15.12.1954
Efri deild: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það yrðu að mestu leyti endurtekningar frá því, sem ég sagði í síðustu ræðu minni, ef ég færi að rekja lið fyrir lið það, sem hv. 10. landsk. (GÍG) sagði nú í seinni ræðu sinni. Ég get þess vegna í aðalefnum vísað til þess, sem ég er búinn að segja um þetta, vil þó aðeins árétta einstök atriði.

Ég heyrði ekki, eins og ég gat um áðan í fyrri ræðu minni, fyrri hluta af frumræðu hv. 10. landsk. þm., en ég sé, að hann hefur þar hleypt á sprett út af genginu.

Ég held, að það verði ekki til sálubótar fyrir neinn okkar að fara að draga víðtækar umr. um þær ráðstafanir, sem gerðar voru á öndverðu árinu 1950, inn í umr. um þetta mál. En ég get ekki stillt mig um að minna á það, að þegar gengisfellingin var gerð, þá var valið á milli hennar eða að leggja á nýja skatta, áreiðanlega 2–3 hundruð millj. kr., og ég get vel sagt það hér í hundraðasta skipti, að dómurinn yfir þeim möguleika felst beint og skýrast í því, að enginn þeirra manna, sem gagnrýnt hafa gengisfellinguna, hafði sig til þess að bera fram till. eða benda á gjaldstofna, sem gætu gefið ríkissjóði svo mikið sem 1/10 hluta af þeim nýjum tekjum, sem hefði þurft á að halda, ef enn hefði átt að halda áfram eftir þeim leiðum, sem farnar höfðu verið fram að gengislækkun. Menn geta sagt allt um bölvun gengislækkunar út af fyrir sig. Það er auðvitað ævinlega neyðarúrræði. Um það geta menn, eins og ég segi, sagt allt annað en það, að það hafi verið auðið að komast hjá þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar. Og ég vil ekki, að það standi ómótmælt, sem hv. 10. landsk. þm. sagði hér, að skömmu seinna hefði þurft að hjálpa bátaútveginum að nýju með bátagjaldeyri og nú togurunum vegna gengislækkunar. Kjarni málsins er sá, að þrátt fyrir gengislækkunina höfum við vegna alls annars en hennar neyðzt til að gera viðtækari ráðstafanir, og þá m.a. vegna þess, að verðiag á erlendum markaði var okkur óhagstætt, verzlunarárferði var Íslendingum mjög óhagstætt um visst árabil eftir gengisfellinguna og ýmislegt fleira, sem þar hefur komið til, og þar á meðal aukinn innlendur kostnaður. En sem sagt, ég vil stilla mig um að fara út í langar umræður um það.

Hv. þm. gat um það, raunar tvisvar í ræðu sinni, að það væri í sjálfu sér hörmuleg staðreynd, að ég treysti mér ekki til að fullyrða, að þessar till., sem ríkisstj. stendur að, mundu nægja til þess að tryggja áframhald togaraútvegsins á næsta ári. Ég get ekki úr þessu bætt, frekar en hann mundi geta svarað fsp. frá mér, ef ég spyrði hann um, hvort hann þyrði að ábyrgjast, að till. hans, þó að samþ. yrði, um hækkun daggjaldsins úr 2000 í 3000 kr. mundi geta tryggt þetta. Hvorugur okkar getur tryggt það. Ég bendi hv. þm. enn á það, að sá, sem þessa till. flutti í Nd., sagði, að vanta mundi 800 þús. á það, að jöfnuður fengist á þessa reikninga með 2000 kr. gjaldi, og vildi þá eiginlega ekki gera ráð fyrir því, að útgerðardagar yrðu fleiri en 280 eða 290 á ári. M.ö.o.: Hann telur, að það hefði þurft að hækka þessar 2000 kr., sem frv. mælir fyrir um, upp í ekki 3000, heldur nær 5000 kr., ef auðið ætti að vera að skapa jöfnuð. Þessi ágalli er á frv., að geta ekki tryggt þetta, en hann er líka í þessari till. hv. þm. Það er ekki hægt fyrir ríkisstj. að ganga til samninga við útgerðarmenn um þær greiðslur, sem þeir telja að þeir þurfi á að halda, nema ríkisstj. hefði um það fyrirmæli frá Alþ. og Alþ. treysti sér þá að afla þess fjár, sem til þess þyrfti.

