09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (2762)

93. mál, lækkaðrar dýrtíðar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég var því miður staddur í síma, þegar hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sté hér í stólinn til þess að ræða um þá till., sem hér er til umræðu. En ég heyrði þó síðari hluta ræðu hans og heyrði þá, að hann vék að ýmsum kaupgjaldsbreytingum, sem orðið hafa nú upp á síðkastið, og heyrði, að hann taldi það ekki af því góða, þetta væri eiginlega eitt af hinum illu einkennum yfirstandandi tíma, að allir krefðust alls af öllum öðrum en sjálfum sér. Ef það er einkenni okkar tíma, þá er það vitanlega anzi mikill ljóður á ráði þeirra, sem nú eru uppi. En ég vil byrja mál mitt nú með því að taka það fram, sem mér mun hafa láðst í framsöguræðu minni, að hvort sem þessi till, fer til allshn. eða fjvn., þá þarf að breyta henni vegna þess, hversu lengi hún hefur legið hér í meðförum þingsins, og þarf a. m. k. að fella niður síðustu málsgreinina: „Kostað sé kapps um, að samningum þessum geti verið lokið fyrir næstu áramót,“ — því að það var ekki meiningin, að þetta ætti að vera á döfinni til ársbyrjunar 1956, og skýt ég því hér með til þeirrar n., sem fær till. til meðferðar. Að öðru leyti vil ég aðeins segja það, að ég heiti á viðkomandi n. að afgreiða till. nú fljótt, svo að hæstv. ríkisstj. hafi þau fyrirmæli, sem í till. felast, á bak við sig í þeim samningum, sem hún hefur nú tilkynnt að hún hafi þegar hafið, hvort sem hv. þm. V-Húnv. líkar sú stefna ríkisstj. vel eða illa. Ef þessi till. er um það, að lagt skuli út á villigötur, þá er hæstv. ríkisstj., sem hv. þm. styður, komin út á þessar villigötur að því er hún sjálf hefur tilkynnt, — líka þeir, sem hafa einhvern tíma opnað augun fyrir því, að það sé gott að stofna kaupfélag.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði í seinni ræðu sinni, að hann væri engan veginn andvígur þessari till. og hefði ekki andmælt henni efnislega, en hann var hræddur um, að af henni mundi leiða útgjöld fyrir ríkissjóð, og þess vegna taldi hann, að hún ætti að fara í fjvn. til meðferðar. Það er ekkert í till. sjálfri, sem leggur ríkissjóði skyldur á herðar um fjárútlát, þó að hún yrði samþykkt. Það er efni till. að fela ríkisstj. að leita samninga við ákveðin, upp talin fyrirtæki og félagasamtök um, að þau geri ráðstafanir til lækkaðrar álagningar í heildsölu og smásölu og aðrar þær ráðstafanir, sem geti leitt til lækkaðs verðlags í landinu. Ég mundi hins vegar ekkert hafa á móti því, að till. um að vísa till. til fjvn. væri samþykkt. — En síðan vék hann að því, hverjar ástæður mundu hafa legið til þess, að verkfræðingar, í fyrsta lagi í þjónustu Reykjavíkurbæjar og svo siðar verkfræðingar í þjónustu ríkisins, gripu til þess að leggja niður vinnu og ganga úr þjónustu bæjarins og ríkisins, ekki með því að lýsa yfir löglegu verkfalli, því að það gerðu þeir ekki, heldur bara með því að ganga úr vistinni, gefa ekki kost á að selja vinnuafl sitt þessum aðilum við því verði, sem það hafði verið