04.11.1954
Sameinað þing: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (2698)

58. mál, vantraust á menntamálaráðherra

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Vegna blíðmæla hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundssonar, í garð Alþfl. þykir mér rétt að minna hv. þm. á, að allar vonir íhaldsmanna til þess að halda völdum og áhrifum í íslenzkum stjórnmálum þrátt fyrir minnkandi atkvæðafylgi, þrátt fyrir að þeir hafa ekki einu sinni tvo fimmtu atkvæða í landinu, byggjast nú fyrst og fremst á því, að Þjóðvfl. takist að tvístra lýðræðissinnuðum andstæðingum íhaldsins.

Ég geri ráð fyrir því, að áður en langt um líður gefist Gils Guðmundssyni og flokki hans tækifæri til þess að segja til um, hvort hann vill halda áfram þessari björgunarstarfsemi við íhaldið eða hvort hann vill í alvöru vinna að því að brjóta niður völd þess og áhrif og byggja upp samstarf lýðræðissinnaðra andstæðinga þess.

Við Hermann Jónasson vil ég segja það eitt, að það er vissulega ekki líklegasta leiðin til þess að sameina íhaldsandstæðinga í þeim skilningi, sem hann leggur í það orð, að sitja kjörtímabil eftir kjörtímabil í stjórn með íhaldsflokknum og styðja stefnumál hans. Hv. þm. Str. þarf að sýna, að það sé einhver raunverulegur ágreiningur, einhver munur á stefnum milli Sjálfstfl. og Framsfl., einhver annar ágreiningur heldur en um það, hvort það eigi að vera framsóknarmaður eða sjálfstæðismaður, sem veitt er kennara- eða skólastjóraembætti. Meðan hann og flokkur hans unir sér í húsi íhaldsins, þó að honum þyki það lekt og fúlt, þá er ekki líklegt, að hægt sé að koma á samstarfi við Alþfl. Ég vildi ráðleggja honum að segja þessu húsnæði upp, úr því að hann er svona óánægður með það, hverfa frá þeirri stefnu, sem íhaldið hefur markað og núverandi ríkisstj. fylgir. Þá mun ekki standa á Alþfl. að ræða við hann.

Þegar hæstv. núverandi ríkisstj. tók við völdum fyrir rúmlega ári, lýsti Alþfl. því yfir, að hann væri andvígur stefnu hennar og treysti henni ekki til að stýra málefnum þjóðarinnar landsmönnum til gagns og farsældar. Afstaða Alþfl. til ríkisstj. er enn hin sama. Hann telur hana hafa sýnt og sannað með verkum sínum, með athöfnum sínum og athafnaleysi, að hún metur meira hag stuðningsflokka sinna, einstakra stétta og hagsmunahópa á líðandi stund en framtíðarheill almennings í landinu. Þess vegna vantreystir Alþfl. hæstv. ríkisstj. í heild og hverjum einstökum ráðherra hennar.

Alþfl. er því efnislega samþykkur till. þeirri um vantraust á hæstv. menntmrh., Bjarna Benediktsson, sem hér liggur fyrir, svo langt sem hún nær.

Hins vegar er því ekki að leyna, að það hlýtur að vekja nokkra undrun, að vantrausti þessu skuli aðeins beint að menntamálaráðherranum, Bjarna Benediktssyni, og að honum eingöngu sem menntmrh. Eins og kunnugt er, þá fer Bjarni Benediktsson einnig með embætti dómsmrh., en samkvæmt till. er ekki tilætlunin, að vantraustið eigi að taka til hans sem slíks. Er það álit og skoðun hv. flm., að Bjarni Benediktsson hafi rækt starf sitt sem dómsmrh. með þeim hætti, að ekki sé aðfinnsluvert? Óneitanlega virðist liggja nærri að álykta, að svo sé. Vantraustinu er aðeins beint að hæstv. menntmrh. Störf dómsmrh. eru því undanskilin. Honum virðast flm. geta treyst sem slíkum. Veldur það mér nokkurri undrun.

