09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (2759)

93. mál, lækkaðrar dýrtíðar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langaði að skjóta fram örfáum orðum í tilefni af nokkrum ummælum í þessari ræðu hv. 1. þm. Eyf. (BSt). Höfuðrök hans gegn þessari till. voru, að því er manni bezt (BSt: Ég talaði ekkert á móti henni.) gat skilizt, þau, að hún bæri vott um þá stefnu, sem hann átaldi mjög, en nú væði uppi hvarvetna í þjóðfélaginu, að ætla að leysa allan vanda, sem að steðjaði, á kostnað ríkisvaldsins, þ. e. a. s., ríkið ætti að borga, hvenær sem einhverjum dytti í hug að gera einhverja kröfu.

Mér finnst þessi ummæli hin furðulegustu í sambandi við þá till., sem hér er á dagskrá, till. til þál. um ráðstöfun til lækkaðrar dýrtíðar. Það mega allir hv. þm. muna, hvenær og hvers vegna þessi till. var borin fram. Hún var borin fram allsnemma á þessu þingi, þegar sjá mátti fyrir, að til tíðinda mundi draga á kaupgjaldsmarkaðinum, þegar ýmis þau teikn voru á lofti, að því er snertir verðlagshækkanir hér á landi, sem mundu gera það óhjákvæmilegt, að launþegasamtökin gerðu kröfu um auknar kjarabætur í formi hækkaðra launa, ef ríkisvaldið yrði ekki fyrri til og kippti grundvellinum undan réttmæti þessara krafna með því að færa verðlagið niður, snúa þróuninni við, breyta hinu síhækkandi verðlagi í lækkandi verðlag. Þess vegna var það, að till. var borin fram. Það er í henni gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi forustu um að lækka verðlagið með samningum við þá helztu aðila og stofnanir í landinu, sem ráðið geta miklu um þróun þess. Til þess var m. ö. o. ætlazt, að sá mikli vandi, sem allir máttu vita að var í uppsiglingu, yrði leystur á þann hátt að fá volduga aðila í landinu til þess að gefa nokkuð eftir af sínum hlut og freista þess þannig að knýja verðlagið niður. En það er ekki á það minnzt einu orði, að ríkissjóður eigi að leggja einn eyri fram í þessu sambandi. Hér er m. ö. o. enga kröfu verið að gera á hendur ríkissjóði, heldur þvert á móti. Það er stefna þessarar till. að ætlast til þess, að ýmsir voldugir aðilar í landinu, sem nú þegar sitja að gildum sjóðum og ávallt hafa verið að eflast á undanförnum árum, gefi nokkuð af sjóðum sínum og af vaxtamöguleikum sínum til þess að firra þeim vanda, sem auðvitað hlýtur af því að hljótast, ef allt kaupgjald tekur enn á ný stökk upp á við. Hér var um það að ræða að halda áfram þeirri stefnu, sem vann sigur — mjög giftusamlegan sigur — í verkfallinu mikla í des. 1952. Þess vegna voru þessar bollaleggingar hv. 1. þm. Eyf. alveg út í hött í þessu sambandi og geta engan veginn skoðazt sem andmæli gegn meginefni og tilgangi þessarar till.

Hann minntist einnig á verkfræðingadeiluna svonefndu og sagði, að verkfræðingarnir mundu hafa sótt rök fyrir kröfum sínum m. a. í grunnkaupshækkanir verkamanna, þær sem orðið hefðu á undanförnum árum. Þetta er líka alveg fráleitt. Höfuðrök verkfræðinganna voru ofur einfaldlega þau, að þeim var ætlað samkvæmt gildandi launalögum að þiggja í byrjunarlaun kr. 3800.00 á mánuði, sem síðan skyldu hækka hægt og lítið. Gat í raun og veru nokkrum dottið í hug, að þetta ástand gæti haldizt, að verkfræðingar, eftir 6–8 ára nám, margir hverjir með 200–300 þús. kr. skuldabagga á bakinu, gætu sætt sig við það að vinna fullan vinnudag fyrir 3800.00 á mánuði? Við því var ekki að búast, og sem betur fer játaði ríkisstj. það, þótt allt of seint væri, að við þetta væri ekki unandi, og lagfærði kjör þeirra nokkuð.

En annað dæmi mætti einnig nefna algerlega hliðstætt, þar sem ríkisstj. hefur játað, að ástandið í launamálum opinberra starfsmanna er algerlega óviðunandi, þar sem eru dómarafulltrúarnir, sem höfðu áður sams konar kjör og verkfræðingarnir, kr. 3800.00 byrjunarlaun, þó að þeir hefðu einnig 6–7 ára nám að baki og e. t. v. miklar skuldir og gegndu embættum, sem eru mjög mikilvæg og mikla reynslu þarf til þess að geta gegnt með sóma. Þá deilu leysti ríkisstj. líka — og sem betur fór fyrr og með minni hávaða en hina fyrri, því að laun dómarafulltrúanna voru þegjandi og hljóðalaust færð upp um einn launaflokk. Það hefði auðvitað verið skynsamlegra og viðkunnanlegra, að þetta hefði verið gert með lagabreytingu, en ekki með einfaldri samþykkt eða ráðstöfun ríkisstj., því að í raun og veru er sú ráðstöfun heimildarlaus, því að launalögin eru þó í gildi. Við dómarafulltrúana var enginn sérstakur ráðningarsamningur gerður, heldur aðeins ákveðið, að þeir skyldu taka laun eftir launaflokki, sem væri einum hærri en lög ákveða að þeir skuli taka laun eftir.

Ríkisstj. hefur því þegar í þessum tilfellum tveimur og raunar nokkrum fleiri viðurkennt, að það ástand, sem launastéttir eiga að búa við í landinu, er algerlega ófullnægjandi. Þetta hefur hún viðurkennt að því er snertir tvo stóra og mikilvæga starfsmannahópa, þ. e. a. s. verkfræðingana og dómarafulltrúana. Og henni þarf því ekki að koma á óvart, þó að ástandið sé þannig að því er snertir ýmsa aðra launamannahópa í landinu, að það verði talið algerlega óviðunandi, nema því aðeins að ríkisstj. sýni alvarlegan vilja til þess að gera þau laun, sem nú eru greidd, lífvænleg með því að færa verðlagið niður til verulegrar lækkunar frá því, sem nú á sér stað.