09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (2761)

93. mál, lækkaðrar dýrtíðar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, vilja fela ríkisstj. að taka upp samninga við nokkra viðskiptaaðila um lækkun álagningar á vörur. Segir í till., að áherzlu skuli leggja á, að verðlagi á helztu nauðsynjavörum landsmanna skuli haldið eins lágu og mögulegt er.

Ekki hef ég kvatt mér hljóðs til þess að andmæla þessari tillögu. Vel má vera, að einhver árangur yrði af því, ef hæstv. ríkisstj. tæki upp samningaumleitanir á þann hátt, sem tillögumenn ætlast til. En ég vil þó segja, að þetta er ekki heppilegasta aðferðin til þess að koma viðskiptamálum almennings í gott horf.

Fyrri flm. till. er hv. 3. landsk. þm. Hann er fyrir skömmu orðinn forseti Alþýðusambands Íslands. Honum er það að sjálfsögðu áhugamál, að sá fjöldi vinnandi manna, sem er þátttakandi í þeim félagsskap, er hann nú veitir forstöðu, njóti sem hagstæðastra viðskiptakjara, og víst er mikils um það vert fyrir þá menn sem aðra. En hvaða leið er bezt til þess að ná hagkvæmum kaupum á nauðsynjavarningi? Ekki sú að verzla við óviðkomandi aðila, jafnvel þó að ríkisstj. reyni að semja við þá um álagningu. Hitt er farsællegra fyrir menn, að taka málin í sínar hendur og kaupa vörurnar inn í félagi til þess að komast fram hjá þeim viðskiptaaðilum, sem reka verzlun í því skyni að safna gróða í eigin sjóði.

Forseti Alþýðusambandsins ætti því að segja við sína félaga: Nú hættum við að láta kaupsýslumenn græða á okkur. Við tökum okkar viðskiptamál í eigin hendur. Með því móti getum við sjálfir ákveðið álagningu á vörurnar og takmarkað hana við það, að með henni sé greiddur óhjákvæmilegur kostnaður við verzlunarreksturinn. — Þetta geta þeir gert annaðhvort með þátttöku í þeim kaupfélögum, sem nú eru til víðs vegar um landið, — og vitanlega eru þeir margir þar þátttakendur nú þegar, — eða þá með stofnun nýrra verzlunarfélaga, ef þeim þykir það vænlegra til góðs árangurs.

Það eru ekki liðnir margir áratugir síðan yfirstjórn íslenzkra mála var í öðru landi, en nú ráða Íslendingar sjálfir sínum málum. Þeir höfðu áræði til þess að taka stjórn þeirra í eigin hendur. Íslendingar létu sér ekki nægja að taka upp samninga við þá erlendu menn, sem áður stjórnuðu málum landsins, um einhverjar umbætur á því stjórnarfari. Í stað þess kröfðust Íslendingar þess að fá stjórnina að öllu leyti í sínar hendur, og það tókst. Þess vegna er hér lýðveldi.

Forseti Alþýðusambands Íslands ætti að hafa svipaða aðferð í baráttu sinni fyrir bættri verzlun umbjóðendum sínum til hagsbóta og landsmenn höfðu í sjálfstæðisbaráttunni, ekki að láta sér nægja neitt minna en það, að umbjóðendur hans, vinnandi menn í hinum mörgu stéttarfélögum innan Alþýðusambandsins, taki eigin viðskipti í sínar hendur. Þetta geta þeir gert hvenær sem þeir vilja, og þetta ættu þeir að gera. Með því öðru fremur gætu þeir bætt hag sinn. Innan stéttasamtakanna er áreiðanlega nóg af mönnum, sem hafa hæfileika til þess að gerast forgöngumenn slíkra almenningssamtaka á viðskiptasviðinu.

Þó að einhver árangur kynni að nást af samningatilraunum, sem flm. till. vilja láta ríkisstj. gera, þá verð ég að segja, að mér sýnist stefnan, sem mörkuð er í till., ekki nógu góð. Forseti Alþýðusambandsins, hv. 3. landsk. þm., stýrir stóru fleyi, og hann ætti að stefna hærra í verzlunarmálinu. Hann ætti að hvetja alla sína mörgu umbjóðendur innan stéttarfélaganna til þess að taka viðskiptin í sínar hendur, eins og ég áður hef tekið fram. Tækist honum að koma því fram, hefði hann unnið gott verk og gagnlegt. Þá mundi almenningur hætta að leggja fé í vasa óviðkomandi manna í gegnum verzlunina. Að þessu ætti hv. 3. landsk. þm. að vinna og það nú þegar.