greitt. Hv. þm. taldi, að það hefði ekki verið af því, að þeir hefðu ekki haft nægilegt til þess að lifa af, heldur hefðu þeir rökstutt kröfur sínar með því, að verkalýðurinn í landinu hefði of hátt kaup. Ég hefði aldrei dregið fram þessi rök í deilu verkfræðinganna við Reykjavíkurbæ og síðan við ríkið. Ég hef alltaf heyrt því haldið fram af þeirra hendi, að þeir hefðu ósæmilega lág laun, þeir gætu ekki lifað, þegar þeir ættu að standa undir námsskuldum í viðbót við það að kaupa sínar lífsnauðsynjar, þeim væri því nauðugur einn kostur að ganga úr þjónustu bæjarins og ríkisins og yrðu að leita sér þar atvinnu, sem launakjör verkfræðinga væru meira metin, og þeir fengu flestir störf hjá einkaatvinnurekstrinum með hærra kaupi. Þá var það sem Reykjavíkurbær gekk til samninga við verkfræðinga sína og hækkaði launakjör þeirra og ríkið skömmu síðar að því er snertir ríkisverkfræðingana, og nú í þriðja lagi að því er snertir laun fulltrúa dómaranna, og viðurkenndi þar með, að þessir menn, sem hafa miklu hærra kaup en almennt verkafólk, yrðu að fá kjarabætur í kauphækkun. Sama sagði hv. 1. þm. Eyf. að hefði verið ástæðan, þegar próf. Ólafur Björnsson gekk á fund ríkisstj. sem forustumaður fyrir Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og krafðist hækkunar á launum þeirra stétta. Það hefði verið af því, að þeir hefðu talið kaup verkafólks of hátt, sagði hann, en alls ekki af því, að þeir teldu sig ekki geta lifað á launum sínum. Þetta er alrangt hjá hv. 1. þm. Eyf. Í fjvn. Alþingis komu mörg erindi á s.l. hausti frá prófessorum við Háskóla Íslands um það, að launakjör þeirra væru svo bágborin, að þeir gætu ekki dregið fram lífið og söfnuðu skuldum. Þessum erindum prófessoranna fylgdu skjöl frá háskólarektor, og var staðfest, að ákveðnir menn í hópi prófessoranna söfnuðu árlega skuldum og gætu ekki lifað á þeim launum, sem þeir hefðu, og þetta voru rök fyrir því, að það yrði að fela þeim sérstök störf og sjá þeim fyrir greiðslu fyrir þau úr ríkissjóði. Þó mun það vera svo, að prófessorar við Háskóla Íslands eru sá flokkur innan samtaka Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem er einna hæst launaður, það er toppurinn innan þeirra samtaka, en fyrir fjvn. lágu sem sé mörg bréf, sem lýstu því átakanlega, hversu illa fjárhag þessara manna væri komið. Þá má nærri geta, hvernig ástandið hefur verið hjá hinum embættismönnum ríkisins í lægri launaflokkunum, úr því að þetta var lýsingin, sem fylgdi að því er snerti prófessorana, sem voru í einum hæsta launaflokki innan þeirra samtaka. Og ég held, að hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. V-Húnv. hafi báðir rétt upp hendurnar með öllum þeim till., sem voru lagðar fram af fjvn. til þess að bæta launakjör þessara manna einmitt í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Þarna hafa þeir líka viðurkennt, að prófessorar við háskólann séu svo lágt launaðir, að þeir geti ekki dregið fram lífið. Og þau rök, sem fylgdu með frá háskólarektor, hafa verið tekin gild af meiri hluta Alþingis. Þess vegna fæ ég ekki skilið samhengið