02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í D-deild Alþingistíðinda. (2803)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt, ef ég vonsvík hv. 2. þm. Reykv. með því að svara ekki ýtarlega þessari ræðu hans. Ég býst við, að ef ég teldi það þess vert að reyna að hrekja lið fyrir lið í aðalefnum það, sem hann hefur sagt, þá mundi ég þurfa að flytja hér alllanga ræðu. En ég tel nú ekki þær fullyrðingar, sem hann hafði í frammi, í raun og veru svo nýstárlegar né merkilegar, að hann megi til þess ætlast af mér, að ég geri þetta. Ég get hins vegar huggað hann með því, að mér þótti gaman bæði að horfa á hann og hlusta á hann, og ég var að hugsa með mér: Hvað trúir hann nú miklu af þessu sjálfur? Ég var að hugsa um, hvort hann ætti enn þá barnsins frómu lund, sem enn þá skilur tiltölulega lítið af lífinu, hefur sínar óskir og lifir í sínum draumaheimi. Og ég get vel trúað þessu, því að það er ekkert einstakt um vel gefna menn, að þeir séu tiltölulega einfaldir á vissum sviðum. En sannarlega þarf allmikla einfeldni og hjartans hreinleika, ef þessi hv. þm. í raun og veru trúir nema brotabroti af því, sem hann var að segja nú, trúir t. d. meira af því en hann trúir af því, sem hann er að bera okkur á brýn, stjórnarliðinu og Alþýðuflokknum, að við svíkjum okkar föðurland í hendur erlendu valdi og hann og hans flokkur séu hinir sönnu málsvarar íslenzks þjóðfrelsis. Ég veit ekki, hvort heldur er, að hv. þm., sá ágæti maður, trúir nú meira af þessum staðhæfingum, sem hann var með, heldur en hann trúir í þessum hinum efnum, sölu sjálfstæðis landsins, ef menn ættu þess kost, eða hvort þetta er, eins og ég segi, hjá vel gefnum manni bara einfaldur tómleiki, þar sem hann er hér að staðhæfa það, sem í raun og veru flestir aðrir brosa að.

Ég veit, að þessi þm. trúir því þó ekki, að það sé neitt hneykslanlegt, ef í samstjórn eru Sjálfstfl. og Framsfl. eins og nú og eiga að bera ábyrgð á mjög þýðingarmiklum atriðum eða þjóðfélagsmálum, eins og hann gerði nú að umræðuefni, eins og t. d. innflutningi til landsins, og ef þingið mælir svo fyrir um, að fyrir þessum innflutningi skuli standa tveir menn, - ég veit ekki, hvort þessum hv. þm. í sannleika þyki það hneykslanlegt, að þegar stjórnin á að fara að velja þessa tvo menn, þá skuli ekki valdir t. d. kommúnisti og Alþýðuflokksmaður. Ég man þá tíð, í minni mér er enn, þegar við vorum saman í nýsköpunarstjórninni, því þótt hv. þm. væri ekki einn af ráðherrunum, þá var skylt skegg hökunni og mjög gott á milli okkar þá, eins og raunar oftast, þótt okkur komi sjaldnast saman um efnishlið málsins. En ekki þótti honum neinn glæpur þá, þótt það dytti mér af vörum einhvern tíma eitthvert orð um það, að við, sem værum í stjórninni, og þeir flokkar, sem bæru ábyrgð á framkvæmdavaldinu, ættu að skipa menn úr sínum hópi til starfa frekar en frá hinum miklu og ágætu heiðursmönnum, sem ég nú vinn með. Ég man ekki til, að honum yrði þetta nein hneykslunarhella í þá daga. En hann hefur kannske tekið þroska á þessu sviði, þótt mér virðist hann hafa tekið honum furðulitlum á sumum öðrum, ef það er alvara, sem hann var að segja hér. Þá spillingu, sem hann var að rökstyðja hér innan stjórnarflokkanna, rökstuddi hann ekki í rauninni með öðru en því, að þessir flokkar skipuðu sína menn til að annast hin viðkvæmustu og vandasömustu málefni. Það kallar hann svo aftur helmingaskipti hagsmunanna. Eru það þá ekki helmingaskipti hagsmunanna, svo að ég reyni nú að brýna röddina eins og hann, þegar Alþingi leyfir sér að setja hér aðeins tvo flokka í stjórn, en tekur ekki nokkurt tillit til hinna þriggja flokkanna, sem þó eru á þingi? Ja, hann hlær, hann hlær alveg eins og ég hló áðan. Og ég tók dæmið af því, að mér fannst það jafnvitlaust og hans dæmi. Og lengra gat ég ekki komizt. Það er auðvitað svo, að ef menn vilja líta þannig á, að menn, sem settir eru til ábyrgðarstarfa, starfi eingöngu fyrir þá flokka, sem hafa tilnefnt þá, þá eru bæði dæmin afleit, og þá eigum við að koma á hjá okkur nýrri skipan, þar sem allir flokkar eiga umboðsmenn í ríkisstj. og í hinum þýðingarmestu nefndum eða ráðum, sem fara með framkvæmdirnar á hinum mest varðandi málum. En ég gat ekki fundið annan rökstuðning fyrir allri hneyksluninni heldur en þennan. Það er auðvitað auðleikið mál að segja: Ja, hér er flutt inn sement og hér er flutt inn olía, og það er of mikil álagning á því. — Þetta er nú keypt af góðum viðskiptavinum okkar allt saman, ef ég veit rétt, og margt frá Sovétríkjunum, og ég held, að það sé ekki neinn grunur um, að þau okri á okkur umfram aðrar þjóðir. Það er ákaflega auðreiknað, hvað fragtirnar eru á heimsmarkaðnum og hver eðlilegur dreifingarkostnaður er, og miklar upplýsingar fyrir um það. Ég skal ekki sjálfur fullyrða, hvort þar hefur verið nægrar nákvæmni gætt, en það hafa svo margir þar til hæfir aðilar um þetta fjallað, að ég hef ekki ástæðu til þess að vefengja, að það verðlag, sem gildir í landinu, sé nokkurn veginn í samræmi við það, sem er eðlilegt, ef mönnum er ætlað eitthvað fyrir viðhaldi þeirra verkfæra eða þeirrar tækni, sem þarna er á ferð, og eitthvað fyrir eðlilegum rekstrarkostnaði, mannakaupi og öðru slíku. Varðandi aftur útflutninginn, sem hann enn gerði að umræðuefni að gefinni deilu á milli hv. 1. landsk. og mín, þá endurtek ég það, að stjórnin þarf engin ámæli á sig að taka í þeim efnum, einfaldlega vegna þess, að það er rétt, sem ég segi, en ekki rétt, sem hann segir. Hv. þm. segir, að þessari skipan uni útgerðarmenn og segi ekkert við henni. Það er ekki rétt, heldur beina þeir beiðnum sínum og óskum til ríkisstj. um, að þessi skipan fái að haldast, og ég álít ekki, að maður eins og hv. 2. þm. Reykv. þurfi að kvarta hér yfir leynd í þessum efnum, m. a. af því, að mikilhæfir flokksbræður hans eru þar, ef ekki innstu koppar í búri, þá a. m. k. háttsettir menn og eiga greiðan aðgang að þeim gögnum, sem þar liggja fyrir. Það á því ekkert að þurfa að fara með leynd í þessum efnum. Hér hafa óteljandi oft verið flutt fram rökin af minni hendi fyrir því, að ég hef talið heppilegt að hlýða óskum útgerðarmanna í þessum efnum. Aðrir hafa fært sín rök fyrir því, að það væri réttara, að tveir aðilar færu með saltfisksöluna heldur en einn, og enn aðrir hafa svarað því, og ég er raunar á meðal þeirra, að ef aðilarnir væru tveir, yrðu þeir af innri nauðsyn að vera fleiri.

