08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (2717)

158. mál, aðbúnaður fanga í Reykjavík

Flm. (Gunnar M. Magnúss):

Herra forseti. Það mun almennt viðurkennt af þeim, sem nokkuð til þekkja, að margs konar vandkvæði séu nú á meðferð fanga eða manna, sem handteknir eru af lögreglunni í Reykjavík og hafðir þar í haldi um lengri eða skemmri tíma. Alloft ber það við, að fluttar eru í blöðum frásagnir af vistarverum lögreglunnar, sem handteknum mönnum er varpað í. Og tíðum kemur fram hörð gagnrýni á framferði lögreglunnar og löggæzlumanna í sambandi við handtökur og meðferð fanga.

Till. sú til þál., sem ég hef lagt hér fram til fyrirgreiðslu hv. Nd. Alþingis, fer fram á, að skipuð verði n. til þess að rannsaka aðbúð fanga í Reykjavík. Þetta orðalag er ekki að öllu fullnægjandi samkv. þeim tveim meginrökum, sem till. er byggð á og ég skal nefna. Í fyrra lagi, svo sem hér er orðað, „að rannsaka aðbúð fanga“, en að hinu leytinu að rannsaka aðbúð lögreglunnar og aðstöðu hennar til fyrrgreindra starfa og athafna.

Ég hef borið þetta mál inn í hv. Alþ. sökum þess, að ég lít svo á, að það sé ekki eingöngu mál einstaklinga og lögreglunnar í hinum ömurlegu samskiptum. Ég lít á það sem mál höfuðborgarinnar í heild og á mál höfuðborgarinnar sem þjóðmál. Tilgangurinn er sá að reyna að létta bæði lögreglunni og hinum handteknu mönnum að einhverju leyti það hlutskipti, sem þeir hafa ratað í saman.

Lögreglan býr við ýmis vandkvæði og erfiðleika og gerir sennilega margt verr en skyldi sökum óhagstæðra skilyrða. Lögreglustöð Reykjavíkur er í hjarta borgarinnar og við aðalsamgönguæðina til hafnarinnar og á milli tveggja fjölförnustu gatna borgarinnar, Austurstrætis og Hafnarstrætis. Þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að óheppilegri staður fyrir slíka miðstöð er ekki til í borginni. Þar er í rauninni daga og nætur opinber sýning á þeim mönnum, sem fyrir einhver óhöpp lenda í höndum lögreglunnar. Geta má nærri, hvílík óheillaáhrif það hefur á ungling, sem í fyrsta sinn verður fyrir því að vera handtekinn af lögreglunni og ekið til lögreglustöðvarinnar, tekinn þar, oft illa til reika, út úr lögreglubílnum og dreginn milli tveggja lögregluþjóna inn í stöðina í viðurvist vegfarenda, sem oft eru fjölmargir á þessum mestu umferðargötum borgarinnar. Það er ekki ósennilegt, að slík meðferð kveiki neista óvildar, þrjózku, virðingarleysis og e. t. v. haturs gegn lögreglunni. Þau eru orðin mörg smábörnin í Reykjavík, sem hafa orðið áhorfendur að slíkum sýningum og þá ef til vill í fyrsta sinn vaknað til meðvitundar um ímynd lögreglustarfsins. Og hver mun sú gróðursetning verða í huga barnsins? Með hverjum mun samúð barnsins verða við slíka sýningu? Hvort mun hún verða með þeim, sem sveigir mjóar beinapípur unglingsins á bak aftur í handjárnin, eða hinum, sem grátandi er fleygt í Steininn fyrir sína fyrstu yfirsjón, ef þá hefur verið um yfirsjón að ræða? Ég er ekki neinum vafa um svarið. Og ég hygg, að áhrif frá slíkum sýningum séu víðtækari en nokkurn grunar. Þessar sýningar á almannafæri eru einhver mestu spillingarfyrirbæri borgarinnar.