Þessi einkennilega afstaða flm. til ráðherrans Bjarna Benediktssonar, að treysta honum og vantreysta í senn, minnir nokkuð á afstöðu Framsfl. fyrr og nú til þessa sama hæstv. ráðherra. Embættisferill hans sem ráðherra hefur á ýmsan hátt verið eftirtektarverður og sambúð hans við meðráðherra sína með nokkuð einkennilegum hætti stundum. Bjarni Benediktsson átti sæti í ríkisstj. þeirri, sem Steingrímur Steinþórsson myndaði með stuðningi Sjálfstfl. og Framsfl. árið 1950 til þess að lækka gengi krónunnar, bjarga atvinnuvegunum, koma þeim á heilbrigðan grundvöll, eins og það þá var orðað. Gegndi Bjarni Benediktsson þar starfi utanrrh. og dómsmrh. Þegar líða tók að kosningum árið 1953, tók Framsfl. að finna til óværðar í stjórnarsænginni. Á þingi flokksins að áliðnum vetri komu fram nokkrar ádeilur á Bjarna Benediktsson sem utanrrh., en af vissum hagkvæmnisástæðum og vegna stjórnarsamstarfsins þótti ekki heppilegt að lýsa þar vantrausti á Bjarna Benediktsson sem utanrrh., þar sem hann sem slíkur var nánasti samstarfsmaður forsrh. Fyrir fortölur og að leiðbeiningum hygginna foringja var því sú leið farin, að flokksþingið lýsti yfir vantrausti á Bjarna Benediktssyni sem dómsmrh. og veitti honum á þann hátt eins konar syndakvittun sem utanrrh.

Leið svo fram yfir kosningar og þar til hæstv. núverandi ríkisstj. var mynduð haustið 1953 undir forustu Ólafs Thors og aftur með stuðningi Framsfl. og Sjálfstfl. Var þá Bjarni Benediktsson enn gerður að dómsmrh. með ljúfu samþykki Framsfl., að því er bezt er vitað, sem þó 8 mánuðum áður hafði talið hann alveg óhæfan til slíkra starfa. Utanríkisráðherraembættinu varð hann aftur á móti að sleppa, þótt flokksþingið hefði, eins og áður var sagt, gefið honum eins konar aflátsbréf varðandi meðferð utanríkismálanna. Þessi stutta saga um embættisferil Bjarna Benediktssonar sem ráðherra er ekki aðeins skemmtileg; hún er einnig lærdómsrík, mjög lærdómsrík, sýnir vinnubrögðin og sambúðarhættina á stjórnarheimilinu og hjá stuðningsflokkum ríkisstj.

Þegar þessi saga er rifjuð upp, kemur sú spurning í hug margra: Er þarna að finna ástæðuna til þess, að flm. till. bera ekki fram vantraust á dómsmrh.? Álíta þeir, að Framsfl. eigi erfitt með að greiða atkvæði gegn slíku vantrausti vegna fyrri samþykkta flokksþingsins? Vilja þeir létta þeim þunga krossi af Framsfl. að greiða atkv. um slíka till.? Eða kannske halda þeir, að Framsfl. sé líklegur til þess að greiða atkv. með vantrausti á dómsmrh., og vilja ekki leiða flokkinn í þá freistni, sem slíkri atkvgr. mundi fylgja? Spyr sá, sem ekki veit. Þá munu og margir spyrja: Hafa ekki hv. flm. vantraust á öðrum ráðherrum en hæstv. menntmrh. einum? Hvers vegna er ekki vantraustið einnig látið ná til þeirra? Eru þeir fremur trausts verðir en menntmrh.? Má skoða till. þeirra um vantraust á menntmrh. sem óbeina yfirlýsingu um, að við hina megi teljast unandi? Hv. þjóðvarnarmenn hafa grundvallað flokk sinn á einu einasta máli: andstöðunni gegn dvöl varnarsveitanna hér á landi. Þeir hafa deilt hart á hæstv. utanrrh. fyrir meðferð þessara mála, engu síður en ég og aðrir alþm. Telja þessir hv. þjóðvarnarmenn, flm. till., ekki ástæðu til þess að bera fram vantraust á hæstv. utanrrh. fyrir meðferð hans á þessum málum?

Eins og ég fyrr sagði, þá er ég efnislega samþykkur till. þjóðvarnarmanna, svo langt sem hún nær. Það er tvímælalaust skylda hverrar ríkisstj., hvers ráðherra, sem ræður eða skipar mann til starfs eða í embætti, að velja jafnan þann mann úr hópi umsækjenda, sem hæfastur er til starfsins. Þessari skyldu hefur hæstv. menntmrh. brugðizt. Veiting skólastjórastöðunnar í Hafnarfirði og á Akranesi er ótvíræð sönnun þess.