Tillögur okkar eru miðaðar við getuna, — þá getu, sem við höfum komið auga á í bili, og svo að öðru leyti við þær till., sem fróðustu menn báru fram í þessum efnum, og þar á meðal þrír þm., sem allir eru mjög kunnugir útgerð.

Hv. þm. taldi það einnig nokkurn ljóð, að engin fyrirmæli væru í frv., sem tryggðu, að hliðarráðstafanir þær, sem n., sem um þetta mál fjallaði, hafði rætt í sinn hóp, næðu fram að ganga.

Ég tók það fram annaðhvort í fyrstu eða annarri ræðu minni, að nú væri búið að tryggja verulegan hluta af þeim till. með hækkuðu afurðaverði og lækkuðu olíuverði, sem ég var að gera grein fyrir. Ég hygg, að það mundi ekki muna nema svona 120–140 þús. á skip á ári, hvort hinar till. ná fram að ganga eða ekki. En ég bendi enn á, að till. n., sem miða við 950 þús. kr. uppbætur til togaranna, gera ráð fyrir, að í þeirri upphæð felist fyrningargjald, sem nemur 250 þús. kr. Það kom bert fram í ræðu hv. 10. landsk., að hann gerir ráð fyrir, að n. hafi ætlazt til, að þessi fríðindi yrðu tryggð með lagasetningu. Svo er eigi. Auk þess bendi ég á, að jafnvel þó að ekki tækist með samningum að tryggja annað eða meira en búið er að gera, þá orkar það þó ekki öðru en því, að fyrningargjaldið fæst ekki að fullu greitt úr ríkissjóði og raunar þá kannske ekki nema 40–50% af því, og við það álít ég að mætti vel una, ef ekki væru aðrir annmarkar á og ef ekki væri kvíðinn fyrir því, að töpin mundu reynast meiri en mþn. gerði ráð fyrir. — Hv. þm. vildi varlega trúa orðum útgerðarmanna, en því betur orðum n., og stjórnin hefur þá farið eftír hans sjónarmiði að byggja sínar till. á áliti nefndarinnar frekar en á fullyrðingum þeirra aðila, sem kjarabótanna eiga að njóta.

Ég sé, þegar ég les þessar till. frá hv. 10. landsk., að ég hef misskilið b-lið 2. till., þar sem hann mælir fyrir um, að vextir af afurðalánum togaraútvegsins skuli eigi vera hærri en 21/2%. Þá þarf ég ekki að orða mína hugsun svo varlega sem ég gerði í minni fyrri ræðu. Ég get ekki fyrir mitt leyti mælt með því, að togarar fái slík vaxtakjör, meðan bátaútvegurinn situr við allt önnur vaxtakjör, og þó að það sé rétt, að til séu lán með þessum kjörum, þá man ég ekki til, að rekstrarlán séu með svo lágum kjörum. Ég held, að það séu stofnlán, t.d. eins og lán stofulánadeildar sjávarútvegsins og svo lán til handa landbúnaðinum. Það stýrir ekki góðri lukku, ef innlánsvextir eiga að vera frá 5–7% í landinu, en útlánsvextir til sjálfstæðs atvinnurekstrar eiga að vera 21/2%. Ég fæ ekki séð, að það geti staðizt. (Gripið fram í.) Ja, það er þá því varhugaverðara fyrir þá, sem vilja hafa sparisjóðsvextina frá 5–7%, ef það á að ákveða með einni lítilli brtt., að útlánsvextir til handa sjávarútveginum og þá væntanlega öðrum atvinnurekstri í landinu séu 21/2%, þegar innlánsvextirnir eru upp í 7%. Við getum þá eins vel lokað bönkunum. Og það er að láta kærleikann hlaupa með sig í gönur fyrir okkur, sem erum umboðsmenn sjávarútvegsins, að ganga svona langt til framdráttar sjávarútveginum. En að öðru leyti út af leiðbeiningunni, sem ég fékk, vil ég minna á, að þessi góði ásetningur um að láta þetta ná til bátaútgerðarinnar hefur sennilega verið meira afleiðing af skörpum heila, sem var að leita að rökum, því að till. sínar kallar hann brtt. við frv. til laga um aðstoð við togaraútgerðina. Það er skýrt tekið fram af n., að flutningsgjöldin eigi að lækka eingöngu á hraðfrystum fiski og togararnir eigi að njóta allrar þeirrar lækkunar, en bátarnir ekki. Það liggur alveg skýrt fyrir.

