02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (2805)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. spurði mig að því, hvort ég lifði máske í einhverjum draumaheimi. Það getur vel verið, að það sé rétt, og ég held að það sé gott. Ég held, að það sé gott, að það sé að minnsta kosti einhver hérna á Alþingi, sem tekur sér það fyrir hendur að láta sig dreyma vel, — að láta sig dreyma um það, að við getum verið lausir við alla þá spillingu, sem er að gagntaka okkar þjóðfélag, dreyma um það að geta verið lausir við það, sem nú er að gerast hjá okkur, að það að meta peningana og gróðann sem það eina, sem eftirsóknarvert sé í mannfélaginu, sé að heltaka íslenzku þjóðina. Ég held, að það sé gott að mega lifa í þeim draumaheimi, að við gætum skapað hér á Íslandi þjóðfélag, þar sem peningagildið hættir að vera það æðsta hjá megininu af mönnunum, þar sem braskið og spillingin þess vegna grefur ekki eins um sig og það gerir núna í þjóðfélaginu og stígur upp í æðstu stólana, upp í sjálft ríkisvaldið, þannig að ríkisvaldið verður verkfæri slíkrar spillingar og í átökunum á milli flokkanna verkfæri, sem gerir út um, hvor þeirra græði meira á spillingunni í mannfélaginu. Ég held, að það gerði ekkert til, þótt maður lifði í slíkum draumaheimi. Ég hef áður lifað í draumaheimum viðvíkjandi framförum á okkar landi og verið alveg ósmeykur við að setja þær hugmyndir fram hér á þingi og hlotið háðsyrði og annað slíkt fyrir, og það hefur samt orðið að veruleika. En það er ekki nóg fyrir okkur að nýskapa okkar tækni. Við þurfum að nýskapa okkar þjóðfélag og nýskapa okkar þjóð. Við þurfum að gera þjóðina mun betri en hún er að verða núna. Hún er að gagnsýrast af því að meta peningana meira en manngildið. Og eitt af því, sem verið er að skipuleggja af hálfu ríkisstjórnarinnar, er þetta mat. Og þetta mat er meðal annars nú framkvæmt undir því formi að gera upp á milli hinna pólitísku skoðana í landinu, að dæma menn og fordæma eftir því, hvort þeir þora að hafa sína sannfæringu og standa við hana eða hvort þeir skríða fyrir stjórnarflokkunum. Og ég held, að það sé ekkert slæmur draumaheimur, þó að maður geri sér það í hugarlund, að þessu eigum við eftir að breyta.

Hins vegar skal ég viðurkenna, að eins og vant er svaraði hæstv. forsrh. mjög sniðuglega, eins og við var að búast af slíkum ræðumanni. Hann kom sér hjá að fara inn á málið, og það er það sjálfsagða fyrir hann. Það er það, sem ríkisstj. á að sjá um, og það, sem hún yfirleitt gerir, því að þetta, að það skyldu verða þessar umr. um bílainnflutninginn, er bara slys, sem alltaf getur komið fyrir, þegar illa gengur að semja á stjórnarheimilinu, svo að þess vegna er náttúrlega um að gera að ljúka þeim umr.

En svo minntist hann á viðvíkjandi skipununum í trúnaðarstöður, hvernig þetta væri, þegar við hefðum verið saman um stjórnarstefnu hér á árunum, hvort mér brygði nokkuð við, þó að stjórnarflokkarnir tveir tilnefndu nú í nefndir og hefðu ekki neina með frá andstöðunni. Ja, það var nú svona, þó að framsóknarmönnum þætti þetta afskaplega slæm stjórn og þeim geti aldrei úr minni liðið yfirleitt, hvernig þessi nýsköpunarstjórn hafi verið, þá létum við nú greyin alltaf flakka með, þegar skipað var í trúnaðarstöður. Í sjálfu nýbyggingarráðinu fengu þeir að vera, og ekki man ég nú eftir, að við höfum útrýmt þeim úr viðskiptaráðinu. Nei, nei, þeir fengu að vera með. Og ég veit ekki betur en að S. Í. S. hafi fengið hvert einasta leyfi, sem það sótti um til nýbyggingarráðs, hvert einasta eitt, og það svo að segja samstundis. S. Í. S. þurfti sannarlega ekki að kvarta. Hitt var rétt, að það var anzi seint oft að sækja um, því að það hafði yfirleitt litla trú á því að nýskapa þjóðfélagið.

