17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í D-deild Alþingistíðinda. (2799)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hv. þm. Barð. sagði. Hann gat ekki stillt sig um að koma hér inn í þingsalina með róg um Sambandið, sem maður er nú orðinn svo vanur að heyra úr herbúðum sjálfstæðismanna. Það er enginn hissa á því lengur, þó að eitthvað heyrist úr þeirri átt svipað því, sem hv. þm. sagði hér áðan. En hann ætti að hafa þessar gróusögur sínar yfir utan þingsins. Hann ætti ekki að nota Alþingi til þess að fara þar með þessar gróusögur. Það er auðvitað alveg út í hött, að Sambandið hafi nokkra sérstöðu í sambandi við bílainnflutning á einn eða annan hátt. Sambandið hefur ekki fengið nein sérstök leyfi til þess að flytja inn bíla fyrir bílaumboð sitt. Það flytur auðvitað aðeins inn þá bíla, sem þeir hafa leyfi fyrir, sem við umboðið verzla, og ekkert umfram það. Ef þetta væri ekki gróusaga hv. þm. um það, að Sambandið hefði bíla á „lager“, þá hlyti tollstjórinn í Reykjavík eða aðrir embættismenn, sem falinn er sá trúnaður að sjá um, að ekki séu fluttir inn bílar, án þess að leyfi séu fyrir, að hafa brugðizt sínum trúnaði. En auðvitað hafa þeir ekki gert það. Allur þessi söguburður hv. þm. Barð. er gersamlega út í bláinn og vísast heim til föðurhúsanna. Maður hefði getað haldið, að Gróa gamla á Leiti væri komin í buxur og komin hér í þingsalinn, þegar hv. þm. Barð. var að tala. (Gripið fram í.) Ja, hún var a. m. k. ekki í pilsi, þessi Gróa. Svo mikið er víst. Á sömu bókina lært er það, sem þessi hv. þm. var að fleipra hér um úthlutunarlista.

Annars er ekkert örðugt að skilja aðstöðuna í þessu bílamáli. Hún er blátt áfram þannig, eins og þeir hafa útlistað, sem hér hafa talað úr Framsfl. Við viljum vera með í því að gefa bílainnflutning frjálsan. En við viljum ekki vera með í því að færa úthlutunina úr innflutningsskrifstofunni og niður í bankana. Það er engin bót að því. Menn eru að tala um það hér fjálglega, að það sé mikil óánægja með úthlutunina á bifreiðunum hjá innflutningsskrifstofunni. Ætli það gæti ekki líka heyrzt hljóð úr horni, þegar bankarnir færu að velja úr, hverjir mættu flytja inn bíla og hverjir ekki? En svo gæti orðið, fyrst menn þora ekki að taka skrefið heilt og ákveða, að það skuli láta gjaldeyri fyrir þeim bílum, sem menn óska að flytja inn. Ég skora á alla þá menn, sem hér tala fyrir frjálsum bílainnflutningi, að gera þetta heilt og samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir um, að það sé þá skylt að láta gjaldeyri fyrir þeim bílum, sem menn vilja kaupa. Annars eru þetta ekkert annað en látalæti. Ef menn meina, að allir þeir, sem geta og vilja fá keypta bíla, eigi að geta fengið þá keypta, þá verður að vera öruggt, að menn geti fengið gjaldeyri. Það þýðir ekkert að setja bílana á frílista og neita mönnum svo um gjaldeyri. Það gæti vel svo farið, að í viðtalstímunum og utan þeirra kæmu til ráðh. menn, sem hafa ekki fengið afgreiðslu í bönkunum og kvörtuðu, þó að bílarnir standi á frílista, ef ekki er hægt að yfirfæra. Þetta vænti ég að menn hljóti að sjá, ef menn vilja líta raunsætt á málið, og það er auðvitað aðalatriðið. Ég trúi því varla, að þetta mál sé flutt til þess að sýnast.