22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (2738)

31. mál, hagnýting brotajárns

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Um allmörg undanfarin ár hefur verið safnað hér af miklu kappi brotajárni og það selt úr landi. Skipsfarmur eftir skipsfarm hefur horfið út fyrir landsteinana. S. l. fjögur ár hefur þessi útflutningur numið samtals 13700 smálestum. Á sama tíma, árin 1950–53, hafa verið fluttar inn um 9 þús. smálestir af steypustyrktarjárni fyrir um það bil 20 millj. kr. Hér er að sjálfsögðu um mjög ójöfn skipti að ræða, þar eð ekki hafa fengizt fyrir brotajárnið nema tiltölulega lágar upphæðir. Það er því nokkurs virði, að athugað sé, hvort ekki muni fjárhagslegur grundvöllur fyrir því að vinna brotajárnið, sem til fellur í landinu sjálfu, t. d. með því að móta úr því steypustyrktarjárn. En sérfróðir menn telja, að það sé kostnaðarminnst og auðveldast, a. m. k. í bili. Til þess að framleiða steypustyrktarjárn úr brotajárni þarf rafmagnsjárnbræðsluofn og mótunarvélar. Tæki þessi munu vera nokkuð dýr, en miðað við reynslu annarra þjóða benda líkur til þess, að slík framleiðsla geti svarað kostnaði hér á landi. Líkurnar eru a. m. k. svo miklar, að ástæða er til, að mál þetta verði athugað. Hagnýting brotajárns þykir svo sjálfsögð víða erlendis, að járnbræðsluofnar og tilheyrandi mótunarvélar munu vera í flestum borgum og stærri bæjum á Norðurlöndum. Rekstur slíkra fyrirtækja virðist öruggur og sæmilega ábatavænlegur, svo framarlega sem skortur á hráefni hamlar ekki starfseminni. Ég ætla ekki að hætta mér langt út á þá braut að lýsa slíkum fyrirtækjum, þar eð mig skortir þekkingu til þess. Mér er þó kunnugt um, að öll hin nýrri fyrirtæki af þessari gerð nota rafmagnsbræðsluofna. Þar er brotajárnið brætt og mótað í stórar súlur eða svera búta, en járnsúlur þessar eru síðan, þegar fullvinna skal járnið, hitaðar í sérstökum ofnum, unz þær eru orðnar rauðglóandi. Úr glóhitunarofnum þessum renna járnbútarnir á færibandi að mótunarvélum, þar sem járnið fær síðan hið endanlega form. Mér er tjáð, að einfaldast og kostnaðarminnst sé að framleiða steypustyrktarjárn. Virðist þar af leiðandi eðlilegt að hefja framleiðslu á því hér, enda mun varla ofreiknað, að notkun steypustyrktarjárns verði á næstu árum ekki minni en 4000 smálestir á ári, en það magn kostar yfir 8 millj. kr. í erlendum gjaldeyri, miðað við núverandi verð, eða um 12 millj., miðað við útsöluverð. Allar líkur benda til þess, að notkun steypustyrktarjárns fari vaxandi hér á landi í náinni framtíð. Þegar hafin verður framleiðsla á sementi innanlands, aukast væntanlega ýmsar byggingar og alls konar mannvirkjagerð úr steinsteypu. Má þá telja víst, að farið verði að steypa helztu þjóðvegi, svo að eitthvað sé nefnt. Mun þá þurfa mikið magn af steypustyrktarjárni.

Þó að ég hafi fyrst og fremst rætt um framleiðslu steypustyrktarjárns, er það engan veginn af því, að ekki komi önnur járn- og stálframleiðsla til greina. Hins vegar er rétt að byrja á hinni ódýrustu og einföldustu framleiðslu. Síðar, þegar járnbræðslan væri komin á fót og á góðan rekspöl, mætti færa út kvíarnar og hefja fjölbreyttari framleiðslu. Má í því sambandi benda á framleiðslu á gjarðajárni, saumi, girðingavír og ýmsu fleira.

Ýmsir erlendir menn, sem til járnbræðslu þekkja og komið hafa til Íslands, hafa furðað sig á því, að ekki skuli vera til ein einasta meiri háttar járn- eða stálverksmiðja í landinu. Þeir eiga erfitt með að skilja, hvernig á því stendur, að allt brotajárn skuli flutt óunnið út og selt erlendum stálverksmiðjum fyrir tiltölulega litlar fjárupphæðir. Einn maður af íslenzku bergi brotinn hefur getið sér mikinn orðstír vestan hafs fyrir merkar uppgötvanir á sviði járnframleiðslu og stálherzlu. Hann hefur lengi unnið að efnarannsóknum í rannsóknarstofu stálverksmiðju einnar í Kanada. Maður þessi heitir Jón Ólafsson og á heima í Calgary í British Columbia. Hann hefur vakið máls á því, að Íslendingar eigi nú þegar að koma sér upp járnbræðslu og stefna að því að eignast fljótlega fullkomna stálverksmiðju. Ritaði hann um þetta merka grein í íslenzkt blað, Morgunblaðið, í fyrravetur og benti þar glögglega á, hversu sjálfsagt væri að hagnýta hér allt það brotajárn, sem til fellur. Þar sem hér er um kunnan sérfræðing að ræða á þessu sviði, þykist ég vita, að hv. alþingismenn muni meta álit hans og till. meira en álit algerra leikmanna í þessu efni. Vil ég því, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér nokkur ummæli, sem þessi sérfróði maður lét falla í grein, er hann nefndi: „Hættið að senda brotajárn úr landi.“ Jóni Ólafssyni farast þannig orð:

