08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (2718)

158. mál, aðbúnaður fanga í Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hæstv. dómsmrh. að full ástæða hafi verið til þess, að þessu máli sé hreyft hér á hinu háa Alþ. Fangageymslan í kjallara lögreglustöðvarinnar í Reykjavík hefur lengi verið, eins og yfirvöld munu raunar hafa gert sér fullljóst, smánarblettur á löggæzlustarfseminni í Reykjavík, þótt ekki hafi enn verið gerðar réttar ráðstafanir til úrbóta. En af því að mér virtist koma fram hjá hv. frsm. og einnig hjá hæstv. ráðh., að aðalleiðin til úrbóta væri sú að gera fangagæzluna sjálfa sómasamlega, eins og hún væntanlega yrði, ef byggð yrði ný lögreglustöð, þá vil ég benda á, að í l. eru ákvæði, sem gera ráð fyrir annarri skipun á þessum málum, að því er snertir þá menn fyrst og fremst, sem þurft hefur aðallega að setja í þessa fangageymslu á undanförnum árum, en það eru drykkjusjúklingar af götunum hér í Reykjavík. En fangageymslan í kjallara lögreglustöðvarinnar hefur aðallega verið notuð sem geymsla fyrir þá, þegar þeir hafa verið „teknir úr umferð“, sem svo hefur verið kallað.

Árið 1949 voru sett lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Í I. kafla þeirra l. er gert ráð fyrir því, að tekin verði upp alveg breytt meðferð á þessum sjúklingum, sem kallaðir hafa verið fangar þá stundina, sem þeir hafa gist fangagæzluna í kjallara lögreglustöðvarinnar í Reykjavík. En í 1. gr. þessara 1. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá, sem teknir eru höndum sakir ölvunar og eigi er unnt að sleppa úr. haldi, skal lögreglan að fengnu læknisvottorði flytja í þar til gert sjúkrahús eða sjúkrahúsdeild, ef fyrir hendi er, en annars í venjulegt sjúkrahús. sem hefur tök á að veita viðtöku slíkum sjúklingum. Nú er ekki völ á sjúkrahúsi eða rúmi í sjúkrahúsi í þessu skyni, og skal þá láta hlutaðeigandi sjúklinga sæta læknismeðferð, eftir því sem við verður komið.“

Nánari ákvæði eru síðan í gr. um aðra meðferð þessara sjúklinga. Þess vegna er verkefnið, sem fram undan er í þessum efnum, í raun og veru alls ekki fyrst og fremst að endurbæta fangageymsluna, allra sízt á þeim stað, þar sem hún er núna, né heldur að koma upp sómasamlegri fangagæzlu í nýbyggðri lögreglustöð, sem raunar er líka sjálfsagt, heldur er það verkefni, sem brýnast er í þessum efnum nú, að framfylgja þessum I. kafla laganna, nr. 55 frá 1949. En liðin eru nú 6 ár frá því að l. voru sett. án þess að þau hafi komið til framkvæmda að þessu leyti.

Þessu máli hefur oftar en einu sinni verið hreyft hér á hinu háa Alþ. Við hv. 2. þm. Rang. (HelgJ) fluttum á næstsíðasta Alþingi till. til þál. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að ákvæði I. kafla laga nr. 55 1949, um læknismeðferð ölvaðra manna. sem og ákvæði 8. gr. um gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, komi sem fyrst til framkvæmda.“

Þessi till. náði því miður ekki afgreiðslu á því þingi, sem hún var flutt á, þó að henni hafi verið vel tekið af nefnd þeirri, sem henni var vísað til. Hins vegar heyrði ég það á niðurlagi bréfs þess, sem hæstv. dómsmrh. las frá lögreglustjóranum í Reykjavík, að í undirbúningi væri af hálfu hæstv. heilbrmrh. að koma upp sjúkrahúsdeild og þá væntanlega við einhverja heilbrigðisstofnun bæjarins til þess að gegna þessu hlutverki, og er það vissulega vel, ef úr þeim framkvæmdum verður. Ég vil enn undirstrika, að það er sporið, sem þarf að stíga í þessu máli. Lagagrundvöllurinn er fyrir hendi, lagafyrirmælin eru þegar fyrir hendi, en það hefur dregizt of lengi að framfylgja þeim. Það, sem þarf að gera til þess að þvo þann smánarblett af reykvísku bæjarlífi, sem fangagæzlan í kjallara lögreglustöðvarinnar hefur verið og er, er að koma upp myndarlegri sjúkrahúsdeild, þangað sem hægt væri að vísa þeim sjúku mönnum, sem undanfarin ár hefur því miður þurft að vísa í kjallara lögreglustöðvarinnar.