10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (2814)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þá er til umr. hér till. til þál. um frjálsan innflutning bifreiða og fjöldi af brtt. ásamt nál. í sambandi við till. Mætti sennilega tala langt mál í sambandi við till., ef ástæða þætti til, en það hefur nú nokkuð verið rætt um þessi bifreiðamál og einnig skrifað, og ef til vill er því óþarfi að halda hér langa ræðu. En úr því að tækifæri gefst til, þá held ég, að ég geti ekki á mér setið að segja hér nokkur orð um till. og brtt. ásamt nál. á þskj. 486.

Það var snemma á þessu þingi, sem hér var flutt till. til þál. af þremur hv. sjálfstæðismönnum um það að fela ríkisstj. að veita frjálsan innflutning bifreiða. Allshn. sameinaðs þings skilaði nál. og gerði svo hljóðandi brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að veita frjálsan innflutning þeirra bifreiða, sem innflutningsgjald er lagt á samkv. l. nr. 114 1954, um aðstoð við togaraútgerðina.“

Hv. allshn. hefur sennilega afgreitt till. í þessu formi eftir að hafa móttekið bréf Landsbankans, sem mælti gegn samþykkt till. eins og hún var. En að gefa frjálsan innflutning þeirra bifreiða, sem eru skattlagðar með 100–135%, virðist ekki vera hættulegt, þar sem það hlýtur alltaf að verða mjög takmörkuð eftirspurn á bifreiðunum með því verðlagi, sem á þeim er, og það virðist ástæða til þess að ætla, að eftirspurnin verði aldrei meiri en þörfin fyrir innflutning á þessum tækjum til þess að fá það fjármagn í togarasjóðinn, sem ætlazt er til samkvæmt þeim lögum, sem ég áðan vitnaði í.

Ég hef orðið var við gagnrýni hjá einstökum mönnum og jafnvel flokkum, yfir því, að mikið sé flutt inn af bílum, fólksbílum og sendiferðabílum, og það jafnvel frá mönnum úr þeim flokkum, sem stóðu að því að afla togaraútgerðinni fjár á þennan hátt. Hv. alþm. muna það, að á s.l. ári starfaði þingkjörin nefnd til þess að athuga hag togaraútgerðarinnar. Eftir að þessi nefnd hafði setið lengi á rökstólum og aflað sér nauðsynlegra gagna um hag togaraútgerðarinnar, var hún sammála um það, að hvern togara vantaði 800 þús. kr. til 1 millj. kr. á ári, til þess að hægt væri að halda honum úti. Enginn benti á aðra tekjuöflun fyrir togarasjóðinn en þessa. Og þeir, sem stóðu að því að gefa út nál., sem viðurkenndi þörf togaraflotans, en komu hins vegar ekki með neina till. um fjáröflun aðra en bifreiðaskattinn, eða þótt þeir hafi þagað og setið hjá í sambandi við bifreiðaskattinn, þá hafa þessir sömu menn enga aðstöðu til þess að gagnrýna það, þótt bifreiðarnar séu fluttar inn í þessu skyni. Ég minnist þess einnig, að á þessu þingi voru samþykkt lög um aðstoð við togaraútgerðina, sem ganga í þá átt að fá fé í togarasjóðinn með því að flytja inn skattlagðar bifreiðar. Það ætti þess vegna ekki að vera ágreiningsmál með innflutning skattlögðu bílanna, og hvort sem þeir verða gefnir alfrjálsir að kalla eða sama sem frjálsir með því að gefa út gjaldeyris- og innflutningsleyfi nokkurn veginn eftir því, sem beðið er um þá skiptir það út af fyrir sig ekki höfuðmáli. Á s.l. ári voru fluttar inn nokkur hundruð bifreiðar, skattlagðar í þessu skyni, og á þessu ári verður það væntanlega einnig gert nokkurn veginn eftir því, sem eftirspurnin verður, að ég ætla, því að það fer ekki hjá því, að það verði takmarkað magn, sem menn geta keypt af þessum bifreiðum, og þörfin er ekki heldur ótakmörkuð. Þótt það hafi verið takmarkað, sem flutt hefur verið inn s.l. ár af fólksbifreiðum og sendiferðabílum og bílakostur landsmanna farinn að ganga úr sér, þá var þó alltaf nokkuð flutt inn af þessum bifreiðum á síðastliðnum árum og tiltölulega miklu meira en af jeppabifreiðum eða vörubifreiðum, sem innflutningurinn lá algerlega niðri á undanfarin ár, eins og ég get sýnt fram á. Ég er þess vegna alveg samþykkur till. allshn. á þskj. 486 um að gefa hinar skattlögðu bifreiðar frjálsar og tel, að það mundi ekki á neinn hátt eyðast meiri gjaldeyrir, þótt það væri gert, heldur en þó að leyfaforminu væri haldið áfram.