Hv. flm. sýndi með skýrum rökum fram á, að á báðum þessum stöðum hefur hæstv. ráðherra gengið fram hjá þeim umsækjendanna, sem hæfastur var. Mér er persónulega nokkuð kunnugt um störf Stefáns Júlíussonar í Hafnarfirði, bæði sem kennara og sem skólastjóra, meðan hann gegndi því starfi í forföllum skólastjórans. Menntun hans og hæfileikar sem kennara eru eins og bezt má verða. Áhugi hans á skólamálum er alkunnur, og meðan hann var settur í skólastjóraembættið, þótti hann rækja það starf með mestu prýði, enda óskaði fyrrverandi skólastjóri eindregið eftir því, að hann yrði sinn eftirmaður í starfinu. Stefán er maður á bezta aldri, 39 ára. Hann lauk kennaraprófi 1936 og varð kennari við barnaskólann í Hafnarfirði sama ár. Hann tók sér frí frá störfum í tvö ár, 1941–43, til framhaldsnáms í Bandaríkjunum, fyrst við kennaraháskólann í New York. Þar voru aðalnámsgreinar hans námsefni og kennsluhættir í barnaskólum, uppeldisfræði, barnabókmenntir og auk þess heimsóknir í starfandi skóla. Síðari veturinn dvaldist hann í litlum heimavistarskóla í Minnesota og lagði þar stund á bókmenntir, ensku og þjóðfélagsfræði. Árið 1944 innritaðist hann í heimspekideild háskólans hér og lagði stund á bókmenntir, sögu og sálarfræði næstu tvo vetur. Veturinn 1951–52 var Stefán enn við nám í Bandaríkjunum, við Cornellháskólann, og kynnti sér þar kennsluhætti og skólafyrirkomulag í boði Bandaríkjastjórnar. Að öðru leyti hefur Stefán starfað óslitið við barnaskólann í Hafnarfirði, frá því að hann lauk prófi, alls í 18 ár. Yfirkennari skólans var hann ráðinn 1943, og veturinn 1953–54 var hann settur skólastjóri af menntmrh. Af þessu sést, að Stefán á að baki óvenjulega glæsilegan náms- og starfsferil, enda lagði meiri hluti fræðuráðs til, að honum skyldi veitt skólastjórastarfið á s.l. hausti. Fræðslumálastjóri veitti honum að vonum hin beztu meðmæli og gerði tillögu fræðsluráðs að sinni. Allt kom þetta þó að engu haldi. Annað varð þyngra á metunum, þegar málið kom til afgreiðslu hjá hæstv. menntmrh. Öðrum manni, Einari Þorvaldssyni, var veitt starfið, en Stefáni var hafnað. Um hinn nýja skólastjóra hef ég ekkert nema gott að segja. Hæstv. ráðh. rakti hér nokkuð starfsferil hans, og ber ég ekki brigður á, að hann sé hinn mætasti maður, en ég hika ekki við að fullyrða það, eftir þær upplýsingar, sem ráðherra hefur veitt, að sá, sem staðan var veitt, hefur ekki fengið jafnvíðtækan og alhliða undirbúning eins og Stefán til þess að taka við stjórn barnaskóla af þeirri stærð, sem barnaskólinn í Hafnarfirði er. Hitt er og á hvers manns vitorði í Hafnarfirði, að flestir bæjarbúar töldu sjálfsagt, að Stefáni yrði veitt starfið, og þeir kennarar, sem bezt þekktu til starfa hans og hæfni, vildu ekki sækja um skólastjórastarfið gegn honum.

Þegar alls þessa er gætt, verður augljóst, að hæstv. menntmrh. hefur misbeitt valdi sínu, hann hefur ekki valið hæfasta umsækjandann. Hann hefur látið önnur sjónarmið ráða vali sínu: flokkssjónarmiðin.

Gústaf Lárusson hefur verið kennari við gagnfræðaskólann á Ísafirði í 16 ár og er viðurkenndur ágætur kennari. Hann hefur gegnt skólastjórastörfum þar margsinnis í forföllum skólastjórans, og á s.l. skólaári setti menntmrh. hann í starfið. Að umsóknarfresti loknum reyndist hann eini umsækjandinn.

Svo sjálfsagt töldu starfsbræður hans flestir, sem til þekktu, að hann fengi skólastjórastöðuna. Sökum fjarveru eins manns úr fræðsluráði var ákveðið að framlengja frestinn og leita nýrra umsókna. Þá gaf einn sig fram, sem var ráðherra að skapi. Meiri hluti fræðsluráðs lagði til, að Gústaf yrði veitt starfið. Það kom fyrir ekki. Gústaf fann ekki náð fyrir augum ráðherrans, hann hafði ekki hinn rétta flokkslit. Guðjón Kristinsson er talinn mætur maður og góður kennari, en reynsla hans og starfstími þola engan samanburð við reynslu og störf Gústafs Lárussonar. Einnig við skipun skólastjórastöðu gagnfræðaskólans á Ísafirði hefur því hæstv. menntmrh. látið flokkssjónarmið ráða.

