis í guðfræði nú á þessu hausti reyndi enn á fylgi ráðh. við þá kenningu sjálfs hans, að háskólinn einn ætti öllu að ráða um veitingar embætta innan stofnunarinnar. Umsækjendur voru tveir ungir, ágætlega menntaðir og efnilegir guðfræðingar, séra Guðmundur Sveinsson og Þórir Þórðarson. Skal ég fúslega viðurkenna, að engan veginn var vandalaust að gera upp á milli þessara tveggja ungu hæfileikamanna. En frá sjónarmiði Bjarna Benediktssonar virtist ekkert sjálfsagðara en að láta háskólann ráða. Meiri hluti guðfræðideildar, tveir prófessorar af þremur, mælti eindregið með séra Guðmundi Sveinssyni. En nú hafði hæstv. menntmrh. varpað fyrir borð öllum kenningum sínum um sjálfsákvörðunarrétt háskóla og þverbraut þá reglu, sem hann hafði sjálfur krafizt að aðrir fylgdu.

Varðandi kennarastöður ýmsar við barna- og gagnfræðaskóla mætti, ef tími væri til, segja sögur, er lýsa því, hve skefjalaust núverandi hæstv. menntmrh. beitir valdi sínu til að vinza sauði frá höfrum eftir pólitískri mælisnúru. Allmörg kennaraefni útskrifuðust úr Kennaraskóla Íslands á síðasta vori, og var það, svo sem vænta mátti, fólk með ólíkar stjórnmálaskoðanir. Hef ég góðar heimildir fyrir því, að þegar allir hægri menn í hópi hinna ungu kennara höfðu fengið kennarastöður, hafði nálega enginn vinstri sinnaður maður úr þeim hópi hlotið kennslustarf. Síðar mun ráðh. hafa orðið að láta sér það lynda, að ýmsir þeirra fengju atvinnu, vegna þess að flokksbræður hans og aðrir hægri menn voru ekki nógu margir til að setjast í allar lausar kennarastöður.

Það er alkunna, að nú um skeið hafa blöð allra stjórnmálaflokka, annarra en Sjálfstfl., gagnrýnt mjög embættaveitingar hæstv. menntmrh. Engum kemur á óvart, þótt blöð stjórnarandstöðu deili hart á ráðh., sem markvisst vinnur að því að troða í stöður flokksbræðrum sínum, oft á kostnað hæfileikameiri manna. Hitt sætir vissulega nokkrum tíðindum, að höfuðmálgagn samstarfsflokks ráðh. hefur ekki einungis tekið undir þessa gagnrýni, heldur bókstaflega haft þar forustu, birt fleiri og hvassyrtari ádeilugreinar á ráðh. en nokkurt blað annað og farið hinum þyngstu orðum um framferði hans.

Vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, gefa blaðinu Tímanum orðið um stund, svo að ljóst megi verða, hvert traust það blað og væntanlega Framsfl. ber til hæstv. menntmrh.

2. sept. s. l. gat að lesa svo hljóðandi fyrirsagnir í Tímanum: „Embættisafglöp menntmrh. Lélegasti umsækjandinn skipaður skólastjóri á Akranesi. Flokkspólitískt ofstæki látið ráða stöðuveitingunni.“