Um till. á þskj. 139 frá hv. þm. V-Húnv. þarf ekki margt að segja. Hv. allshn. mælir gegn þessari till. og Landsbanki Íslands einnig, og er ekkert undarlegt við það, þótt Landsbankinn telji ekki ástæðu til að láta bifreiðainnflutning, þótt hann væri talinn frjáls, hafa forgang eða vera rétthærri en aðrar innfluttar vörur, sem eru á frílista. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um þessa till. þess vegna.

Þá er hér till. á þskj. 525 frá meiri hl. allshn. Það er viðbótartill. við það, sem áður kom fram, sbr. brtt. á þskj. 486. Virðist mér eftir þeirri till. meiri hl. allshn., að hún hafi eitthvað verið farin að sljóvgast eða gleyma bréfi Landsbankans, því að áður hafði þessi sama n. viljað taka nokkurt tillit til þess, sem Landsbankinn hafði að segja í gjaldeyrismálunum. En eftir að þetta bréf Landsbankans var farið að fyrnast, leggur meiri hl. allshn. til, að jeppabifreiðar og vörubifreiðar verði einnig gefnar frjálsar. Ég fyrir mitt leyti hef nú afar mikinn áhuga fyrir því, að þetta sé gert, og mundi vilja stuðla að því, ef þess væri nokkur kostur af gjaldeyrisástæðum. En hv. allshn. og þeir menn, sem hana skipa núna, hafa átt sæti á hv. Alþ. mörg undanfarin ár. Og þeir hafa ekki fyrr en nú talið sér fært að bera fram till., sem gengur í sömu átt og þessi till. Það er sennilega vegna þess, að gjaldeyrisástandið undanfarin ár hefur verið svo miklu verra en það er núna. Og það er vissulega ánægjuefni, ef gjaldeyrisástandið er svona miklu betra núna en það hefur verið undanfarin ár, því að þeir, sem kalla hæst núna á mikinn innflutning vörubifreiða og jeppabifreiða, gleymdu því alveg eða treystu sér ekki til að gera kröfur um neitt slíkt á undanförnum árum. Mörg undanfarin ár hafa hvorki jeppar né vörubifreiðar verið flutt inn. En þörfin hlýtur að hafa verið eitthvað svipuð á þeim árum og í dag, a. m. k. fyrir vörubifreiðar, því að eins og kunnugt er var á s.l. ári flutt inn mikið magn af vörubifreiðum, hátt á fjórða hundrað. Ég er þess vegna sannfærður um, að í dag vantar þjóðina ekki vörubifreiðar, til þess að unnt sé að veita þá þjónustu, sem þarf í landinu. Hitt er svo rétt, að ýmsa einstaklinga og fyrirtæki vantar vörubifreiðar eða hafa áhuga á að kaupa þær. Vörubifreiðar eru dýrar og útheimta mikinn gjaldeyri, því að nú er svo komið, að enginn vill helzt kaupa nema stórar vörubifreiðar með dieselvélum. Og gjaldeyrir, sem þarf fyrir þessar bifreiðar, hverja um sig, er þess vegna frá 60 og upp í 120 þús. kr., þannig að það má gera ráð fyrir, að 100 vörubifreiðar kosti í frjálsum gjaldeyri 7–10 millj. kr.

Á s. l. ári var eytt tugum milljóna í gjaldeyri fyrir bifreiðar, enda var þörf á því til þess að vinna upp það tap, sem hefur orðið á þessum nauðsynlegu flutningatækjum á undanförnum árum. Ég býst nú við því, þótt við höfum áhuga á því að flytja sem mest inn af vörubifreiðum og jeppum, að við verðum á þessum tímum eins og undanfarið að játa staðreyndirnar og viðurkenna það hreinskilnislega, að gjaldeyririnn er ekki takmarkalaus núna fremur en hann hefur verið undanfarin ár og að sjálfsagt er að sníða sér stakk eftir vexti hvað þetta snertir nú eins og reynt hefur verið að gera áður.