Ég hef gerzt svo fjölorður um skipun ráðherra í þessar tvær stöður, vegna þess að þar kemur greinilega í ljós, hversu hæstv. ráðherra virðir gersamlega að vettugi hæfileika, námsferil, starfsaldur og reynslu svo og tillögur fræðsluráðs og fræðslumálastjóra, þegar honum býður svo við að horfa, þegar umsækjendurnir eru ekki úr því rétta sauðahúsi eða réttara sagt ekki úr því rétta flokkshúsi.

Ýmsir flokksmenn hæstv. ráðherra, sem gert hafa tilraun til að mæla bót eða afsaka þessar gerðir hans, hafa látið í það skína, — og hið sama kom að nokkru leyti fram í ræðu hans, — að fyrrverandi menntamálaráðherrar hafi unnið svo rækilega að því að koma flokksmönnum í kennarastöðurnar, að nú væri full nauðsyn að jafna metin með því að láta sjálfstæðismenn ganga fyrir og útiloka aðra.

Stjórnarblaðið Tíminn, sem að sjálfsögðu er þaulkunnugt öllu, sem gerist á stjórnarheimilinu, staðfestir þetta fullkomlega, eins og upplestur hv. frsm. sýnir og sannar. Ég skal að þessu sinni aðeins minna á ummæli þessa ágæta blaðs 13. okt., þar sem það slær því föstu, að það sé regla Sjálfstfl. — eins og það er orðað — að velja menn eftir flokkslit til trúnaðarstarfa. Hér mælir sá, sem þekkinguna hefur eftir margra ára samstarf og reynslu. Þetta er regla Sjálfstfl. — segir stjórnarblaðið, og ég efa ekki, að það segi rétt frá. En er það þá Sjálfstfl. einn, sem beitir þessari reglu? Er þetta ekki reglan á stjórnarheimilinu? Hafa framsóknarmenn ekkert lært af sessunautum sínum og samstarfsmönnum undanfarin ár? Er það eintóm tilviljun, hversu margir nýir skattstjórar og hversu margir þeirra manna, sem valdir hafa verið til trúnaðarstarfa fyrir fjmrn., þegar ráðherra Framsfl. hefur verið þar við stýri, hafa borið á sér framsóknarlit? Eða eru framsóknarmenn öllum öðrum hæfari til slíkra starfa einmitt á þeim tímum? Svo munu margir spyrja.

Því er ekki að leyna, því miður, að hæstv. ríkisstj. í heild og flestir eða allir meðlimir hennar hafa við veitingu embætta og val manna til trúnaðarstarfa litið meira á hag stuðningsflokka sinna en vera ætti og ekki metið reynslu, þekkingu og hæfileika að maklegleikum, þegar flokksliturinn hefur ekki verið hinn rétti.

Hæstv. menntmrh., Bjarni Benediktsson, hefur sýnt meiri ófyrirleitni upp á síðkastið, — fyrirgefið, meiri framtakssemi, skulum við segja, heldur en hinir í þessu efni, en reglan virðist vera nokkuð svipuð hjá hinum öðrum.

