10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (2813)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Hv. þm. Barð. fannst, að nefndin hefði átt að rannsaka nánar, hvernig það væri, hvort innflytjendur bifreiða fengju upplýsingar um leyfi og hvort það væri þá ekki stærsti innflytjandinn, sem fengi þessar upplýsingar fyrstur. Eins og ég sagði áðan, rannsakaði nefndin þetta ekki ýtarlega og fór enginn nefndarmaður sérstaklega fram á það. Ég hafði þá þegar þessa vitneskju, sem ég hef gefið. En ég get upplýst hv. þm. Barð. um það, að fyrsta bréfið, sem kom til mín, var frá firmanu Sveinn Egilsson. Ég veit ekki, hvort það er stærsti innflytjandinn, en þaðan kom fyrsta bréfið til mín, og hjá því firma gerði ég pöntun á þeirri bifreið, sem ég á nú von á að sé á leiðinni til landsins með skipi. En ég vil taka það fram, að ég get ekki vel séð, að þó að innflytjendur bifreiða fái þessa vitneskju, ef það gengur jafnt yfir alla, þá sé nokkuð rangt í því. Að veita innflutningsleyfi er opinber ráðstöfun, og ég sé ekki, að það þurfi endilega að vera nokkur leynd yfir því, enda virðist það ekki hafa verið, a.m.k. ekki að því er mig snerti, því að ég fékk ein 4 bréf, þar sem voru verðlistar og tilboð.

Að ákvæði till. brjóti í bága við lög, get ég ekki séð. Hún er aðeins áskorun til ríkisstj. um það, hvernig framkvæma beri lögin. Ég hef þau að vísu ekki fyrir framan mig, en það mun vera heimild í lögunum, en ekki fastákveðið um það, að þessi eða þessi skuli fá jeppa eða leyfi fyrir jeppa.