Í greininni er að makleikum farið mjög lofsamlegum orðum um Eirík Sigurðsson og þess getið, að hann hafi fengið eindregin meðmæli meiri hluta fræðsluráðs og fræðslumálastjóra. Hafi Akurnesingar fagnað því mjög að eiga von á svo ágætum manni til að veita skólanum forstöðu. Síðan segir orðrétt: „Svo skeður það ótrúlega. Menntmrh. virðir einskis vilja meiri hluta fræðsluráðs og fræðslumálastjóra og setur skrifstofumanninn í skólastjóraembættið. ... Ef til vill er hann félagsbundinn í Heimdalli eða Verði, og það eitt virðist nægja. ... Svo langt gengur pólitískt ofstæki menntmrh. Þetta eru embættisafglöp af verstu tegund. Pólitískri leikbrúðu er troðið fram fyrir þjóðkunna uppeldisfrömuði og skólamenn. Það er níðzt á þeirri einlægu viðleitni heimilanna að vilja vanda uppeldi barnanna og njóta hinna færustu manna til að annast það. Þetta er einnig svívirðing við kennarastéttina í heild. Með þessari dæmalausu ráðstöfun segir menntmrh. við kennarastéttina: Góð próf skipta engu máli né heldur mikil reynsla, áhugi og þekking í starfinu, bindindissemi og manndómur. Ef þú fellur fram og tilbiður braskstefnu íhaldsins, skaltu hafinn til hæstu metorða. Þér skal falin forsjá skóla og stjórn á kennurum, sem hafa margfalda hæfileika umfram þig. ... Slíkt mál sem þetta má ekki liggja í þagnargildi. Foreldrar spyrja ekki, hvar í flokki skólastjórinn stendur, heldur hvaða vonir standa til þess, að hann verði þeim að sem beztu liði við uppeldi barnanna. Allir foreldrar vilja vanda það sem bezt og leggja mikið í sölurnar, svo að það takist vel. Þegar menntmrh. gleymir þessari grundvallarskoðun, fremur hann níðingsverk, embættisafglöp, sem ættu að verða honum dýr.“

Þessi stóru orð eru orð Tímans, og er synd að segja, að blaðið lýsi með neinni tæpitungu áliti sínu á hæstv. menntmrh. og vinnubrögðum hans.

Síðan hefur birzt í Tímanum grein eftir grein um þessa og aðrar embættaveitingar hæstv. ráðh., þar sem honum eru valin mörg hörðustu orð tungunnar fyrir misbeitingu valds og trúnaðar. Er sums staðar svo fast að orði kveðið, að ég hliðra mér hjá að lesa, þar eð vera kann, að börn og óharðnaðir unglingar hlýði lestri.

Hér er þó kafli, heldur af mildara taginu, sem Tíminn birti í forustugrein 28. sept. Þar segir: „Í haust hefur misbeiting á valdi ráðh. færzt mjög í aukana og orðið fullkomið hneyksli. Hefur hér í blaðinu verið flett rækilega ofan af veitingu skólastjórastöðunnar á Akranesi, þar sem gengið var fram hjá Eiríki Sigurðssyni yfirkennara á Akureyri, þjóðkunnum skólamanni og æskulýðsleiðtoga, svo að hægt væri að troða í stöðuna reynslulausum skrifstofumanni í Reykjavík, sem aðeins hafði kennt í tvö ár og aldrei komið nærri skólastjórn. Verðleikar hans voru aðeins þeir, að hann fylgdi Sjálfstfl. að málum. Það var þýðingarmeira en allt annað. Verðleikar til starfsins voru algert aukaatriði.“

Síðan er í leiðara þessum deilt fast á menntmrh. fyrir veitingu skólastjórastöðunnar í Hafnarfirði, og að lokum klykkir blaðið út með þessum orðum:

„Lengur virðist það engu máli skipta að taka góð próf, sækja sér framhaldsmenntun, sýna reglusemi og dugnað í störfum sínum. Allt slíkt virðir veitingavaldið að vettugi. Um verðleikana er ekki lengur spurt, heldur þetta eina: Þjónar þú Sjálfstfl.? Það á að fylla upp í eyður verðleikanna og veita hverjum þeim brautargengi, sem hefur skap í sér til þess að kyssa á vöndinn og láta troða sér fram fyrir stéttarbræður sína, sem hafa margfalda verðleika til starfsins.“

Enn er þess að geta, að Tíminn hefur birt langar greinar um veitingu dósentsembættis í guðfræði og áfellzt menntmrh. harðlega fyrir gerðir hans í því máli. Svo mikil hefur áfergja Tímans verið að hella úr skálum reiði sinnar yfir ráðh., að blaðinu hefur hvergi nærri nægt eigið starfslið og sjálfboðavinna flokksmanna til þeirra verka, heldur hefur það fengið lánaðan aðstoðarritstjóra Alþýðublaðsins og birt eftir hann langar ritsmíðar um dósentsmálið.