Alþfl. hefur lengi verið það ljóst, hvílík meinsemd hér er að grafa um sig. Þess vegna flutti einn af þm. hans, Gylfi Þ. Gíslason, fyrir nokkrum árum frv. þess efnis, að við embættaveitingar skyldu gilda fastar, ákveðnar reglur. Embætti skyldu jafnan auglýst, en á því hafði verið misbrestur. Ákveðnir aðilar skyldu meta hæfni umsækjenda og gera tilh til veitingarvaldsins. Ef ráðh. ekki færi að till. hlutaðeigandi aðila, þá skyldi hann jafnan birta opinberlega grg. með veitingunni og rökstyðja, af hverjum ástæðum hann hefði ekki farið að tillögunni. Ef þetta frv. hefði orðið að lögum, hefði það án efa skapað ráðh. nokkurt aðhald við embættaveitingar, þar sem almenningur þá fékk gögn í hendur til þess að dæma um gerðir hlutaðeigandi ráðh., hvort um misbeitingu veitingarvaldsins væri að ræða.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar, að Alþfl. gæti ekki borið traust til hæstv. ríkisstj. Hún hefur sýnt það og sannað, að hún metur meira hag stuðningsflokka sinna en heill þjóðarinnar. Embættaveitingar þær, sem hér hefur verið rætt um, sanna þetta. En þær eru aðeins örfá dæmi af mörgum, fjölmörgum, og misgerðir hæstv. ríkisstj. á öðrum sviðum, sem framkvæmdavald hennar og einstakra ráðh. tekur til, eru sízt minni en á sviði embættaveitinganna, heldur oftlega meiri, miklu stærri og áhrifaríkari. Öll saga hæstv. ríkisstj. og fyrirrennara hennar, gengislækkunarstjórnarinnar frá 1950, er samfelld saga um misbeitingu flokksvaldsins. Löggjafarvaldið, sem stuðningsflokkar hennar hafa í höndum sér, og framkvæmdavald ríkisstj. hefur hlífðarlaust verið notað til þess að bæta hag og hlutskipti einstakra stétta, einstakra hagsmunahópa og einstakra manna, sem næstir standa stjórnarflokkunum, og allt þetta gert á almennings kostnað.

Fyrsta og stærsta skrefið í þessa átt var stigið með gengislækkuninni árið 1950. Þá var íslenzk króna lækkuð í verði um 42%, en af því leiddi, að útlendar vörur hækkuðu í innkaupi um rösklega 70%. Gert var ráð fyrir, að útfluttar vörur hækkuðu um tilsvarandi hundraðshluta, og fullyrti ríkisstj., að á þennan hátt, með gengislækkuninni, væri leyst úr öllum erfiðleikum útgerðarinnar, sérstaklega erfiðleikum bátaútvegsins, sem nauðsyn hafði reynzt til að aðstoða með útflutningsuppbótum tvö undanfarin ár. Gengislækkunin var þá kölluð bjargráð atvinnuveganna, blessun fyrir þjóðina. Fjármálasérfræðingar stjórnarinnar sönnuðu með löngum skýrslum og vísindalegum útreikningum, að dýrtíðaraukningin innanlands vegna gengislækkunarinnar mundi ekki verða meiri en 11–13% og að atvinnuvegunum mundi reynast auðvelt að taka á sig kauphækkun til þess að mæta þessu. Um hitt var færra talað, að með gengislækkuninni var eignaskiptingu þjóðarinnar raskað gífurlega. Verðmæti sparifjár var skert um nær helming, krónan gerð að 50 aurum svo til í einni svipan. Þeir, sem greiðastan höfðu haft aðgang að bönkum og öðrum lánsstofnunum og fengið ríflegt lánsfé og mestar eignir höfðu handa á milli, fengu tilsvarandi skuldalækkun, eins þótt þeir ættu margfaldar eignir á móti skuldum. Hver króna, sem þeir skulduðu, var einnig gerð að 50 aurum. Skatturinn, sem með gengislækkuninni var heimtaður af sparifjáreigendum, sem höfðu lagt bankanum til starfsfé og sparað langa ævi til elliáranna, rann nú í vasa þeirra, sem útlánanna höfðu notið, jafnframt því sem fasteignir þeirra og framleiðslutæki hækkuðu stórkostlega í verði. Tekjuskiptingin innanlands raskaðist jafnframt stórkostlega, þar sem engar ráðstafanir voru gerðar til þess að hefta þetta gróðabrall og tryggja hið nýja gengi. Dýrtíðin jókst hröðum skrefum, ekki um 11–13%, eins og sérfræðingarnir höfðu sannað, heldur margfalt meira. Eftir 2½ ár, haustið 1952, var vísitalan komin yfir 160 stig. Þá var loks fyrir aðgerðir verkalýðssamtakanna knúið fram með þriggja mánaða verkfalli, að nokkur viðleitni var hafin til þess að draga úr dýrtíðinni, með þeim árangri, að vísitalan telst nú vera 159 stig. Hækkanir kaupgjalds hafa jafnan komið á eftir hækkun vísitölunnar. Launastéttirnar hafa því ekki aðeins fengið sparifé sitt fellt í verði með gengislækkuninni, heldur hefur hún einnig orðið til þess að rýra kaupmátt launanna, enda var sú tilætlunin.