Svo minntist bæði hann og hv. þm. Barð. á, hvernig þetta væri með mennina tvo og hvort maður gæti ekki treyst þeim. Ég skal segja þeim, að ég álit þetta mjög góða menn, sem eru þarna í. Ég álít þetta svo góða menn, að ég held, að það væri miklu skynsamlegra fyrirkomulag að hafa bara einn og taka hvorn þeirra sem væri. Og ég vildi stinga upp á, af því að þetta eru nú svo miklir sparnaðarflokkar, að þeir gerðu þá ráðstöfun á morgun, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn, þ. e. a. s ríkisstj., að hafa bara einn mann þarna, tækju annan af þessum, annaðhvort Odd eða Jón, þetta eru báðir ágætismenn, og ég treysti þeim báðum alveg jafnvel. En mér þætti gaman að sjá andlitin á framsóknar- og sjálfstæðismönnum daginn eftir að annar hvor þeirra væri valinn. (Gripið fram í.) Ja, það væri t. d. hægt að útkljá það á þann hátt að varpa hlutkesti. Þá yrði gaman að sjá framan í þá. En ég held satt að segja, að það væri miklu betra fyrirkomulag, vegna þess meðal annars, að það mundi hafa miklu betri uppeldisáhrif á slíka menn. Þetta eru góðir menn fyrir, en þeir yrðu miklu betri, eftir að þeir væru sem einn embættismaður þarna og vissu það, að allir menn yrðu að treysta þeim sem heiðarlegum og góðum mönnum. Ég veit vel, að það er hægt að tala við hvorn þessara manna sem er fyrir okkur, sem líka erum utan t. d. ríkisstjórnarinnar, og annað slíkt. En það, sem ég var að vekja eftirtekt á, var einmitt þetta, hvernig sagt var hér, að þeir væru settir frá Sjálfstfl. og frá Framsfl. Það var ekki sagt, að þeir væru settir frá t. d. neytendasamtökum í landinu eða frá Verzlunarráði Íslands. Það var ekki sagt, að þeir væru skipaðir af neinum slíkum stofnunum. Nei, þeir eru skipaðir af ríkisstj. En það er tekið fram, að þeir séu settir af þessum flokkum. Það var það, sem var eftirtektarvert í sambandi við þetta.

Ég býst við, að ef hæstv. forsrh. vildi ná alveg því, sem hann vildi miða að með þessari þáltill., að firra valdhafana öllum grunsemdum um misbeitingu valdsins, þá væri tilvalið að setja bara einn mann þarna, alls ekki neinn frá flokkunum. Það er svo sem alveg sama, hvort það er sjálfstæðismaður eða framsóknarmaður út af fyrir sig. En svona er nú samt nákvæmur hugsunarhátturinn hjá hæstv. ríkisstj. um embættismennina, meira að segja þó að það sé ekki nema einn, að þegar hv. þm. Barð. kemur með ásökunina um og spurninguna, hvort bílar standi hjá Sambandinu, sem Sambandið átti að geta afgreitt, hverju svarar hæstv. fjmrh.? Hann svarar: Hvernig fara þeir þá í gegnum tollstjórann í Reykjavík? Hann veit, hvað hann segir. Tollstjórinn er viðurkenndur sjálfstæðismaður. Þar með er þetta komið á ábyrgð beggja, ef þetta er svona, og svo er ekki talað um þetta meir. Svo vitum við ekki, veslingarnir, hvort það sé satt, sem hv. þm. Barð. hefur sagt, eða hvernig þetta eiginlega sé; vitum ekki neitt. Samábyrgðin er komin í gang.

Svo sagði hæstv. forsrh., að auðvitað hefði ég ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir mér í nokkrum sköpuðum hlut, sem ég hefði sagt, þetta væru allt voðalegar aðdróttanir um góða og fína menn. Það er alveg rétt. Ég tók það fram sjálfur, að ég hefði ósköp lítið fyrir mér. Það, sem ég hafði t. d. aðallega fyrir mér viðvíkjandi olíufrögtunum, sem hann var sérstaklega að tala um, það var Morgunblaðið, það var Sjálfstfl., það var hann sjálfur við síðustu kosningar. Og það var nú tekið á honum stóra sínum þá. Það voru engar smáræðisfyrirsagnir, sem Morgunblaðið var með viðvíkjandi olíufrögtunum og hvernig farið væri að. Þetta hafði ég fyrir mér. Það er að vísu ekki stórt, en fyllilega rannsóknarvert engu að síður, sérstaklega þegar það svo kemur út, að olíuverð er lægra í Noregi en hérna, en fiskverðið aftur á móti hærra til fiskimanna. Ef til vill væri þetta rannsóknaratriði. Mér finnst, að það sé ekki nein goðgá að skella því fram.