Ég vil þó segja það, að hvað sem verður um þessar till., hvort sem þær verða samþykktar, felldar eða vísað til ríkisstj., að þá mun ég gera það að till. minni, að innflutningur á jeppum verði mun ríflegri en hann hefur verið undanfarið. Ég mun ekki heldur standa gegn því, að eitthvað verði flutt inn af vörubifreiðum á þessu ári, enda þótt það sé ekki brýn nauðsyn til þess vegna þess, hversu vel var úr því bætt á s.l. ári. En það mun samt verða flutt eitthvað inn af vörubifreiðum á þessu ári, þótt engin till. verði samþ. hér í þinginu, til þess að koma á móts við þá, sem telja sig hafa mesta þörfina.

Það er fróðlegt fyrir hv. alþm. að gera sér grein fyrir því, hvernig háttað hefur verið innflutningi bifreiða undanfarin ár. Og ég hefði alls ekki trúað því, að þetta hefði verið á þann veg, sem það reynist, ef ég hefði það ekki svart á hvítu frá skrifstofu vegamálastjóra um skrásetningu bifreiða. Það var á árunum 1945 og 1946, sem sjálfstæðismenn byrjuðu á því að flytja inn jeppabifreiðar, eins og flestir muna. Og þá var flutt inn mikið af jeppabifreiðum þessi tvö ár. Svo fellur þetta alveg niður. Það er alveg hætt að flytja inn jeppa. Ef það hefði verið flutt inn á hverju ári, þó ekki hefði verið nema 100–200 stykki, s.l. 10 ár, þá hefði ekki verið meiri eftirspurn eftir jeppum nú en hægt væri að fullnægja. Það var á árunum 1945–47, sem voru fluttir inn samtals um 1400 jeppar. En núna eru eitthvað hátt á annað þúsund jeppar skráðir í landinu. Á árinu 1948 komu aðeins 17 nýjar jeppabifreiðar á skrá, 1949 aðeins 7 stykki, 1950 aðeins 15 stykki, 1951 aðeins 8 stykki og 1952 aðeins 8 stykki, 1953 um 100 stykki, og 1954 komu á skrá um 200 stykki, en það eru jeppabifreiðar, sem voru leyfðar seinni hluta árs 1953 og á árinu 1954. Þær bifreiðar, sem var gefið út leyfi fyrir á árinu 1952 og komu á skrá 1953 og gefið var leyfi fyrir á árinu 1953 og komu á skrá 1954, voru fluttar inn frá Ísrael og voru þess vegna með bátagjaldeyrisálagi og um 10 þús. kr. dýrari en ef þær hefðu verið keyptar frá Bretlandi eða Bandaríkjunum.

Ég verð að segja, að það er ekkert til sæmdar fyrir okkur, sveitaþingmennina, hvað við höfum verið hógværir á undanförnum árum í sambandi við jeppainnflutninginn. Við hefðum gjarnan mátt fylgjast betur með þessu og gera hærri kröfur í þessu að undanförnu. En þar sem það hafa verið einhverjar ástæður fyrir því, að við vorum svona hógværir, sennilega þær, að gjaldeyrisástandið hefur ekki verið reglulega gott, þá held ég, að við ættum að vera nokkurn veginn sammála um það núna, að það verði erfitt að fullnægja eftirspurninni eftir það, sem á undan er gengið, á einu ári. Við skulum bæta úr vanrækslu undanfarinna ára. Við skulum reyna að vera sammála um það að bæta úr því og veita nú dálítið ríflegri innflutning á jeppum en áður hefur verið og gera það, sem í okkar valdi stendur, til þess að bændurnir geti fengið þessi ágætu og nauðsynlegu tæki, og stefna að því að gera innflutning á þessum ágætu tækjum frjálsan, eins og t. d. núna er á dráttarvélunum. Nú fá allir bændur dráttarvélar eins og eftirspurnin er, og það er vel, því að dráttarvélin er ekki síður nauðsynleg en jeppinn. Og ég segi nú: Ef bændur vilja eiga hvort tveggja, dráttarvél og jeppa, þá á dráttarvélin að koma fyrst. Hún er nauðsynlegri fyrir þá, sem stunda búskap, heldur en jeppinn, þó að hann sé einnig nauðsynlegur.

