25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (2724)

158. mál, aðbúnaður fanga í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef fátt frekar að segja um þetta mál og litlu við að bæta út af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram. Ég verð þó að segja, að ég held, að hv. flm. hafi með ræðu sinni nú farið inn á nýja leið með túlkun sína á tilgangi sjálfrar tillögunnar. Hann segir nú, að aðaltilgangur hennar sé að fá úr því skorið, hvort með fanga hér í Reykjavík sé farið á mannúðlegan hátt. Það mætti að vísu æra óstöðugan, ef þingið ætlaði sér að fylgjast með því á hverjum tíma, að enginn óhæfur maður fyndist í hópi lögreglumanna, sem um fangamál fjalla. Slíkt getur alltaf komið fyrir, hvar sem er. En ég hygg, að flestum beri saman um, að þrátt fyrir blaðaskrif og kviksögur um, að menn sættu ómildri meðferð af hendi lögreglunnar, sé óhætt að fullyrða, að þetta er ekki yfirleitt álit almennings á lögreglunni í Reykjavík.

Ég held, að einnig sé óhætt að fullyrða, að lögreglan á ekki almennt þetta orð skilið, eins og hv. flm. vildi láta skína í og ástæða væri til að rannsaka.

Ég gat ekki betur skilið framsöguræðu hans en svo, að hann teldi mesta þörf á því, að rannsakaðar væru þær vistarverur, sem fangar hefðu hér við að búa. Og það er alveg rétt. Það var full þörf á því og er full þörf á því að gefa þessu gaum, eins og þegar er fram komið hér í umræðunum. Og þetta hefur verið gert, enda er hér ekki um neitt launmál að ræða. Um þetta er mönnum kunnugt. Þess vegna telur meiri hl. n. ekki ástæðu til að skipa rannsóknarnefnd til þess að gefa Alþingi álit um mál, sem liggur ljóst fyrir. Það, sem Alþingi á að gera í þessu máli, er að bæta úr því. Það er að sjálfsögðu til úrbóta, að lögreglan þurfi ekki að láta þá menn, sem hún þarf að taka í fangageymslu, sæta ómannúðlegri meðferð vegna þess, hversu húsakynnin eru ófullkomin. Húsakynnin eru léleg og aðbúðin í samræmi við þau. En það er ekki lögreglunni að kenna. Það er þeim tækjum að kenna, sem henni eru fengin í hendur.

Hv. 1. landsk. hélt því fram, að það hefðu ekki fyrst og fremst verið vistarverur fangageymslunnar í Reykjavík, sem n. hefði átt að athuga, og mér skilst, að það hafi alls ekki verið í hennar verkahring að athuga aðbúnað fanga. Ég hygg þó, að hann að athuguðu máli muni sjá, að það er einmitt þetta, sem till. fjallar um. Það var ekki í verkahring n. út af þessari till. að rannsaka, hvort sjúkradeildinni fyrir drykkjusjúkt fólk væri komið nokkuð áleiðis. Hann var því að tala um atriði, sem er þessu máli óskylt. Ég fæ ekki skilið, þó að þessi sjúkradeild komist á laggirnar, að þá væri ekki lengur þörf fyrir fangageymslur hjá lögreglunni í Reykjavík. Það hlýtur hverjum manni að vera ljóst, að þó að þessi sjúkradeild komist upp, sem mikil nauðsyn er, verður lögreglan samt sem áður að geta haft sínar fangageymslur.

Ég skal að síðustu taka það fram, að ég er fyllilega sammála hv. þm. um það, að gersamlega er óviðunandi, að ölvuðum mönnum, hvernig sem á stendur, sé kastað í þær fangageymslur, sem nú eru í kjallara lögreglustöðvarinnar, og það er skylda, beinlínis skylda ríkisvaldsins vegna þeirrar nauðsynjar, sem hér kallar að, að framkvæma þau lög, sem nú eru í gildi um það, að þessi sjúkradeild komist á stofn.