Svo gaf hæstv. forsrh. mér föðurlega áminningu um, hve þjóðhættulegt það væri að segja svona ljótt um þingmenn og jafnvel drótta að ráðherrum því t. d., að þeir væru að halda hlífiskildi yfir svindli og öðru slíku, sem hann tók nú mun dýpra í árinni heldur en ég. Hann ætti að tala við framsóknarmennina, spyrja þá, hvernig gangi með kjördæmin, sem voru tæpust núna, í gegnum hverja féð fari aðallega í þessi kjördæmi, hvort það sé e. t. v., ef þarf að fá lán við skulum segja til Vestur-Ísafjarðarsýslu, heppilegt að leita til frambjóðanda Sjálfstfl. í þessum kosningum til að fá lán eða hvort það sé heppilegra að tala bara við bankann. Nei, við skulum alveg gera okkur ljóst, að með því valdi, sem ríkisvaldið er orðið í okkar þjóðarbúskap, í öllum okkar efnahag, þá er boðið upp á spillinguna. Og í þjóðfélagi, sem er að gagnsýrast af peningadýrkuninni, er hættan á, að þessi spilling grafi um sig, gífurleg. Það þyrfti að taka mjög hart þarna á til þess að koma í veg fyrir það.

Ég skil vel, að hæstv. forsrh. kippi sér upp við allar þessar ljótu grunsemdir. En af hverju er þá ríkisstj. að gefa þeim undir fótinn? Af hverju er þá rétt fyrir kosningar settur til þess að úthluta smáibúðalánum hér í Reykjavík og suður á Kópavogshálsi maður, sem er form. sjálfstæðisfélagsins í Reykjavík, og maður, sem er form. framsóknarfélagsins í Reykjavík? Og af hverju eru þeir látnir úthluta þessum lánum eða lofa úthlutun eða dragast á úthlutun við menn rétt fyrir kosningar? Af hverju er þá verið að gera leik að svona málum, ef menn álita, að það sé voðalega ljótt að koma með nokkrar grunsemdir í þessum efnum? Af hverju er þá verið að gera leik að þessu? Af hverju var þá ekki eins hægt að setja svona mál í bankana?

Nei, við verðum alvarlega að gæta okkar þarna. Það er þjóðhættulegt, að það sé enginn, sem þorir að kveðja sér hljóðs um, hvert þarna er stefnt. Hitt er rétt, að það er náttúrlega bezt að bíða máske þangað til eldhúsumræðurnar koma með meginið af þessu.

Svo kom hv. þm. Barð. Hann talaði um, að þó að Oddur væri sendur í innflutningsskrifstofuna af sjálfstæðismönnum, þá náttúrlega kæmi ekki til mála að væna hann um neitt, enda hafði ég aldrei gert það, og það er ákaflega fjarri mér með hvorn þeirra, sem þar sitja. En hvað var hv. þm. Barð. að væna framsóknarmanninn í stjórn innflutningsskrifstofunnar um? Var hann ekki eitthvað að minnast á, að það væri undarlegt með sumar upplýsingarnar, sem kæmu fram í stjórn innflutningsskrifstofunnar, hvað þær virtust eiga greiða göngu til S. Í. S.? Ég var ekki að segja neitt. Það var hv. þm. Barð., sem var að minnast á slíkt. Vafalaust eru mennirnir yfirleitt jafngóðir, og sízt hef ég verið að lasta þá. En hvað var það þá, sem hv. þm. Barð. fannst vera svo hættulegt í, að stjórnarandstaðan ætti eitt atkv. í stjórn svona innflutningsskrifstofu? Hvað var hættulegt í því? Gat það raskað hlutföllunum í skiptingunni? Var það það? Af hverju var það hættulegt, að hún gæti átt oddaatkvæði? Eða voru nokkur minni líkindi til þess, að þeir kæmu sér saman um það, stjórnarfulltrúarnir þar, að gera það, sem rétt væri, þó að það væru þrír í nefndinni? Var ekki sami möguleikinn á, að Sjálfstfl. og Framsfl., sem væru þarna í meiri hl. í stjórn innflutningsskrifstofunnar, ef það voru þrír þar, þjónuðu réttlætinu, þó að það væri einn óþekktar-stjórnarandstæðingur eitthvað að flækjast þarna, sem náttúrlega hefði ekki nokkur áhrif? Af hverju fór hv. þm. Barð. að tala um oddaatkvæði? Var það eins og hann gengi út frá, að stjórnarflokkarnir kæmu sér aldrei saman og það yrði alltaf að skipta á víxl á milli þeirra eða gera upp sakirnar? Hafði hann í huganum einhverja spegilmynd af stjórnarsamstarfinu, þannig að þeir kæmu sér helzt aldrei saman, nema þá ef helmingaskipti væru, og það væri stundum erfitt að finna þau út? Ég er hræddur um, að hv. þm. Barð. hafi ljóstrað upp sjálfur, hvað gæti verið truflandi að hafa þarna fleiri, sem gætu skyggnzt inn í, hvernig gengi til í stjórnarherbúðunum.