Ég veit, að við getum allir verið sammála um að bæta úr vanrækslu undanfarinna ára, og samvizkan slær okkur áreiðanlega nokkuð, þegar við sjáum þessar tölur, og við undrumst, hvað við höfum verið hógværir þá. En við verðum að gjalda þess nokkuð og sætta okkur við, að það tekur 2–3 ár að bæta fyrir þessar syndir. Ef við veitum nokkuð ríflegan innflutning á jeppum í ár og næsta ár, þá er ég viss um, að sárustu eftirspurn eftir jeppunum verður fullnægt og kannske alveg að fullu eftir 3 ár.

Hvað vörubifreiðarnar snertir er nokkuð svipað að segja, nema þó nokkru verra, og er það alveg óskiljanlegt einnig. Þegar athugaður er innflutningur vörubifreiða undanfarin ár, kemur í ljós, að innflutningur á þessum tækjum hefur ekki aðeins legið niðri, heldur hefur þeim fækkað mjög mikið sum árin. Það hefur ekkert komið í staðinn fyrir þær gömlu bifreiðar, sem hafa ekki fengið skráningu og verið kastað á öskuhaugana. Þannig er það á árinu 1949. Þá fækkar vörubifreiðum um 14 stykki á bifreiðaskránni. 1950 fækkar þeim um 56, og árið 1951 fækkar þeim hvorki meira né minna en um 175. Það er ekkert flutt inn í staðinn fyrir þá rýrnun, sem á þessum tækjum hlýtur að verða. Og árið 1952 fækkar þeim um eina, en á árinu 1953 er farið að flytja inn bifreiðar og þá fjölgar þeim á skránni um 155. Haustið 1953 er veitt leyfi fyrir nokkru magni af vörubifreiðum, og þær koma inn nokkru fyrir áramótin, og um sumarið 1953 hafði verið veitt leyfi fyrir um 50–100 bifreiðum. En árið 1954 bætast á skrá 315, en það er ekki meira vegna þess, að það er ekki allt komið inn fyrir áramótin, sem leyfi hafði verið gefið út fyrir. Það má segja, að á árinu 1954 hafi verið bætt fyrir syndir liðinna ára að verulegu leyti með því að flytja svo mikið magn inn af vörubifreiðum sem þá var gert. Og það var mikill gjaldeyrir látinn fyrir þessar bifreiðar þá.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt að flytja árlega ákveðið magn inn af flestum bílategundum til þess að halda stofninum við og til þess að koma í veg fyrir, að verið sé að gera út allt of gamlar og úreltar bifreiðar, sem krefjast óeðlilega mikils innflutnings á varahlutum. Og það er vitanlega sóun á gjaldeyri að vera með þessi gömlu ræksni í rekstri, sem alltaf þarf að vera að gera við, endurnýja að miklu leyti með varahlutum, sem eru tiltölulega margfalt dýrari en þegar bifreiðin er keypt í heilu lagi, og eyða mun meira benzíni en sæmilegar bifreiðar, brenna smurningsolíu o. s. frv. Það er ekkert vit í því frá fjárhagslegu sjónarmiði og gjaldeyrislegu sjónarmiði að viðhalda gömlu bifreiðunum. Og það á þess vegna að vera ákveðin stefna að flytja inn nægilegt magn á hverju ári til viðhalds og eðlilegrar aukningar. Það munu vera núna í landinu um 12 þúsund bifreiðar, og til þess að halda þessum bifreiðum við, til þess að ekki séu í rekstri óeðlilega gamlar og slitnar bifreiðar, þarf að flytja árlega inn á annað þúsund bifreiðar. En sé þetta föst stefna og alltaf flutt árlega inn nægilegt magn, þá verður þetta ekki svo tilfinnanlegt eða stór liður í innflutningnum eins og það var á s. l. ári og eins og það væntanlega verður á þessu ári, af því að verið er að bæta fyrir vanrækslu liðinna ára.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér, um leið og ég bendi á, að hv. þm. hafa verið ólíkt hógværari í kröfum sínum um innflutning bifreiða á undanförnum árum en núna. Það er ágætt, það sem er í framför, og ég tel það framför, að hv. þm. hafa gert sér fulla grein fyrir því, að við þurfum, að við eigum að flytja inn hæfilegt magn af bifreiðum. Ég tel það alveg sjálfsagt.