Nú er fróðlegt að athuga að nokkru, hvernig Sjálfstfl. og höfuðmálgagn hans, Morgunblaðið, hafa svarað þessum hatrömmu ádeilum samstarfsflokksins, ádeilum á einn atkvæða- og valdamesta mann núverandi hæstv. ríkisstj. Fyrsta svarið við reiðilestri Tímans í tilefni af veitingu skólastjórastöðunnar á Akranesi birtist í Morgunblaðinu 5. sept., og var meginefnið á þá leið, að „gamlar syndir sæki nú á hina öldruðu maddömu Framsókn“ og þess vegna sé hún úrill mjög og hafi flest á hornum sér. Síðan er farið nokkrum fleiri orðum um slæmar taugar og bágt skap maddömunnar, og má getum að því leiða, að það veldur nokkrum óþægindum íhaldsbóndanum, sem byggir með henni eina sæng. Að lokum klykkir blaðið út með þeirri spurningu, hvort „Tíminn hafi étið folald“. En það er sveitamál að segja við rakka, sem þykja gjamma helzt til mikið. Þetta var nú aðeins fyrsta kveðjan.

Hinn 19. sept. birtist í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins rækilegra svar til Tímans, og skyldi nú gerð tilraun til að ræða embættaveitingar málefnalega. Skapsmuna Framsóknarmaddömunnar er þá að engu getíð, og á folaldsát er ekki minnzt, en þar eru sagðir þeir hlutir, sem í örstuttu máli bregða upp þvílíkri mynd af stjórnmálaspillingu, að vert er sérstakrar athygli. Morgunblaðið segir, með leyfi hæstv. forseta, og bið ég hv. alþm. og aðra hlustendur að taka vel eftir:

„Um nær aldarfjórðungsbil fyrir 1950 fóru andstæðingar sjálfstæðismanna með embætti menntmrh. Öll þessi ár var það alger undantekning, að nokkrum sjálfstæðismanni væri veitt sérstök trúnaðarstaða í skólum landsins. Þetta ástand hefur leitt til þess, að sumum andstæðingum sjálfstæðismanna virðist það goðgá, að sjálfstæðismenn skuli nú ekki lengur settir hjá um slíkar stöðuveitingar. Uppnámi andstæðinganna nú veldur það, að þá grunar, að þeir, er settir voru í skólastjórastöður á Akranesi og í Hafnarfirði, muni vera sjálfstæðismenn. Skiljanlegt er, að Hannibal Valdimarsson verði óður og uppvægur yfir því, að einn dyggasti fylgismaður hans innan Alþfl. skuli ekki hafa hlotið stöðuna í Hafnarfirði. En ósanngjarnt er að ætlast til, að menntmrh. greiði launin fyrir fylgispektina við Hannibal.“

Svo mörg eru þau orð og nokkru fleiri þó. Það þarf ekki ákaflega mikla skarpskyggni til að sjá og skilja, hver sá hugsunarháttur er, sem liggur að baki þessum orðum. Hér er það sagt, að vísu með dálitlum umbúðum, að vegna þess að einhverjir sjálfstæðismenn hafi einhvern tíma verið rangindum beittir við stöðuveitingar, eigi nú að jafna metin, ekki með réttlæti, heldur með nýju ranglæti, með því að láta sjálfstæðismenn nú njóta þess, hvað sem verðleikum líður, að Sjálfstfl. fer með yfirstjórn menntamála þjóðarinnar. Og í síðustu orðunum, sem ég las úr greininni, felst bókstaflega það, að blaðið, og þá trúlega Sjálfstfl., lítur á veitingar skólastjóraembætta sem umbun eða launagreiðslur fyrir pólitíska fylgispekt.

Hannibal Valdimarsson er í augum þeirra Morgunblaðsmanna vondur maður, sem reynt hefur að spilla fyrir þeim Alþýðuflokknum og verið svo bíræfinn að freista þess að gera hann að öðru en hækju, sem íhaldið gæti gripið til, þegar Framsóknarmaddaman hefur étið folald. Fylgismaður Hannibals Valdimarssonar kemur því ekki til álita, þegar sjálfstæðisráðherra veitir skólastjóraembætti. Opinber störf og stöður skal veita sem umbun fyrir flokksþjónustu.