„Þegar ég fékk seinasta blaðið (þ. e. Morgunblaðið) heiman frá Íslandi, varð mér starsýnt á mynd, sem þar var. Það var myndin af flakinu af 10 þús. smálesta „liberty“-skipinu, er var hlaðið brotajárni og átti að sendast til Englands ásamt fleiri skipum. Og þegar ég hafði lesið greinina, sem fylgdi, varð mér ósjálfrátt á munni: Mikil hörmung er að heyra þetta. — Ég get ekki orða bundizt, og þess vegna skrifa ég þessar línur. ... Þarna fer mikið hráefni frá Íslandi til Englands, hráefni, sem Íslendingar hafa sjálfir mikla þörf fyrir. Þeir selja þetta hráefni fyrir fáeinar krónur, en verða svo að kaupa stál frá öðrum löndum fyrir milljónir króna.“

Síðan skýrir greinarhöfundur frá því, hve hagnýting brotajárns sé talin sjálfsögð í nálega öllum löndum, og lýsir allýtarlega fullkominni stálverksmiðju í Kanada. Kemst hann svo að orði, að afkoma slíkra fyrirtækja sé yfirleitt góð og greiði þau þó há vinnulaun. Telst honum svo til, að í meðalári sé hreinn ágóði þeirra stálverksmiðja, er hann þekki til í Kanada, ekki minni en 120 dollarar á smálest, miðað við fullunna vöru. Að greinarlokum ávarpar Jón Ólafsson Íslendinga og segir:

„Hér verðið þið að horfa fram í tímann. Í öllum hamingjubænum hættið að henda brotajárni út úr landinu, þessu dýrmæta og ómissandi hráefni. Arðrænið ekki sjálfa ykkur. Fleygið ekki hráefninu í hendur erlendra manna, til þess að þeir fái allan hagnaðinn af að vinna úr því á kostnað ykkar. Það, sem aðrar þjóðir geta framkvæmt, það geta Íslendingar líka. Það hafið þið sýnt margsinnis og sannað. Íslendingar eiga ekki að kaupa fyrir dýrmætan gjaldeyri þá vinnu af öðrum þjóðum, sem þeir geta sjálfir leyst af hendi.“

Þetta voru orð hins sérfróða manns, Jóns Ólafssonar stálfræðings. Ég vildi gjarnan láta þau koma hér fram, þar eð þau sýna, hverjum augum sérfróður maður lítur á þetta mál. Ég vænti þess, að hv. alþm. séu mér og meðflm. mínum sammála um það, að tímabært sé orðið að láta fara fram rannsókn á því, hvort hér séu ekki fyrir hendi skilyrði til að hagnýta það brotajárn, sem til fellur. Þó að sú rannsókn kunni að kosta einhverja fjármuni, þá virðist hér vera um svo athyglisvert mál að ræða, að ekki sé horfandi í þann kostnað. Leiði rannsókn í ljós, að hér geti verið um arðvænlegt fyrirtæki að ræða, yrðu án efa tök á því að afla fjár til að koma því á laggirnar, enda mun þar engan veginn um sérlega háar fjárupphæðir að ræða. Mætti á síðara stigi málsins, þegar undirbúningsrannsókn væri lokið, taka fullnaðarákvörðun um rekstrarform slíks fyrirtækis. Mér þætti ekki óeðlilegt, að athugað væri, hvort ekki mætti reka það í tengslum við Landssmiðjuna, en tel þó ekki tímabært að gera um það ákveðnar tillögur.

Við, sem þessa till. flytjum, teljum eðlilegt, að á meðan fram fer rannsókn sú, sem þar er ráð fyrir gert, verði bannaður allur útflutningur á brotajárni. Þá mundu safnast fyrir í landinu allmiklar birgðir af þessu hráefni, sem síðan yrðu tiltækilegar, þegar járnvinnslan hæfist. Fari svo gegn von okkar flm., að ekki þyki borga sig að setja hér á fót járnbræðslu, mundi banninu að sjálfsögðu aflétt, og rýrnun á þessari vöru er svo lítil, að þar væri ekki um verulegt verðmætatjón að ræða, þótt slíkt bann gilti í eitt, tvö eða kannske í mesta lagi þrjú ár. Við flm. höfum því í beinu framhaldi af þáltill. þessari lagt fram í hv. Nd. Alþingis frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að banna útflutning á brotajárni. Það mál er komið til 2. umr. og nefndar. Undir umræðum um það mál upplýsti hæstv. forsrh., að fyrir lægju nú beiðnir um að selja a. m. k. sjö gamla togara úr landi til niðurrifs fyrir lágt verð. Þó að hugmyndin um íslenzka járnbræðslu í allstórum stíl standi hvorki né falli með því, hvað um þessa sjö togara verður, tel ég þó ástæðu til, einmitt vegna þessara tilmæla, að þáltill. sú, sem hér um ræðir, fái skjóta afgreiðslu, svo og að athugun á arðsemi járnvinnslu hér á landi verði hraðað eftir föngum.

Ég vil síðan óska þess, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.