04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (2733)

116. mál, raflýsing vegarins milli Hafnafjarðar og Reykjavíkur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. þessa allýtarlega, og hefur rafmagnsstjórinn í Reykjavík samkv. ósk n. gert mjög nákvæma áætlun um það, hvað framkvæmd sú, sem hér er gert ráð fyrir, muni kosta, og eins og í nál. á þskj. 671 segir, er gert ráð fyrir, að kostnaður við að setja upp þá raflýsingu með Hafnarfjarðarvegi, sem till. ætlast til, muni vera tæpar 850 þús. kr.

Hér er því um allkostnaðarsama framkvæmd að ræða, og jafnframt kemur það fram af áætlun rafmagnsstjóra, að það muni verða allmikill rekstrarkostnaður á raflýsingu þessari, eða um 120 þús. kr. á ári. Að vísu má nokkuð efast um, að það sé raunverulegt. Það er vegna þess, að þar er gert ráð fyrir allstórri upphæð, eða um 50 þús., sem er vaxtakostnaður af stofnkostnaði veitunnar, og fer það vitanlega nokkuð eftir atvikum eða hvernig fjár er aflað til hennar, hvort hér verður um bein útgjöld að ræða að þessu leyti.

Fjvn. er þeirrar skoðunar, að hér sé um framkvæmd að ræða, sem sé mjög mikils virði að koma upp, því að reynslan hefur sýnt það, að mikil slysahætta er á Hafnarfjarðarvegi, og þar er um að ræða vegarkafla, sem er langfjölfarnasti vegur landsins.

Það hefur sýnt sig, að raflýsingin hér við Suðurlandsbraut hefur gefið mjög góða raun og skapað aukið öryggi á þeirri leið. Það er vitanlega skylt að gera allar þær ráðstafanir, sem unnt er, til þess að koma í veg fyrir slys, og það má telja tvímælalaust, að raflýsing Hafnarfjarðarvegar gæti orkað mjög í þá átt að draga úr slysahættu á þeirri leið.

N. hefur þó ekki treyst sér til að leggja til, að till. yrði samþ. svo sem hún liggur fyrir á þskj. 219, heldur leggur hún til, að málinu verði á þessu stigi vísað til ríkisstj., en þá beinlínis í trausti þess, að ríkisstj. undirbúi framkvæmd málsins. Afstaða n. byggist á því, að það geta komið til greina mjög margar leiðir raunar um greiðslu stofnkostnaðar þessarar raflýsingar. Það væri hugsanlegt, að rafmagnsveitur ríkisins beinlínis legðu þessa línu. Það getur þó vakið nokkrar efasemdir, þar sem hér er um alveg sérstæða línulögn að ræða, sem er nánast götulýsing, og má því ætla, að það væri ekki óeðlilegt, að þeir aðilar, sem þetta mál sérstaklega varðar, kaupstaðirnir, bæði Hafnarfjarðarbær og Reykjavíkurkaupstaður, og einnig þeir hreppar, sem hér eru á milli, ættu einhverja aðild að þessu og greiddu einhvern hluta kostnaðar. En þetta atriði liggur alls ekki ljóst fyrir, og n. treystir sér ekki til án nánari viðræðna við þessa aðila, sem hér koma til greina, að gera ákveðna till. um, hver ætti að greiða kostnaðinn við að koma þessari framkvæmd á. Telur hún því á þessu stigi málsins, að eðlilegast sé að fara þá leið að vísa till. til ríkisstj. í trausti þess, að hún rannsaki það, hvernig málinu verði bezt fyrir komið, og ræði við þá aðila, sem eðlilegast væri að ættu aðild að þessu um greiðslu kostnaðar, bæði stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar.

Vonast ég til, að hv. þm. geti fallizt á þá afgreiðslu málsins, miðað við þau málsatvik, sem ég hef nú skýrt frá.