09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (2760)

93. mál, lækkaðrar dýrtíðar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það stendur svo á fyrir mér, að ég þarf því miður að fá leyfi hæstv. forseta til þess að ganga af fundi mjög bráðlega og verð því mjög að stytta mál mitt. Ég get þó ekki látið hjá líða að láta í ljós, að mér finnst þessi ræða hv. 1. landsk. þm. næsta óþörf og undarleg. Hann sagði, að ég hefði talað á móti þessari þáltill., sem hér liggur fyrir. Ég talaði alls ekkert á móti till. Ég talaði á móti því, að henni yrði vísað til allshn. þingsins, og benti á, að það væri alveg sjálfsagt að vísa henni til fjvn., vegna þess að hvað sem um till. að öðru leyti má segja, þá er það alveg víst, að hún fjallar um fjárhagsmál í hæsta máta. Ég gat þess að vísu, — ég ég skal játa það, — að ég byggist við, að ef nokkuð verulegt yrði gert í því að lækka verðlag í landinu, mundi það á einhvern hátt verða á kostnað ríkissjóðs, og m. a. þess vegna ætti að vísa till. til fjvn. Þessu vildi hv. þm. mótmæla, till. væri ekkert um það að krefja ríkissjóð neins. Og það er satt, að það stendur ekki beinlínis skýrum orðum í till., að fé skuli veita úr ríkissjóði til að lækka verðlag. En við skulum athuga þetta ofur lítið nánar.

Þeir aðilar, sem samkv. till. eiga að lækka verðlag, eru t. d. Félag íslenzkra iðnrekenda. Ég veit ekki betur en það sé alltaf talað um, að það þurfi að efla íslenzkan iðnað og ríkið þurfi að veita honum stuðning. Og ef hann á að lækka mjög mikið framleiðsluvörur sínar í verði, býst ég við, að af því hljóti að leiða það, að ríkið yrði þá að veita honum enn meiri stuðning. Svo eru það Sláturfélag Suðurlands og Stéttarsamband bænda, sem eiga að lækka verðlag samkv. till., sennilega á afurðum bænda. Nú er það svo, að afurðaverðið er ákveðið samkv. því, sem kaupgjald er í landinu hjá verkamönnum, og að ríkið greiðir þessar afurðir töluvert mikið niður til þess að halda verðlaginu í skefjum. Ég sé því ekki, ef á að lækka t. d. landbúnaðarafurðir og ef það á að halda þeim ákvæðum, að verð þeirra miðist við kaupgjald verkamanna, að það sé neitt annað ráð en að ríkið auki þessar niðurgreiðslur. Vitanlega er hægt að lækka landbúnaðarafurðir með því, að ríkið borgi miklu meira en það hefur gert til niðurgreiðslna. Þannig hygg ég, þó að ég hafi ekki fleiri orð um þetta, að ég hafi fært alveg full rök fyrir því, að þessi till. getur ekki orðið framkvæmd að neinu ráði eða svo að nokkru verulegu nemi með öðru móti en því, að það kosti ríkið fé. Og það var aðeins vegna þess, sem ég taldi, að till. ætti alveg tvímælalaust að vísa til hv. fjvn.

Hv. þm. sagði, að í till. væri engin krafa á hendur ríkissjóði. Ja, hún er dulbúin. En það er eingöngu eða a. m. k. að langsamlega mestu leyti krafa á hendur ríkissjóði, það fullyrði ég, þegar málið er skoðað eins og það liggur fyrir.

Út af því, hvaða orsakir hafi legið til hækkunar á kaupi verkfræðinga og ríkisstarfsmanna og krafna um það, þá þarf ekkert annað en að vísa til blaðanna og umræðna um það mál. Það, sem aðallega hefur verið haft á oddinum í þeim umræðum, er það, hvað laun annarra stétta hafi hækkað. Það er sem sé einlægur samanburður alltaf á því, og þegar einn fær kauphækkun, þá heimta aðrir hið sama til samræmis.

Ég geri ekki ráð fyrir, þótt þessi till. hefði verið samþ. daginn eftir að hún kom fram í haust eða sama daginn, að það hefði breytt miklu um það, að með því hefði verið komizt hjá þeim verkföllum, sem nú eru í uppsiglingu, nema þá með því eina móti, að ríkissjóður hefði lagt nokkra tugi milljóna í það.