Hér er till. á þskj. 172, sem er flutt af hv. 8. landsk. (BergS) og hv. 1. landsk. (GÞG), og þar blanda þeir saman alveg óskyldu efni, eins og hv. frsm. gat hér um áðan, þ. e., að þeir vilja, um leið og till. um bifreiðainnflutning væri samþ., samþ. frjálsan innflutning á byggingarefni og hvers konar öðrum nauðsynjum til íbúðabygginga, öllum hráefnum til iðnaðar, pappír, hjólbörðum, mótorvélum, beltadráttarvélum, rafvélum, saumavélum, hjúkrunarvörum og lækningatækjum. Það er hv. 1. landsk. þm., sem er annar flm. þessarar till. Ég minnist þess, að hann hafi á þessu þingi staðið hér í þessum stól, sem ég nú stend í, og talað um verzlunarhalla og slæmt ástand í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. En það hefur áreiðanlega verið áður en þessi till. var flutt, og maðurinn hefur skipt um skoðun, því að þessi till. getur ekki verið flutt af manni, sem þykir verzlunarhallinn of mikill og gjaldeyrisástandið slæmt. En þess ber nú að geta í sambandi við þessa till., að þótt innflutningur byggingarefnis hafi ekki verið á frílista fram að þessu, þá hefur síðustu missirin alltaf verið nóg til af byggingarefni þrátt fyrir hina miklu eftirspurn og miklu framkvæmdir í landinu. Þá ætti þetta ekki að aukast, þó að það væri gefið frjálst, segir hv. flm. Þetta má nú kannske til sanns vegar færa, eins og þetta er í dag, en hv. flm., sem er hagfræðingur og talar hér stundum eins og hann þekki dálítið inn á viðskiptamál, veit þó það, að byggingarefnið, að sementið og timbrið getur ekki í dag verið það, sem kallað er frjálst, vegna þess að við flytjum sementið frá Rússlandi samkvæmt milliríkjasamningum. Það eru clearing-viðskipti. Við flytjum timbrið frá Finnlandi, einnig samkv. clearing-samningum, og þetta er bundið við viss lönd vegna okkar milliríkjasamninga. Það er þess vegna alleinkennilegt, að hv. þm., sem hefur sagt hér sjálfur og látið í það skína, að hann hefði allra manna bezt vit á viðskiptamálum, skuli leyfa sér að koma með svona till. Ég á eftir að fá skýringu á því og get í sjálfu sér ekki sætt mig við annað. Hvað veit svo þessi hv. þm. eða þessir hv. flm. um það, hvað um er að ræða, þegar þeir eru að tala um frjálsan innflutning á hjólbörðum, mótorvélum, beltisdráttarvélum, rafvélum og öðru slíku? Hvað er að segja um hjólbarðana? Erum við ekki að reyna að kaupa hjólbarða frá Ísrael til þess að taka vörur út á fisk, sem við seljum þangað af nauðsyn? Hver mundi kaupa hjólbarða frá Ísrael, ef það væri frjálst að kaupa þá í Bandaríkjunum eða annars staðar, þar sem þeir væru kannske ódýrari og betri? Nei, ég held það sé betra fyrir prófessorinn að reyna að kynna sér þessi mál, áður en hann fer að skrifa á svona till., sem gengur alveg út fyrir efnið og á enga stoð í veruleikanum,

Ég held, að það sé nú ekki ástæða til þess að vera að ræða þetta mál öllu meira í dag. Það, sem ég vil segja, áður en ég fer hér úr ræðustólnum, er þetta, að ríkisstj. hefur rætt um innflutning bifreiða á þessu ári og hefur komið sér, að ég má segja, saman um, hversu mikið magn það skuli vera. Og það er þess vegna ekki nauðsynlegt að samþykkja þessa till. Ég get líka sagt hv. þingmönnum, sem mestan áhuga hafa á að bæta fyrir syndir liðinna ára og vanrækslu í innflutningi bifreiða, að ríkisstj. er sammála um að bæta fyrir þessar syndir með því að heimila innflutning á jeppum og vörubifreiðum eftir því, sem gjaldeyrisástandið leyfir. Og ég ætla þá að segja það: Það er ekki nauðsynlegt, að þessi till. verði samþ., til þess að menn fái vilja sinn nokkurn veginn fram. Ég vil þess vegna segja og gera það að till. minni, að öllum þessum till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Og ef það verður gert, þá sýnir það sig, að ríkisstj. hefur þó nokkurt traust í þinginu.