15.12.1954
Efri deild: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég heyrði því miður ekki alla ræðu hv. 10. landsk., en nokkurn hluta hennar og þá fyrst og fremst það, sem gaf skýringu á þeim brtt., sem hann flytur.

Í þessum brtt. er, eins og hv. 10. landsk. gerði grein fyrir, ein efnisbreyting, og hún er um það, að innflutningur skuli vera frjáls á þeim bifreiðum, sem innflutningsgjald ber að greiða af samkv. lögum þessum. Rökin, sem hv. þm. færði fyrir þessari brtt., voru fyrst og fremst þau, að ef ætti að byggja gjaldgetu þessa sjóðs, sem stofnaður er til stuðnings við útveginn, á tolli á bifreiðum, þá yrði innflutningur á bifreiðunum að vera frjáls. Það væri eina leiðin til að tryggja tekjurnar, en þá væru þær líka tryggðar.

Ég hygg, að hv. þm. sjái það, ef hann athugar málið nánar, að frjáls innflutningur á bifreiðum tryggir þetta að sjálfsögðu ekki. Tekjur sjóðsins eru ekki tryggðar með frjálsum innflutningi, heldur með innflutningi. Við höfum engar sannanir fyrir því í dag, þó að innflutningurinn verði frjáls, að þegnar þjóðfélagsins vilji kaupa þann fjölda af bifreiðum, sem með þarf til að tryggja nægilegar tekjur banda sjóðnum. Ég held einnig, um leið og játa verður, að þetta ákvæði tryggir ekki til hlítar það, sem fyrir hv. fim. vakir, þá hljótum við að vera sammála um, að úr því að ríkisstj. á annað borð hefur tekið að sér að bera fram þessar till. útveginum til framdráttar, þá hvíli á henni sú kvöð að hindra ekki innflutning á bifreiðum, að svo miklu leyti sem eftirspurn er fyrir hendi og allt að því marki, að tekjur sjóðsins séu tryggðar til samræmis við þau útgjöld, sem gert er ráð fyrir í frv.

Hitt er svo annað mál, — um það er ég hv. þm. alveg sammála, — að það væri mjög æskilegt, að þessi innflutningur gæti verið frjáls, m.a. vegna þeirra annmarka, sem á innflutningnum eru nú og hv. þm. benti á og ég hef raunar leyft mér áður að geta um í sambandi við aðra till., sem um þetta liggur fyrir í þinginu. Það eru stöðugt klögumál út úr því, hverjir hljóti leyfin fyrir innflutningi á bifreiðum og hverjum sé synjað. Og ég álít mjög æskilegt, að þessi klögumál, rétt eða röng, verði kveðin niður og þá auðvitað með frjálsum innflutningi. Nú liggur fyrir þinginu till. um það, og ég hefði heldur kosið fyrir mitt leyti, að það mál fengi athugun og afgreiðslu í sambandi við þá till., en yrði ekki blandað inn í þetta mál, sem hér liggur fyrir, m.a. vegna þess, að slík till., ef samþ. yrði í sambandi við þetta mál, gæti valdið einhverjum ágreiningi um málið í heild. Ég tel þess vegna rétt, að þessari till. verði vísað frá, þannig að hún verði ekki samþ. í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og menn geymi þá sitt vald og sitt atkv. til þess að fullnægja þeim vilja á þeim vettvangi, sem skapaður var með flutningi þeirrar till., sem ég hef verið að ræða um.

Að öðru leyti eru till. hv. 10. landsk., eins og hann sjálfur segir, áður fluttar í Nd., og þar hafa verið um þær rökræður. Ég skal ekki orðlengja mikið um till., en aðeins víkja örfáum orðum að þeim.