Það er ekki hægt að græða nema með því að græða á einhverju. Í innanlandsviðskiptum er eins gróði annars tap. Gengislækkunin hefur flutt féð úr vösum launastéttanna og sparifjáreigenda í vasa fasteignaeigenda og milliliða. Hún hefur verið þeim gróðalind, en öðrum eignatjón. Í framhaldi gengislækkunarinnar var húsaleigueftirlitið afnumið, til þess að gróðamöguleikar þeirra, sem selja húsnæði á leigu, gætu aukizt ótakmarkað. Afleiðingarnar þekkja allir, a. m. k. allir Reykvíkingar. Hér er ægilegur skortur á húsnæði. Hver býður yfir annan til þess að fá þak yfir höfuðið. Fjöldi fólks greiðir þriðjung tekna sinna og margir þar yfir til þess að fá húsaskjól. Og enn sem fyrr verður barnafólkið, stóru fjölskyldurnar, harðast úti. Bankarnir eru lokaðir þeim, sem sækja um lán til íbúðabygginga. Alls konar óþarfi er fluttur til landsins fyrir milljónatugi. Á honum má græða ótakmarkað. En byggingarefnið er takmarkað. Svarti markaðurinn er helzta björg þeirra, sem ráðast í það stórræði að reyna að koma sér upp íbúð af litlum efnum. En sú björg er dýr, 6½% skuldabréf, jafnvel þótt tryggð séu með öruggu veði og ábyrgð ríkissjóðs, ganga kaupum og sölum með þriðjungsafföllum. Milliliðirnir, sem verzla með peningana, hirða gróðann. Auknar íbúðabyggingar yrðu til þess að lækka húsaleiguna. En slík lækkun húsaleigunnar mundi draga úr gróða þeirra, sem hafa aðaltekjur sínar af því að leigja öðrum íbúðir. Verðlagseftirlitið hefur einnig verið afnumið, innflytjendum, heildsölum og öðrum milliliðum þar með í sjálfsvald sett að ákveða álagninguna, skammta sér sjálfir tekjurnar. Afleiðingin varð auðvitað meiri, hærri álagning, hærra vöruverð, meiri gróði, vaxandi dýrtíð. Afleiðing dýrtíðaraukningarinnar var aftur sú, að allur framleiðslukostnaður bátaútvegsins, sem gengislækkunin átti að bjarga, hækkaði hröðum skrefum, svo að útvegurinn var engu betur settur eftir en áður, nema síður sé. Allur gróðinn af þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar rann til annarra. Aftur blasti við stöðvun vélbátaútvegsins. Aftur þurfti að bjarga.

Þá var gripið til bátagjaldeyrisálagsins, ný gengislækkun framkvæmd og að þessu sinni án þess að leita til löggjafarvaldsins. Nýr skattur var lagður á þjóðina, nýir gróðamöguleikar skapaðir fyrir auðmannastéttina og milliliði, nýjum og auknum vexti hleypt í dýrtíðina, framleiðslukostnaðurinn enn aukinn og hækkaður. Ávextirnir komu brátt í ljós. Nýju togararnir, sem fram til þessa höfðu komizt af og nokkrir skilað afgangi, urðu nú líka að gefast upp og leita aðstoðar hins opinbera. Allur tilkostnaður við útgerð þeirra hækkaði stórkostlega vegna dýrtíðaraukningarinnar, sem af bátagjaldeyrisálaginu og öðrum ráðstöfunum ríkisstj. leiddi, en fiskverðið stóð í stað. Hraðfrystihús og fiskvinnslustöðvar greiða 80–85 aura fyrir togarafiskinn, á sama tíma sem bátaútvegsmenn fá fyrir fiskinn að minnsta kosti eitthvað á milli kr. 1.22 og kr. 1.30 fyrir kg. Liggur í augum uppi, að slík aðstaða er vonlaus þrátt fyrir þá miklu yfirburði, sem togararnir hafa til aflafanga umfram önnur veiðiskip, enda er nú svo komið, að hæstv. ríkisstj. telur óhjákvæmilegt að leggja hverjum togara um 3000 kr. á dag eða 1 millj. kr. á ári sem styrk, ef ekki reynist unnt að fá eigendur hraðfrystihúsanna til þess að hækka fiskverðið til þeirra og olíufélögin til að lækka verðið á olíunni, sem af þeim er keypt, og að nokkrar fleiri ráðstafanir séu gerðar. Og það hefur tekið hæstv. ríkisstj. hvorki meira né minna en fulla 10 mánuði og kostað mikið orðaskak að komast að þeirri augljósu niðurstöðu, að þess sé ekki að vænta. að rekstur togaranna geti borið sig með þriðjungi lægra verð fyrir fiskinn en bátaútvegurinn fær.

