10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (2812)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. form. nefndarinnar og frsm. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf í sambandi við fyrirspurn mína á sínum tíma um þessi mál, að svo miklu leyti sem þær uppfylla þá ósk, sem ég þá bar fram. Ummæli hans sanna fullkomlega, svo langt sem þau ná, að ég hafði rétt fyrir mér um það, að innflytjendur hefðu fengið tilkynningar um, hverjir hafi fengið leyfi, áður en viðkomendur sjálfir hefðu fengið það. Og þegar hv. form. komst að þeirri niðurstöðu, eins og hann lýsti hér áðan, þá hefði ekki verið óeðlilegt, að hann hefði rannsakað þetta mál öllu nánar til þess að vita um það, hvort það hefði ekki einnig verið rétt, að stærsti innflytjandinn hefði fengið fyrstur manna vitneskju um slíka úthlutun. Ég skal svo ekki ræða meira þetta atriði.

Ég vildi þá leyfa mér að benda hv. þingmönnum á, að mér sýnist, að brtt. hv. meiri hl. allshn. á þskj. 525 sé algerlega þýðingarlaus og sé raunverulega tæplega hægt að samþ. hana. Samkvæmt lögum nr. 33 frá 8. marz 1951 er ákveðið, hverjir eiga að úthluta þeim bifreiðum, sem fluttar verða inn í landið vegna bændanna, og þingsályktun getur engu breytt um þá ákvörðun. Til þess þarf lagabreytingu, og er því sýnilegt, að það er ekki hægt að úthluta þeim bifreiðum, sem um ræðir í brtt., aðeins til þeirra bænda, sem hafa ekki fengið jeppa í 7 ár. Það brýtur algerlega í bága við fyrirmæli laganna, og mig furðar raunverulega á því, að jafnskýrir menn og hér hafa unnið að þessu máli og borið hafa fram þessa brtt. skuli hafa gengið frá þessu þannig í meginatriðum. — Mér þykir aðeins rétt að benda á þetta, úr því að málið er hér til umr. Ég mun því ekki treysta mér til að greiða atkv. með þeirri till., því að ég tel, að hún gangi beint í bága við fyrirmæli laganna.