15.12.1954
Efri deild: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Eins og hv. þm. þessarar d. er kunnugt, hefur sjútvn. ekki haft neinn tíma til undirbúnings, að heitið geti, því að svo stutt er liðið frá 1. umr. um þetta frv., sem hér liggur fyrir, um aðstoð við togaraútgerðina. En þar sem nm. var efni þessa frv. allkunnugt og það reifað við 1. umr. hér í hv. d. af hæstv. forsrh., þurfti ekki að gera langt nál. Það er undirritað af öllum viðstöddum nm. Form. n. er erlendis. Mælt er með frv. óbreyttu, að því fráskildu, að hv. 10. landsk. áskildi sér rétt til að koma með brtt.

Eins og frv. ber með sér, er það viðurkennt, að togaraútgerðin sé í kröggum og þurfi aðstoðar við. Hefur þessari atvinnugrein hrakað mjög umliðið ár. Er það bæði vegna aflabrests og að einhverju leyti mun það stafa af lækkandi verði á sumum afurðum. Eins og að líkum lætur, eru ekki allir jafnilla settir, eitt skip aflar betur en annað, afli selst fyrir hærra verð hjá einum en öðrum. Slíkt er ævinlega misjafnt. En það er viðurkennt, að þörf var aðstoðar, enda hefur hún verið veitt fimm síðustu mánuði þessa árs með 2000 kr. framlagi fyrir hvern þann dag, er skipin hafa stundað veiðar. Í því frv., er fyrir liggur, er gert ráð fyrir sams konar styrk á næsta ári, og að auki skal veita tveggja ára greiðslufrest á afborgunum lána, er stofnlánadeild sjávarútvegsins hefur veitt til kaupa á togurum. Sama gildir og um afborganir þeirra lána, er ríkissjóður hefur veitt til kaupa á togurum.

Togaraeigendur hafa farið fram á lækkun á olíum, vátryggingargjaldi og flutningsgjöldum á hraðfrystum fiski, hið síðasttalda til þess að frystihúsin gætu hækkað verðið eitthvað á nýjum fiski. Lítið mun hafa gengið að fá lækkanir á liðum þessum enn sem komið er.

Um afkomu þessa atvinnurekstrar í framtíðinni er ekki hægt að segja neitt ákveðið. Það kemur mest undir aflamagni og aflaverði, eins og verið hefur hingað til. Ríkisstj. hefur lýst því yfir, eða hæstv. forsrh. fyrir hennar hönd, að hún sjái sér ekki fært að ganga lengra í þessari aðstoð að sinni, heldur bíða og sjá til, hverju fram vindur. Væri um frekari aðstoð að ræða, er ekki annað ráð til en að hækka skatta, og er það ekki fýsilegt.

Eins og ég tók fram í upphafi, mælir n. með því, að frv. á þskj. 294 verði samþ. óbreytt, þó með þeim fyrirvara, er hv. 10. landsk. þm. hefur áskilið sér.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 3. umr.