25.10.1954
Neðri deild: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

11. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Með þessu frv. er lagt til að heimila ríkisstj. að innheimta vörumagnstoll og verðtoll með álagi nokkru. Enn fremur að heimila ríkisstj. að undanþiggja eða fella niður aðflutningsgjöld af ýmsum varningi, sem greinir í 3. gr. frv. Og loks eru svo í 2. gr. nokkrar undantekningar frá tollauka þeim, sem ráðgerður er í 1. gr. frv. Þetta frv. er algerlega samhljóða þeim lögum, sem nú gilda um þetta efni. Það hefur farið í gegnum hv. Ed. breytingalaust. Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari 1. umr.