17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (2794)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þeirrar ræðu, sem hv. 1. landsk. flutti hér áðan, og nokkuð af því endurtók hann í sinni seinni ræðu. Það var í sambandi við gjaldeyrisaðstöðuna og ástandið í gjaldeyrismálunum í dag.

Það er ekki langt síðan Alþýðublaðið kom út, og þar var feitletruð fyrirsögn, alveg heilsíðufyrirsögn: „Verzlunarjöfnuðurinn á þessu ári verður óhagstæður um 500 millj. kr. — Hvernig ætlar viðskiptamálaráðherra að brúa þetta bil, þar sem Marshallaðstoðin er ekki fyrir hendi á þessu ári, en með henni var öllu bjargað á árinu 1953?“

Ja, ekki veit ég, hvort hv. 1. landsk., hagfræðingurinn, hefur ráðið fyrirsögninni í blaðinu, en eitt veit ég, að ef hann hefur ráðið því, hvaða upphæð þarna var nefnd, þá er hann ekki forvitri. Ég vil nú spyrja: Hvað á svona að þýða, og hverjum getur þetta gert gagn? Getur það bætt fyrir okkur á nokkurn hátt að láta svona fyrirsagnir og spádóma koma fram og verða til umtals á erlendum vettvangi? Er það til þess að auka álit þjóðarinnar út á við eða bæta aðstöðu okkar í atvinnu- og fjármálum?

Vitanlega er það rétt, að á árinu 1954 höfum við ekki Marshall-framlag, eins og við höfum haft undanfarin ár, og ýmsir óttuðust, að um leið og það væri afnumið, mundi verða erfitt að brúa það bil, sem er milli útflutnings og innflutnings. Sem betur fer hefur gjaldeyrisaðstaðan batnað það mikið, að líkur eru til, að aðstaða bankanna út á við um næstu áramót verði allmiklu betri en um áramót 1953–54, þrátt fyrir það þótt við hefðum ekki Marshallaðstoðina.

Hv. 1. landsk. talaði hér áðan um, að árið 1953 hefðu duldar tekjur af Keflavíkurflugvelli numið 213 millj. kr., en 1. okt. í ár 128 millj. Þannig lítur út fyrir, að tekjurnar af Keflavíkurflugvelli á þessu ári verði allmiklu lægri en á árinu 1953, og þegar það bætist svo við, að þær eru allmiklu lægri, um leið og Marshallaðstoðin hverfur, þá mætti reikna með því, að aðstaða bankanna út á við yrði allmiklu verri á árinu 1954 en 1953. Og það er sú ályktun, sem rithöfundur Alþýðublaðsins tók og taldi raunar alveg sjálfsagt, að þegar Marshallaðstoðin hyrfi og tekjurnar af Keflavíkurflugvelli lækkuðu, þá yrði ástandið ömurlegt. Hv. 1. landsk. er eigi að síður í dag að skamma stjórnina fyrir það, hvernig ástandið er í dag. þótt hann verði að viðurkenna með sjálfum sér, að það hefur stórum batnað á því ári, sem nú er að líða, og að við höfum getað tekið þeim áföllum, sem af því leiðir að missa Marshallaðstoðina og lækka tekjurnar af Keflavíkurflugvelli. Hv. þm. varð svo í lok ræðu sinnar að viðurkenna, að gjaldeyrisástandið væri betra nú en á sama tíma í fyrra, og viðurkenndi, að við ættum nú 42 millj. kr. í frjálsum gjaldeyri, sem lýsti hinni batnandi aðstöðu, fram yfir það, sem var í fyrra. Hins vegar vildi hann taka allar ábyrgðarskuldbindingar, ábyrgðir fyrir B-skírteinum og allt, sem hann til tíndi, og taldi þá, að þegar þetta væri allt lagt saman, þá væri raunveruleg skuld 53 millj. kr.

Mér þykir það nú dálítið skrýtið að reikna það raunverulega skuld, þótt búið sé að ákveða kaup á vörum eftir þrjá mánuði eða eftir missiri. Veit ekki þessi hv. hagfræðingur, að meðan þessar vörur eru að koma til landsins, sem þegar er búið að ákveða að kaupa, koma inn gjaldeyristekjur? — En sé þetta dæmi reiknað á sama hátt 1953 og 1954, þá eru það ekki aðeins 42 millj. sem við eigum í frjálsum gjaldeyri; þegar allt er tekið til, með því að reikna á sama hátt bæði árin, þá verður okkar hagur út á við nú um 100 millj. kr. betri en í fyrra, og þetta gerist þrátt fyrir það, að við höfum misst Marshallaðstoðina, og þrátt fyrir það, þótt tekjurnar af Keflavíkurflugvelli verði allmiklu lægri en á árinu 1953, eftir því sem hv. 1. landsk. minntist hér á.

Ég hélt nú, að þetta væru frekar gleðileg tíðindi og lýsti því frekar, að það væri batnandi ástand í þjóðlífinu, heldur en að það gæfi tilefni til að flytja hér reiðilestur yfir ríkisstj. fyrir slæma stjórn á þessum málum.

Við getum hins vegar verið sammála um, að hagurinn má vera betri, en við verðum að vera sammála um það, að árangurinn er allgóður á ekki lengri tíma. Við getum verið ánægðir með það, hversu vel gengur með sölu íslenzkra afurða. Við getum verið ánægðir með það, að þrátt fyrir mesta síldarleysi, sem komið hefur, á s. l. sumri verða útflutningstekjurnar í ár sennilega um 150 millj. kr. hærri en á árinu áður. Og við getum verið ánægðir með það, að allar líkur eru til, að verzlunarjöfnuðurinn verði óhagstæður í ár um 150–250 millj. kr., en var um hin áramótin 405 millj. Þessar tölur liggja vitanlega ekki fyrir, en þetta eru líkur, sem hægt er að hafa nokkuð góða trú á.

Ég ætla svo að láta þetta nægja og ætlast til, að það sýni, að hv. 1. landsk. hafði ekki rétt fyrir sér áðan og það, sem hann sagði hér áðan, mótaðist aðallega af þeirri löngun að sýna þingheimi fram á, að illa hefði verið ráðið, og til þess að hafa efni í Alþýðublaðið á morgun með feitri fyrirsögn í sambandi við viðskiptamálin.