í þeim lestri, þegar hv. 1. þm. Eyf. kemst svo að þeirri niðurstöðu, að laun verkalýðsins í landinu séu allt of há. Og þar vitnar hann til yfirstandandi deilu um launakjör matreiðslu- og framreiðslumanna. Hver eru þau launakjör? Það er leiðinlegt, að hv. 1. þm. Eyf. skuli vera farinn, því að hér gefst kostur á að heyra, hvaða launakjör það eru. Hann sagði, að þau væru nægilega há. Hér er um að ræða launakjör yfirmatreiðslumanna á verzlunarflotanum, yfirbúrmanna, búrmanna og matsveina og svo þjónanna. Hæsti launaflokkurinn þarna, yfirmatreiðslumennirnir, hafði 2325 kr. í grunnlaun samkv. þeim samningum, sem nú eru að ganga úr gildi, og þetta eru viðurkenndir iðnaðarmenn, meistarar í iðn, og hafa fjögurra ára nám að baki sér og langan starfstíma að auki í sérfræðistörfum. Næsti launaflokkurinn, yfirbúrmennirnir, er með sams konar laun, 2300 kr. í grunn. Þriðji launaflokkurinn, búrmennirnir, er með 1950 kr. í grunn og fjórði með 1875 kr. í grunnlaun fyrir níu stunda vinnudag, ekki átta stunda. Þetta eru tölurnar, sem þeir undu ekki við og sögðu upp samningum fyrir. Og þó að hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. V-Húnv. séu báðir sparsemdarmenn og ráðdeildarmenn, þá veit ég það, að þeim mundi ganga erfiðlega að lifa á þessum launum, og ég er ekkert viss um, nema þeir segðu upp samningum um slík launakjör og legðu út í verkfall til þess að knýja fram endurbætur á þeim, ef þeir væru í félagsskap, sem yrði að leita réttar síns á þann hátt. Hér er ekki um neina ofstopa- og byltingarseggi að ræða, sem séu bara með ósanngjarna heimtufrekju á hendur atvinnurekstrinum og ríkinu. Það eru bara hófsemdar- og sparsemdarmenn á borð við þessa hv. þm., sem ekki vilja una við þessi launakjör af þeirri einföldu ástæðu, að þeir treysta sér ekki til að framfleyta lífi sínu og sinna á þessum launakjörum, frá 2300 kr. og niður í 1875 kr. Þeir fóru svo fram á það að fá viðurkennda sams konar samninga við skipafélögin og þeir höfðu fengið viðurkennda af eigendum gistihúsa og veitingahúsa í bænum á s.l. sumri. En þær kröfur fengu ekki áheyrn, og þá lækkuðu matreiðslumennirnir og framreiðslumennirnir sínar kröfur. Hæsta krafan, sem þeir báru fram og þeir höfðu fengið um samið fyrir sams konar störf í landi, var 3000 kr. í grunn, og það vildu þeir halda sig við til að byrja með. Nú hafa þeir lækkað þá kröfu niður í 2557 kr. og lægstu töluna niður í 2000 kr. Er útlit fyrir, að saman gangi um þá kaupgjaldsbreytingu og hún viðurkennist þannig sem ekki ósanngjörn af skipafélögunum, og það er hún vissulega ekki. Það vilja þeir nú viðurkenna að sé hóflegt kaup fyrir átta stunda vinnudag, en áður hafði, eins og ég fyrr sagði, vinnudagurinn verið níu stundir. Ég held því, að það sé alger misskilningur hjá hv. 1. þm. Eyf., að þar hafi verið hægt að taka dæmi, sem sýni mikla ósanngirni í kaupgjaldsmálum. Því er ekki til að dreifa. Þarna var um lágt kaup að ræða og lengri vinnudag en hinar starfsstéttir skipanna höfðu fengið viðurkenndan, og það var því í hvoru tveggja tilfellinu um samræmingaraðgerðir að ræða.