Ekki hef ég tök á að sanna það, að hæstv. menntmrh. hafi sjálfur ritað þá grein, sem ég nú vitnaði til, en mér þykir hann ekki ólíklegur til þess. Svo mikið er víst, að hún er skrifuð í hans anda og túlkar trúlega þá stefnu, sem hann virðist fylgja við stöðuveitingar.

Nú kann hæstv. ráðh. að segja sem svo: Sjálfstæðismenn hafa á undanförnum árum og áratugum hlotið svo fá skólastjóra- og kennaraembætti í hlutfalli við aðra flokka, að ég hef talið rétt að jafna metin. Slíkt eru engin rök. Í fyrsta lagi er það staðreynd, að meðal þeirra manna, sem hafa búið sig undir uppeldisstörf, hafa jafnan verið fáir fylgismenn íhaldsstefnunnar. Slíkir menn hafa meiri hug á „business“. Í öðru lagi væri það fráleitt með öllu, ef nú ætti að taka sjálfstæðismenn fram yfir aðra hæfari umsækjendur, vegna þess að öðrum sjálfstæðismönnum hefði áður verið sýnd rangsleitni. Þá er komin í gang svikamyllan, sem felst í þessum hugsunarhætti: Af því að aðrir flokkar frömdu ranglæti, hefur minn flokkur rétt til að gera það líka.

Ekki dettur mér í hug að neita því, að ranglæti þeirra, sem fóru með veitingavald, hafi stundum bitnað á sjálfstæðismönnum. Það hefur það vissulega gert. Ferill Framsóknarflokksins í þeim efnum er vissulega ekki mjög fagur, og situr því sízt á þeim flokki að setja sig á mjög háan hest og þykjast útvalinn vörður réttlætis og góðra siða. Og þó að kommúnistar sætu ekki í ríkisstj. nema tvö ár, var það meira en nógu langur tími til að sanna alþjóð, hverjar eru hugmyndir þeirra um réttlæti varðandi embætta- og stöðuveitingar. Ekki er Alþfl. saklaus heldur. En ranglæti annarra veitir engum rétt til að fremja nýtt ranglæti. Slík kenning er stórhættuleg og verðskuldar fordæmingu allra góðra manna.

Ég vík þá aftur þar að, sem fyrr var frá horfið, áliti Framsfl. á samstarfsflokknum og hæstv. dóms- og menntamálaráðherra sérstaklega. Birtist um það eins konar yfirlit í leiðara Tímans 13. okt. s.l. Þar segir:

„Þessi regla Sjálfstæðisflokksins að velja menn eftir flokkslit til trúnaðarstarfa er góð vísbending þess, hvernig stjórnarhættirnir mundu verða, ef hann fengi völdin einsamall. Það mundi eingöngu verða stjórnað með flokkshagsmuni fyrir augum. Sameinuðu fjármálavaldi ríkisins og einkafyrirtækja, sem sjálfstæðismenn ráða yfir, yrði beitt í þágu flokksvélarinnar. Útvaldir gæðingar fengju einir að sitja að kjötkötlunum, en andstæðingarnir yrðu beittir hvers konar misrétti og ólögum. Stjórnarfarið mundi með öðrum orðum nálgast þá misbeitingu og það ofríki, sem nú einkennir stjórnarhætti ýmissa ríkja í Mið- og Suður-Ameríku, þar sem klíkum skefjalausra stórgróðamanna hefur tekizt að ná völdum.“

Þetta er nú lýsingin á stefnu og vinnubrögðum flokksins, sem framsóknarmenn hafa setið í stjórn með óslitið að mestu í hálfan annan áratug. Mun helzt eiga að draga þá ályktun af orðum Tímans, að Framsfl. hafi fórnað sér til þess fyrst og fremst að halda hinum vonda samstarfsflokki niðri, svo að hann ynni ekki öll þau skemmdarstörf, sem innrætið girntist. Kannske væri hægt að koma þar við helmingaskiptum, hugsar Framsfl.