Það er staðreynd, að lögregla Reykjavíkur hefur átt í vök að verjast í almenningsálitinu, og það er illa farið. Ég hygg, að auglýsingar- og sýningarstarf það á opnum vettvangi, er ég minntist á, sé einhver veigamesta ástæðan fyrir því, að hér í borg eru svo margir andstæðir lögreglunni og bera virðingarleysi fyrir störfum hennar. En virðingarleysi, sem lögreglan finnur utan að sér, skapar aftur vissa uppherzlu og andúð í fari þeirra einstaklinga, sem fyrir því verða, og leiðir oft til mannúðarleysis og illra afleiðinga. Harka í framkomu, þjösnaskapur, yfirdrottnun og tillitslaus valdbeiting orkar jafnan mjög til hins verra, á gagnstæðan hátt við það, að allur skilningur, hógværð og mildi í samskiptum orkar með undraverðum áhrifum til heilla.

Ég fullyrði, að lögregla Reykjavíkur býr við undravert skeytingarleysi frá hálfu hins opinbera og frá hálfu borgaranna yfirleitt. Það eitt, að lögregluþjónar skuli þurfa að inna af höndum hin ömurlegustu störf á opnum vettvangi, sem kalla mætti aðalsýningarsvæði borgarinnar í þessu tilliti, lamar manndóm, sljóvgar mannvirðingarkenndina gegn hverjum einstaklingi, hefur skemmandi áhrif á uppeldismálin og siðmenningu borgarbúa yfirleitt, einkum æskulýðsins. Sögur, sem í rauninni þyrftu aldrei að myndast, ganga frá manni til manns og magna andúð gegn þessu starfsliði, sem hver og einn borgari vill þó eiga að, þegar á bjátar. Það er eitthvað ömurlega öfugt í slíkum samskiptum. Þessi andúð hefur orðið svo smitandi, að undir hver áramót hefur hún geisað um bæinn eins og pest. Og á gamlárskvöld beindust árásir lýðsins með dulmögnuðum heiftarhug að lögreglustöðinni til þess að brjóta, sprengja og slasa, og sáust menn ekki fyrir, einkum unglingar. Einhver innibyrgður hefndarhugur fékk nú útrás, og lögreglan skyldi fá að súpa seyðið af verkum sínum alla hina daga ársins Og svar lögreglunnar var að verja kastalann, bæta við fleiri lögreglumönnum, vígbúast og vopnast betur gegn samborgurunum. Nauðvörn. Það mætti spyrja: Hvers vegna ekki árás á bæjarskrifstofurnar eða tollskrifstofurnar, sem seiða aurana og krónurnar úr léttum pyngjum borgaranna? Hvers vegna ekki á skólana, þar sem leiðinlegir kennarar halda unglingunum meiri hluta árs í fangelsi bókstafsþrældómsins? Hvers vegna ekki árás á skrifstofu Slysavarnarfélagsins? Hvers vegna á lögreglustöðina? Eru ekki lögregluþjónarnir oftast kallaðir fyrstir til hjálpar, þegar slys ber að höndum? Leggja þeir ekki oft líf sitt að veði við skyldustörfin ?

Þegar svo hafði gengið lengi sem ég hef lýst hér fyrr, jafnvel í áratugi, að lögreglan hervæddist á gamlárskvöld gegn ósköpum fjöldans, rann upp ljós hjá forráðamönnunum og þeim hugkvæmdist einfalt ráð. Lögreglan gekk til móts við mannfjöldann, tók þátt í gleði fólksins, gekkst fyrir áramótabrennum á mörgum stöðum, veitti útvarpsmúsík gegnum hátalara í bílum sínum, mildaði hugsunarháttinn og hlaut verðskuldaðar vinsældir á svipstundu. Með þessu einfalda ráði létti hún af sér þungu fargi og breytti yfirvofandi fári í þjóðlega, hóflega skemmtun. Yfirlögregluþjónn Reykjavíkur hefur tjáð mér, að nú þurfi ekki að horfa með ugg til gamlárskvöldsins, þó að aldrei verði fyrirbyggt, að einhver misferli verði.