Mikill hluti togaranna er nú í opinberri eign, eign bæjar- og sveitarfélaga, t. d. á Reykjavíkurbær 8 af þeim. Sumir ætla, að ef togararnir, allir eða flestir, væru einkaeign eins og áður var, þá hefði hæstv. forsrh. og sjútvmrh., Ólafur Thors, ekki verið jafnsvifaseinn til aðgerða eins og hann hefur reynzt að þessu sinni.

Ríkisstj. hefur gert heildarsamninga við Rússa um kaup á allri olíu og benzíni, sem til landsins flyzt. Þennan samning hefur hæstv. ríkisstj. afhent olíufélögunum. Þau annast því flutningana til landsins og alla sölu innanlands. Það er vitað og viðurkennt, að þessi félög, þessir milliliðir, eru stórfelldustu gróðafyrirtækin í landinu og eru í nánum tengslum við erlend olíufélög. Ágóði þessara félaga er tekinn af íslenzkum útgerðarmönnum og sjómönnum. Gróði félaganna er þeirra tap. Mikill hluti af halla útgerðarinnar rennur sem hagnaður til olíufélaganna, og sama má og að verulegu leyti segja um hraðfrystihúsin, sum að minnsta kosti, og aðrar fiskvinnslustöðvar. Það er vitað og viðurkennt, að þessum fyrirtækjum hefur yfirleitt farnazt vel. Sum hafa skilað stórfelldum gróða, samtímis því sem útgerðin, sem afhendir þeim afurðir sínar, sífellt er rekin með stórtapi.

Við Alþfl.-menn litum svo á, að ríkið, þjóðin öll, eigi að taka að sér innflutning og sölu á allri olíu og benzíni og afla sér hentugra skipa til þeirra flutninga. Á þann hátt á að tryggja útgerðinni þessa nauðsyn með réttu sannvirði. Við teljum, að hraðfrystihús, fiskvinnslustöðvar og önnur fyrirtæki, sem nátengd eru útgerðinni, eigi að vera félagseign þeirra, sem við útgerðina fást, útgerðarmanna og sjómanna, svo að í þeirra hendur komi það raunverulega verð, sem fyrir afurðirnar fæst. Um þessi efni höfum við borið fram og berum fram till. og frv. hér á Alþ., en hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar neita öllu slíku. Allar slíkar aðgerðir fara nefnilega þvert í bága við stefnu hæstv. ríkisstj. Hennar stefna er að hlynna að gróðamönnunum á kostnað þeirra, sem vinna framleiðslustörfin og að nauðsynlegri þjónustu. Þessi stefna hefur leitt til þess ástands, sem þjóðin nú býr við í atvinnu- og efnahagsmálum.

Og hvernig er þá ástandið að dómi hæstv. ríkisstj. sjálfrar? Vélbátaútveginum er haldið uppi með bátagjaldeyrisálaginu. Er áætlað, að það nemi á þessu ári um 100 millj. kr. Togararnir þurfa samkvæmt áætlun ríkisstj. um 3000 kr. dagpeninga hver, til þess að útgerðin geti borið sig. Það eru um 40 millj. kr. á ári. Í fjárlögunum eru ætlaðar 50 millj. kr. til svonefndra dýrtíðarráðstafana. Það er til niðurgreiðslu á verði landbúnaðarafurða aðallega. Sú upphæð hækkar án efa nokkuð í meðferð þingsins. Til atvinnuaukningar, til að afstýra atvinnuleysi og til hliðstæðra ráðstafana í kaupstöðum og kauptúnum er gert ráð fyrir að þurfi nálægt 20 millj. kr. Samtals nema þessar upphæðir, sem hæstv. ríkisstj. telur óhjákvæmilegt að taka með álögum á landsfólkið til að forða atvinnuvegunum frá algeru hruni, nokkuð yfir 200 millj. kr. Þetta er mat hæstv. ríkisstj. sjálfrar á þörfum atvinnuveganna og aðstöðu þeirra.

Þannig er þá háttað afkomuöryggi landsmanna, eftir að hæstv. ríkisstj. í 4½ ár hefur unnið að því að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll og tryggja þeim hallalausan rekstur, eins og yfirlýst var og lofað, þegar ríkisstj. tók við.

