17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í D-deild Alþingistíðinda. (2797)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Skúli Guðmundsson:

Hv. 5. þm. Reykv. flutti hér ræðu áðan. Hann var, eins og flokksbróðir hans, hæstv. viðskmrh., að strita við það að reyna að telja mönnum trú um, að ég væri mjög á móti frjálsræði í viðskiptum. Og hann virtist vera ákaflega óánægður með það, að ég skyldi nokkuð segja um það sjálfur, hverjar skoðanir mínar væru í þeim efnum. En ég hef nú ekki gefið þessum þm. eða öðrum neitt umboð til þess að túlka hér mínar skoðanir. Mun ég reyna að gera það sjálfur, þegar mér þykir ástæða til, og geri ráð fyrir því, að menn marki meira það, sem ég segi sjálfur um þetta, heldur en aðrir.

Hv. þm. var að rifja upp það, sem gerðist hér í viðskiptamálum á síðasta þingi fyrir tæplega ári. Hann segir, að þá hafi ríkisstj. og flokkar hennar ákveðið að leggja niður fjárhagsráð. Er þá ekki allt í góðu lagi, fyrst þessi stóri þrándur í götu frjálsra viðskipta var burt tekinn? Eða er það réttara í málinu, að stofnunin hafi ekki verið lögð niður, heldur gefið annað nafn?

Hann segir, að sjálfstæðismenn hafi fagnað þeim árangri, sem þar náðist, í því að gera verzlunina frjálsari en hún áður var, og vill gefa í skyn, að ríkisstj. hafi unnið í þessum anda síðan, að gera verzlunina frjálsari en hún var.

Það er ástæða til að athuga lítils háttar ég skal ekki eyða í það löngum tíma — hvað er rétt í þessu efni. Þegar fjárhagsráð svokallað lét af störfum. var hér í gildi frílisti, sem gefinn var út 25. júní 1953, og á þeim lista voru taldar þær vörur, sem heimilt var að flytja til landsins án þess að fá til þess innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Þegar nýju lögin höfðu verið staðfest um þetta efni seint í des. í fyrra, var gefinn út nýr vörulisti, en hann var víst ekki kallaður frílisti, því að á sama hátt og þurfti að skipta um nafn á þeirri stofnun, sem úthlutar innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, þurfti auðvitað að skipta um nafn á þessum vörulista, og ég verð nú að biðja afsökunar á því, að ég mundi ekki eftir þessu, og mér hefur orðið það á í ræðum mínum hér áður um þetta mál að nefna frílista, en það er víst ekki lögum samkvæmt. Nú hét vörulistinn: reglugerð um frjálsan innflutning og gjaldeyrissölu, og sú reglugerð er mér sagt að sé óbreytt í gildi enn. Ég hef gert nokkurn samanburð á þessum tveim vörulistum, þeim sem gilti meðan fjárhagsráð starfaði og þeim sem gildir nú, eftir að innflutningsskrifstofan tók við þessum málum.

Breytingarnar eru ákaflega litlar. Ég get nefnt hér — það tekur ekki langan tíma — það sem ég hef fundið.

Í 15. kafla tollskrár eru á nýja listanum feiti og feitar olíur; þetta er nýtt. Og á nýja listanum er eitthvert efni til sultugerðar, sem ekki var frjálst áður. Þá er hér eitthvert efni, sem ég kann trauðlega að nefna, það er í flokki með ostahleypi. En aftur hefur verið fellt niður, sem var frjálst samkv. gamla listanum, gúmmílím, gólfdúkalím, veggfóðurslím og klístur. Hér er á einum stað: Vatnshanar úr járni og stáli, þó ekki blöndunarhanar til baðkera, vaska og þess háttar. En þessir blöndunarhanar held ég að hafi verið frjálsir fyrr á tímum. Hér er eitt nýtt, sem heitir rafmagnsduflaljósker og umbúðablöð, ólituð, einnig áletruð, ef áletrunin ber það með sér, að þau séu ætluð utan um íslenzkar afurðir til útflutnings. Þá er hér duft og deig úr tilbúnum mótanlegum efnum. Og loks er það kartöflumjöl, sem er á nýja listanum, en ég get ekki fundið að hafi verið á þeim eldri.

Ég verð að segja það, að mér finnst hv. 5. þm. Reykv. gera ákaflega litlar kröfur í þessum efnum, ef hann telur ástæðu til að lýsa yfir mikilli ánægju með þennan árangur, sem náðst hafi. En ég get ekki sagt það sama. Ég tel það æskilegt og vona að það takist að gera viðskiptin frjálsari en þau eru nú, en það hefur satt að segja því miður mjög lítið miðað í þá áttina þetta síðasta ár.

Hv. 5. þm. Reykv. segir, að brtt. mín, sem hér liggur fyrir, gangi miklu lengra en frumtillagan. Mín brtt. er aðeins um það, að bifreiðainnflutningurinn verði raunverulega gefinn frjáls, og með þessari athugasemd hv. 1. flm. aðaltill. liggur það fyrir, að það er ekki það, sem fyrir honum og öðrum flm. vakir, úr því að mín till. gengur miklu lengra. Það vakir sem sagt ekki fyrir þeim að gera bifreiðainnflutninginn raunverulega frjálsan, heldur aðeins í orði kveðnu.

Við skulum vona, að það takist að koma á meira frjálsræði í viðskiptunum. En ég vil að síðustu aðeins segja hv. 5. þm. Reykv. það, að ég held, að það borgi sig ekki að vera með neinar blekkingar í þessu eða segja hlutina öðruvísi en þeir eru.