Fyrsta till., sem er við 2. gr. frv., er um það, að dýrtíðarsjóðsgjaldið verði látið falla þessum sjóð. Hv. flm. gerði þá grein fyrir þessari till., að tekjur, sem af henni falla sjóðnum, ættu að vera til jafnvægis við þann útgjaldaauka, sem leiðir af b-lið þessarar sömu till., þar sem dagbætur hverjum togara til handa eru hækkaðar úr 2000 í 3000 kr. Ég held ég hafi getið um það í framsöguræðu minni um þetta mál, að af slíkri till. um að hækka dagbæturnar um 1000 kr. mundi leiða til útgjaldaauka fyrir sjóðinn á árinu 1955, sem næmi 13 millj. kr. Hins vegar mundi ekki af hinni till., jafnvel þótt hún næði til 3 ára, leiða meiri tekjur en um 6 millj., kannske nokkuð á 7. millj., og það er vegna þess, sem ég áður ga1 um, að þetta gjald hefur aldrei verið innheimt af sendiferðabifreiðum, en mikill fjöldi þeirra bifreiða, sem lögin ná til og skattskyldar eru með lögunum, eru einmitt sendiferðabifreiðar, og auk þess hefur verið venja undanfarin ár að innheimta ekki þetta gjald af þeim bifreiðum, sem atvinnubílstjórar fá, hvort sem það eru stöðvar eða einstaklingar, sem þær bifreiðar kaupa í þessum tilgangi. Og eins og ég skýrði frá í Nd., liggja fyrir um það skriflegar yfirlýsingar frá innflutningsskrifstofunni, að það megi ekki ætla, að dýrtíðarsjóðsgjaldið mundi nema meiru en rúmum 2 millj. kr. á ári. Þessi till. mundi þess vegna, þótt samþ. yrði, ekki nema meiru en hálfum þeim útgjaldaauka, sem leiðir af b-lið þessarar sömu till. við 2. gr., og ekki hafa nein úrslitaáhrif á það, hvort auðið yrði, ef rétt þætti, að greiða 3000 kr. á dag. Ég gat auk þess um það, að eins og sakir standa eru líkur til, að tekjur sjóðsins á árunum 1954 og 1955 verði ekki nema 30 millj., tæpar þó, en útgjöldin kannske allt að 39 millj. Það eru þannig sterkar líkur, svo að það sé nú ekki orðað fastar, á því, að nokkrar milljónir skorti á, að sjóðurinn fái sínar tekjur af fyrirhuguðum gjaldstofni, og þá er ekki um annað að ræða, sýnist mér, ef standa á við þau fyrirheit, sem óneitanlega felast í frv., en að greiða þær með einum hætti eða öðrum úr ríkissjóði, og mætti þá náttúrlega segja, að einu gilti, hvort lögákveðið væri, að þessi tekjustofn félli nú þegar sjóðnum eða aðrar ráðstafanir yrðu seinna gerðar í þessum efnum. Ég get þó ekki mælt með þessari till., vegna þess að fjárlagaafgreiðslan er nú byggð á því, að þetta gjald renni beint í ríkissjóð, og það er þó a.m.k. ekki loku fyrir skotið, að þessi sjóður, sem hér ræðir um til uppbótar fyrir togarana, fái risið undir sínum þörfum með auknum innflutningi á bifreiðum. Og þá er ekki ástæða,til að svipta ríkissjóðinn þessum tekjustofni, sem er, eins og ég segi, reiknað með, til þess að fjárlög fái staðizt og séu afgreidd greiðsluhallalaust. Ég get þess vegna ekki mælt með þessari till., a-lið hennar, hvort heldur litið er á afgreiðslu fjárlaga eða þá þýðingu fyrir sjálft málið, sem samþykkt till. hefði.

Þá er önnur till hv. þm., sem hnígur að því að ákveða þar tilgreindar verðlækkanir á olíu og á vöxtum og á flutningsgjöldum á fiski. Um það er það að segja, að ég fyrir mitt leyti verð að lýsa því yfir, að mér er ekki kunnugt um, hvort auðið er, án þess að stofnað sé til hallarekstrar, að fyrirskipa slíkar lækkanir annars vegar þeim, sem olíusöluna annast, og hins vegar þeim, sem annast útflutning á framleiðsluvöru sjávarútvegsins. Ég hef fyrir satt, og er það eftir gildum útvegsmönnum, að þeir hafi sjálfir gengið úr skugga um, að ekki sé auðið með sanngirni og án hallarekstrar að lækka olíuverðið umfram það, sem nú er gert. Sjálfur hef ég ekki gögn í höndunum til þess að ganga úr skugga um, hvort sú fullyrðing útgerðarmanna er rétt eða röng. En mér finnst, að Alþingi geti ekki samþ. að lögbjóða lækkanir á vissum vörutegundum, án þess að lögð séu fram gögn um það, að þessar vörutegundir séu seldar óhæfilega háu verði eða a.m.k. svo háu, að það sé ekki úr hófi fram gengið á hlut þeirra, sem þessa verzlun reka, með slíku lagafyrirmæli. Hér hefur ekki verið gerð nein tilraun og raunar ekki heldur í Nd. til þess að færa sönnur á, að slík verðlækkun á olíunni fái staðizt út frá þessu sjónarmiði.