En svo vék hv. þm. að því, að það, sem sér þætti einna óálitlegast í till., væri það, að það ætti m. a. að leita samninga við Stéttarsamband bænda um lækkað verðlag, þ. e. a. s., að það ætti raunverulega að leita samninga um lækkun á launakjörum bændastéttarinnar. Og þá var komið að því, sem honum fannst óaðgengilegt í till. En svo upplýsti hann alveg réttilega um launakjör bænda, hvernig þau eru ákveðin. Þau eru ákveðin á grundvelli þess kaupgjalds, sem mótast fyrir starf og baráttu stéttarsamtakanna í landinu, ákveðin í réttu hlutfalli við kaupgjald á hverjum tíma. Og hann hefur talið, að það kaupgjald sé allt of hátt, sé knúið fram af ósanngirni. Með öðrum orðum: Ef það er rétt hjá honum, má ætla, að kaupgjald bænda, sem miðast við þetta, sé ákveðið of hátt, ósanngjarnlega hátt, af því að grundvöllurinn, sem hann miðar við, er af honum sjálfum dæmdur ósanngjarnlega hár. Það er því hugsanlegt, að hið sanngjarna fólk, sem sveitirnar byggir, sé honum sammála og vilji þess vegna verða við óskum sinnar góðu ríkisstj. og lækka verðlag á afurðum bænda. Og það hlýtur það að gera, ef það vill halda sér fast við það, að grundvöllurinn, sem afurðaverðið er reiknað út eftir, sé byggður á ósanngjarnlega háum grundvelli kaupgjaldsins. Þannig er það upp byggt. Menn mega ekki vera sjálfum sér svo ósamþykkir, að þeir dæmi verðlagið á afurðum bænda sanngjarnt eða jafnvel of lágt, ef þeir svo í sömu andránni halda því fram, að kaupgjald verkalýðsins, sem er grundvöllurinn fyrir ákvörðun afurðaverðsins, sé ósanngjarnlega hátt. Þá komast menn í sjálfheldu og leiða sig sjálfir í þann gapastokk, sem þeir komast ekki úr.

Þá er það hv. þm. V-Húnv. Hann sagði, að ég væri alveg á rangri leið með þessa till., þ. e. a. s. ég gerði mig ánægðan með allt of lítið. Hann var eiginlega að espa mig upp til þess að krefjast meira, miklu meira, og vitnaði til sjálfstæðisbaráttunnar og Jóns Sigurðssonar. Hann hefði nú ekki aldeilis látið sér nægja að vera að semja við Dani um, að það ætti að laga til smávegis stjórnarfarið á Íslandi. Nei, bara höggva á strenginn, taka stjórnarfarið í eigin hendur, Íslendingar skyldu ráða sér sjálfir, þyrftu enga danska til að fjalla þar um. Og þetta er alveg rétt.

Ég hafði farið fram á það, að ríkisstj. væri falið að leita samninga við ýmiss konar félög, þ. á m. Samband íslenzkra samvinnufélaga, það var nú fyrst talið, og síðan Verzlunarráð Íslands og fjöldamörg önnur félög og vita, hvort það gæti ekki leitt til lækkaðs verðlags. Þetta er kák, segir hv. þm. V-Húnv. Það fólk, sem á að laga kjörin fyrir, á að taka þessi mál í eigin hendur. Líklegast ætti bara Alþýðusambandið að auglýsa verðlag í landinu. Það væri ágætt. Ég mundi fella mig vel við það. Það er bara, hvort við hefðum kraft til þess að framfylgja því. Og það skyldi sannarlega verða hóflegt verðlag í landinu. En það þyrfti sennilega eitthvað fleira að gera ásamt því, ef ekki ættu að verða neinar truflanir eða stöðvanir hjá kaupfélögum og verzlunarfyrirtækjum og atvinnurekstri o. s. frv.