En við þetta er aðeins þá athugasemd að gera, að lýsing Tímans á framtíðardraumum Sjálfstfl. er óhugnanlega lík þeirri mynd, sem alþjóð manna er helzt til kunnug orðin af stjórnmálaspillingu þeirri, sem þegar ríkir í landinu og vaxið hefur hröðum skrefum, eftir því sem sameiginlegt valdatímabil núverandi stjórnarflokka hefur staðið lengur.

Enda þótt greinarkaflar þeir úr Tímanum, sem ég hef nú lesið, séu aðeins lítið brot af því, sem höfuðmálgagn Framsfl. hefur sagt um embættaveitingar hæstv. menntmrh., ætla ég, að það sé nægilegt til að sanna, hvert traust Framsfl. ber til þessa hæstv. ráðh.

Nú er alkunna, að Framsfl. hefur á síðasta flokksþingi sínu samþ. afdráttarlaust vantraust á Bjarna Benediktsson í embætti dómsmrh. Það vantraust hafa forustumenn flokksins að vísu ekki tekið alvarlegar en svo, að leiðtogar hans hafa alla stund síðan setið í ríkisstj., þar sem Bjarni Benediktsson hefur farið með dómsmálin. Hvern dóm flokksmenn Framsóknar almennt leggja á þau vinnubrögð, skal ég ósagt láta.

Enn fremur hefur Framsfl. sýnt það ótvírætt, að hann vantreysti Bjarna Benediktssyni sem utanrrh., með því að krefjast þess, að yfirstjórn þeirra mála væri tekin úr höndum hans og öðrum falin.

Nú get ég ekki að óreyndu ætlað neinum flokki slíka hræsni og tvöfeldni, að allar hinar hatrömmu ádeilur Framsfl. á Bjarna Benediktsson séu gerðar til þess eins að sýnast. Þær séu bornar fram í einu saman blekkingarskyni til að friða hina mörgu óánægðu flokksmenn, sem ekki una eins vel og leiðtogar flokksins þjónustunni við íhaldið. Þó að pólitísk spilling sé hér orðin mikil og margs háttar, þá er naumast hægt að gera sér í hugarlund, að heill stjórnmálaflokkur dirfist að leika svo augljósan skollaleik.

Nú er það grundvallarregla þingræðis. að hver ríkisstj. eða hver einstakur ráðh., sem ekki nýtur lengur trausts meiri hl. þings, skuli leggja niður völd.

Vitað er, að ríkisstj. Ólafs Thors hefur enn nægan þingmeirihluta að baki sér, og því teljum við þm. Þjóðvfl. þýðingarlaust að svo komnu máli að flytja vantraust á hæstv. ríkisstj. í heild, svo rækilega sem hún hefur þó til þess unnið.

Það virðist hins vegar liggja svo ljóst fyrir sem verða má. að einn ráðh. núverandi ríkisstj., hæstv. dóms- og menntmrh., nýtur ekki trausts meiri hl. Alþ. Um afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna ætti að vera óþarfi að ræða, og eins og ég hef þegar gert grein fyrir með mörgum dæmum, hefur Framsfl. kveðið svo fast að orði um misbeitingu hæstv. menntmrh. á völdum og trúnaði, að óhugsandi er, að hann telji ráðh. trausts verðan. Með því mundi flokkurinn opinbera fyrir alþjóð slíka tvöfeldni, að dæmalaus væri.

Okkur þjóðvarnarmönnum er ljóst, að misbeiting valda er eitt augljósasta sjúkdómseinkenni stjórnmálalífs í landinu nú. Sú nauðsyn er næsta brýn, að ráðizt verði gegn því spillingarkerfi, sem hér hefur þróazt of lengi. Aðrir flokkar láta svo sem þeir telji nú helzt til langt gengið á braut ranglætisins. Með flutningi vantrausts á hæstv. menntmrh. höfum við gefið þeim tækifæri til að sýna í verki, hvaða alvara fylgir máli. Þykist ég vita, að stjórnarandstaðan mun fúslega hjálpa Framsfl. til að fella þennan hæstv. ráðh. á verkum sínum, — verkum, sem engir hafa lýst með sterkari og þyngri áfellisorðum en framsóknarmenn.