Varðandi flutningsgjöldin hef ég sjálfur persónulega reynt að eiga þátt í því, að þau yrðu eitthvað lækkuð, og mér hefur ekki gengið það betur en öðrum. Aftur á móti hafa verið lögð fyrir mig margvísleg gögn um, hverju þetta muni fyrir útveginn, annars vegar og hins vegar, að með margvíslegum kvöðum, sem á skipafélögin hafa verið lagðar, aðallega varðandi farmgjöld á nauðsynjavörum almennings í landinu, þyki ekki auðið frá þeirra sjónarmiði að verða við slíkum óskum, þó að ríkisstj. hafi sótt það allfast. Og ég vil þá ekki að svo komnu máli, skortandi gögn fyrir því, að þetta sé sanngjarnt, vera með í því að lögbjóða það. Ég álít, að ef það er staðreynd, að auðið sé að lækka olíuverðið annars vegar og flutningsgjöld hins vegar, þá megi ósköp vel og einnig með aðstoð ríkisstj. fá það upplýst, enda þótt Alþingi sé búið að ganga frá þessu máli, og ganga þá því harðara að þessum aðilum með öllum þeim siðferðislega rétti, sem hallarekstur útgerðarinnar skapar til að gera kröfur á hendur aðilum, sem annast ýmist sölu á höfuðnauðsynjum útvegsins eða flutninga á aðalframleiðsluvörunni, og með þeim hætti reyna að knýja allt það fram, sem hóflegt þykir og menn vildu ljá atbeina sinn og síðar berjast fyrir að fullkomlega upplýstu máli. En ég endurtek, að ég tel það sama gilda um farmgjöldin og um olíuverðið, að Alþ. getur ekki eingöngu af því, að hér er flutt till., án þess að hún sé rökstudd með öðru en að útvegurinn þurfi á þessu að halda, samþ. slíkar till. og haldið sinni fullu virðingu. Alþ. má ekki gripa til svo handhægra ráða að segja: Ja, vegna þess að einn aðila skortir, þá skulu án rannsóknar um gjaldskyldu annars aðila þó lagðar á hann þær kvaðir að fullnægja þörfum hins fyrrnefnda. Um það þurfa að liggja fyrir fyllri upplýsingar, áður en hægt er að fallast á slíkar tillögur.

Varðandi vextina halda bankarnir því fram, að togaraútgerðin búi við sömu kjör og bátaútvegurinn. Ég hef ekki fullkomlega gengið úr skugga um, hvort það er með öllu rétt, en það er áreiðanlega vafalaust, að nokkurs misskilnings gætti af hendi togaraútgerðarmanna í veigamiklum efnum þess þáttar af þeirra rekstrarkostnaði. Ég vildi ekki fyrir mitt leyti beita mér fyrir því, að togaraútgerðin fengi önnur vaxtakjör heldur en bátaútvegurinn nýtur, og meðan ekki er upplýst um það, að þessi till. setji ekki togarana við hærra borð en bátaútvegurinn situr við, þá vil ég ekki leggja liðsinni til, að hún verði samþykkt. Hitt hygg ég að hv. fim. þurfi ekki að óttast, að ef um eitthvert misrétti er þarna að ræða, þá verði ekki auðið að fá það leiðrétt. Það mun aldrei muna nema einum eða tveimur tugum þúsunda fyrir hvern togara, hvort hann fær þau kjör, sem hann sjálfur óskaði eftir í þessum efnum, þ.e.a.s. taldi sig þurfa að fá til þess að njóta sömu kjara og bátaútvegurinn, og það sker ekki úr í þessu máli, en óviðfelldið fyrir þingið að fyrirskipa bönkunum þetta og ætti einnig að vera nauðsynjalaust, ef um sanngirniskröfu og jafnrétti er að ræða. - Þetta er nú það, sem ég vildi segja um 2. lið till.