En það var nú samt ekki þetta, sem hv. þm. átti við, heldur það, að það ætti ekki að vera að biðja um þessa samninga um verðlagið, heldur ætti verkafólkið að ganga í kaupfélög og forseti Alþýðusambandsins ætti að hvetja alla til þess að ganga í kaupfélög. En þetta hefur forseti Alþýðusambandsins iðulega gert, bæði áður en hann varð forseti sambandsins og eftir það, því að hann er kaupfélagsmaður alveg eins og hv. þm. V-Húnv. En þó að ég treysti kaupfélögunum til alls góðs í verðlagsmálum, þá veit ég það, að þau eru nú ekki alvöld og einráð í verðlagsmálum, og þau eru byggð upp á þeim grundvelli, að þau skulu haga verðlagi eins og hið almenna verð er á hverjum tíma. Svo er það önnur meginreglan, að sá ágóði, sem myndast við starfsemi þeirra, þegar gengið er út frá þessari meginreglu, leggst í sjóði til framkvæmda og til rekstrar og afgangurinn, sem þá er eftir, úthlutast aftur til baka til þeirra, sem viðskipti eiga við félögin, hvort sem það er fólk í sveit, sem selur í gegnum það sinar afurðir, eða heimilisfaðir í kaupstað, sem kaupir þar sínar neyzluvörur. Og þetta er gott skipulag, þetta er gott fyrirkomulag. En það er ekki verið að ganga fram hjá því góða, sem getur leitt af þessari starfsemi, með þessari till., heldur þvert á móti. Það er verið að leita til heildsölu samvinnusamtakanna um að taka þátt í að knýja verðlagið niður. Og það er fyllilega ástæða til þess, að þau samtök séu með í slíkri viðleitni. Ég er hins vegar ekki svo of trúaður á kaupfélög og samvinnustefnu, að ég telji, að það sé allsherjar Kínalífselexír og allra meina bót að stofna kaupfélag og það séu því ótímabærar allar till. á Alþ. aðrar en þær, sem fjalla um það að stofna kaupfélag og að ganga í kaupfélag. Svo mikið er ég ekki búinn að fá kaupfélagsskap á heilann, að ég hafi slíka oftrú á þeim. Ég held því, að það sé ekkert úrhættis fyrir ríkisstj. að leggja sig alla fram í samningum um að reyna að knýja verðlagið niður, þó að við eigum yfir 50 kaupfélög í landinu, og að það detti engin fjöður úr hatti þeirra fyrir það, þó að hæstv. ríkisstj. reyni þessa leið. Og fólkið í landinu á allar leiðir frjálsar og opnar, og það geta allir, bæði hv. þm. V-Húnv. og ég, hvatt fólkið til þess að ganga í kaupfélög og verzla við kaupfélög og gæta hagsmuna sinna með því. En vissulega er ekki verkafólkið í landinu búið að taka þessi mál í eigin hendur fyrir það, þó að það verzli við kaupfélög. Ég veit ekki annað en að kaupfélögin verði að kaupa, mörg hver, talsvert mikið af sínum vörum í gegnum heildsala í landinu, og það er þess vegna alls ekkert aukaatriði fyrir kaupfélögin, að ríkisstj. snúi sér af sinu afli til heildsalanna og knýi þá til að hafa álagninguna í heildsölu eins lága og unnt er. Og það, hvernig þeir haga þeim störfum, hefur þýðingu bæði fyrir kaupmenn og kaupfélög og það fólk, sem verzlar við kaupmenn og kaupfélög.

Ég skal svo aðeins taka það fram, að ég er þeirrar skoðunar, að hæstv. ríkisstj. sé á engum villigötum með því að hafa skrifað hinum nýju stórfyrirtækjum í landinu og óskað þess, að þau leggi sig fram í samningum við ríkisstj. um ráðstafanir til lækkaðs verðlags og um hófsamlega álagningu í heildsölu og smásölu og að opinber þjónusta verði seld í landinu hóflegra verði en nú á sér stað. Ég held, að það sé full þörf á þessu og að það sé ekki bara skylda ríkisstj. að reyna þetta í kringum samningsuppsagnir hjá verkalýðsfélögunum og þegar verkföll vofa yfir. Þetta ætti að vera hennar helga skylda og hennar daglega iðja við að stjórna landinu á öllum tímum, alltaf.

Hæstv. forsrh. hefur sagt, að það vofi gengisfall yfir. Og hann hefur sagt mér nú, að hann hafi einmitt snúið sér til þessara fyrirtækja á þeim grundvelli, að hann ætlaði að segja við þau: Viljið þið taka þátt í að reyna að verja íslenzku krónuna falli? — Og það er vel þess vert, að ríkisstj. leiti til þeirra aðila, sem hafa notað sér frjálsræðið í viðskipta- og verðlagsmálum með of lítilli hófsemd, að það sé, þegar komið er að því, að íslenzka krónan falli enn á ný í verði, snúið sér til þeirra til þess að biðja þá um samstarf við ríkisvaldið um að verja íslenzku krónuna enn þá meira falli en hún hefur orðið fyrir til þessa.