Ég vil að öðru leyti um farmgjöldin segja hv. 10. landsk. það, að það er kannske ekki alveg eins vonlaust um, að einhverju megi ná fram með frjálsum samningum við skipafélögin, eins og hann óttast, þó að ég sé ekki mjög bjartsýnn á, að að þessu sinni komi það að miklu gagni. En ég get frætt hann um það, að ríkisstj. hefur áður haft afskipti af slíkum málum og komið í þeim efnum góðu til leiðar, bæði varðandi lækkun á fragt á skreiðinni, mig minnir tvisvar sinnum, á mjöli og að ég held líka á hraðfrystum fiski. — Ég efast ekki um, að ríkisstj. sem heild vildi gjarnan eiga þátt í, að hægt væri að fá þetta með frjálsum samningum, þó að ég sé ekki mjög trúaður á, að það megi takast núna. Ég vil þó ekki fortaka það.

Ég sagði áðan, að mér þætti hæpið að lögfesta fyrirmæli um lækkun á olíuverði og lækkun á farmgjöldum eingöngu út frá því sjónarmiði, að sá aðili, sem góðs ætti að njóta, þyrfti á því að halda. Þeir, sem slíkar till. flytja, þurfa að færa rök fyrir því, að sá, sem á að bera baggann, rísi undir honum. Og það eru auðvitað engin rök, að olíufélögin séu með stærstu gróðafélögum í veröldinni. Út frá þeim rökum má alveg eins segja: Við skulum skylda olíufélögin til að gefa olíuna. — Eða því er þá miðað við að lækka um 50 kr. á tonnið, en ekki 150? Það skal ekki vefengt, að grundvöllurinn undir þessum till. sé góðvilji í garð útgerðarinnar, en það raskar ekki því, að þeir, sem þær flytja, hafa ekki gert þá skyldu sína að ganga úr skugga um, hvort þær eru frambærilegar frá því sjónarmiði, að löggjafinn getur ekki sett slík fyrirmæli út í hött né heldur gengið svo langt í kvöðum, sem á slíka aðila séu lagðar, að til taprekstrar sé stofnað vegna fyrirmæla Alþingis.

Varðandi dýrtíðarsjóðsgjaldið vil ég enn minna á það, sem ég áðan sagði, og það er aðalatriðið, að þó að slík till. næði samþykki þingsins, þá ræður hún ekki úrslitum um möguleika til uppbóta. Auk þess er, eins og ég áður hef sagt, nokkur hætta á, að bæta þurfi eftir öðrum leiðum þessum sjóði, ef ekki rætist úr betur en á horfist, og það leggst þá náttúrlega beint eða óbeint á ríkissjóðinn að gera það.

Hv. þm. sagði svo, að hann þakkaði mér fyrir hlýjar undirtektir undir brtt. sína við 8. gr. um, að frjáls skyldi innflutningur á þeim bílum, sem skattur er lagður á. Ég þakka honum fyrir þakklætið og tel, að hann sýni mér hina mestu sanngirni í þessum efnum og jafnvel meiri en ég verðskuldi, því að ég lagði til, að till. hans yrði felld. Ég bendi á, að ef það er rétt, sem hann segir, — og ég vona, að það sé rétt, og það styðst einnig við ummæli hv. 1. þm. Eyf., — að slík till. eigi nú þingfylgi að fagna og muni að efni til ná fram að ganga á þessu þingi, þá þarf hann ekki að hafa neinar áhyggjur um, hvernig fer um þessa till. hans við atkvæðagreiðsluna nú. Sé það hins vegar rangt og misskilningur hjá okkur, að till. eigi þingfylgi að fagna, þá má ekki stofna þessu máli í neinn voða út af þeirri till. Ég held því, að það sé rétt, sem bæði hv. 1. þm. Eyf. og ég höfum hér bent á, að það er ekki ástæða til að blanda þessari till. eða þeirri skipan þeirra mála inn í þetta frv., vegna þess að menn geta látið í ljós álit sitt og ráðið stefnu í því máli á Alþ. í sambandi við aðra till., sem um þetta er flutt og virðist eiga fylgi að fagna í þeirri n., sem um hana fjallar.

Ég endurtek svo, án þess að fara að telja fram að nýju þau rök, sem ég hef áður fært fram, að ég hef engu við að bæta út af því, sem hv. 10. landsk, sagði í sinni seinni ræðu, og læt því þessi ummæli nægja.