Varðandi 3. liðinn, að lækka söluverð á nýju togurunum með þeim rökum, að fiskimjölvélar hafi ekki reynzt eins og vonir stóðu til, þá hafa nú ekki heldur verið færð rök — ekki heldur í Nd. af þeim, sem þar fluttu till. — fyrir því. Og enda þótt fiskimjölsvélarnar kunni að hafa reynzt miður en skyldi eða óskir eða vonir stóðu til, þá leiðir ekki af því út af fyrir sig nauðsyn á að lækka söluverðið. Hitt er svo rétt, að þessir togarar urðu mjög dýrir, og er án efa örðugt fyrir þá, sem þá keyptu, að standa undir rekstri þeirra. Það~ er mál, sem verður að athuga eitt og út af fyrir sig og án hliðsjónar af almennum ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að tryggja rekstur togaraflotans. Til þess gefast nóg tækifæri, ef menn á annað borð vilja inn á þá braut, að ríkið slái af eða taki á sig, við skulum segja 3 millj. af hverjum togara. Það eru 30 millj. Þeir, sem það vilja, verða þá að gera sér grein fyrir, hvaðan ríkið á að taka það fé, og það er náttúrlega út af fyrir sig hál braut að komast út á, að ríkið hafi þau viðskipti við þegnana, að þegar það er búið að veita þeim fyrirgreiðslu um öflun framleiðslutækja og þeir þykjast farsælastir, sem hnossið hreppa, þá skuli þeir þó geta barið á dyr að nýju, ef reyndin sýnir, að þeir hefðu nú verið hamingjusamari með því að verða settir hjá, þegar þessum gæðum var útbýtt meðal þegnanna. Þetta eru tiltölulega fáir menn, sem hér eiga hlut að máli, og ég tel, að Alþ. verði að athuga það mál nokkuð gaumgæfilega, áður en það tekur að sér að leggja 30 millj. kr. nýjar kvaðir á þjóðina, svo að ég nefni nú einhverja tölu, til þess að geta úthlutað þeim feng til þeirra manna, sem keyptu þessa nýju togara.

Ég segi um þessar till. almennt, að sumar þeirra eru mér meira eða minna geðþekkar. Málið liggur bara þannig fyrir í dag, eins og ég gerði grein fyrir í minni frumræðu, að mig skortir aðila, sem ég get bent á og sagt við: Borga þú það, sem leiðir af þessum tillögum.

Eins og málið allt nú stendur, held ég, að við eigum ekki annars úrkostar en að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, og svo verður reyndin að skera úr um, hversu farsællega það reynist. En ég endurtek það, sem ég áður sagði í minni fyrri ræðu, að í höfuðatriðum hefur verið fylgt till. velviljaðra og viturra manna, þ. á m. manna úr okkar eigin hópi, þm., sem voru látnir rannsaka hag togaraútgerðarinnar og gerðu ákveðnar till. um, hvernig ætti að bæta úr öngþveitinu.

Ég vil svo aðeins bæta því einu við, sem ég raunar sagði líka áðan, að enda þótt við hækkum daggjaldið úr tveim þúsundum í þrjár þúsundir, þá er með því ekki sköpuð trygging, a.m.k. þori ég ekki að staðhæfa, að þá sé öruggt um afkomu togaranna. Ég þori ekkert að staðhæfa um það. Ég er að gera mér vonir um, að tvær þúsundir muni duga. Að sjálfsögðu mundu þá þrjár duga enn þá betur, en hvorugt nægir, ef það er rétt, sem flm. þessarar till. sagði í Nd., að það vantaði hvorki meira né minna en 800 þús. upp á till. sjálfs frv., til þess að heita mætti, að tryggur væri rekstur meðaltogara, — 800 þús., en ekki 300 þús., eins og í þessari till., sem hann sjálfur þá flutti og hv. 10 landsk. nú tekur upp. Ég verð þess vegna að leyfa mér að leggja til, að þessar till. verði felldar og frv. samþykkt eins og það er lagt fyrir hv. deild.