Að lokum segi ég ekki annað en það um þetta, að þegar útgerðarmennirnir óska eftir þessu og meðan þeir óska eftir því, hef ég ekki séð mér fært að breyta til um þetta. Og ég endurtek það, að ef ég ætti hér að fara að karpa við hv. 2. þm. Reykv. um öll þau mál, sem hann hreyfði hér, þá getum við hætt við að fresta eldhúsdeginum og tekið hann bara núna, því að þetta er nú það, sem við rifumst og skömmumst um á eldhúsdegi. En ég veit, að hann sér það sjálfur, að þegar hann staðhæfir, að þau ráð og nefndir, sem starfa ýmist samkv. óskum þeirra aðila, sem þar eiga mest undir, eins og útflutningsaðilanna, eða að tilskipan ríkisins samkvæmt lögum, séu stofnanir settar til þess á skipulegan hátt að féfletta almenning í landinu, og segir jafnframt hins vegar, að slíkum ummælum þýði ekkert að skjóta undir dómstóla Íslands, því að þeir séu bara stéttardómur, þá eru eiginlega rökræður þrotnar af hans hendi. Og fyrir þessu öllu stendur svo náttúrlega sú bersynduga ríkisstj. Það var nú nokkuð langt gengið í ádeilunni á þing, stjórn og þær stofnanir, sem hér fara með allra mikilvægustu störfin í þjóðfélaginu. Og ég vil segja honum það, að það er rétt af þingmönnum, um leið og þeir halda uppi eðlilegri og réttmætri gagnrýni á skipan mála í landinu, að gæta þess jafnframt að vera ekki með þessi eilífu brigzlyrði um svik og pretti og a. m. k. að stilla sig um að láta þau brigzlyrði ná til sinna félaga á þingi, því að það er eitt af því hættulega í okkar þjóðfélagi, ef almenningur fer að festa trúnað á það, að við séum ekki annað en hálfgildings opinberir stórþjófar, sem ýmist beint eða óbeint höldum hlífiskildi yfir svindli og þjófnaði og mútugjöfum og öðru slíku. Þetta eru alþingismenn Íslendinga ekki. Við höfum margt, sem við getum hver út á annan sett með réttu, og við gerum venjulega meira en við meinum í því að deila hver á annan. En þegar deilurnar fara yfir á þennan vettvang, þá ganga þær of langt, því að þetta er þjóðhættulegt. Það er þjóðhættulegt, ef við erum að reyna gegn okkar eigin sannfæringu að smeygja því inn í vitund almennings, sem hefur ekki sömu aðstöðu til að dæma hlutina eins og við, að hér sitji ómenni og þjófar. Það er rangt að gera þetta og því verra sem enginn okkar meinar þetta hver um annan eða í annars garð.

Ég vil svo að lokum segja það, að um leið og ég óska mínum góðkunningja, hv. 2. þm. Reykv., langra lífdaga, t. d. að hann yrði 100 ára eða eitthvað svoleiðis, þá vildi ég mega dæma hann til þess, þegar hann vitkast, að lesa þetta bull, sem hann hefur verið að þvæla hér og pína okkur aðra með í sínum löngu og vel fluttu, en órökstuddu ræðum. Verði honum vaxinn þroski, þá mun hann taka út þá refsingu við að lesa það, sem við sumir verðum að þola við það að hlusta á þetta. Ég læt þetta verða mín síðustu orð að þessu sinni til hv. þingmanns.