Skattana átti að lækka. Þeir hafa farið sívaxandi ár frá ári. Tekjur ríkissjóðs á þessu ári eru áætlaðar 550 millj. kr. Það eru 3500 kr. á hvert einasta nef í landinu. Á þessu eina ári er gert ráð fyrir eftirtöldum hækkunum og álögum á landsfólkið, einnig að áætlun hæstv. ríkisstj.: Aukning eldri skatta og tolla um 70 millj. kr. Aukning bátagjaldeyrisálags nálægt 25 millj. kr. Nýr skattur, bílaskattur, sem þó er alls ófullnægjandi til þess að bjarga togurunum, 16 millj. kr. Þessar hækkanir samtals nema 111 millj. kr. Ofan á tollabyrðina og bátagjaldeyrisálagið bætist svo óskömmtuð álagning innflytjenda og annarra milliliða, sem skiptir hundruðum millj. kr.

Hversu lengi verður haldið áfram á þessari braut? Hversu lengi er það hægt? Ekki er hægt að halda áfram í það óendanlega að auka álögur á landsfólkið og auka skattana til ríkissjóðs og gróðastéttanna. Ekki er heldur hægt að halda aðalatvinnuvegum þjóðarinnar uppi til lengdar með styrkjum úr ríkissjóði og sívaxandi álögum á almenning. Og ekki er hægt í það óendanlega að þynna krónuna, minnka verðgildi sparifjár, minnka verðgildi peninganna. Það er ekki hægt að koma krónunni lengra niður en niður í núll. Lengra fellur hún ekki.

Hæstv. ríkisstj. segir, að þetta ár og hið síðasta hafi verið góðæri. Það er sennilega alveg rétt frá hennar sjónarmiði. Það hefur verið mikið gróðaár, og það kallar hæstv. ríkisstj. góðæri. Við höfum eignazt, ja, ég veit ekki hvað marga, áreiðanlega nokkur hundruð milljónamæringa á síðustu árum. Hversu marga er ekki hægt að segja um, því að nú er hætt að birta skattskrárnar, sem fram að þessu hafa verið birtar opinberlega. En öryggisleysið í efnahags- og atvinnumálum okkar Íslendinga hefur aldrei verið jafnátakanlegt og einmitt nú. Afkoma landsmanna og atvinnuöryggi hefur aldrei verið í meiri hættu en nú.

Tvö síðustu árin hefur íslenzka þjóðin að mjög verulegu leyti lifað af tekjum af dvöl varnarliðsins hér og afurðasölunni til Rússlands. Þetta tvennt er ástæðan til þess, að hér er ekki nú þegar komið ægilegt atvinnuleysi. Allir vonum við, að dvöl varnarliðsins hér verði á enda fyrr en síðar. Og samningurinn við Rússa getur fallið niður hvenær sem er, þegar þeim býður svo við að horfa.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, virðist nú líka vera kominn á þá skoðun, að gengislækkunarstefna hans hafi ekki reynzt slíkt bjargráð og þjóðarblessun sem hann fullyrti. Í upphafi þessa þings lét hann Morgunblaðið flytja þjóðinni þau skilaboð, að hann og ríkisstj. mundu verða í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn nýrri gengislækkun, — ný gengislækkun væri þjóðarógæfa, sem skylt væri að afstýra. Öðruvísi mér áður brá. Hefur hann lært af reynslunni? Hitt má hann ekki misvirða við mig, þó að ég, er ég lít til aðgerða hans á undanförnum árum, vantreysti honum til þess að vera öruggur í fylkingarbrjósti í slíkri baráttu.

Því var lýst yfir, þegar hæstv. núverandi ríkisstj. var mynduð, að hún hefði stuðning 37 þm. Mér þykir nú rétt, ekki sízt eftir þessi ummæli hæstv. forsrh., að kanna, hvort þingfylgi hæstv. ríkisstj. er enn hið sama. Mér þykir ástæða til þess að kanna, hvort einhverjir fleiri en hæstv. forsrh. eru farnir að missa trúna á gengislækkunar- og gróðastefnuna, sem ríkisstj. hefur framkvæmt og fylgt til þessa. Mér þykir því rétt að bera fram brtt. við till. þá, sem hér liggur fyrir. Hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Brtt. við till. til þál. um vantraust á menntmrh. Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á núverandi ríkisstjórn.“

Áður en greidd verða atkv. um till. hv. þjóðvarnarmanna um vantraust á menntmrh., þykir mér rétt, að það komi alveg skýrt fram, að Alþfl. vantreystir einnig öðrum hæstv. ráðherrum með tölu og ríkisstj. í heild. Verði þessi brtt. felld, mun Alþfl. að sjálfsögðu greiða atkv. með till. þjóðvarnarmanna um vantraust á menntmrh.