25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (2722)

158. mál, aðbúnaður fanga í Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til að láta það í ljós með fáeinum orðum, að ég er óánægður með afgreiðslu hv. allshn. á þessari till. Í till. er sannarlega vakið máls á atriði, sem of lengi hefur dregizt að vekja rækilega athygli á. Þar er vakin athygli á smánarbletti, sem er á íslenzku þjóðfélagi og þá sérstaklega á Reykjavík. Í till. er fjallað um aðbúð þeirra fanga, sem teknir eru úr umferð, sem svo er kallað, og settir í fangelsi, í kjallara lögreglustöðvarinnar í Reykjavík eða á Skólavörðustíg 9. Hv. allshn. hefur að því leyti brugðizt myndarlega við, að hún hefur kynnt sér aðbúð fanga í Reykjavík almennt, bæði kjallara lögreglustöðvarinnar og fangageymsluna á Skólavörðustig 9, og komizt að raun um, eins og líka var við að búast, að aðbúð fanganna þar er óviðunandi, svo slæm, að um smánarblett verður því miður að tala í þessu sambandi, sérstaklega að því er snertir kjallara lögreglustöðvarinnar hér í Pósthússtræti. En hv. allshn. virðist helzt sjá það ráð til úrbóta að bæta húsnæði fangageymslunnar, þ. e. a. s. að byggja nýja fangageymslu eða gera húsnæðið á þeim stöðum, þar sem það er nú, að einhverju leyti betur viðunandi fyrir fangana.

Við fyrri umr. málsins vakti ég athygli hv. þdm. og þar með nefndarinnar á því, að í gildi eru lög, sem gera ráð fyrir, að allt öðruvísi sé farið með þá, sem teknir eru úr umferð sökum ölvunar, en þannig, að þeim sé varpað í fangaklefa og það í slíka vistarveru eins og kjallari lögreglustöðvarinnar í Reykjavík kvað vera. Í gildandi lögum frá 1949 er sem sagt gert ráð fyrir því, að ríkið skuli koma upp sjúkrahúsdeild og þangað séu þessir óhamingjusömu menn færðir, í samræmi við þá skoðun lækna og annarra sérfróðra manna, að langmestur hluti þeirra, sem teknir eru úr umferð sökum ölvunar, sé í raun og veru sjúklingar, en alls ekki afbrotamenn; það séu menn, sem eigi heima í sjúkrahúsi, en ekki fangelsi. Um þetta var hið háa Alþ. nær sammála 1949, þegar lögin voru samþykkt. Svo myndarlega var þá einnig brugðizt við, að jafnframt var séð fyrir verulegum fjárframlögum, til þess að unnt yrði að koma upp slíkri sjúkrahúsdeild og tveim öðrum tegundum stofnana, sem einnig var fjallað um í þessum lögum, gæzluvistarhæli og drykkjumannahæli. Mjög verulegum hluta af tekjuafgangi áfengisverzlunarinnar ár hvert, 750 þús. kr., skyldi varið til stofnunar sjóðs, gæzluvistarsjóðs, og úr honum skyldi greiða kostnað af byggingu fyrrnefndra stofnana.

Ég tel, að það hefði átt að vera eitt höfuðverkefni hv. allshn. í framhaldi af þessari nauðsynlegu till. að kynna sér það hjá ríkisstj., hvað liði framkvæmd fyrrgreindra laga. Í þennan sjóð, gæzluvistarsjóð, eru þegar komnar nokkrar milljónir króna, ég veit ekki hvað margar, en áreiðanlega svo mikið, að unnt hefði átt að vera fyrir nokkru að framfylgja lögunum. Þetta hlutverk virðist hv. allshn. hafa vanrækt. Hún sýndi það þó með athafnasemi sinni, að hún getur tekið myndarlega á málum. Hvað því hefur valdið, að hún hefur ekki viljað fara á fund hæstv. ríkisstj. og spyrja hana, hvað liði framkvæmd þessara laga, um það skal ég ósagt láta. Það, sem gera verður nú þegar og ekki má dragast lengur, er, að komið verði upp við eitthvert sjúkrahúsið hér í Reykjavík sjúkrahúsdeild, sem hafi það hlutverk eitt að leysa kjallarann af hólmi sem geymslu fyrir það óhamingjusama fólk, sem fyrir því verður að vera tekið úr umferð, sem svo er kallað, vegna ölvunar.

Þess má og geta, að það kemur oft fyrir, að því er manni hefur verið tjáð, að menn séu færðir í kjallarann í misgripum, þegar það hefur komið fyrir, að lögreglan hefur verið kvödd á vettvang sökum ölæðis á heimilum. Hún hefur komið þangað og tekið ýmsa þá höndum, sem nálægir hafa verið þeim stað, sem ölæðið hefur gerzt á. Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni, að menn hafa verið teknir saklausir og færðir í þessa þokkalegu vistarveru og hafðir þar í haldi, stundum með alvarlegum afleiðingum. Ég segi þetta ekki í ádeiluskyni á neinn. Mér dettur ekki í hug, að lögreglan hér geri slíkt af beinu gáleysi, hvað þá heldur af ásetningi, en reynslan sýnir, að þetta getur komið fyrir, og getur það auðvitað haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Fyrir slíkt ætti auðvitað að vera girt, ef móttökustaðurinn er sjúkrahúsdeild, þar sem læknar veita fólkinu viðtöku, en ekki fangaverðir.

Allt ber því að þeim brunni, að sporið, sem stíga beri, sé ekki bygging nýrrar fangageymslu, þó að ég hafi ekki á móti því í sjálfu sér. Sporið, sem verður að stíga fyrst til þess að leysa úr því vandamáli, sem vakin er athygli á í till., er að koma upp sjúkrahúsdeild fyrir þá menn, sem um stundarsakir verður að taka úr umferð sökum ölæðis, í samræmi við lögin frá 1949.