02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í D-deild Alþingistíðinda. (2806)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vil leyfa mér að þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir falleg ummæli í minn garð. Þau voru að vísu verðskulduð, þótt fyrir annað væri en hann gat um. Það var svona kaup kaups, okkur hættir við að skjalla hvor annan, og við því er lítið að segja.

Ég vil svara öllu, sem hann hefur sagt í báðum sínum ræðum, með einni setningu, sem hann lauk máli sínu með nú í seinni ræðunni. Hann sagði, að vegna aðgerða annarra en hans flokksmanna, — og þar var hann að ræða um varnarráðstafanir þjóðarinnar, — væri nú svo komið, að Ísland réði því ekki lengur, hvort það drægist inn í heimsstyrjöld, ef til kæmi. Dettur nokkrum lifandi manni í hug, að svo viti borinn maður sem þessi hv. þm. er láti sér detta í hug, að Ísland hefði nokkurn tíma ráðið því sjálft, ef til úrslitaátaka kæmi í heiminum, hvort það drægist inn í þau átök eða ekki? Vita ekki allir menn hér, og veit ekki gervöll þjóðin eða a. m. k. hver einasti hugsandi maður, að Ísland hefur mjög mikilvæga hernaðarlega þýðingu? Vita ekki allir, að ef til heimsstyrjaldar kemur, verða það voldugri og geigvænlegri átök um líf og tilveru þjóða og hugsjóna en heimurinn veit áður dæmi til? Og dettur þá nokkrum manni í hug, að 150 þús. sálir eða þótt 160 þús. væru á þessari fögru eyju okkar fái sjálfar að ráða einhverju um það, hvort þær dragast inn í heimsátökin eða ekki? Það dettur engum manni í hug og sízt þessum manni, sem hér var að tala á undan mér; alveg eins og ég held líka, að meiri hlutinn af því, sem hann er að segja, séu hlutir, sem honum í raun og veru ekki dettur í hug, en hann sé orðinn svo vanur að segja þetta í pólitískum tilgangi, að blygðunarleysið sé alveg af honum horfið, þó að hann sé innan um jafnágæta áheyrendur og hann var hér áðan.