17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var sú tíð, að ég var eins og flutningsmenn þessarar till., hélt, að það væri ákaflega mikill greiði fyrir þá, sem þyrftu að ná sér í bíla eða ýmsar aðrar vörutegundir, að þær væru gerðar frjálsar og menn losnuðu við að þurfa að sækja um leyfi til fjárhagsráðs eða innflutningsskrifstofu eða hvað það nú kallast í hverju einstöku skipti. En reynslan síðari ár hefur kennt mér það, að hér sé einungis um orðaleik að ræða og ekkert annað en orðaleik.

Í febrúarmánuði 1949 var eftir harða bardaga hér á Alþ. samþykkt að láta frjálsan innflutning á eldavélum. Áður hafði það gengið þannig til, að bændur og konur hér og þar á landinu höfðu beðið mig eða aðra að útvega sér leyfi t. d. fyrir AGA-eldavélum. Ég ætla, að ég hafi árið þar á undan verið búinn að útvega leyfi fyrir töluvert á annað hundrað AGA-eldavélum, og stóð aldrei á því, þegar ég fór til fjárhagsráðs. Mér leiddist þetta eins og öðrum, sem voru við það riðnir, og þess vegna var það, að Alþ., 15. febr.1949, gaf þetta frjálst. Nú hélt ég, að björninn væri unninn og að allt væri í fínu lagi. Og þegar einhverjir báðu mig að útvega sér leyfi, þá sagði ég: Nú, farið bara í skrifstofuna hjá Helga Magnússyni, sem hefur þennan innflutning með höndum. Það er verzlun, heildverzlun hér í bænum. — Þeir gerðu það. Ég hugsaði ekkert frekar um málið. Svo í maí í vor kom til mín ungur piltur, er var að koma frá sjó, og bað mig nú að reyna að hjálpa sér að ná í eina AGA-eldavél, sem hann ætlaði að gefa mömmu sinni, þegar hún yrði sjötug. Ég sagði: Farðu bara niður til Helga Magnússonar; hann hefur innflutning á þeim, og með þær er frjáls verzlun. — En innflytjandinn segir: Síðan það var gefinn frjáls innflutningur á AGA-eldavélum, hefur ekki fengizt leyfi fyrir einni einustu. Það er 71 umsókn hjá mér, sem hefur safnazt fyrir á þessum árum. Ég hef stöðugt talað við millinefnd bankanna og aldrei fengið leyfi fyrir einni einustu. — Þetta var nú frelsið: Ekki einni einustu. — En ef þú getur farið í einhver æðri máttarvöld og séð um það, að ég fái leyfi fyrir gjaldeyri fyrir nokkrum AGA-eldavélum, þá skal ég vera þeim þakklátur, og þá skal ég sjá um, að þessi piltur fái eina. — Svo fór ég og setti ýmsa menn á stað og fór sjálfur á stað, og endirinn varð sá, að það fékkst leyfi fyrir sjö. Svo kom nokkru síðar hans herradómur biskupinn yfir Íslandi, Sigurgeir Sigurðsson, sem nú er dáinn, og þurfti að fá AGA-eldavél handa presti. Helgi Magnússon fékk ekki neitt leyfi. Frelsið var ekki meira en það, að hann fékk ekki neitt leyfi. Nei, biskupinn varð aftur að setja á stað heilmikið „apparat“ til að láta tala við þá menn, sem þarna áttu hlut að máli, og bankana, og þá loksins fékkst leyfi til að fá handa honum vél. Þetta var frelsið.

Nokkru seinna barðist Rannveig Þorsteinsdóttir fyrir því hér á Alþ. að fá innflutningsfrelsi fyrir prjónavélum. Nákvæmlega sama sagan var með þær eins og AGA-eldavélarnar. Ég kann bara ekki tölu yfir þær eins og AGAeldavélarnar, af því að ég hef fengið þær upp í hendurnar. Þetta er frjálsræðið.

Og nú á að gefa bílana frjálsa. Hvað verður þá með það? Verður það eins og með AGA-eldavélarnar? Er þetta nokkuð annað en orðaleikur? Er nokkuð meint með þessu? Alþingi var allt með því að gefa prjónavélarnar frjálsar á sinum tíma, þegar Rannveig Þorsteinsdóttir flutti það hér í þingi. Hvernig hefur það gengið síðan? Það hefur orðið að fá leyfi, og það hefur oft ekki fengizt. Hefur þá orðið að setja ótal menn í „funktion“ til að vinna að því, að bankarnir gefi leyfi. Áður þurfti maður þó ekki annað en skrifa eitt bréf upp í fjárhagsráð, og svo kom svar eftir nokkurn tíma, annaðhvort já eða nei. Ég held þess vegna, að það sé ákaflega lítið unnið við þetta frelsi og það sé nánast sagt aðeins til að sýnast, reyna að slá ryki í augun á fólki, og það er mér alltaf illa við og álit, að það muni hefna sín að ætla sér að afla sér vinsælda með því að slá ryki í augun á fólki. En það hefur verið gert, bæði með frelsinu í prjónavélainnflutningnum og frelsinu í AGA-eldavélainnflutningnum. Það hefur verið slegið ryki í augun á fólki. Það hefur ekkert frelsi verið nema á pappírnum til þess að fá þessar tvær vörutegundir innfluttar. Þess vegna held ég, að ég geti ekki verið að leika þann skollaleik að vera með þessu enn þá einu sinni. Ég er búinn að vera með áður, að þetta sé gert, og afleiðingin er þessi: Það hefur ekki orðið frjáls innflutningur á því, þó að það hafi verið gert á pappírnum.