Svo endaði hv. þm. Barð. með því að tala um hagsmuni annarra þjóða. Ég hef nú satt að segja ekki orðið var við það, að það hafi svo sérstaklega strandað á þeim spursmálum í átökunum, sem orðið hafa hér á Íslandi undanfarið, að við sósíalistar eða stjórnarandstæðingar værum að hugsa svo mikið um hagsmuni annarra þjóða. Það hefur verið hitt, sem hefur strandað á, að það hefur ekki fengizt hugsað um hagsmuni íslenzku þjóðarinnar eins og átti að gera. Og það hefur verið vegna þess, að áhrif erlends valds hafa orðið svo sterk hér á Íslandi. Við ræðum það mál svo oft, að við skulum ekki fara langt út í það núna. En sama erlenda valdið sem bæði hv. þm. Barð. og hæstv. forsrh. fannst sjálfsagt að vísa frá, meðan við vorum saman um ríkisstj. hér á Íslandi, og neita slíku erlendu valdi um öll ítök á okkar landi, það sama vald hefur náð ítökum síðan. Og það, að við höfum síðan neitað að vera í ríkisstj. og að taka ábyrgð á gerðum ríkisstj., hefur verið vegna þess, að við vildum ekki láta undan þeim kröfum, sem þjóðin neitaði 1945, og þeim kröfum, sem það útlenda vald hefur verið að knýja í gegn síðan. Við höfum verið ábyrgir gagnvart íslenzku þjóðinni og gagnvart sögu hennar og gagnvart framtíð hennar. En þeir menn, sem ráðið hafa, hafa verið óábyrgir í þessum efnum. Og með þeirra ábyrgðarleysi er það að koma svo sem nú er komið, að Ísland ræður því ekki lengur sjálft, hvort það dregst inn í styrjöld, hvort það er gert að vígstöð eða annað slíkt, — yfirleitt getur ekki ráðið sínum örlögum. Og það, sem ekki er síður hættulegt, er svo hitt, að í sambandi við öll þau áhrif, sem hlotizt hafa af auknu valdi ameríska auðvaldsins hér á Íslandi, eykst nú öll spilling í okkar þjóðlífi.

Hv. þm. Barð. ætti sízt að tala af neinni frekju í þessum efnum í okkar garð. Við höfum sýnt honum fullt traust, þegar við höfum verið að starfa saman, og einnig, þegar hann hefur verið á öndverðum meið við okkur í pólitíkinni. Ég býst ekki við, að það sé vegna þess, að hann sé svo miklu betri maður en hver af okkur. Ég býst við, að það sé vegna hins, að við álitum sjálfsagt, — og það líka þegar ráðizt hefur verið á hv. þm. Barð., þegar hann hefur unnið mikil og góð verk í þjónustu þjóðarinnar, — við álítum sjálfsagt einmitt að gefa slíkum mönnum tækifæri til þess að nota sína krafta, og við álítum sjálfsagt að meta þá, þó að þeir séu í öðrum flokki og á öndverðum meiði við okkur. En þá á hann ekki að leyfa sér að hafa þau orð um munn, sem hann hafði hérna áðan.

Þetta vildi ég aðeins segja út af þeim tveim ræðum, sem hérna hafa verið haldnar, og því, sem sérstaklega var sveigt til mín og okkar flokksmanna, en mun svo að öðru leyti ekki fyrr en þá við framhald umræðunnar, ef það yrði álíka fjörugt og var núna, taka meira til máls.