En hefur þá hið einfalda ráð, hinn óhaggandi vísdómur um samskipti manna á milli verið notaður hina 364 sólarhringa ársins? Ég dreg það í efa. Ég hygg, að gagnrýni um slæma aðbúð handtekinna manna í Reykjavík eigi við rök að styðjast. Ég hygg, að sögusagnir um þessi efni, sem ganga manna á milli, séu yfirleitt ekki gripnar úr lausu lofti. En það, sem nefna má aðbúð í þessum tilfellum, byggist á tvennu: umhverfi því eða vistarveru, sem fanginn er settur í, og að hinu leytinu samskiptum fangans og þess manns eða þeirra manna, sem hann verður að lúta að því sinni. Harður bekkur getur orðið bærilegur dvalarstaður þjáðs manns í nærveru sálar, sem skilur hann. En dvölin á honum um stundarsakir getur einnig orðið ævarandi meináta í lífi fangans, sökum þess að hann var beittur tyftun, sem í engu beinu orsakasambandi var afleiðing þess verknaðar, er fanginn var handtekinn fyrir.

Í allflestum tilfellum mun handteknum mönnum vera steypt í lögreglukjallarann eða Steininn við Skólavörðustig sökum afleiðinga áfengisdrykkju. Ríkið selur veitingarnar; ríkið sér einnig um tyftun viðskiptavinanna. Fulltrúum ríkisins í þessum efnum er því allþungur vandi á höndum. Það má vefengja margt að óreyndu máli og einnig um þessi efni, en þeir, sem vefengja, ættu að ganga út á strætin og spyrja borgarana: Hvernig heldur þú, að aðbúð fanga sé í Reykjavík? Eflaust mundu margir svara: Ég veit ekkert um það. — En þeir mundu verða margir, sem segðu: Hún er óverjandi, ósæmileg menningarþjóð. — Ég hygg, að enginn svaraði: Þetta er gott; svona á það að vera. — Og ef svo reyndist, að enginn segði: Það er allt í lagi, — jafnvel ekki starfsmennirnir sjálfir, er þá ekki kominn tími til að athuga umbætur á þessum sviðum?

Í sambandi við þessi örlagaríku mál mætti varpa fram nokkrum spurningum til athugunar: Hefur lögreglan húsnæðislega aðstöðu, sem nauðsynleg er til þess að hafa menn í haldi um lengri eða skemmri tíma? Hefur lögreglan aðstöðu til þess að veita hinum handteknu mönnum ró og næði til þess að átta sig á orðnum hlut, áður en þeim er varpað í dýflissuna? Hafa lögreglumenn fengið kennslu eða lærdóm í því að umgangast menningarlega handtekna menn, sjúka menn, særða að metnaði, særða á líkama og sál? Kennarar verða að læra að umgangast börn. Hjúkrunarkonur verða að læra, hvernig á að umgangast sjúklinga, og það verður að veita börnum og sjúklingum rétt í fyrstu lotu, ef svo mætti að orði komast. Ég hygg, að það þyrfti að veita hinum handteknu mönnum rétt í hinni fyrstu lotu, áður en farið er með þá lengra niður í jörðina.

Ég hef bent á margt málum þessum lútandi, sem utan dyra er hverjum vegfaranda til sýnis. Það, sem innan dyra gerist og ég hef að sumu leyti látið skina í, er þó flestum borgurum ókunnugt um. Það er því tilgangur þáltill. minnar, að væntanleg n. athugi þetta mál og geri till. til úrbóta hið bráðasta. Ég býst við, að það sé ómótmælanlegt, að það sé til vansæmdar og skaða að láta þessi mál afskiptalaus.

Ég ætlast til þess, að reynt verði hvort tveggja í senn: að létta og bæta störf og aðstöðu lögreglunnar, koma til móts við hana, svo að hún komist til þeirrar virðingar. sem henni er nauðsyn og ber, við góð skilyrði, og að hinu leyti að bæta aðbúð fanganna, ef það mætti verða til þess að lyfta þessum málum til samræmis við önnur þau mál, sem við köllum menningarmál og nauðsynlegt er að sinna sem bezt í hverju þjóðfélagi.

Ég vænti þess vegna, að hv. þdm. taki vel við þessum frambornu óskum um nefndarskipun í þessu máli, til þess að úrbætur mættu verða sem fyrst, og legg til, að málinu verði þá vísað til allshn. til fyrirgreiðslu.